Skemmtilegt viðtal um skátastarf í hlaðvarpinu "Þú veist betur"


Hér getið þið hlustað á skemmtilegt viðtal sem Arnór Bjarki fór í á dögunum.
Í viðtalinu spjallar hann við Atla Má um skátastarf, söguna og hvað við erum að fást við í dag!
Mælum með því að hlusta.


Halldóra Aðalheiður ráðin sem Erindreki hjá BÍS

Halldóra Aðalheiður Ólafsdóttir hefur verið ráðin í fullt starf sem Erindreki BÍS.

Halldóra hefur góða reynslu af skátastarfi og hefur sinnt hinum ýmsu verkefnum fyrir hreyfinguna. Hún hefur verið foringi dreka- og fálkaskáta ásamt því að hafa verið aðstoðarforingi dróttskáta, skipulagt viðburði og klárað Gilwell svo einhvað sé nefnt. Halldóra ber með sér metnað, rólegt yfirbragð og góða samskiptahæfni. Hún mun taka við starfi erindreka og vinna að stefnu BIS við að styðja skátafélög landsins og vinna hin ýmsu verkefni sem falla til hjá Skátamiðstöðinni.

Við bjóðum Halldóru innilega velkomna til starfa.


Bjarki Rafn ráðinn til BÍS

Bjarki Rafn Andrésson hefur verið ráðinn til starfa hjá BÍS sem starfsmaður Landsmóts Skáta 2024.

Bjarki Rafn er dróttskátaforingi hjá Mosverjum og er á sinni Gilwell vegferð ásamt því að stunda nám við Háskóla Íslands í Tómstunda- og félagsmálafræði. Bjarki var í vettvangsnámi hjá BÍS í vetur og fékk þá innsýn inn í starfsemi Skátamiðstöðvarinnar. Hann hefur gaman að því að vinna með fólki, er skipulagður og ber með sér mikla jákvæðni og kraft. Bjarki mun taka við því mikilvæga verkefni að taka við samskiptum við erlenda skátahópa sem koma á Landsmót skáta 2024 ásamt því að sinna öðrum verkefnum við hlið mótsstýru Landmóts 2024.

Við bjóðum Bjarka innilega velkominn til starfa.


Skátar á skátamóti í vetrarhríð

Vetrarmót Reykjavíkurskáta var haldið í áttunda sinn  um helgina í útivistarparadísinni á Úlfljótsvatni. 140 skátar sóttu mótið að þessu sinni.

Markmið með mótinu var fyrst og fremst að kenna ungum skátum á að takast á við fjölbreyttar áskoranir að vetrarlagi og að efla samstarf milli skátafélaganna í Reykjavík. Þau verkefni sem skátarnir þurftu að takast á við um helgina voru sig og klifur í 8 metra háum turni, elda mat á prímus, búa til kyndil og að auki hefðbundin skátadagskrá eins og póstaleikir, gönguferðir kvöldvaka og risa næturleikur.

Tjöld sett upp í milli stórhríða

Eitt mest krefjandi verkefni Vetrarmótsins var að setja upp tjaldbúðir fyrir elstu skátanna. Um það bil 20 skátar gistu í tjöldum í tvær nætur. Veðrið var bæði mjög slæmt og en einnig komu kaflar þar sem var heiðskírt og logn. Skátarnir skemmtu sér konunglega þótt veðrið hafi barið hressilega á þeim en það verður eflaust það sem mun standa upp úr þegar litið er til baka að hafa tekist á við svona krefjandi aðstæður.

Rosaleg útivera og mikilvæg næring

Um helgina voru krakkarnir um það bil 15 tíma úti í snjónum í leik og starfi sem er vel rúmlega það sem börn eru vön nú til dags í og eiga skátarnir mikið hrós skilið að hafa tekist á verkefnin með bros á vör. Það skiptir miklu máli að vera vel nærður og við erum mjög heppinn að eiga góða að til þess að elda góðar og næringarríkar máltíðir á mótinu. Þá gefst tækifæri til þess að fylla á orkubirgðir og fá smá yl í kroppinn til þess að halda áfram útiverunni.


Eflum óformlegt nám - menntaráðstefna skáta í París

Bandalag íslenskra skáta sendi 5 fulltrúa á vel heppnaða menntaráðstefnu skáta í París á dögunum. Á ráðstefnunni var áherslan lögð á að styðja og efla menntunargildi skátastarfs um allan heim. Yfir 500 skátar mættu á ráðstefnuna ásamt fulltrúum fjölda stofnana og samtaka.

 

Fulltrúar okkar dreifðu sér á ýmsar málstofur þar sem fjölbreytt málefni voru til umræðu. Sem dæmi má nefna: 

  • Hvernig á að stýra sjálfboðaliðastarfi og fá fleiri að borðinu? 
  • Mikilvægi þess að fá pásu frá símanum
  • Hvaða leiðir getur skátastarf farið í átt að heimsfrið?
  • Hvernig stuðlum við að vitundarvakningu innan skátanna í umhverfis- og loftslagsmálum?
  • Hvert stefnum við sem alþjóðahreyfing? 

Að auki sóttu fulltrúarnir mjög áhugaverða fræðslu um rafræn skátamerki, en nú stendur yfir þróun á rafrænu alþjóðlegu kerfi þar sem skátar geta hlaðið upp og fengið fleiri merki fyrir hæfni sína og unnin verkefni. 

Vegvísir fyrir menntun í skátastarfi

Við lok ráðstefnunnar voru málefni hennar og umræður tekin saman og útbúinn vegvísir fyrir skátastarf. Vegvísirinn inniheldur 10 leiðir til að efla innihaldsríkara og aðgengilegra skátastarf. Vegvísinn má finna hér.

Sá lærdómur sem þátttakendur okkar taka með sér heim verður nýttur vel til þess að efla innra starfið. 


Þórhildur fer í annað verkefni

Þórhildur fer í annað verkefni,

Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir hefur síðastliðna mánuði sinnt verkefnastýringu á verkefni Inngildingar fyrir öll börn. Þórhildur fer nú að sinna öðrum verkefnum og eftir kraftmikið og gott samstarf í Skátamiðstöðinni.

Við óskum Þórhildi velfarnaðar í starfi og þökkum henni fyrir mikilvægt framlag til verkefnis Inngildingar í skátastarfi.


Privacy Preference Center