NEISTAR Á (FERÐ OG) FLUGI
Neisti orðinn árs gamall
Neisti er leiðtogaþjálfun á vegum Bandalags íslenskra skáta ætluð skátaforingjum og þeim sjálfboðaliðum sem koma að félagsstarfi skátanna með beinum hætti.
Viðburðurinn fór fram helgina 10.-12. janúar í annað skipti rúmu ári eftir að hann var haldinn fyrst við verulega góðar viðtökur.
Þátttakendur mótuðu eigin dagskrá
Á Neista fá þátttakendur tækifæri til að móta sína eigin dagskrá samkvæmt sínu áhugasviði og hafa þar úr að velja milli gífurlega fjölbreyttra og skemmtilegra námskeiða og smiðja.
Í ár gátu þátttakendur í forvali valið á milli 29 ólíkra smiðja. Þar var hægt að læra um leikjavæðingu, ævintýramennsku í skátastarfi, öryggi á fjöllum eða hvernig megi auka aðgengileika starfsins eða bæta hina ýmsu færni í smiðjum um klifur og sig, framkomu og ræðumennsku, merkjahönnun, eldgerð og fjallamensku og rötun.
Vinsældir í forvali réðu síðan að dagskrá helgarinnar samanstóð af 19 af þessum 29 ólíku smiðjum. Lista þeirra 29 smiðja sem voru í forvali má skoða með því að smella hér.
Neisti kveikti áhuga yfir 100 sjálfboðaliða um allt land
90 þátttakendur voru skráð á Neista þegar skráningu á viðburðinn lauk. Allir þátttakendur viðburðarins eru sjálf virk sem sjálfboðaliðar í félagsstarfi skátafélaganna um land allt ýmist sem skátaforingjar eða stjórnarfólk. En þar að auki voru rúmlega 20 skátar sem gerðust sjálfboðaliðar við að stýra smiðjum eða unnu önnur verk fyrir viðburðinn.
Sjálfboðaliðar skátahreyfingarinnar eru stoðir alls skátastarfs á Íslandi og því er verulega ánægjulegt að Neisti sé svona vel sóttur af sjálfboðaliðum því þannig er vonast til að bál kvikni innra með þeim sem berst síðan áfram í félagsstarfið með ungu skátunum okkar.
Veðrið blés Neista ekki út
Í aðdraganda Neista fór veðrið að feykja skipulagi Neista. Til stóð að viðburðurinn færi fram á Úlfljótsvatni, þangað var því pantaður matur fyrir helgina, stjórnendum smiðja stefnt og bókuð rúta til að flytja þátttakendur austur.
En stuttu fyrir viðburð var tilkynnt að mikið óveður myndi geysa um allt land á sama tíma og viðburðurinn skyldi fara fram. Skátar sem starfa fyrir veðurstofu Íslands spáðu okkur fyrir um vegalokanir og því þurfti að ákveða hvort viðburðurinn skyldi færður eða hvort veðrið blési viðburðinn hreinlega af.
Vegna þess hve mikilvægt það þótti að mæta fróðleiksþyrstum sjálfboðaliðum var viðburðinum haldið til streitu en nú aðlagaður að veðurskilyrðum.
Aðdáunarverð jákvæðni og eljusemi sjálfboðaliða
Skipuleggjendur námskeiðsins höfðu varla lokið verkefnalistanum við skipulag viðburðarins þegar hann tvöfaldaðist og mikið af vinnunni sem þegar hafði verið unnin var fyrir bý. En skáti er glaðvær og skipuleggjendur námskeiðsins tókust á við ný verkefni af aðdáunarverðri jákvæðni og eljusemi.
Fyrst þurfti að útvega nýtt húsnæði undir viðburðinn sem gæti húsað allan fjöldan í gistingu og mætt þeim fjölbreyttu þörfum sem 19 smiðjurnar og önnur dagskrá þess utan kröfðust.
Skáti er hjálpsamur
Hjálpin lét ekki á sér standa og barst úr fjölmörgum áttum. Bæði skátafélögin Vífill í Garðabæ og Hraunbúar í Hafnarfirði buðu aðstöðu sína til að hýsa þá þátttakendur sem þyrftu gistingu og til afnota á annan hátt sem nýttist viðburðinum. Þökkuðu skipuleggjendur góð boð og ákváðu að nýta sér húsnæði Hraunbúa til að setja viðburðinn á föstudagskvöldi og hýsa þau sem gistu.
Þá fékk Neisti gífurlega ríkulega aðstoð frá Hinu Húsinu þar sem mest öll dagskrá helgarinnar gat verið til húsa og eins fékkst Skátalundur, skáli St. Georgsgildanna í Hafnarfirði, að láni til að hýsa kvöldmat og kvöldvöku á laugardegi.
Baklandið reyndist sterkt og stöðugt
Stjórnendur smiðjanna voru álíka boðin og búin að hjálpa til við að láta viðburðinn ganga upp. Öll aðlöguðu þau sínar smiðjur að breyttri staðsetningu og mörg hver útveguðu þau sjálf húsnæði og búnaði sem hentaði betur fyrir sínar smiðjur. Neisti fékk t.d. aðgengi að klifurvegg í bækistöðum HSSR, aðstöðu stjörnuskoðunarfélagsins á Seltjarnarnesi og að vinnustofu Farva í Álfheimum.
Breyttar ferðaáætlanir
Þátttakendur Neista þurftu ekki síður að aðlagast nýjum aðstæðum. Utan af landsbyggðinni þurftu þátttakendur ýmist að tilkynna forföll eða seinkun á komu sinni. Óháð búsetu þurftu síðan allir þátttakendur að skoða persónulega stundaskrá helgarinnar og skipuleggja síðan í samstarfi við aðra þátttakendur hvernig þau kæmust á milli staða yfir helgina.
Gildi skátastarfsins og heimsmarkmiðin skoðuð í gegnum leiki
Viðburðurinn hófst á föstudagskvölinu í Hraunbyrgi. Þátttakendur kynntust flokkunum sem þau áttu síðan eftir að starfa með um helgina og fóru í sínum flokkum í póstaleik þar sem gildi þeirra sem sjálfboðaliðar í skátastarfinu voru höfð að þema og hver þátttakandi skóp sína eigin ofurhetju með persónulega styrkleika sem myndi gagnast þeim síðar um helgina.
Laugardagurinn byrjaði á stórleik í þema heimsmarkmiðanna, þar kepptust þátttakendur í flokkum sínum hvert við annað og kynntust samtímis skemmtilegum leiðum til að nýta heimsmarkmiðin í skemmtilegri dagskrá með yngri skátum.
Smiðjur um allan bæ
Á eftir heimsmarkmiðunum komu síðan smiðjurnar sem þátttakendur höfðu valið sér. Í Hinu Húsinu reyndu þátttakendur við flóttarými, kynntu sér öryggi í fjallaferðum, kynntust starfsháttum jöklaleiðsagnar, lærðu ýmsar aðferðir og á verkfæri í leðurvinnu og öðru frumstæðu föndri, sátu frásögn frá ævintýraferð á Amadablam og lærðu undirstöðuatriði í kvöldvökustjórn og gítarspili.
Á meðan fóru aðrir niður í Álfheima og kynntustu umhverfisvænni hönnunarstofu, hönnuðu eigin merki og silkiprentuðu það á taupoka. Í Malarhöfðanum fengu skátar að læra og reyna ýmislegt sem gott er að kunna í klifri og sigi í aðskildum hópum eftir fyrri reynslu. Á Seltjarnarnesi fór síðan stór hópur og lærði hvernig mætti nýta stjörnufræði á skemmtilegan máta í starfi með yngri skátum og fræddust um himinhvolfið yfir höfði sér.
Jákvæð samskipti á sunnudegi
Á sunnudeginum fóru þátttakendur ýmist og lærðu nýja leiki með því að leika sér í tvær og hálfa klukkustund eða sóttu par styttri fyrirlestra um ævintýramennsku, aðgengileika, alþjóðastarf og skipulag í skátastarfi. Á sama tíma hýrðust aðrir skátar úti í snjófokinu í Háuhlíðinni og lærðu nytsamlega hluti um hvernig skuli bera sig að þegar kveikja á eld í ólíkum tilgangi. Eftir hádegi hittust síðan öll aftur í Hinu Húsinu og sóttu saman fyrirlestur um jákvæð samskipti.
Skáti er samvinnufús
Leiðtogaþjálfun skátanna fer iðulega fram utan borgarmarka og því var fróðlegt fyrir skipuleggjendur og þátttakendur að upplifa viðburð sem þennan á flakki um höfuðborgarsvæðið. En með rúmlega hundrað þaulvana skáta gekk viðburðurinn engu að síður mjög greiðlega fyrir sig og lögðust allir á eitt við að láta viðburðinn smella aftur saman í breyttri mynd.
Þátttakendum var í lok helgar færð þökk frá skipuleggjendum fyrir jákvæða viðleitni og aðstoðina við að aðlagast breytingum. Sem þau áttu sannarlega skilið. Þátttakendur höfðu verið vökul fyrir upplýsingagjöf vegna breyttra aðstæðna, þau höfðu með bros á vör unnið saman að því að komast á milli staða um allan bæ og síðan hjálpað til við matseldina þar sem matráðar viðburðarins voru þau einu sem drifu á Úlfljótsvatn fyrir vegalokanir og sátu þar föst.
Gildin skinu í gegn
Það var kannski viðeigandi að gildi skátastarfsins skinu í gegn á eimmit þessum viðburði þar sem þau voru í hávegum höfð. Það hefði verið öllum augljóst sem hefðu séð að þarna var samankomið hópur fólks með mikla færni í samskiptum, jákvæðu viðhorfi, samvinnu, útsjónarsemi og ástríðu.