Skátar frá Norðurlöndunum vinna saman – Norðurlandaþing 2024

Dagana 8.-12. maí tók hópur íslenskra skáta þátt í Norðurlandaþingi sem haldið var í Færeyjum að þessu sinni. Norðurlandaþing er haldið á 3 ára fresti af norrænu skátanefndinni (NSK) sem er samstarfsvettvangur skátasamtaka á Norðurlöndunum. Markmið vettvangsins er að skapa tækifæri til samstarfs, til að miðla reynslu og deila menningu á milli landanna. Hér er hægt að lesa meira um starfsemi NSK.

Allt að 180 skátar frá öllum Norðurlöndunum voru samankomin á ráðstefnunni, þar af 19 manns frá Íslandi. Íslenski hópurinn samanstóð af stjórn og starfsfólki BÍS, fulltrúum frá Alþjóðaráði og fulltrúum ungmenna.

Fyrsta daginn fengu þátttakendur að upplifa náttúruundir Færeyja með vali um ferðir um eyjarnar. Hægt var að fara í fjallgöngu í Klaksvík, gönguferð um Kirkjubø eða göngu um Gásadal og að skoða Múlafoss. Seinna um daginn var þingið sett en þemað að þessu sinni var Tími breytinga. Á opnunarathöfninni fengum við ræður frá Skátahöfðingja og forsætisráðherra Færeyja ásamt tónlistaratriðum, eitt frá ungum skátum í Þórshöfn og svo flutti færeyski tónlistarmaðurinn Marius Ziska nokkur lög.

Á ráðstefnunni var fjölbreytt dagskrá sem samanstóð að mestu af kynningum og vinnusmiðjum ásamt því að þátttakendur fengu tækifæri á því að rýna betur í sýn, stefnu og samstarfsgrundvöll NSK.

Vinnusmiðjurnar komu frá þátttökulöndunum þar sem lögð var áhersla á spennandi og gagnlegar smiðjur til að kynna hin ýmsu verkefni sem bandalögin eru að vinna að. Sem dæmi má nefna smiðju um geðheilbrigðismál í skátastarfi, hvernig hægt er að vekja vitund skáta um veruleika flóttafólks, hvernig dagskrá rekka- og róverskáta lítur út, hvernig sænskir skátar kynna tækifæri til alþjóðastarfs og svo margt margt fleira. Íslensku skátarnir stóðu fyrir þrem smiðjum, einni um sjálfbæra viðburði, aðra um öryggi í skátastarfi og sú þriðja kynnti starfsemi Grænna skáta og hvað það gefur íslensku skátahreyfingunni.

Að lokum ber sérstaklega að nefna að Færeyingar héldu smiðju sem bar heitið Skótahjálpin, þar sem þau sögðu frá góðgerðarstarfi sínu þar sem þau safna peningum fyrir góð málefni. Til að mynda gáfu þau íslenskum skátum 500 þúsund krónur fyrir sumarstarfi grindvískra barna.

Einnig sammældust Norrænu bandalögin um að veita styrk til skáta í Brasilíu sem standa í ströngu um þessar mundir að hjálpa samfélagi sínu að kljást við mikil flóð sem hafa geysað í suðurhluta landsins.

Að sjálfsögðu var svo boðið upp á kvöldvökur að skátasið í lok hvers dags!

Við þökkum frændfólki okkar í Færeyjum fyrir einstaklega vel skipulagða og gagnlega ráðstefnu og erum full tilhlökkunar að innleiða þær hugmyndir sem við fengum á ráðstefnunni í okkar starfsemi.