Ari eldar í Undralandinu
Ari Björn Össurarson hefur verið ráðinn í stöðu matráðs í Útilífsmiðstöð skáta Úlfljótsvatni.
Ari er menntaður matreiðslumaður og hefur síðustu 9 ár unnið í eldhúsum hjá veitingahúsunum Varmá, Fiskmarkaðnum, Skyrgerðinni, Hótel Selfoss og Tryggvaskála. Hlutverk Ara verður að hafa yfirumsjón með eldhúsi, þrifum, innkaupum og öðru utanumhaldi þar að lútandi. Hann mun einnig leiða og leiðbeina starfsfólki og sjálfboðaliðum í eldhúsinu og við þrif.
Auk mikillar reynslu úr veitingabransanum hefur Ari lengi starfað sem foringi í skátafélaginu Fossbúum og verið virkur í alþjóðastarfi.
„Ég er aðallega spenntur yfir því að vera Fossbúum til sóma, og að elda góðan mat fyrir skáta og aðra gesti Úlfljótsvatns“ segir Ari. „Góður matur skiptir lykilmáli fyrir fólk sem er mikið úti, eins og oftast er á Úlfljótsvatni og ég hlakka til að fá að starfa við mitt fag í skátaumhverfi. Svo er líka mikilvægt að brosa og hafa gaman!“ segir Ari brosandi.
Við bjóðum Ara hjartanlega velkominn til starfa og hlökkum mikið til að borða matinn hans.