16 rekkaskátar sæmdir forsetamerkinu

Mynd: Andrea Dagbjört

Skemmtileg og óhefðbundin fyrsta athöfn nýs forseta

16 ungir skátar hlutu forsetamerkið laugardaginn síðastliðinn , 29. mars, við skemmtilega og einlæga athöfn í Bessastaðastofu . Er þetta í fyrsta sinn sem Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, afhendir forsetamerkið en hún er verndari skátahreyfingarinnar á Íslandi. Því afhenti Harpa Ósk Valgeirsdóttir, skátahöfðingi, Höllu gullmerki Bandalags íslenskra skáta en í þakkarorðum Hörpu sagði hún það mikinn heiður fyrir skáta að Halla hafi fallist á það að vera verndari skátahreyfingarinnar og þannig viðhalda þeirri hefð sem af­hend­ing for­seta­merk­is­ins hef­ur verið í skát­a­starf­inu. Í athöfninni fluttu tvö úr hópi forsetamerkishafa, Alma Sól Pétursdóttir og Viktor Nói Bergs stutta hugvekju þar sem þau stikluðu á stóru gegnum vegferð sína að forsetamerkinu. Hugvekjuna má finna hér að neðan.

Forsetamerkið er veitt rekkaskátum, 16-18 ára, sem hafa valið að vinna að merkinu samhliða starfi sínu. Í forsetamerkinu sameinast gildi skátahreyfingunnar um persónulegar framfarir einstaklingsins og þess að gera sitt besta samfélaginu til heilla. Vegferðin að forsetamerkinu er 2-3 ára verkefni sem hvetur skátanna til persónulegs vaxtar í gegnum 20 fjölbreytt verkefni.

Auk þess þurfa skátarnir að sækja 5 daga alþjóðlegt skátamót, ferðast 40 kílómetra á eigin afli, sækja helgarnámskeið í leiðtogaþjálfun og 12 klukkustunda skyndihjálparnámskeið. Að lokum velja skátarnir sér 2 langtímaverkefni sem krefst virkrar þátttöku þeirra yfir 3-12 mánaða tímabil, dæmi um þetta er að vera foringi yngri skáta, taka þátt í skipulagi stórs skátamóts, sitja í stjórn félags, ráði eða vinnuhóp, að taka að sér viðhald skátaheimilis eða skátaskála og margt fleira sem forsetismerkishafar hafa látið sér detta í hug. Hér má lesa nánar um forsetamerkið.

 

Forsetamerkishafar Viktor Nói Bergs og Alma Sól Pétursdóttir fóru með hugvekju. Mynd: Andrea Dagbjört

 

Hugvekja nýrra forsetamerkishafa
Alma Sól Pétursdóttir og Viktor Nói Bergs

Alma: Frú forseti, ágætu skátar og kæru aðstandendur.

Í dag rennur upp skemmtilegur og merkilegur dagur í skátalífi okkar þar sem við erum hér til að taka við viðurkenningu fyrir að hafa stundað þróttmikið skátastarf og leyst samvisku- samlegan lista af verkefnum. Venjulega er þessi athöfn haldin í Bessastaðakirkju en í dag fáum við að standa hérna í stofu forsetans. Sumir munu reyna telja ykkur trú um að þetta sé bara neyðarráðstöfun, en ég er viss um að forestanum þyki bara svo vænt um okkur að hún vilji hafa okkur í stofunni sinni.

Verkefni forsetaembættisins eru fjölbreytt og margvísleg, en ég held að við getum öll verið sammála um að það mikilvægasta sé að vera verndari Skátahreyfingarinnar.

Litla bláa bókin sem hefur fylgt okkur í vasanum alla þessa ferð, eins og bakpoki fyrir hugmyndir og minningar, er eflaust fremur krumpuð og sjúskuð eftir fjögurra ára ferð. Nema náttúrulega hjá þeim sem skrifuðu allt í bókina daginn fyrir skil. Þær bækur eru með mjög sléttar og fínar blaðsíður. Það verður gaman að geta flett í gegnum bókina og að geta munað eftir öllum spennandi (og skrítnu) hlutunum sem maður hefur gert í nafni skátanna.

Viktor: Þetta er tíminn þar sem við fáum að prófa sjálf. Leggja í ferðalög eins okkar liðs sem við skipuleggjum kannski með öðrum jafnöldrum. Það sem er pínu frábrugðið mínu ferli frá öðrum er að ég vann stóran part af mínu úti í Danmörku. Ferðalagið sem ég lærði mest af var þegar við héldum út í skóg og ætluðum að kveikja saklausan eld sem endaði heldur betur ekki svoleiðis. Eldurinn hætti bara ekki að stækka og hann var orðin það stór að ég hringdi í Halldór, gamla skátaforingjann minn, í algjöru paniki að spurja hvað í andskotanum ég ætti að gera næst.

Alma: Ef þú hefðir sagt mér fyrir fjórum árum að ég myndi fara í fimm daga ferð sem væri plönuð aftan á kexpakka daginn eftir að við skipulögðum hana, eða hjólað 50 kílometra hefði ég líklega- dáið úr hjartaáfalli. Skipulagða litla ég hefði aldrei trúað því að ég gæti gert nokkuð án fyrirvara.

Viktor: Það er í þessum ferðalögunum sem maður skipuleggur sjálfur og sérstaklega þegar eitthvað fer úrskeiðis sem maður lærir mest, hvernig fór ferðin og hvað hefði mátt fara betur, við lærum að axla ábyrgð og standa á eigin fótum. En þessi ferð er auðvitað æfing í því að stíga út fyrir þægindaramman.

Alma: Fyrir mörg okkar er Skátahreyfingin griðastaður í hversdeginum. Vettvangur vináttu, þar sem við vinnum saman að því að efla okkur sem einstaklingar með því að gera okkar besta, samfélaginu til heilla.

Viktor: Hinsvegar væri ekkert af þessu hægt ef við værum ekki með þennan frábæra foringja hóp sem alltaf er hægt að leita til og verð ég að fá að þakka Halldóri Valberg fyrir að gefa mér fullt af ógleymanlegum minningum, og auðvitað fyrir að hjálpa mér að sauma merkin á skyrtuna mína í gærkvöldi. Það er nefnilega ótrúleg vinna sem fer í foringja starf og nú þekkjum við það flest sjálf, það er ótrúlega gefandi að fá að kenna litlu skátunum okkar það sem við höfum lært á skáta árunum okkar. Og eins og rannsóknir hafa sýnt fram á eru sjálfboðaliðar að meðaltali hamingjusamari en aðrir.

Alma: Og elsku foreldrar, takk fyrir þolinmæði ykkar gagnvart skrítnum verkefnum og unglingastælum.

Viktor: Þetta ferli hefur verið ótrúlega skemmtilegt og ef ekki skemmtilegasti tími lífs míns, en það er magnað hvað þetta getur gleymst hratt og þess vegna er svo einstakt að eiga þessa bók og getað rifjað upp allt þetta ferli.

Alma: Einhver gæti spurt: Hvernig í ósköpunum gerum við heiminn betri með því að ferðast 40 kílómetra undir eigin afli, eða ganga á jökli en með því að gera slíka hluti lærum við að vinna saman, setja okkur markmið og fylgja þeim eftir. Og auðvitað verður þetta pínulítil keppni. Og eins og allar keppnir sem skipta einhverju máli er þetta keppni við okkur sjálf. Sem við keppum samt í með aðstoð annara. Til þess að gera samfélagið okkar betra þurfum við að byrja á því að vinna í okkur sjálfum. Svo að við getum tekist á við áskoranir saman, og vinna til góðs.

Viktor: Að segja fólki að þú sért skáti getur verið erfitt. Fólk hefur mjög skýra steríótýpu teiknaða í hausnum sem eiga líklega uppruna sinn úr amerískum bíómyndum. Ofurskátinn sem bindir hnúta, tálgar spítur og hjálpar gömlum konum yfir götur. Þetta er ekki endilega staðalímynd sem að margir skátar tengja við í dag, en er jú að vissu leyti hluti af því sem að við gerum í skátastarfi, nema við gerum oft svo miklu meira. Í skátastarfi kynnist maður frábæru fólki og eignast vini til eilífðar. Vináttan er ástæðan fyrir því að við höldum áfram að mæta á fundi og bíðum spennt vikum saman eftir næsta viðburði. Ég er handviss um að flestum þætti mjög gaman í skátunum eða allavega eftir að þú fattar þennan aula húmor. Það sem ég elska við skátana er að ég fæ að vera ég sjálfur, það er enginn hér til þess að dæma einn né neinn og allir eru bara eins og þeir eru.

Í skátunum hef ég þroskast mikið en á sama tíma fengið að leika mér eins og barn. Það er svo mikilvægt að hætta aldrei að leika sér því fyrst þá nær aldurinn þér og þú verður gamall lúinn og fúll. Höldum áfram að leika okkur, höldum áfram að vera vinir. Því saman getum við gert heiminn að betri stað.

 

Forsetamerkishafar úr 6 félögum

Eftirfarandi rekkaskátar úr 6 skátafélögum hlutu forsetamerkið á Bessastöðum 29. mars 2025 og bættust í hóp 1462 forsetamerkishafa frá upphafi.

Úr Árbúum:
Jón Björn Richardsson Yeo

Úr Garðbúum:
Brynjar Ingi Ágústsson
Daníel Eiríksson
Tinna María Antonsdóttir

Úr Hraunbúum:
Brynhildur Þorbjörg Þórhallsdóttir
Guðni Hannesson
Gunnsteinn Hjalti Jónsson
Kjartan Ingólfsson
Sara Elísabet Jónsdóttir

Úr Vífli:
Arnar Freyr Hallgrímsson
Jóhann Thomasson Viderö

Úr Svönum:
Birta Dís Gunnarsdóttir
Viktor Nói Bergs

Úr Ægisbúum:
Alma Sól Pétursdóttir
Hildur Þórey Sigurbjörnsdóttir
Höfni Gylfason ( Rs. Snúði)

 

Mynd: Andrea Dagbjört