Þankadagspakki 2026 - okkar vinátta
Þankadagspakkinn 2026 er kominn út!
Þemað að þessu sinni er "okkar vinátta" og framhaldsþema frá árinu 2025.
Hér má lesa meira um þankadagspakkann og finna hlekk til að sækja verkefnin.

Klípusögur kveiktu í umræðunum
Rafrænt námskeið í samskiptum og siðareglum
Í gær, mánudaginn 1. desember, var haldið rafrænt námskeið í samskiptum og siðareglum. Fengum við góðan hóp til okkar sem kom víða að af landinu en það er einmitt markmið rafrænna námskeiða. Með þeim viljum við hjá Æskulýðsvettvanginum auka aðgengi þeirra sem búa úti á landi að námskeiðunum og var gaman að sjá hversu vel það tókst í gær.
Námskeiðið sjálft fjallaði um samskipti og siðareglur sem er mjög mikilvægur hluti í okkar starfi. Góð samskipti eru lykillinn að jákvæðum tengslum og mikilvægt er að hægt sé að ræða þau ágreiningsmál sem koma upp á friðsælan máta. Auk þess er mikilvægt að öll þekki til siðareglna Æskulýðsvettvangsins en þar eru fönguð í orð þau siðferðislegu gildi og viðmið um hátterni sem Æskulýðsvettvangurinn og þau félagasamtök sem saman mynda vettvanginn starfa eftir: vellíðan – velferð – öryggi.
Á námskeiðinu fengu þátttakendur klípusögur þar sem þau notuðu siðareglurnar til að leysa úr ágreiningsmálum sem geta komið upp innan hópa og mynduðust góðar og gagnlegar umræður í kjölfarið.
Við þökkum öllum fyrir komuna og hlökkum til að sjá sem flest á næsta námskeiði sem haldið verður 25. febrúar 2026. Aðgangur að námskeiðinu er ókeypis og hægt er að skrá sig hér: www.aev.is/skraning-a-namskeid/
Skátaskírteinið snýr aftur
Það gleður okkur að tilkynna að skátaskírteinið snýr aftur eftir nokkurra ára hlé. Að þessu sinni mun skírteinið verða rafrænt í símaveski með aðstoð Leikbreytis.
Öll sem eru skráð hjá sínu félagi í Abler fá tilkynningu á næstu dögum til að hlaða niður sínu skírteini. Forráðafólk skáta undir 18 ára aldri fá tilkynninguna til sín en hægt er að hlaða skírteininu niður í fleiri en eitt símtæki.
Skátadagatalið snýr aftur
Það er með mikilli gleði sem við endurvekjum skátadagatalið. Dagatalið er útprentað í stærð A2 svo það er þægilegt að bæta félagsviðburðum inn á. Nú þegar hafa nokkur félög fengið dagatal fyrir sitt skátaheimili og munum við koma þeim til allra félaga á næstu dögum. Hér má einnig nálgast dagatalið rafrænt og fylla inn í.
Gróðursettu tæplega 500 tré
Ungmennaráð BÍS hélt viðburðinn Tré og tjútt í og við húsnæði Land og skógar í Mógilsá, Esjuhlíðum helgina 5.-7. september síðastliðinn í samstarfi við Skógrætarfélag Reykjavíkur og loftslagssjóð Reykjavíkur. Þátttakendur voru 36 á aldrinum 13 - 18 ára bæði skátar frá fjölmörgum skátafélögum og önnur þar sem viðburðurinn var opinn öllum, vonandi vakti þetta áhuga einhverra um skátastarf.
Skátarnir komu sér fyrir og könnuðu svæðið á föstudeginum, í kvöldmat voru ljúffengar kjúklingavefjur sem þátttakendur elduðu sjálf. Öll þurftu að vakna snemma á laugardeginum, borða morgunmat og útbúa nesti því ferðinni var heitið upp á Esju. Skógræktarfélag Reykjavíkur kenndi þátttakendum réttu handtökin ásamt því að veita þeim fræðslu um þær mismunandi trjátegundir sem þau voru að gróðursetja og hvar best væri að gróðursetja þær svo þær séu vænlegastar til langlífs svona hátt uppi í Esjunni. Þær trjátegundir sem voru gróðursettu voru 175 Gráelri, 140 Stafafurur, 105 Kjarrelri og 40 Víði eða um 460 plöntur í heildina sem þátttakendur gróðursettu á mettíma.
Eftir hádegismat gátu þau sem vildu tekið gönguna upp að Steini sem var um helmingurinn af hópnum en rest fór aftur niður í tjaldbúðina. Í síðdegishressingu voru kleinur og kanilsnúðar og svo var haldið af stað í stöðva dagskrá. Í stöðvunum var meðal annars uppkvistun við stíg í skóginum þar sem farið var yfir hvernig eigi að snyrta trén til þess að hleypa meiri birtu inn í skóginn og svo voru afgangs viðardrumbar endurnýttir og fræðsluefni í kringum það.
Högni reiddi fram dýrindis hamborgara fyrir þátttakendur og svo var haldið skógarball og þar var tjúttað og dansað. Kvöldvaka var haldin við varðeldalautina sem skátarnir gerðu fyrr um daginn og sum skelltu sér í saunu. Þetta var svo sannarlega eftirminnilegt kvöld. Á sunnudeginum var tiltekt og allt rusl týnt upp. Viðburðinum var slitið með pylsum á grilli og merkja afhendingu.
Markmið viðburðarins var að gróðursetja tré og veita athygli á loftslagsmálum, efla náttúrutengsl ungmenna, kynna skátastarf, og læra um allskonar skemmtilegt sem hægt er að nýta afurðir trjáa í. Einnig var áhersla lögð á að sýna þeim frábært útivistarsvæði í útjaðri bæjarins. Þátttökugjald á viðburðinn var ekkert þar sem verkefnið hlaut styrk úr Loftlagssjóði ungs fólks í Reykjavík (Youth Climate Action Fund) sem er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Bloomberg Philanthropies.
Ungmennaráð BÍS þakkar öllum þeim sem komu fyrir frábæra helgi og vonast er til að geta haldið fleiri viðburði í þessum dúr.

Daði gengur til liðs við Úlfljótsvatn
Daði Már Gunnarsson hefur verið ráðinn í starf tengiliðs erlendra hópa og dagskrárstarfsmanns við Útilífsmiðstöð skáta Úlfljótsvatni. Daði mun sjá um að taka við bókunum erlendra hópa, hafa umsjón með búnaðarleigu og ferðum fyrir og eftir Landsmót skáta 2026, auk þess að vera hluti af dagskrárteymi Úlfljótsvatns og aðstoða við skólabúðir, sumarbúðir og fleira.
Daði er ekki ókunnugur Úlfljótsvatni, en fyrir utan að hafa sótt þangað námskeið og viðburði var hann dagskrárstarfsmaður í hlutastarfi síðasta vetur, og lék þá lykilhlutverk í rekstri skólabúðanna.
Daði hefur numið leiklist, bifreiðasmíði og tungumál og hefur verið virkur í skátastarfi síðan 2007. Hann hefur meðal annars verið sveitarforingi, félagsforingi, starfsmaður SSR, meðlimur í Leiðbeinendasveitinni og sveitarforingi á Jamboree í Kóreu. Daði hefur verið mjög virkur í alþjóðastarfi og situr í dag í Alþjóðaráði.
„Ég er ánægður að hljóta þann heiður að fá að vinna á svo fínum stað, með svo góðu fólki og umvafinn náttúru sem leikur við augað,” segir Daði. “Á öðrum nótum er ég annars spenntur að fá að sinna dagskrá og vinna öll þau verkefni sem beinast að mér.”
Við bjóðum Daða hjartanlega velkominn til starfa og óskum honum velfarnaðar í starfi.
Röppuðu skátaheitið í Lækjarbotnum
Foringjanámskeið fór fram helgina 12.-14. september í Lækjarbotnum. 25 foringjar tóku þátt í námskeiðinu og voru þau ýmist dreka-, fálka- eða dróttskátaforingjar. Þátttakendur á námskeiðinu störfuðu í fjórum flokkum sem hétu Dróttningar, Eldri drekar, Cola og Meistarar.
Á laugardagsmorgninum æfðu þátttakendurnir sig að gera starfsáætlanir fyrir veturinn og eftir hádegi var haldin símamasturskeppni þar sem flokkarnir kepptust um að byggja hæsta símamastrið úr spagettí og sykurpúðum, því von var á tímaflakkara sem ætlaði að lenda við Lækjarbotna og þá er mikilvægt að vera í góðu sambandi við fólk á jörðu niðri. Keppnin fór fram utandyra, enda næst þannig best samband við tímaflakkarann og því þurftu flokkarnir að beita ýmsum brögðum svo að vindurinn blési ekki turnunum út í buskann. Svo fór að Dróttningar báru sigur úr býtum í keppninni en ásamt því að reisa hæsta símaturninn höfðu þau líka skreytt turninn sinn með blómum. Flokkurinn Meistarar fékk sérstök verðlaun fyrir að reisa frístandandi símaturn, þó hann væri ekki hæstur. Í gegnum þennan leik voru foringjarnir að læra um PGM (plana-gera-meta). Þess má til gamans geta að Dróttningar sömdu sérlega flottan hrópsöng við lagið Jólin alls staðar.
Foringjarnir lærðu líka um hvatakerfið og gerðu leikþátt um skáta sem þurfti að hvetja áfram. Þá lærðu þátttakendur hvernig á að huga að öryggi í skátastarfi og að búa til áhættumat. Um kvöldið var haldin skemmtileg kvöldvaka þar sem allir flokkarnir voru með skemmtiatriði. Á sunnudeginum lærðu foringjarnir um skátaaðferðina og bjuggu til leiki til þess að kenna ungum skátum skátalögin og skátaheitið. Einn flokkurinn gerði leik þar sem átti að rappa skátaheitið. Leiðbeinendasveitin, sem skipulagði námskeiðið, hvetur lesendur Skátavefsins til að prófa að rappa skátaheitið. Meðal síðustu dagskrárliða á námskeiðinu var vinnusmiðja þar sem foringjarnir áttu að skrifa niður sínar uppáhaldsminningar úr skátastarfi og tengja þær við einn af þáttum skátaaðferðarinnar.
Á foringjanámskeiðinu spunnust margar góðar umræður og að baki er skemmtilegt námskeið. Leiðbeinendasveitin óskar öllum skátaforingjum góðs gengis á starfsárinu!
Ertu skapandi skáti?
Ertu skapandi skáti, upprennandi kvöldvökustjóri, áhugaljósmyndari eða snillingur í textagerð?
Þá er kynningateymi Landsmóts rétta teymið fyrir þig!
Teymið sér um kynningar í félögum, búa til skemmtilegt efni á samfélagsmiðlum Landsmóts ásamt fleiri skemmtilegum verkefnum.
Kynningastjóri Landsmóts er Védís Helgadóttir og mun hún leiða teymið.
Áhugasöm geta sent póst á Védísi hér.
Alþjóðatækifæri: Euro Mini Jam 2026
Hvað?
Alþjóðaráð leitar að íslenskum skátaflokkum til að taka þátt í Smáþjóðaleikum skáta, Euro-Mini-Jam, sumarið 2026.
Smáþjóðaleikar skáta er sjö daga skátamót fyrir þjóðir sem eru með færri en milljón íbúa.
Mótið verður haldið í Kýpur 2. - 8. ágúst 2026. Smáþjóðir skiptast á að vera gestgjafar mótsins. Fyrsta mátið var haldið á Íslandi 2010, Liechtenstein árið 2013, Mónakó 2016, Færeyjum 2018 og núna síðast í Gíbraltar 2024.
Hverjir?
Þátttakendur eru skátar á aldrinum 13-16 ára. Hver þjóð fær pláss fyrir 2 skátaflokka á mótinu fyrir þátttakendur á þessum aldri. Hver skátaflokkur samanstendur af 6-8 þátttakendum og 2 foringjum.
Auk þess er í boði að senda eldri skáta sem IST (sjálfboðaliða fyrir mótið) svo skátafélögin mega senda með IST liða í umsóknum skátaflokkanna. Alþjóðaráð leitar því að skátaflokkum sem hafa áhuga á að taka þátt! Mótsgjaldið fyrir þátttakendur er 440 EUR og fyrir IST og foringja er gjaldið 365 EUR. Ofan á mótsgjaldið leggst ferðakostnaður og allt sem ferðalaginu fylgir.
Foringjar skátaflokkana sem verða valdir, mynda saman fararstjórn fyrir mótið og sjá um fjárhagsáætlun, skipulag og framkvæmd ferðarinnar. Alþjóðaráð og Skátmiðstöðin mun veita stuðning við verkefnið þegar þörf er á.
Flokkar verða valdir eftir að skráningarfresti lýkur.
Umsóknarferlið
Þeir skátaflokkar sem hafa áhuga á að fara á mótið fyrir hönd Bandalags íslenskra skáta þurfa að sækja um með því að svara eyðublaðinu hér að neðan og skila inn myndbandi á þar sem þau leysa nokkur verkefni. Myndbandið skal senda á althjodarad@skatarnir.is
Valdir verða fjölbreyttir flokkar. Þar af leiðandi er ekki víst að ef tveir flokkar frá sama skátafélagi sæki um að báðir flokkarnir verði fyrir valinu. Skátafélögum er velkomið að sameinast í 6 til 8 skáta flokka, ekki er tekið við umsóknum skátaflokka ef fjöldi skáta nær ekki 6 eða er yfir 8.
Um myndbandið og verkefnin:
Reglur:
- Myndbandið má ekki vera lengra en 10 mínútur
- Skátaflokkurinn kynnir nafn flokksins, skátafélags og nöfn allra meðlima flokksins
- Mikilvægt er að sýna vel og vandlega þegar verkefni eru leyst
Verkefnin:
- Semja flokkshróp og flytja það
- Gera góðverk sem hefur áhrif á samfélagið
- Byggja katapúlt með sykurpúðum og spaghetti og ná að kasta hlut a.m.k. 50 cm
- Kynna ykkur hvernig skátastarf er í Kýpur og segja stuttlega frá því
- Setja upp tjald á innan við mínútu
- Kveikja eld með því að nota einungis stál og tinnu
Umsóknarfrestur er 5. nóvember 2025
Framkvæmdarstjóri í fæðingarorlofi
Ragnar, framkvæmdarstjóri BÍS, verður í 80% fæðingarorlofi á tímabilinu 25. ágúst - 31. október. Á því tímabili verður hann með viðveru í Skátamiðstöðinni á þriðjudögum.
Í fjarveru hans verður Katrín Kemp staðgengill framkvæmdarstjóra.






























