Kveðjukaffi í Skátamiðstöðinni

Síðastliðinn föstudag var haldin hugguleg kveðjustund þar sem þremur skátum voru þökkuðum vel unnin störf í þágu skátahreyfingarinnar. Þau Helga Þórey Júlíudóttir framkvæmdastjóri og Halldór Valberg Skúlason erindreki hafa nú hætt störfum fyrir Skátamiðstöðina en munu starfa áfram í sínum skátafélögum af krafti nú sem fyrr. Við færum þeim bestu þakkir fyrir sín störf síðastliðið ár.

Marta Magnúsdóttir sem lét af störfum sem skátahöfðingi í apríl síðastliðinn fékk afhentan silfurúlf til eignar líkt og hefð er fyrir fráfarandi skátahöfðingja að viðstöddu starfsfólki BÍS, stjórn og Margréti Tómasdóttur fyrrum skátahöfðinga. Marta var skátahöfðingi og formaður stjórnar frá 2017-2022. Hún var yngsti kjörni skátahöfðingi í sögunni þá 23 ára og má því segja að hún hafi brotið blað í átt að auknu ungmennalýðræði hreyfingarinnar.


Samræmd viðbragðsáætlun lítur dagsins ljós

Föstudaginn 5. nóvember kynnti Sigurbjörg Sigurpálsdóttir, samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs, samræmda viðbragðsáætlun fyrir íþrótta- og æskulýðsstarf. Um er að ræða leiðbeinandi áætlun til að styðja þau sem standa fyrir slíkri starfsemi þegar upp koma atvik eða áföll í félagsstarfinu. Viðbragðsáætlunin tekur við af þeirri sem Æskulýðsvettvangurinn setti sér að fylgja árið 2018 og byggir ofan á þá áætlun.

„Við erum að stuðla að bættu öryggi, erum að vinna gegn ofbeldi og mismunun og erum að sýna ábyrgð okkar gagnvart samfélaginu. Þessi sameiginlega áætlun gerir það að verkum að öll félög geta notið leiðsagnar og stuðnings í glímunni við þau mál sem koma upp,‟ segir Sigurbjörg Sigurpálsdóttir, samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs.

Viðstödd kynninguna voru fulltrúar þeirra félaga sem komu að gerð viðbragðsáætlunarinnar, Ásmundur Einar Daðason, barna- og menntamálaráðherra, sérfræðingar ráðuneytisins ásamt þeim Lárusi Blöndal, forseta ÍSÍ, skátahöfðingjanum Hörpu Ósk Valgeirsdóttur og Jóhanni Steinari Ingimundarsyni, formanni UMFÍ.

Margsannað mikilvægi viðbragðsáætlunar

Skátarnir hófu vinnu að viðbragðsáætlun árið 2010 og kom fyrsta útgáfa hennar út 2011. Hún var uppfærð tvisvar, 2013 og 2015, en árið 2018 var hún bæði uppfærð og tekin upp á víðari vettvangi Æskulýðsvettvangsins  sem sú áætlun sem þau samtök settu sér að fylgja í þeim málum sem hún náði til. Það var á stefnu að sú áætlun yrði endurskoðuð og uppfærð árið 2020 en um sama leiti nálgaðist embætti samskiptaráðgjafa samtökin um að taka þátt í að gera samræmda áætlun og var því átaki tekið fagnandi. Enda hafa skátarnir ásamt samtökunum sem mynda Æskulýðsvettvanginn löngum talað af reynslu fyrir mikilvægi þess að hafa til staðar viðbragðsáætlun sem tryggir fagleg og samkvæm viðbrögð í hinum ýmsu atvikum óháð því hver á í hlut og á hvaða vettvangi atvikið verður.

Viðbragðsáætlunin byggir því ofan á þær góðu áætlanir sem voru til fyrir. Í henni er því að finna hvernig félög bregðist við ofbeldi af nokkru tagi, agabrotum, slysum, sjúkdómum, málum sem ber að tilkynna barnavernd og ýmsu sem áður var að finna í áætluninni en nú af enn meiri nákvæmni. En nú er þar líka að ýmsa nýja kafla um hvernig félög búa til öruggt umhverfi m.t.t. inngildingar, hinseginleika og fjölmenningar ásamt viðbrögðum við fordómum í félagsstarfi. Þá er einnig að finna nýjan kafla um andlega líðan og viðbrögð við atvikum sem geta komið upp tengt því.

„Þessi áætlun telur til flestra þeirra atvika sem við teljum að geti komið upp í íþrótta- og æskulýðsstarfi,‟ sagði Sigurbjörg og taldi upp sem dæmi handleggsbrot á æfingu, barnaverndartilkynningu sem þurfi að senda út, kynferðisbrot eða annað sem getur komið upp í starfi íþrótta- og æskulýðsfélaga.

„Þarna eru leiðbeiningar sem leiða félögin áfram. Stuðningur við það er svo hjá samskiptaráðgjafa,‟ bætti Sigurbjörg við og hvatti forráðafólk í öllum íþrótta og æskulýðsfélögum landsins til að sækja viðbragðsáætlunina, birta hana á heimasíðum sínum eða setja hlekki á miðla.

„Ekki síst þarf að kynna hana fyrir sínu starfsfólki, stjórnum, sjálfboðaliðum, þátttakendum og forsjáraðilum og bara öllum sem þetta við kemur.“

Sögulegt samstarf!

Vinna að viðbragðsáætluninni hefur staðið yfir í tvö ár, en stuttu eftir að embætti samskiptaráðgjafa var sett á fót var leitað til hagaðila á vettvangi íþrótta- og æskulýðsstarfs um að koma að þessari vinnu. Að borðinu komu samtökin sem mynda Æskulýðsvettvanginn þ.e. Bandalag íslenskra skáta, KFUM/KFUK, Landsbjörg, Ungmennafélag Íslands ásamt íþróttabandalagi Reykjavíkur og Íþrótta- og ólympíusamband Íslands. Sigurgeir B. Þórisson erindreki BÍS sat í vinnuhópnum fyrir hönd skátanna.

Innleiðingarstarf framundan og áframhaldandi framþróun

Bandalag íslenskra skáta fer nú af stað með innleiðingu nýrrar áætlunar, það mun fela í sér kynningar á innihaldi nýrrar áætlunar ásamt þjálfunar í notkun hennar á foringjanámskeiðum BÍS og á Skátaþingi 2023.

Reynslan hefur líka sýnt að vinnu sem þessari er aldrei lokið að fullu. Það er mikilvægt að hafa áætlanir og að starfa eftir þeim en síðan þarf að rýna í reynsluna af þeim viðbrögðum og nota hana til að gera verkfærin og ferlana enn betri til framtíðar.

Nálgast viðbragðsáætlun

Sækja: Viðbragðsáætlun Íþrótta- og æskulýðsstarfs


Hátíðarkvöldvaka 2. nóvember

Hátíðarkvöldvaka 2. nóvember

Hróp og söngur dundu um samkomusal Ráðhúss Reykjavíkur þann 2. nóvember síðastliðinn þegar kátir skátar á öllum aldri komu saman til að fagna 110 árum frá upphafi skátastarfs á Íslandi  og 100 árum frá upphafi kvennskátastarfs á Íslandi.

Skátasamband Reykjavíkur ásamt Bandalagi íslenskra skáta héldu utan um hátíðarkvöldvöku í tilefnis tímamótanna. Skátar komu víða að á eigin vegum eða með sínu félagi.   Skátahöfðingi setti kvöldvökuna og Helena Sif Gunnarsdóttir fulltrúi 100 ára afmælisnefndar kvennskáta kynnti upphaf kvennskátastarfs fyrir kvöldvökugestum.  Dróttskátar frá skátafélaginu Hraunbúum stigu á stokk með tjald skemmtiatriði og skátaflokkurinn Hrefnurnar komu með eitt gamalt og gott skemmtiatriði um hann lata Gvend.  Að lokinni kvöldvöku var boðið upp á kakó og kex að skáta sið og rabbað var um skemmtilegar minningar úr starfinu.

Hægt er að nálgast upptöku kvöldvökunnar hér:

Sérstakar þakkir fá kvöldvökustjórarnir Agnes, Gunnhildur Ósk, Magnea og Sunna Dís. Undirleikararnir Eðvald Einar, Guðmundur Páls, Harpa Ósk og Sigurður Viktor.
Undirleikarar í rólegu lögunum Ragnheiður Silja og Védís
Hljóð og mynd: Haukur Harðarson (Hljóðx)


Kröftugar konur Íslandssögunnar þema Fálkaskátadagasinns í ár

Sunnudaginn 6.nóvember tóku um 80 vaskir 10-12 ára skátar þátt í fálkaskátadeginum sem að þessu sinni var tileinkaður 100 ára afmæli kvennskátastarfs.  Skátafélagið Mosverjar í Mosfellsbæ voru umsjónarfélag dagsins og settu upp 12 spennandi verkefnapósta þar sem varpað var ljósi á konur sem hafa skarað fram úr á sínu sviði á Íslandi allt frá Hallgerði Langbrók til Vigdísar Finnbogadóttur og Annie Mist.

Dagskráin hófst á miðbæjartorgi Mosfellsbæjar þar sem skátafélög mættu með vel búna skáta enda veðrið nokkuð kalt.  Hópurinn fékk kynningu á lífi og störfum Lady Olive Baden-Powell og upphafi skátahreyfingarinnar.

Dagskrárpóstum hafði verið dreift um bæinn og þurfti hver flokkur að velja sér sína leið.  Ratleikurinn gekk út á að stofnandi kvennskátastarfs í heiminum Lady Baden-Powell væri að safna saman kröftugum íslensku konunum í skátaflokkinn sinn og þurftu flokkarnir að takast á við áskoranir í nafni þekkra kvenna.  Til dæmis þurftu þau að draga einn stærsta björgunarsveitarbíl landsins í nafni Annie Mist og búa til grímu úr náttúrulegum efnum í anda Bjarkar Guðmundsdóttur.  Auk þess voru verkefni í ætt við kassaklifur, baka pönnukökur á kókdós og semja skátalag.

Í lok dags hópuðust flokkarnir aftur saman á miðbæjartorginu þar sem heitt kakó beið þeirra og farið varið í nokkra leiki áður en farið var heimleiðis.

 


Privacy Preference Center