Kyntu heitapottinn með eldi og gistu í tjöldum
Vetrarmót Reykjavíkurskáta var haldið í sjötta sinn um liðna helgi á Úlfljótsvatni og að þessu sinni tóku 170 skátar úr Reykjavík þátt í mótinu. 130 sem þátttakendur í fjölbreyttri dagskrá og meira en 40 sem sjálfboðaliðar fylgdu ungu skátunum í dagskrá, sinntu matseld og héldu uppi dagskrá helgarinnar.
„Við viljum fyrst og fremst að kenna ungum skátum að takast á við fjölbreyttar áskoranir að vetrarlagi og að efla samstarf milli skátafélaganna í Reykjavík,“ segir Jón Andri Helgason hjá Skátasambandi Reykjavíkur.
Dagskránni var skipt eftir aldursstigum skátastarfsins. Dagskrá yngstu skátanna á mótinu fór að mestu fram í kringum skátaskálana á svæðinu þar sem þau kepptu við tímann og hvort annað í æsispennandi stórleikjum. Eldri skátarnir voru síðan í hinum enda skálabyggðarinnar þar sem þau fóru meðal annars í vetrargöngu í snjónum út af svæðinu. Þau elstu á mótinu unnu síðan saman að því að smíða heitan pott sem hægt væri að hita upp með varðeldi, þegar sólin var sest og verulega fór að kólna gátu þau því notið stjörnuhimins í notalegu baði.
Skátaíþróttir á Ólympíuári
Í tilefni Ólympíuleikanna í sumar voru þeir notaðir sem þema mótsins, en hluta af dagskránni var skipt í sumar-, vetrar- forn- og skátaólympíuleika. Þar reyndu skátarnir á sig í klifri og bogfimi, kepptu í snjóðsleðaakstri, pokahlaupi og folfdiskakasti ásamt því að fara í hefðbundnari skátadagskrá þar sem þau lærðu góða siði í varðeldagerð.

En yfir helgina voru líka ýmsir aðrir dagskrárliðir.
Dróttskátarnir komust t.d. á föstudagskvöldinu að því að farangur þeirra hefði orðið dagskránni að bráð. Í snjó og kolniðamyrkri þurftu þau að vinna saman og ráða úr ýmsum þrautum til finn að svefnpoka sína og hlý föt.
Vetrarmótið er skipulagt í sameiningu af öllum skátafélögunum átta úr Reykjavík og hefur fest sig í sessi og er beðið með eftirvæntingu á hverju ári, að sögn Jóns Andra.
Ólöf Jónasdóttir, nýr mótstjóri Landsmóts skáta 2020

Ólöf Jónasdóttir tók nýlega við sem mótstjóri Landsmóts skáta 2020. Ólöf hefur þekkt skátastarfið lengi vel en hún starfaði eitt ár í Kvenskátafélaginu Valkyrjunni þegar hún var 12 ára. Hún tók svo aftur upp þráðinn 2011 þegar eldri dóttir hennar byrjaði í skátunum en þá í Þrándheimi í Noregi. Í dag starfa þær báðar með Klakki á Akureyri þar sem Ólöf er rekka- og róverskátaforingi. Auk þess er Ólöf verkefnastjóri tvítyngismála í leikskólanum Iðavelli á Akureyri.
Kom Klakki til Noregs
Ólöf fór á sitt fyrsta stórmót árið 2013, en það var landsmót norskra skáta og sá Ólöf um að skipuleggja dagskrá fyrir börn foringja og um gestamóttökuna. Hún tók svo þátt á landsmótum hér á landi árin 2014 og 2016. Hún hélt svo aftur til Noregs á landsmótið árið 2017 en þá fékk hún flottan hóp úr Klakki með sér.

Mikilvægt að hafa gott teymi og upplýsingaflæði
“Mér finnst alltaf svo frábært að upplifa stemninguna og sjá samstarfið hjá skátunum á mótum”, segir Ólöf, aðspurð um hvað heilli hana við landsmót. Mikil vinna er fólgin í því að skipuleggja Landsmót skáta og þarf öflugt teymi til þess að hlutirnir gangi upp að sögn Ólafar. “Ég kem í verkefnið um áramótin og tek við góðu búi ef svo má segja. Undirbúningurinn gengur mjög vel og ég hlakka til að starfa með mótstjórninni fram yfir Landsmót. Þetta væri hins vegar ekki hægt án allra þeirra starfsmanna og sjálfboðaliða sem taka þátt í þessu með okkur - þeirra framlag er ómetanlegt!” Ólöf minnir á mikilvægi þess að hafa gott teymi, öflugan starfsmannahóp og gott upplýsingaflæði til að svona stórmót verði að veruleika og virðist ekki vera skortur á góðu fólki í kringum Ólöfu að vinnu Landsmótsins.
Frábær aðstaða og nálægð við Akureyri
Ólöf hlakkar mikið til að sjá Landsmót skáta verða að veruleika og ekki skemmir fyrir hvað aðstaðan á Hömrum er frábær og nálægðin við Akureyri eykur valmöguleika á dagskránni mikið. Landsmót er stærsti reglulegi viðburðurinn á vegum Bandalags íslenskra skáta og fer fram á Hömrum í þetta skiptið. Ólöf hvetur alla skáta til að sameinast á landsmóti - nú þarf bara hressa skáta og frábærar fararstjórnir og foringja til að mæta og hafa gaman á Landsmóti skáta 2020. “Sjáumst á Landsmóti skáta á Hömrum!”


