Tveggja vikna útivistarævintýri og áskorun fyrir ungt fólk á aldrinum 14-15 ára (fæddir 2004-2005). Crean vetraráskorun hefur verið haldin síðustu átta ár. Verkefnið hefur verið gríðar vel sótt og þátttakendur sammála um að það sé bæði spennandi og skemmtilegur viðburður.
Verkefnið er samstarfsverkefni BÍS og Scouting Ireland. Frá Írlandi koma allt að 20 skátar sem farið hafa í gegnum langt umsóknar- og matsferli. Frá BÍS allt að 20 þátttakendur. Markmið verkefnisins er að þátttakendur verði færir um að bjarga sér í vetrarferðum á fjöllum. Þeir læra undirstöðuatriði fjallaferða og vetrarferðamennsku. Meðal annars skyndihjálp á fjöllum, vetrarferðamennsku, rötun og kortalestur, GPS, næringarfræði ferðamannsins, skálahegðun og ferðareglur í hópferðum, veðurfræði á fjöllum, og ýmislegt annað sem talið er skipta máli. Verkefnið skiptist í vetrarferðir og verkefni unnin í frítíma.
Ferðirnar eru:
Í nóvember 2019 – helgi í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Inni og útiverkefni í vetrarferðamennsku.
Í janúar 2020 – helgi í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Gönguferð og verkefni í vetrarferðamennsku.
Vikan 14.-21. febrúar 2020 – Úlfljótsvatn og Hellisheiði. Verkefni og vetrarferð. Vikutími þar sem þátttakendur gætu þurft að taka frí í skóla.
Takmarkaður fjöldi þátttakenda kemst að í verkefninu. Umsóknir og umsagnir ráða úrslitum um hverjir eru teknir inn. Það er því mikilvægt að leggja mikið í umsóknina. Umsækjendur þurfa jafnframt að gera sér grein fyrir að ætlast er til 100% þátttöku bæði í ferðum og í verkefnavinnu.
Þátttakendur þurfa að mæta í allar ferðirnar. Auk ferðanna þurfa þátttakendur að vinna heimaverkefni í formi leiðarbóka. Verkefnin eru á sviði vetrarferðamennsku, sjálfskoðunar, markmiðasetninga og samfélagsvinnu. Vinna þarf öll verkefnin á tilsettum tíma til að geta haldið áfram í áskoruninni. Verkefnisstjórnin áskilur sér rétt til að enda þátttöku ef að þátttakendur standa ekki skil á verkefnum eða sýna að þeir hafa ekki getu eða vilja til að ljúka verkefninu.
Kostnaður við Vetraráskorun Crean er 50.000,- kr. á mann. Innifalið í því er allur matur í öllum ferðunum, gistingar og ferðir til og frá Skátamiðstöðinni. Þátttakendur þurfa sjálfir að koma sér í Hraunbæ 123 og heim aftur. Þátttakendur þurfa að hafa allan helsta búnað til vetrarferða s.s. góðan skjólfatnað, svefnpoka sem þolir vetrarveður, bakpoka og gönguskó. Ekki er nauðsynlegt að eiga klifurbúnað, ísaxir, brodda, skíði eða tjöld.