Heiðdís hefur störf fyrir skátana

Heiðdís Snorradóttir hefur verið ráðin í fullt starf sem erindreki landsbyggðarinnar og verkefnastjóri viðburða.

Heiðdís mun vinna að því að efla skátastarf á landsbyggðinni og vinna að því að fjölga skátum í starfi. Að auki mun hún sinna stuðningi við viðburðahald og verður sérstök áhersla lögð á stuðning við Landsmót skáta 2026 sem verður haldið á Hömrum, Akureyri.

Við bjóðum Heiðdísi innilega velkomna til starfa.


Næstum eins og Ísland, en samt ekki

Fréttin birtist upphaflega á heimasíðu Hraunbúa.

Brekkulegan var haldin í Leirvik í Færeyjum í fyrsta sinn síðan 1983 dagana 31. júlí – 5. ágúst.

Leirvik er lítill bær á Eysturoy og þar búa rétt um eitt þúsund manns, á mótinu voru um fimm hundruð skátar svo það má ætla að mótið hafi sett svip á bæinn þessa daga sem það stóð.

Mótssvæðið var upp á Brekku eins og heimamenn nefna það, það er að segja fyrir ofan bæinn. Og vegna þess hve allt er bratt þarna eða í brekku þá bar mótið nafn með rentu. Mótsvæðið var í smá brekku og sæta þurfti lagi við að tjalda svo að vel færi um alla og það gekk glimrandi vel.

Á mótinu voru skátar frá norðurlöndunum, Skotlandi, Slóveníu, Kanada og fleiri löndum svo það má segja að mótið hafi verið alþjóðlegt þó það hafi ekki verið stórt.

Smæð mótsins gerði það að verkum að auðvelt var að kynnast skátum alls staðar að og andrúmsloftið var mjög vinalegt.

Mótið var skipulagt af skátum í Færeyjum og þau voru óþreytandi í að aðstoða okkur á alla lund.

Dagskráin var bæði ævintýraleg og skemmtileg þar sem hægt var að fara í ratleik um Leirvik, göngur um fjöllin í kring, á kanóa, veiða, síga og margt fleira.

Það voru tvö íslensk félög á svæðinu, Hraunbúar og Árbúar og voru félögin í góðu samstarfi í undirbúningi og mikill samgangur á meðan á mótinu stóð. Það er mikill fjársjóður að eiga góða vini í skátastarfinu og gott að geta unnið með öðrum félögum.

Veðráttan í Færeyjum er svipuð því sem við eigum að venjast á Íslandi nema líkur á rigningu og þoku voru í við meiri. Við vorum ágætlega heppin með veður, fengum mjög gott veður bæði þegar við vorum að setja upp tjaldbúð og taka hana niður, þess á milli var veðrið yfirleitt ágætt og þó það rigndi eitthvað og hvessti þá gerði það lítið til því Hraunbúar voru vel búnir svo að ekki væsti um þá.

Hraunbúar og Árbúar fóru saman af mótinu til Þórshafnar og dvöldu þar dagpart í góðu veðri áður en haldið var á gististað nálægt flugvellinum nóttina fyrir heimferð.

Náttúran í Færeyjum er engu lík, fjöllin, hafið og veðrið. Fólkið er dásamlegt og ævintýrin sem við tökum með heim eru ógleymanleg. Við lærðum skoska dansa, tókum þátt í lokaathöfninni, eignuðumst nýja vini og hlökkum til að heimsækja Færeyjar aftur.

Hægt er að sjá fleiri myndir og myndbönd frá ferðinni á instagram @skatafelagidhraunbuar í highlights Brekka 2025.


15 Árbúar mættu á Brekkuleguna í Færeyjum

Eftir mikinn undirbúning og marga skipulagsfundi fór galvaskur hópur Árbúa á Færeyska skátamótið Brekkuleguna en hún var síðast haldin árið 1983. Fararhópur Árbúa samanstóð af fimm fararstjórum og 10 þátttakendum drótt- og rekkaskáta á aldrinum 13-17 ára. Ferðin stóð yfir frá 25. júlí til 6. ágúst. Fulltrúar íslenskra skáta á mótinu voru auk Árbúa, hópur af hressum Hraunbúum.

Áður en farið var á mótið ákvað hópurinn að kynnast Færeyskri menningu og upplifa hvernig það er að vera skáti í Færeyjum. Hópurinn gisti því fyrstu tvær næturnar í skátaheimili Mikkjals á Ryggi í Miðvági en næstu fjórar á skátaheimili í Þórshöfn. í Miðvági kynntist hópurinn Færeyskum skátum, fóru í göngur og fengu að smakka Færeyskan mat eins og hval og lax. Í Þórshöfn upplifðu skátarnir Ólafsvöku, þjóðhátíðardag Færeyinga. Dagskrá Ólafsvöku var frá morgni til kvölds m.a. skrúðganga með færeyskum hestum, dansi, söng og árabátakeppni. Auk þess fóru nokkrir skátar og kíktu á setningu Lögþingsins, alþingi Færeyinga. Einnig var farið á Þjóðminjasafn Færeyja og lært um sögu og menningu eyjanna.

Þann 31. júlí var komið að hápunkti ferðarinnar þ.e. sjálft skátamótið, Brekkuleguna sem haldið var í Leirvík á Austurey. Brekkulegan stóð yfir til  5. ágúst og voru um 500 skátar á mótinu frá 10 mismunandi löndum og var þetta stærsta mót Færeysku skátahreyfingar í yfir 40 ár, eða frá því að Brekkulegan var haldin síðast 1983.  Árbúar tóku þátt í fjölbreyttri og skemmtilegri dagskrá og m.a.  fóru dróttskátarnir í krefjandi hike tvo daga í röð. Annað var gegnum gil þar sem vaða þurfti gegnum vatn sem náði upp á mitti, hitt var upp á fjall sem veitti fallegt útsýni yfir tjaldsvæðið. Auk gönguferða var boðið upp ýmsa dagskrá t.d. morðgátu, dorg á bryggjunni, valslöngusmíði og flekasmíði. Einnig var menningardagur þar sem íslensku skátarnir kynntu Landsmót 2026 og buðu upp á kjötsúpu og íslenskt nammi.

Þó ferðin væri búinn að vera einstaklega skemmtileg var að lokum komið að því að fara heim. Eftir mikla og erfiða kveðjustund, þar sem skipst var á minjagripum og tengiliða upplýsingum við nýja vini hvaðanæva úr heiminum var farið í rútu með Hraunbúum þann 6. ágúst út á völl og þar var gist síðustu nóttina áður en við flugum heim snemma morguns þann 7. ágúst.

Með skátakveðju,

Daníel Þröstur Pálsson


Skátarnir fagna fjölbreytileikanum

Grein eftir Kolbrúnu Ósk Pétursdóttir, skátaforingja í Garðbúum, sem birtist í tímariti Hinsegin daga.

Skátastarf hefur verið á Íslandi í yfir 100 ár og þó að við „séum öllum hnútum kunnug“ kunnum við líka að fylgja tímanum. Skátarnir eru í stöðugri þróun í takt við samfélagið og skapa tækifæri fyrir börn og ungmenni að læra í gegnum leik, verkefni, samveru og útivist. Við trúum því að besta leiðin til að vaxa sé að prófa eitthvað nýtt, vinna með öðrum og fá að vera nákvæmlega eins og maður er. Markmið skátahreyfingarinnar er að skilja heiminn eftir betri en við fundum hann – mikilvægt og stórt markmið sem þýðir að við hugsum um náttúruna og samfélagið auk þess sem við sköpum rými þar sem öll fá að vera þau sjálf. 

Ég byrjaði í skátunum 18 ára gömul, frekar seint miðað við flest, þá nýkomin heim úr skiptinámi. Heimkoman reyndist mér erfið: ég var smá týnd og vissi ekki alveg hvert ég stefndi. Þá kom vinkona mín og bauð mér að vera skátaforingi með sér í skátafélagi sem var að endurvekja skátastarfið hjá sér. Ég ákvað að slá til þótt ég vissi ekki alveg út í hvað ég var að fara.

Þar sá ég hversu dýrmæt gildi skátanna eru og hversu mikil áhrif starfið getur haft – bæði á börnin og okkur sem leiðum það. Það var þó ekki fyrr en á mínu fyrsta skátamóti sem ég upplifði þessa tilfinningu: Ég er skáti. Ég var hluti af fjölbreyttu og fallegu samfélagi þar sem öll fá að vera þau sjálf. Þar kviknaði löngunin hjá mér til að vaxa, prófa eitthvað nýtt og einfaldlega vera ég sjálf. Ég kom líka frekar seint út úr skápnum og eftir að ég gerði það tók það mig alveg smá tíma að þora að taka þátt í hinsegin samfélaginu. Mér fannst ég ekki nógu hinsegin til að vera með, vildi ekki taka pláss frá öðrum sem ég hélt að ættu meira heima þar. En þegar ég leyfði mér að stíga inn í hinsegin samfélagið small þetta fyrir alvöru. Ég fann að þessi tvö samfélög – skátahreyfingin og hinsegin samfélagið – eru ekkert svo ólík. Þau standa fyrir frelsi, fjölbreytileika og virðingu. Að við fáum að lifa okkar lífi – frjáls undan fordómum, mismunun og útilokun. Að við fáum að vera við sjálf og að það sé í lagi. 

Skátarnir í Gleðigöngunni

Skátarnir hafa tekið þátt í Gleðigöngunni af fullum krafti frá 2014. Við mætum í skátabúningunum okkar, með regnbogafána, syngjandi og hlæjandi og sendum samfélaginu skýr skilaboð: Fjölbreytileikanum er ekki bara sýnt umburðarlyndi – heldur virkilega fagnað!

Við viljum að öll tilheyri og sýna að skátasamfélagið stendur með réttlæti, mannréttindum og jafnræði. Hér þarf enginn að fela sig eða aðlaga sig til að passa inn! Það er ástæðan fyrir því að við göngum í Gleðigöngunni. Þetta er skemmtileg og falleg stund sem við eigum með vinum og fjölskyldu en það er líka gríðarlega mikilvægt. Þetta er tákn um það samfélag sem við viljum búa í, þar sem öll fá að vera með. Þetta er stórt verkefni og við ætlum að leggja okkar af mörkum um ókomna tíð.

Ég er þakklát fyrir að hafa fundið minn stað í skátunum. Og ég er þakklát fyrir að hafa fundið minn stað í hinsegin samfélaginu. Og í dag er ég stolt af því að fá að leggja mitt af mörkum til beggja þessara samfélaga – þar sem fjölbreytileikanum er fagnað af alvöru. Því að einmitt þannig skiljum við heiminn eftir betri en við fundum hann.

 

Lesa má tímaritið í heild sinni hér.


Úr Ragnaroki í Costa del Úlfljótsvatn

Ævintýri á Fálkaskátamóti

Síðastliðna helgi mættu 180 skátar af öllu landinu á Þingvelli á Fálkaskátamót þar sem framundan beið þeim stútfull dagskrá og fjör að víkingasið. Þátttakendurnir voru fljótt fluttir 800 ár aftur í tímann til að hjálpa Snorra Sturlusyni og fleiri höfðingjum að afstýra Ragnarökum sem voru yfirvofandi. Sú spá rættist heldur betur þegar þátttakendur vöknuðu morgunin eftir við fjúkandi tjöld, sem varð til þess að mótið var fært yfir á Úlfljótsvatn. Færsla mótsins gekk vonum framar, þar sem samtakamáttur skátahreyfingarinnar skein í gegn. Skátar mættu úr öllu áttum til að hjálpa til og stuttu seinna var risin ný tjaldbúð á Úlfljótsvatni. Skátarnir létu ekki flutningana slá sig út af laginu og nýttu sér þá frábæru dagskrámöguleika sem Úlfljótsvatn hefur upp á að bjóða; að klifra í klifurturninum, sigla á bátum, föndra, heimsækja Skátasafnið og fara á ótal kvöldvökur svo eittvað sé nefnt. Hápunkturinn var þó gleðigangan og diskóblótið, hinsegin partý mótsins. Skátarnir fagna jú alltaf fjölbreytileikanum, þó þeir skipuleggi óvart skátamót á hinsegindögum. Eftir að hafa séð samtakamátt, vinsemd og bræðralagið milli ættana á mótinu ákváðu höfðingjarnir að koma á friði, sem reyndist vera það sem þurfti til að koma í veg fyrir Ragnarök. Að lokum gátu skátarnir því snúið aftur til síns tíma. Því má segja að þrátt fyrir erfiðar aðstæður gekk mótið vonum framar, þökk sé mikilli samvinnu og ómetanlegri aðstoð foringja og sjálfboðaliða mótsins. Allir fálkaskátarnir komu heim með bros á vör, reynslunni ríkari.


Tuttugu Ægisbúar í ógleymanlegri ferð til Vässarö

Eftir tveggja ára undirbúning varð ferðin loksins að veruleika. Dróttskátasveitin Hvíta Fjöðrin í Ægisbúum hélt í ævintýralega ferð til Vässarö í Svíþjóð dagana 21. - 28. júlí 2025. Eyjan er í eigu skáta frá Stokkhólmi og tekur hún á móti tugi þúsunda skáta á hverju ári. Hópurinn samanstóð af 20 þátttakendum (16 dróttskátum, 2 foringjum og 2 foreldrum) sem lögðu öll upp í ferð sem mun seint gleymast.

Fyrstu nóttina var gist í skátaheimili Sancta Maria Scoutkår í Stokkhólmi, þar sem hópurinn fór saman út að borða á pizzastað og upplifði stemninguna í borginni. Áður en ferðalagið til eyjunnar sjálfrar hófst var kíkt í verslunarmiðstöð til að klára síðustu innkaup. Þá tók við fimm klukkustunda ferðalag með lestum og strætisvögnum að bryggjunni þar sem bátur beið okkar. Bátsferðin til Vässarö var um 30 mínútur í frábæru veðri með fallegu útsýni yfir sænsku eyjarnar í kring. Við komuna beið okkar traktor sem flutti allar töskurnar á tjaldsvæðið. Þar fengum við afhendan allan þann tjald- og eldunarbúnað sem að við þurftum. Efrir að tjöldin voru reist endaði fyrsta kvöldið á sjósundi og heimsókn í saununa við bryggjuna.

Þó svo að moskítóflugurnar væru heldur ágengar í ljósaskiptunum létu skátarnir það ekki á sig fá. Dagskráin á Vässarö var fjölbreytt og skemmtileg. Í boði voru siglingar á seglskútum, kajakferðir, padel board, klifur, göngur, leikir og endurnærandi ferðir í saunu og sjó. Skátarnir reistu eigin tjaldbúð og skiptust á að elda máltíðir fyrir hópinn. Tveir skátar tóku þá ákvörðun að sofa í hengirúmum alla vikuna, sem gekk ótrúlega vel og stór og glæsileg fánastöng var reist í miðju tjaldbúðarsvæðinu. Froskarnir á eyjunni létu ekki sitt eftir liggja og kíktu iðulega í heimsókn í tjöldin, sem vakti mikla kátínu.

Eftir sex dásamlega daga á Vässarö var komið að kveðjustund. Hópurinn hélt aftur heim á leið með stuttu stoppi á McDonalds á flugvellinum sem þótti skemmtilegur endapunktur á ferð sem einkenndist af gleði, samvinnu, náttúru og ævintýrum.

Ferðin til Vässarö var einstök upplifun fyrir Dróttskátana og er sannarlega eitthvað sem fleiri skátafélög ættu að íhuga.

Dagur Sverrisson, sveitarforingi Hvítu Fjaðrarinnar


Skátar fagna fjölbreytileikanum

Skátastarf snýst um miklu meira en að binda hnúta og ganga á fjöll. Skátastarf snýst um að finna sitt fólk, læra að treysta sjálfu sér og öðrum og finna öryggið til að vera nákvæmlega þú sjálft. Fyrir hinsegin ungmenni getur það skipt sköpum að tilheyra hópi þar sem fjölbreytni er ekki bara liðin heldur fagnað. Þátttaka skátanna í Gleðigöngunni er löngu orðinn fastur liður í dagskrá sumarsins en Hjálpasveit skáta í Reykjavík hefur tekið þátt í göngunni með skátunum frá upphafi. Með þátttökunni sýnum við ungu skátunum okkar í verki að skátahreyfingin sé staður þar sem þau geta verið þau sjálf, að við stöndum með mannréttindum og fögnum fjölbreytileikanum.

En skátar tóku ekki aðeins þátt í Gleðigöngunni í Reykjavík á laugardaginn var heldur var fjölbreytileikanum einnig fagnað á Fálkaskátamóti á Úlfljótsvatni um helgina. Hátt í 180 fálkaskátar, foringjar og sjálfboðaliðar dönsuðu og gengu frá Friðarlautinni upp í KSÚ þar sem haldið var eftirminnanlegt diskóblót í ljósaskiptunum. Myndirnar tala fyrir sig.

Þá var Elín Esther Magnúsdóttir, rekstrarstjóri Útilífsmiðstöðvar skáta á Úlfljótsvatni ein af þremur viðmælendum í þættinum Hinsegin dagar, vikur, mánuðir, ár sem sýndur var sunnudaginn 10. ágúst í tilefni hinsegin daga. Viðtalið er einlægt, skemmtilegt og hvetjandi en Elín Esther er frábær fyrirmynd fyrir unga skáta. Horfa má á þáttinn hér en innslagið með Elínu hefst á 29. mínútu.


Skert þjónusta í júlí og ágúst

Nú er sumartíminn þar sem fólk skellir sér í frí runninn upp og verður því takmörkuð þjónusta hjá Skátamiðstöðinni frá 11. júlí - 15. ágúst.

Hægt er að senda tölvupóst á skatarnir@skatarnir.is eða hringja í síma 550-9800.

Skátabúðin verður með venjulegan opnunartíma nema annað sé tekið fram. Fylgist endilega með Skátabúðinni á facebook.


Útkall: Sjálfboðaliði (IST) á alheimsmóti 2027

LANGAR ÞIG AÐ KOMA MEÐ Á ALHEIMSMÓT SKÁTA Í PÓLLANDI SEM SJÁLFBOÐALIÐI (IST)?

Fararstjórarnir leita að sjálfboðaliðum (IST) til að slást í fararhópinn  á alheimsmóti skáta í Póllandi 2027.

 

Hvað felst í því að vera sjálfboðaliði Alheimsmóts ?

Skátar, 18 ára og eldri, geta farið sem IST (international service team) á Alheimsmót. IST liðar starfa sem hluti að teymi og gegna mikilvægu hlutverki við að hvetja og styðja þátttakendur á mótinu og veita þeim þjónustu. IST liðar fá þjálfun og fræðslu til þess að geta sinnt sínu hlutverki.

Þau sem vilja skrá sig sem IST liða á alheimsmót þurfa að vera tilbúin til þess að sinna öllum þeim verkum sem þarf að sinna fyrir mót af þessari stærð. Sum hlutverk geta krafist langs vinnudags eða vinnu á nóttunni og einnig geta sum fengið hlutverk að aðstoða íslenska fararhópinn sérstaklega á mótinu. Að auki verða IST liðar að vera skráðir meðlimir Bandalags íslenskra skáta og verða hluti af íslenska fararhópnum á mótið.

Sjálfboðaliðar gista á sér svæði innan mótssvæðisins og verður sér dagskrá einungis fyrir alþjóðlega sjálfboðaliðahópinn. Gera má ráð fyrir að lifa og starfa með nýjum alþjóðlegum vinum.

Ef það eru einhverjar spurningar um hlutverkið þá hvetjum við ykkur til að hafa samband við fararstjórana á netfangið jambo2027@skatarnir.is. 

Skilyrði fyrir sjálfboðaliða (IST)

  • Vera orðin 18 ára þegar mótið hefst, 30. júlí 2027.
  • Mæting á mótssvæðið fyrir sjálfboðaliðana er 27./28. júlí 2027 og brottför er 10. ágúst 2027.
  • Geta séð um sig sjálf við fjölbreyttar og krefjandi aðstæður.
  • Hafa getu til þess að vera þrjár vikur í tjaldútilegu við frumstæðar aðstæður og taka þátt í tjaldbúðalífi.

Mikilvæg reynsla fyrir sjálfboðaliða alheimsmóts

  • Reynsla af allskonar aðstæðum, t.d. ólíku hitastigi, svefnvenjum, matarvenjum o.fl.
  • Vera tilbúin til þess að vinna ólík störf og hafa opinn huga gagnvart því að prófa eitthvað nýtt.
  • Hæfni og jákvætt viðmót gagnvart samvinnu með fjölbreyttum, ólíkum og alþjóðlegum hópi fólks.
  • Kostur að hafa verið sjálfboðaliði á skátamóti eða í stjórn skátamóts, starfað í vinnuhópi BÍS, unnið í hóp við krefjandi verkefni eða viðburð.

Umsókn fyrir sjálfboðaliða

Vinsamlegast skrifaðu bara önnur tungumál ef þú myndir treysta þér að vera í samskiptum við erlenda skátahópa á því tungumáli
Vinsamlegast skrifaðu starfsheiti eða stutta lýsingu á hvað þú fæst við.
Segðu í stuttu máli frá þínum helstu störfum með ungmennum bæði innan og utan skátahreyfingarinnar
Ef já, þá lýsið þeirri menntun eða þjálfun hér
Segðu í stuttu máli frá reynslu þinni af ferðum með ungmennum
Segðu í stuttu máli frá því hvers vegna þú hefur áhuga á hlutverkinu. Hvernig reynsla þín nýtist farhóp Íslands á mótið og hvers vegna þú ættir að verða fyrir valinu.
Setjið inn einn skáta sem meðmælanda
Í hvaða skátafélagi er viðkomandi, hvaða hlutverki gegnir aðilinn og tengsl við umsækjanda

Útkall: Sveitarforingi á alheimsmót 2027

LANGAR ÞIG AÐ KOMA MEÐ Á ALHEIMSMÓT SKÁTA Í PÓLLANDI SEM SVEITARFORINGI ?

Fararstjórarnir leita að sjálfboðaliðum til að slást í fararhópinn sem sveitarforingjar á alheimsmóti skáta í Póllandi 2027.

 

Hvað felst í því að vera sveitarforingi Alheimsmóts ?

Sveitarforingjar bera ábyrgð á skátum sinnar sveitar meðan á ferð stendur, þau dvelja með þeim í tjaldbúð, fylgja þeim í dagskrá á mótinu sjálfu og reyna hvað þau geta til að tryggja þátttakendum góða upplifun af ferðinni. Fararstjórarnir eru leiðbeinendur sveitarforingjanna og búast má við miklum samskiptum þar á milli fyrir og á meðan á ferð stendur.

Ef það eru einhverjar spurningar um hlutverkið þá hvetjum við ykkur til að hafa samband við fararstjórana á netfangið jambo2027@skatarnir.is. 

Helstu verkefni og ábyrgð sveitarforingja

  • Fyrir mót þurfa sveitarforingjar að taka virkan þátt í undirbúningi, kynnast skátum sinnar sveitar, skuldbinda sig til að taka þátt í undirbúningsviðburðum fararhópsins og mæta á upplýsingafundi fyrir forráðafólk sinnar sveitar.
  • Á mótinu sjálfu dvelja sveitarforingjar í tjaldbúð með þátttakendum, þau skipuleggja tjaldbúð, halda reglulega upplýsingafundi með þátttakendum, tryggja að þátttakendur mæti í dagskrá og fylgja þeim í dagskrá, skipuleggja matseld með þátttakendum og fylgjast vel með líðan sinnar sveitar.
  • Á mótinu gætu sveitarforingjar þurft að mæta á fundi með fararstjórn eða með fulltrúum mótsstjórnar og skipta því með sér verkefnum eftir þörfum og leiðbeiningum frá viðkomandi aðilum.
  • Á ferðalögum með fararhópnum aðstoða sveitarforingjar fararstjórn og hafa líka umsjón með skátum sem eru ekki úr þeirra sveitum. Sveitarforingjar þurfa að vera tilbúin til að fylgja fararhópnum hvert skref frá Íslandi og heim aftur.
  • Sveitarforingjar eru ábyrgir fyrir velferð skáta í þeirra sveitum á meðan á móti stendur og að skátarnir fylgi reglum fararhópsins og mótsins meðan að á því stendur.

 

Skilyrði fyrir sveitarforingja

  • Hafa getu til þess að vera tvær vikur í tjaldútilegu við frumstæðar aðstæður og taka þátt í tjaldbúðalífi.
  • Reynsla af allskonar aðstæðum, t.d. ólíku hitastigi, svefnvenjum, matarvenjum o.fl.
  • Reynsla af sveitaforingjastörfum eða öðrum leiðtogastörfum (stjórn skátafélags, uppeldi, annað sjálfboðastarf).
  • 20 ára eða eldri árið 2026.

Mikilvæg reynsla fyrir sveitarforngja

  • Tekið þátt í forystustarfi, heilbrigðismálum, tjaldbúðamálum eða dagskrármálum fyrir hópa, viðburði eða í skátastarfi.
  • Reynsla af fararstjórn á mótum innanlands eða erlendis.
  • Færni í að hvetja og leiða ungt fólk á aldrinum 14 til 18 ára við ólíkar aðstæður.
  • Jákvætt lífsviðhorf og vilji til verka.
  • Góð kunnátta í ensku.

Umsókn sveitarforingja, umsóknarfrestur er til 1. september 2025

 


Privacy Preference Center