Leiðarendi

Nú er fyrsta vikan að líða undir lok hjá hópnum okkar á Roverway og þátttakendur byrjaðir að fjölmenna á mótssvæðið í Stavanger. Hóparnir hafa farið í þvílíkt fjölbreyttar ferðir og fengið að upplifa hina ýmsu hluti.

Einn fararhópurinn fór á hefðbundið danskt landsmót, þar sem var gengið 75km, farið í zipline garð og fjöldan allan af leikjum með hinum þátttakendunum. Danirnir voru æstir í að fá að deila sínum hefðum og dagskrá með hópnum og eru Íslendingarnir okkar heldur betur þreytt eftir þetta ferðalag. Hver mínúta var skipulögð í þaula, en hópurinn náði að taka lest, sem gerði gæfu muninn fyrir þau sem fengu að upplifa það í fyrsta skipti.

Annar hópur fór í Rypetoppen, sem er þrautagarður í háloftunum, þar eru zipline ferðir yfir vötn, brýr sem eru strengdar yfir gil og stöðuvötn þar sem þátttakendurnir fengu að prófa sig áfram á standbretti. Íslenski fararhópurinn gerði gott betur en dagskráin sagði til um og skipulögðu göngu til Svíþjóðar sem var í um 3 klukkustunda fjarlægð, fengu leyfi frá ábyrgðaraðila ferðarinnar og gengu þetta í sameiningu.

Einn hópurinn fór í bæjarferð, gönguferð og vatnadagskrá þar sem hver dagur var nýtt ævintýri. Ásamt því að taka þátt í dagskráliðum, eignaðist hópurinn fjölda vina, upplifði norskt skordýralíf og böðuðu sig lækjunum í kring. 

Nú halda allir 11 hóparnir okkar á mótssvæðið þar sem verður í boði fjölbreytt skemmtidagskrá með þemum á borð við; sjálfbærni, vatnaveröld, og hæfni í útivist. Þátttakendur fá að velja sjálf hvað þau vilja gera og veðurspáin fyrir komandi viku ætti að þerra alla þá skáta sem eru að skila sér blautir til baka.


16 - 22 ára geta sótt um að taka þátt í Ung i Norden

Ung i Norden er spennandi viðburður, haldinn Í Helsinki í Finnlandi helgina 11. til 13. október 2024. Viðburðurinn er  fyrir unga skáta frá Danmörku, Finnlandi, Færeyjum, Íslandi, Noregi og Svíþjóð. Þema viðburðarins er “Friður”. Yfir helgina fá þátttakendur tækifæri til að læra um og ræða frið í skátasamhenginu, í nærumhverfinu og fjær. Þátttakendur munu einnig eignast nýja vini alls staðar frá norðurlöndunum, hversu frábært er það! 

Við erum að leita að fjórum skátum 16 til 22 ára til að taka þátt. Þátttökugjaldið er 200 evrur auk þess að þátttakendur þurfa að kaupa sín eigin flug.

Skátar sem eru í ráðum og nefndum hjá BÍS fá þátttökugjaldið niðurfellt en þurfa að borga eigin flug. 

Skráningarfrestur er til 20. Ágúst

Viðburður:

Skilmálar


Tæplega 90 skátar mættir á Roverway í Noregi

Síðustu helgi lögðu tæplega 90 íslenskir skátar af stað á vit ævintýranna til Noregs á Roverway. Stór hluti hópsins aðstoðaði og tók þátt þátt í Landsmóti skáta 2024 sem lauk fyrir helgi, því aðeins nokkrum dögum áður en flogið var út.

Roverway byrjar á því að flokkar fara í leiðir (e: paths) sem þau eru búin að velja og því byrja þau á mismunandi stöðum áður en þau enda öll saman í Stavanger. Hluti hópsins fór því til Osló á meðan restin hélt áfram til Stavanger og gisti því hópurinn í tvennu lagi fyrstu nóttina.

 

Við komu til Stavanger var gríðarleg rigning og var íslenska fararstjórnin stoppuð þrisvar af starfsfólki mótsins til þess að segja þeim frá því hversu góður andir er yfir hópnum þrátt fyrir að öll væru gengsósa og þreytt eftir 20 tíma ferðalag. Má segja að þau séu orðin vön þessari rigningu og láta hana ekkert stoppa sig.

Frábært veður var um kvöldið í Osló, tjaldað í blíðu og fór hópur saman í kvöldmat í golfskála. Þau fengu þó að upplifa þessa sömu rigningu morguninn eftir, þegar þau pökkuðu saman búnaðinum sínum til að halda áfram á sína leið. 

 

Hóparnir eru núna á víð og dreif um Noreg (og einn í Danmörku) að leggja af stað í 11 mismunandi ferðalög sem standa fram á föstudag. Eftir það sameinast allir þátttakendur Roverway í Stavanger fyrir meiriháttar skemmtidagskrá. 

Ekki bara fengum við frábærann hóp til þess að ferðast með heldur erum við með framúrskarandi IST sem að taka þátt á mótinu sem starfsmannastuðningur. Það hefur gert gæfumuninn í þessari ferð hvað skátaandinn er sterkur, grunnt liggur á hjálpseminni, og allar töskur með góða skapinu virðast hafa skilað sér.

 

Hægt er að fylgjast með hópnum á Instagram reikningingi þeirra roverway.iceland og mælum við með því!

 


Eintóm gleði á síðasta degi Landsmóts

Í gær var síðasti dagskrárdagur Landsmóts haldinn hátíðlegur þar sem öll voru velkomin í heimsókn til að kynnast ólíkum menningarheimum og skoða hvað skátafélögin höfðu upp á að bjóða. Skátafélög kynntu heimabæi og lönd sín og buðu meðal annars upp á ýmsar veitingar og skemmtilega leiki á borð við flöskuendurvinnslu þar sem hægt var að fá skátamerki að launum, taka ferð á villtum bola og einnig voru ýmsar gerðir af gestabókum um allt svæðið.

Um hádegisbil flaug Landhelgisgæslan yfir svæðið og sýndi björgun úr vatni og hífði nokkra skáta úr Úlfljótsvatni og vakti það mikla lukku meðal áhorfenda.

Mynd: Helgi Jónsson

Meðal gesta mótsins voru Guðni Th. Thorlacius, forseti Íslands og verndari skátahreyfingarinnar og Jeannette Menzies, sendiherra Kanada á Íslandi, en þau gengu um svæðið með mótsstjórn og stjórn BÍS og gæddu sér á veitingum, prófuðu leiki og spjölluðu við skáta allsstaðar að úr heiminum. Mörgum erlendum skátum fannst magnað að sjá forsetan falla svo vel í hópinn vildu ólm fá mynd með honum.

 

BMX bros voru einnig á svæðinu og sýndu listir sínar við góðar undirtektir. Veðrið var eins og sönnu íslensku veðri sæmir, rigning, glampandi sól og hiti, þrumur og eldingar, úrhellis rigning og svo loks logn og skýjað. Ótrúlegt að upplifa allar þessar veðurbreytingar á einum og sama deginum.

Um kvöldið var svo hátíðarkvöldvaka en þar stigu á svið gamalreyndur kvöldvökuhópur ásamt yngri og nýrri kvöldvökuhóp og stjórnuðu þau stórglæsilegri kvöldvöku en einnig voru skemmtiatriði sem vöktu mikla gleði. Inspector Spacetime kom svo brekkunni í partýstuð og myndaðist ein lengsta kóngaröð sem sést hefur á Landsmóti. Stuðlabandið hélt svo stuðinu uppi lang frameftir kvöldi og ómuðu tónar þeirra og gleði skátanna um allt tjaldsvæðið.


Skátablaðið Pappírsheimur - 6. tölublað

Yfir Landsmót kemur út mótsblað og ber það heitið Pappírsheimur og eru ritstjórar þess Unnur Líf Kvaran og Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir. Hér má lesa 6. tölublað. 


Reistu 15,3 metra háa fánastöng í skjóli nætur

Á Landsmóti fór fram keppni um hæðstu fánastöngina og þar er ekki átt við hefðbundna fánastöng heldur fánastöng sem hefur verið súrruð saman eða búin til með öðrum frumlegum hætti.

Kanadískir og íslenskir skátar vöknuðu um miðja nótt, söfnuðu saman trönum og bindingum og reistu 15,3 metra háa fánastöng fyrir framan stóra sviðið á mótsvæðinu. Mörg voru hissa þegar þau fóru á stjá morguninn eftir en þa trjónaði fánastöngin yfir allt með nokkrum fánum á.

 


Hamravíðir vex nú einnig á Úlfljótsvatni

Í dag rigndi á okkur en öll hafa verið á fullu í dagskrá með bros á vör. Þreytan er farin að gera vart við sig en spenningurinn fyrir heimsóknardegi og hátíðarkvöldvöku morgundagsins leynir sér ekki. Trönubyggingar rísa, fánastangir hækka og verður hæsta fánastöngin tilkynnt í Pappírsheimum, landsmótsblaði morgundagsins.

Skáti er náttúruvinur og í dag var Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni færð gjöf sem mun stækka um ókomin ár. 175 plöntur frá Dróttskátasveitinni Montis frá Klakki á Akureyri. Sveitin fór að Hömrum í vor, klipptu til greinar og ræktuðu hríslur sem þau tóku svo með sér í rútuna á Landsmót. Plönturnar voru gróðursettar á svæðinu í dag. Gróðursettur var Hamravíðir og vex hann nú á Hömrum og Úlfljótsvatni.

Þegar skátafélagið Klakkur fékk Hamra árið 1999 stóðu þar auð tún en svæðið hefur tekið stakkaskiptum vegna gróðursetninga skáta í gegnum árin. Það var á níunda áratugnum sem skátafélagið Klakkur og Hamrar, útilífsmiðstöð skáta á Akureyri, hóf að færa ÚSÚ hríslur og gróðursetja víðsvegar á svæðinu. Vill Bandalag íslenskra skáta færa bestu þakkir fyrir gjafirnar í gegnum tíðina.

 


Skátablaðið Pappírsheimur - 5. tölublað

 

Yfir Landsmót kemur út mótsblað og ber það heitið Pappírsheimur og eru ritstjórar þess Unnur Líf Kvaran og Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir. Hér má lesa 5. tölublað. 


Fimmti dagur ævintýra á Landsmóti

Fimmti dagur Landsmóts var rólegur en fullur af ævintýrum. Loks fengum við týpískt íslenskt sumarveður, skýjað, hlýtt og smá gola. Þátttakendur fóru í klifurturninn, hoppukastalana, gönguferðir og ýmislegt fleira. Áfram var unnið að samfélagsverkefnum og voru undirgöngin meðal annars máluð í öllum regnbogans litum. Útieldunin hefur einnig slegið í gegn en í dag var til dæmis heill fiskur eldaður í dagblaði yfir opnum eldi. Hæfileikakeppni mótsins sló í gegn og ómuðu fagnaðarlætin um allt. Þar voru meðal annars söngatriði, dansatriði, tónlistaratriði og rapp.

Í fjölskyldubúðum hefur einnig verið mikil og fjölbreytt dagskrá. Í dag var dagvaka, eða kvöldvaka haldin að degi til svo allra yngstu þátttakendur gætu verið með og mættu skátar frá skátafélagi Sólheima í heimsókn. Bátasmiðjan í fjölskyldubúðum hefur einnig slegið í gegn og líka búningarnir sem hægt er að fá lánaða.

Um kvöldið var svo æsispennandi flokkakeppni þar sem skátaflokkar kepptust um að hljóta titilinn "Flokkur mótsins" en til þess þurftu flokkarnir að takast á við ýmsar skátaþrautir. Einnig var Gilwell endurfundir (e. reunion) og þar var mikið spjallað, sungið og hlegið. Enn einn frábær ævintýradagur að líða undir lok!


Skátablaðið Pappírsheimur - 4. tölublað

 

Yfir Landsmót kemur út mótsblað og ber það heitið Pappírsheimur og eru ritstjórar þess Unnur Líf Kvaran og Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir. Hér má lesa 4. tölublað. 


Privacy Preference Center