11 öflugir leiðtogar luku Gilwell þjálfun um helgina
Sunnudaginn 5.nóvember síðastliðinn fengu 11 kraftmiklir leiðtogar í skátahreyfingunni afhent Gilwell einkennin sín. Þessi öflugi og samheldni hópur hefur unnið hörðum höndum að þessu takmarki frá því í byrjun árs. Markmið Gilwell þjálfunarinnar er að gera skáta að betri og meðvitaðri leiðtogum, bæði í skátastarfi og í eigin lífi. Vegferðin hófst í janúar þar sem áhersla var lögð á gildi skátahreyfingarinnar og eigin gildi þátttakenda.
Í júní gisti hópurinn í tjöldum á Úlfljótsvatni í 5 daga þar sem þjálfun fór fram bæði úti og inni. Hópurinn sinnti verklegum þáttum sem tengdust tjaldbúð og útivist en einnig voru huglægari þættir eins og lýðræði í barna og ungmennastarfi og leiðir til að leysa ágreining og samskiptareglur í þéttum vinnuhópum.
Nú um helgina var svo lagður lokaásetningur um að bæta heiminn í gegn um skátastarf og að verða betri leiðtogi. Við fengum mjög áhugaverða gesti sem fræddu okkur um áhrif skátastarfs á þeirra líf og leiðtogahæfni og þökkum þeim fyrir innilitið. Það voru stoltir og metnaðarfullir skátaforingjar sem luku námskeiðinu og ekki síður stoltir leiðbeinendur.
Námskeiðaröðinni hefur nú verið lokið og við bíðum spennt eftir næsta hóp sem byrjar í febrúar 2024.
Við óskum þessum flottu Gilwell skátum innilega til hamingju með þennan merka áfanga og bjóðum þau velkomin í stærstu skátasveit í heimi.
Við hlökkum til að sjá afrek þeirra og næstu skref í skátastarfi.
Gilwell 2024
Næsta Gilwell námskeið hefst þann 2. febrúar og er skráning á það hafin.
Áhugasöm mega senda umsókn með lýsingu á þeirra skátastarfi á gilwell@skatarnir.is