Fyrsti útivistarskáli Íslands -Væringjaskálinn 100 ára.

Fyrsti útivistarskáli Íslands -Væringjaskálinn 100 ára.

Afmælisathöfn í Árbæjarsafni, sunnudaginn 29. ágúst 2021 kl: 13:00
á vegum Bandalags íslenskra skáta og Skátasambands Reykjavíkur í samstarfi við Árbæjarsafn.

Allir velkomnir

Dagskrá:
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri býður gesti velkomna
Upphafsorð, gestir boðnir velkomnir: Ævar Aðalsteinsson.
Ávarp forseta Íslands hr. Guðna Jóhannessonar, verndara skátahreyfingarinnar.
Skátakórinn: Kórsöngur og skátasöngvar.
Sagan talar, Væringjaskáli – Lækjarbotnaskáli: Haukur Haraldsson.
Skátaþrautir og „skátaæfingar“. Umsjón: Skátafélögin.
Skátakakó í tjaldi. Umsjón: Bakhópur Endurfunda skáta.

Skálinn skoðaður og opinn almenningi.
Varðeldurinn tendraður og skátasöngvar hljóma.
Tjöldun og framkvæmd svæðis: SSR og BÍS.

SKÁTASTARF Í LÆKJARBOTNUM  –  VÆRINGJASKÁLI  –  100 ÁR
– – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – –

Það þótti all mikið þrekvirki fyrir 100 árum þegar Skátafélagið Væringjar í Reykjavík reisti sér veglegan útivistar- og íveruskála við Lækjarbotna austan Reykjavíkur. Væringjaskálinn var byggður af skátunum sjálfum í sjálfboðavinnu en undir stjórn trésmiða. Skálinn hleypti strax miklu lífi í skátastarfið og opnaði skátum nýjan vettvang til útivistar, rötunar og leikja í umhverfi sínu og gerði slíkt alla tíð þar til hann var fluttur í Árbæjarsafn árið 1962 en þá höfðu skátar reist sér nýjan og stærri skála í Lækjarbotnum. Í Árbæjarsafni stendur Væringjaskálinn enn, keikur og fallegur í umsjón safnsins, veglegur minnisvarði um fyrri reisn. Verður svo áfram, en skátastarfið heldur áfram á gamla staðnum, undir Selfjallinu við Lækjarbotna.

Skátahreyfingin vill nú í samvinnu við Árbæjarsafn minnast merkra tímamóta; – frumherja Væringja í Lækjarbotnum og alls skátastarfsins þar í heila öld, með sérstökum viðburði 29. ágúst n.k. við skálann í Árbæjarsafni.
Öllum skátum er boðið að vera viðstaddir, en aðgangur að Árbæjarsafni er ókeypis þennan dag fyrir þá skáta sem bera skátaklútinn við innganginn.
Forseti Íslands, verndari skátahreyfingarinnar og borgarstjórinn i Reykjavík munu heiðra samkomuna með nærveru sinni.  Viðburðurinn hefst kl.13, vinsamlega mætið tímanlega að skálanum.

Athugið að farið verður að gildandi samkomutakmörkunum vegna sóttvarna.


Breytingar hjá Skátamiðstöðinni

Breytingar hjá Skátamiðstöðinni

Vegna aukinna umsvifa Grænna skáta undanfarin ár mun Kristinn Ólafsson sem síðastliðin 4 ár hefur sinnt framkvæmdastjórastöðu BÍS og allra dótturfélaga þess snúa sér alfarið að Grænum skátum og Skátabúðinni.

Kristni og félögum í Grænum skátum hefur tekist að efla starfsemi Grænna skáta töluvert og á undanförnum  fjórum árum hefur fyrirtækið vaxið úr því að vera með 6 starfsmenn í 25 starfsmenn. Félagið er orðið eitt stærsta þjónustufyrirtæki á landinu þegar kemur að söfnun endurvinnanlegra umbúða frá fyrirtækjum og söfnunargámum og jafnframt einn stærsti vinnustaður landsins fyrir fólk með skerta starfsgetu.

Við þökkum Kristni fyrir það yfirgripsmikla starf sem hann hefur unnið í þágu BÍS og hlökkum til að vinna með honum áfram í Grænum skátum.

Stjórn BÍS mun á næstu dögum auglýsa eftir nýjum framkvæmdastjóra BÍS auk þess sem skipulag skátamiðstöðvanna í Hraunbæ og á Úlfljótsvatni verður endurskoðað í ljósi þess að ekki verður lengur einn framkvæmdastjóri yfir öllum einingum BÍS.

Stjórn BÍS vill með þessum breytingum styrkja grunnstoðir skátastarfs með aukinni áherslu skátamiðstöðvarinnar á dagskrá, fræðslu og stuðningi við skátafélögin. Þegar nánari útfærsla verður tilbúin í samstarfi með nýjum framkvæmdastjóra mun stjórn boða til félagsforingjafundar til kynningar.

Með skátakveðju,

Stjórn BÍS

Marta, Harpa, Jón Halldór, Björk, Laddi, Sævar og Huldar


Privacy Preference Center