Nordic Adventure Race 2026

Alþjóðaráð leitar að bæði þátttakendum og foringjum til að taka þátt í Nordic Adventure Race á vesturströnd Noregs, 10-16. júlí 2026! Tilvalið tækifæri fyrir drótt- og rekkaskátaflokka og foringja þeirra en Nordic Adventure Race er skátakeppni þar sem skátarnir ganga ákveðna vegalend, leysa þrautir og keppa í ýmsum skátaáskorunum. Þemað í þetta skipti er ævintýri og þjóðsögur!
Hvað er Nordic Adventure Race (NAR) ?
Nordic Adventure Race er spennandi viðburður sem flakkar á milli norðurlandanna. Færeyjar héldu viðburðinn fyrst 2022 og er nú komið að Noregi.
Á viðburðinum munu 50 skátar frá hverju landi vera skipt upp í nýja 6 skáta flokka og fá þar að leiðandi að kynnast skátum frá hinum norðurlöndunum. Flokkarnir fara síðan að stað í vikulanga göngu um norska fjallalendið þar sem þau munu fá tækifæri til að keppa í ýmsum þrautum á leiðinni til að safna inn stigum til að sigra keppnina. Á viðburðinum er lögð áhersla á skapandi hugsun, samvinnu og krefjandi útivist.
Almennar upplýsingar fyrir þátttakendur og sjálfboðaliða
- Dróttskáta og rekkaskáta, skáta fædd á bilinu 10. 07. 2008 - 17. 10. 2013
- Rekkaskátar eldri en 18 ára geta farið með sem foringjar eða sjálfboðaliðar, skátar fædd 10. 07. 2008 eða fyrr.
- Skátafélag sendir inn eina umsókn fyrir alla sína skáta ásamt foringjum og sjálfboðaliðum
- Einungis 50 þátttakendapláss og 10 foringja/sjálfboðaliðapláss
- Sjálfboðaliðar og foringjar aðstoða við dagskrá mótsins og ólíklegt er að þau verði með sínum skátum á meðan á viðburðinum stendur.
Hér er hægt að lesa nánari upplýsingar um viðburðinn
Þátttökugjald
Þátttökugjaldið fyrir skátanna er 4.000 NOK ( u.þ.b. 50.000 kr.)
Gjaldið fyrir foringja / sjálfboðaliða er 1.5000 NOK (u.þ.b. 19.000 kr.)
Annar kostnaður er í höndum fararhópsins en fluggjaldið og sameiginleg einkenni er ekki innifalið í þátttökugjaldinu. Það sem er innifalið í þátttökugjaldinu er allur matur þegar viðburðurinn hefst, ferðalagið til og frá Oslo/Gardermoen að staðsetningu viðburðar, mótsmerki, öll dagskrá ásamt einhverjum sameiginlegum búnaði sveitarinnar.
Skráningin
Skátafélagið fyllir út umsóknareyðublaðið hér að neðan fyrir hönd skátaflokksins. Alþjóðaráð fer svo yfir allar skráningar og hefur samband við hópinn um næstu skref. Skátaforingjar hópanna mynda svo saman fararstjórn fyrir íslenska fararhópinn.
Skráningafrestur er til 31. júlí
Ertu með einhverjar spurningar? Endilega sendu á althjodarad@skatarnir.is
Gamli fær nýja kamínu
Við Gamla, skála Skátafélagsins Klakks hafa sl. haust farið fram miklar framkvæmdir, sem miða að endurbótum skálans og gera hann útilegufæran á ný. En vegna mikillar almennrar umferðar um svæðið og þess, að skálinn var alla tíð opinn fyrir gesti og gangandi var hann kominn í nokkra niðurníðslu og hafði því miður orðið fyrir barðinu á slæmri umgengni (jafnvel skemmdarverkum). En á haustdögum var ráðist í gagngerar endurbætur á skálanum, sem raunar standa enn yfir, og hefur Tumi Snær Sigurðsson haft umsjón með af þeim, ásamt vöskum rekkaskátum og öðrum skátum á öllum aldri.
Sl. sunnudag, 7. des. var þeim áfanga fagnað, að ný kamína er komin í gagnið og skálinn formlega orðinn útilegutækur. Boðið var upp á gönguferð með leiðsögn frá Hömrum upp að Gamla, þar sem boðið var upp á kakó, kex og mandarínur (í tilefni aðventunnar) og voru þar samankomnir á þriðja tug manns þegar mest var. Áttu viðstaddir þar notalega og ánægjulega stund, auk þess sem veður var með besta móti til gönguferða. Jóhann Malmquist félagsforingi hélt erindi en einnig sagði Ólafur Kjartansson frá Brunná lítillega frá framkvæmdunum við byggingu skálans á árunum 1979-81. Ólafur, jafnan kallaður Óli Kjartans, hafði einmitt veg og vanda af því að koma nýju kamínunni fyrir og málmsmíðum í kringum hana. Sagði Óli frá því, að á sínum tíma hefði allt efnið í skálann verið borið frá Kjarnaskógi eða Fálkafelli og kamínan líklega þyngst af því öllu. Nýja kamínan og annað efni til framkvæmda var hins vegar ferjað uppeftir með þyrlu nú haustdögum. Rétt er að óska hlutaðeigandi til hamingju með nýja kamínu og aðrar endurbætur á Gamla.
Þankadagspakki 2026 - okkar vinátta
Þankadagspakkinn 2026 er kominn út!
Þemað að þessu sinni er "okkar vinátta" og framhaldsþema frá árinu 2025.
Hér má lesa meira um þankadagspakkann og finna hlekk til að sækja verkefnin.

Klípusögur kveiktu í umræðunum
Rafrænt námskeið í samskiptum og siðareglum
Í gær, mánudaginn 1. desember, var haldið rafrænt námskeið í samskiptum og siðareglum. Fengum við góðan hóp til okkar sem kom víða að af landinu en það er einmitt markmið rafrænna námskeiða. Með þeim viljum við hjá Æskulýðsvettvanginum auka aðgengi þeirra sem búa úti á landi að námskeiðunum og var gaman að sjá hversu vel það tókst í gær.
Námskeiðið sjálft fjallaði um samskipti og siðareglur sem er mjög mikilvægur hluti í okkar starfi. Góð samskipti eru lykillinn að jákvæðum tengslum og mikilvægt er að hægt sé að ræða þau ágreiningsmál sem koma upp á friðsælan máta. Auk þess er mikilvægt að öll þekki til siðareglna Æskulýðsvettvangsins en þar eru fönguð í orð þau siðferðislegu gildi og viðmið um hátterni sem Æskulýðsvettvangurinn og þau félagasamtök sem saman mynda vettvanginn starfa eftir: vellíðan – velferð – öryggi.
Á námskeiðinu fengu þátttakendur klípusögur þar sem þau notuðu siðareglurnar til að leysa úr ágreiningsmálum sem geta komið upp innan hópa og mynduðust góðar og gagnlegar umræður í kjölfarið.
Við þökkum öllum fyrir komuna og hlökkum til að sjá sem flest á næsta námskeiði sem haldið verður 25. febrúar 2026. Aðgangur að námskeiðinu er ókeypis og hægt er að skrá sig hér: www.aev.is/skraning-a-namskeid/









