Fálkaskátadagurinn 2020
Fálkaskátadagurinn var haldinn síðasta laugardag, 7. nóvember, og var Skátafélagið Vífill gestgjafinn að þessu sinni. Í staðinn fyrir að bjóða fálkaskátum í heimsókn eins og venjan er þá var fálkaskátadagurinn haldinn rafrænt í ár! Því setti Skátafélagið Vífill saman skemmtilegan þrautaleik sem var sendur út á fálkaskáta og skátafélög út um allt land. Þrautaleikurinn saman stóð af allskonar mismunandi verkefnum og með því að klára verkefnin fékkstu annað hvort 5 stig eða 10 stig.
Verkefnin
5 stig:
- Gefið fuglum brauð, korn eða ávexti og greinið fuglategundina. Aukastig ef þið finnið fleiri en tvær fuglategundir.
- Farið á útsýnissvæði þar sem er víðsýnt. Nefnið 5 örnefni sem þið sjáið þaðan. Aukastig ef þið getið bent í höfuðáttirnar fjórar (norður, suður, vestur, austur).
- Horfið til himins og gerið stutta veðurathugun. Takið upp myndband þar sem þið lýsið veðuraðstæðum.
- Klifrið upp í öruggt tré eða standið upp á steini og syngið lag eða farið með ljóð sem fjallar um náttúruna. Aukastig ef þið greinið tegund trésins eða berggerðina.
- Skorið einhvern á hólm í íþrótt að eigin vali sem er án snertingar.
- Syngið 2 skátalög þar sem annað er hreyfilag og sendið okkur myndband.
- Finnið hæð fánarstangar í ykkar nágrenni þar sem notast er við þekktar hæðarmælingar.
- Takið mynd af styttu/útilistaverki með skátaklút og segið stuttlega frá styttunni eða listaverkinu í myndbandi og sendið okkur.
- Búið til bingó spjald fyrir ykkur og fjölskylduna ykkar.
10 stig:
- Kveikjið eld á öruggum stað (t.d. á útieldstæði eða grilli) og hitið eða eldið eitthvað til að borða.
- Farið í jóga þar sem þið prófið a.m.k. 5 jógastöður og sendið okkur myndband.
- Gerið góðverk þar sem þið hjálpið öðrum.
- Gangið 1-2 km hring í ykkar nágrenni og notið áttavita til að finna hvaða stefnu þið gangið hverju sinni og áætlið hversu mörg skref eru í hverri stefnu fyrir sig. 5 aukastig fyrir að teikna upp kort af leiðinni með kennileitum.
- Setjið upp stuttan leikþátt um Rauðhettu og Úlfinn í dans eða rapp þema.
- Gerið skýli sem rúmar tvær manneskjur og fáið ykkur nesti þar.
Skemmtilegast að rappa Rauðhettu og Úlfinn
Við heyrðum aðeins í tveimur fálkaskátum sem tóku þátt, þeim Alexöndru Kolku og Hönnu Lilju en þær eru í Skátafélaginu Klakki. Þær unnu stigakeppnina og sendu inn mjög skemmtileg myndbönd og myndir.
Súrruðu skýli
Hér má sjá mjög flott virki hjá þeim sem þær bjuggu sjálfar til! Vel gert!! En þeim fannst einmitt mjög skemmtilegt að súrra skýli og að rappa hið sívænsæla ævintýri um Rauðhettu og Úlfinn. Upprennandi listakonur hér á ferð.
Þær lærðu einnig að mæla fánastöng sem er eitthvað sem er gott að eiga í reynslubankanum sínum 🙂
BINGÓ!
Til að ljúka deginum hélt Vífill upp á rafrænt BINGÓ þar sem fálkaskátunum bauðst tækifæri á að „hitta“ aðra fálkaskáta og spila saman. Allskonar skemmtilegir vinningar voru í boði og dreifðust þeir út um allt land 🙂 Hér fyrir neðan má sjá 4 heppna sigurvegara, til hamingju!
Mikil gleði einkenni daginn og var gaman að sjá hvernig fálkaskátarnir leystu verkefnin á fjölbreyttan máta. Takk allir sem tóku þátt 🙂 Gaman að „sjá“ ykkur.