Dagskrárstjóri Úlfljótsvatns tekur við skátamiðstöðinni Larch Hill á Írlandi

Við tilkynnum það með stolti að dagskrár- og samhæfingarstjóri ÚSÚ síðustu árin, Matthew, hefur verið ráðinn sem nýr rekstrarstjóri Larch hill skátamiðstövarinnar á Írlandi og mun því hætta sem dagskrár- og samhæfingarstjóri ÚSÚ þessi mánaðrmót. Hann mun vera Úlflótsvatni innan handar að hluta frameftir sumri og erum við honum þakklát fyrir það. Matthew hefur verið mikilvægur hlekkur í teyminu okkar á Úlfljótsvatni, góður vinnufélagi og teymisstjóri og verður sárt saknað.
Við þökkum Matthew innilega fyrir vel unnin störf undanfarin ár og óskum honum alls hins besta og velfarnaðar í nýju starfi. Við erum viss um að margir íslenskir skátar muni gera sér ferð til Írlands og kynnast Larch Hill skátamiðstöðinni á næstu árum.
Forseti fagnar með Kóreuförum

Síðastliðin sunnudag var haldið lokahóf á Úlfljótsvatni, fyrir fararhópinn á Alheimsmót skáta 2023. Veðrið lék við gestina sem nýttu sér það vel og léku sér úti og snæddu pylsur að klassískum skátasið.
Guðni Th. forseti kíkti í heimsókn sem vakti mikla lukku. Hann, ásamt Hrafnhildi Ýri, fararstjóra, og Hörpu Ósk, skátahöfðingja, afhentu þátttakendum, sjálfboðaliðum og foringjum viðurkenningjaskjal vegna þátttöku sinnar á 25. Alheimsmóti skáta í Suður Kóreu, en þessi hópur sýndi af sér mikla seiglu og dug í ferðinni og stóðu sig eins og hetjur.

Einnig var Guðni Th. forseti sæmdur gullmerki skáta sem þakkir fyrir síðastliðin ár sem verndari skátahreyfingarinnar.

Það kom ekki annað til greina en að syngja nokkur lög saman og tók forsetinn vel undir með hópnum. Eftir athöfnina var opin dagskrá á svæðinu og mátti sjá skáta klifra í klifurturninum, sigla á Úlfljótsvatni, strengja boga í bogfimi, hoppa í hoppukastala og spjalla saman. Frábær dagur á Úlfljótsvatni með skemmtilegum skátum.



Sumarskátastarf fyrir dróttskáta snýr aftur!

Skátasveitin DS. Ramus mun starfa í sumar á höfuðborgarsvæðinu og er öllum dróttskátum velkomið að taka þátt. Krakkar sem ekki hafa verið í skátunum eru einnig velkomin að koma og vera með í sumar. Skátafundir munu fara fram víðsvegar um höfuðborgarsvæðið milli 17:30 og 19:30 á þriðjudögum og fimmtudögum frá og með 20. júní til 8. ágúst.
Starfið byggist að mestu á flokkastarfi og gefst skátunum færi á að skapa sín eigin sumarævintýr með öðrum jafningjum á ýmsum útivistarsvæðum á höfuðborgarsvæðinu og þar í kring. Þeir skátar sem ekki skrá sig með flokk munu fá aðstoð við að finna flokk og sem hentar þeim.
Fyrstu fundir munu fara fram á Klambratúni en mæting er við Kjarvalsstaði klukkan 17:30 á fyrsta fundinn þann 20. júní.
Til að taka þátt þarf að skrá sig inn á Abler og kostar 3000 kr. fyrir hvern skáta að taka þátt í allt sumar. Dróttskátar sem vegna ferðalaga eða annars komast ekki á alla fundi, eru engu að síður hvött til að taka þátt.
Mikilvægt er síðan að fylgjast vel með upplýsingum á Sportabler. Einnig þarf að láta vita fyrir hvern fund hvort skáti mætir eða ekki. Ef lágmarksmæting (4 skátar) næst ekki á fund fyrir hádegi sama dag fellur fundurinn þann daginn niður.
Skátakveðjur og hlökkum til að sjá sem flest í sumar,
Sveitarforingjar Ds. Ramus.

