Yfirlýsing stjórnar
Vegna umfjöllunar RÚV í liðinni viku um alheimsmót skáta 2023 og um meint fjármálamisferli og frændhygli hjá Bandalagi íslenskra skáta viljum við, undirrituð, koma eftirfarandi á framfæri.
Við sem sitjum og sátum í stjórn BÍS í aðdraganda ferðarinnar, á meðan á henni stóð og eftir hana stöndum þétt við hlið skátahöfðingja Íslands. Í ljósi umræðu síðustu daga þykir okkur rétt að benda á að þótt skátahöfðingi sé í forsvari fyrir stjórn BÍS eru allar ákvarðanir teknar af stjórninni í sameiningu. Þetta á einnig við um þær ákvarðanir sem teknar hafa verið í kringum alheimsmótið.
Okkur er fyrirmunað að skilja hver tilgangur þessarar umfjöllunar er annar en að kasta rýrð á starfsemi skátahreyfingarinnar og þá sérstaklega á störf skátahöfðingja, þar sem bæði öllum hlutaðeigandi, þar á meðal fararstjórn, hefur verið boðið til samtals um málið og var það okkar upplifun að þau sem hefðu þegið það boð hefðu gengið sátt frá borði. Við ítrekum að við erum enn opin til samtals og viljum ekkert frekar en að leysa málin á farsælan hátt. Umfjöllun RÚV hefur verið mjög einhliða og byggð á rangfærslum sem fjölmiðlafólki ætti að hafa verið ljóst um. Það er okkar mat að umfjöllunin brjóti gegn siðareglum blaðamanna. Í siðareglunum er meðal annars gerð sú lágmarkskrafa að upplýsingar séu settar fram á heiðarlegan hátt og greinarmunur gerður á skoðunum og staðreyndum. Það er ljóst að umfjöllunin uppfyllir ekki þessa lágmarkskröfu.
Varðandi starfsmannamál þá kemur stjórn BÍS eingöngu að ráðningu framkvæmdastjóra og hefur annars ekki beina aðkomu að mannaráðningum bandalagsins. Þær eru á ábyrgð framkvæmdastjóra. Það er þó alltaf svo að í litlu samfélagi eru óhjákvæmilega tengsl á milli aðila. Tekið skal fram að Harpa Ósk var hvorki skátahöfðingi né framkvæmdastjóri í afleysingum þegar báðar systur hennar og kærasti annarrar þeirra voru ráðin í störf á vegum BÍS. Það skal ítrekað að þau sem eru ráðin til starfa fyrir hreyfinguna eru ráðin af eigin verðleikum en ekki vegna skyldleika. Að gefa annað í skyn er ekki síður áfellisdómur á það góða fólk sem þar hefur unnið við afar fjölbreytt störf.
Við teljum brýnt að ávarpa þær ásakanir sem fram hafa komið um hæfi Hörpu Óskar til þess að sinna stöðu framkvæmdastjóra BÍS í afleysingum. Hefur í þessu samhengi verið vísað í starfsreglur stjórnar BÍS og gefið í skyn að ráðning hennar í afleysingar með skömmum fyrirvara brjóti gegn þeim. Í starfsreglum stjórnar BÍS segir orðrétt “Stjórnarmenn skulu ekki þiggja laun fyrir stjórnarsetu né vera fastráðnir starfsmenn BÍS eða dótturfyrirtækja.” Það er alveg á hreinu að Harpa Ósk hefur aldrei þegið laun fyrir stjórnarsetu og aldrei verið fastráðin á skrifstofu BÍS. Starfsfólk í afleysingum er enda ekki fastráðið.
Haustið 2022 kom upp sú staða að framkvæmdastjóri BÍS þurfti að hverfa frá störfum með mjög skömmum fyrirvara. Þetta var álagstími á skrifstofunni og því var mikilvægt að finna afleysingu fyrir hana strax til að hægt væri að sinna áfram brýnustu málefnum BÍS og dótturfélaga. Sú ráðstöfun var í fyrstu hugsuð til nokkurra vikna en þegar ljóst var að fyrrum framkvæmdastjóri myndi ekki snúa aftur til starfa var hún framlengd. Skátahöfðingi hafði á þessum tíma svigrúm í sinni vinnu til þess að færa til verkefni og varð því úr að lögð var tillaga fyrir félagsforingjafund um að hún sinnti störfum framkvæmdastjóra tímabundið á meðan á ráðningarferli nýs framkvæmdastjóra stæði. Sú tillaga var samþykkt. Ráðningarferlið tók lengri tíma en áætlað var. Nýr framkvæmdastjóri kom formlega til starfa í maí 2023 en hóf í raun ekki störf að fullu fyrr en í ágúst, viku áður en farið var á alheimsmót. Harpa var því enn að sinna aðlögun hans að nýju starfi þegar mótið átti sér stað. Það er því ljóst að stjórn hafði umboð félagsforingjafundar fyrir afleysingunni og er afgreiðsla þessa máls því í samræmi við lög og reglugerðir BÍS þrátt fyrir að annað hafi verið gefið í skyn í umfjöllun RÚV um málið.
Við viljum árétta að allir þeir sjálfboðaliðar sem starfa í stjórn BÍS, þar á meðal skátahöfðingi, gera það af heilindum með það að markmiðiði að móta uppbyggilegt og skemmtilegt skátastarf í landinu.
Auður Sesselja Gylfadóttir, meðstjórnandi
Björk Norðdahl, fyrrum meðstjórnandi
Davíð Þrastarson, meðstjórnandi
Guðrún Stefánsdóttir, meðstjórnandi
Huldar Hlynsson, fyrrum meðstjórnandi
Sævar Skaftason, gjaldkeri
Unnur Líf Kvaran, meðstjórnandi
Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir, fyrrum meðstjórnandi
Þórhallur Helgason, aðstoðarskátahöfðingi