Neisti er helgarviðburður þar sem sjálfboðaliðar skátafélaga 16 ára og eldri fá tækifæri til að efla fjölbreytta færni sem þau geta nýtt í sínu starfi. Þetta helgarnámskeið er einstakt tækifæri til að þátttakendur að dýpka þekkingu sína og færni í nýjum djúpsmiðjum.
TÁKNRÆN UMGJÖRÐ
Við munum byrja helgina á að byggja kafbát sem mun gera okkur kleift að kafa djúpt ofan í viðfangsefni helgarinnar. Þátttakendur velja sér stöð til að vinna að innan kafbátsins og munum við vinna saman að því að viðhalda og reka kafbátinn til að betra okkur í starfi.
DAGSKRÁ
Dagskráin miðar að því að dýpka þekkingu og færni skáta, kveikja á skátagaldrinum og auka ævintýri í skátastarfi. Þannig er Neisti frábært tækifæri til persónulegra framfara fyrir alla skáta óháð aldri, hlutverki og fyrri reynslu.
Dagskráin verður með breyttu sniði á Neista að þessu sinni. Í stað þess að velja sér mismunandi smiðjur velja þau sér eina dagskrárleið (e. path). Á hverri leið fá þátttakendur leiðsögn og innblástur sem styrkir þau til starfa innan þess þema sem þau velja. Að auki fá þátttakendur tækifæri til þess að vinna saman að afurð sem þau geta nýtt í eigin skátastarfi og nýta til þess þau tól sem þau fá í fræðslunni.
Dagskrárleiðirnar eru:
Skátastarf fyrir fullorðna
- Þessi dagskrárleið mun fjalla um hvernig skapa má skemmtilegt og andlega sjálfbært starf fyrir fullorðna skáta, hvernig forðast má kulnun og viðhalda áhuga skáta í sjálfboðastarfi. Lögð verður áhersla á hvernig við tökumst á við erfið verkefni, stuðlum að andlegri vellíðan og fjölgum sjálfboðaliðum
Stjórnun skátafélaga
- Í þessari dagskrárleið verður farið yfir hvernig stjórnir skátafélaga geta rekið starfsemi sína á öruggan og árangursríkan hátt. Kafað verður djúpt ofan í skipulag stjórnar, fundarstarf, skjölun gagna, samskipti við BÍS og bæjarstofnanir og styrkjamál.
Útivist
- Útivist er hornsteinn í verkefnakistu sveitarforingjans. Í þessari dagskrárleið munu þátttakendur læra hvernig skipuleggja má örugga og krefjandi dagskrá, gera áhættumat og nýta tækifærin í kringum okkur í útivist. Farið verður djúpt ofan í skrefin frá undirbúningi til framkvæmdar og endurmats. Mikilvægi skyndihjálpar og viðbragðsáætlana verða einnig skoðuð.
Þúsundþjalasmiður
- Þessi dagskrárleið mun skoða hvernig skátafélög geta lengt líftíma búnaðar með réttri meðhöndlun og viðhaldi. Lögð verður áhersla á búnaðarskráningu, notkun verkfæra og virkjun baklandsins til stuðnings við starfið. Kafað verður djúpt ofan í hringrásarhagkerfið og sjálfbærni í garð búnaðar.
Dagskárgerð
- Fjallað verður um hvernig leikjavæðing og táknræn umgjörð getur gert skátastarfið meira spennandi og eftirminnilegra. Við munum skoða hvernig hægt er að nýta það sem til er í skátaheimilinu til að skapa spennandi dagskrá og virkja ímyndunaraflið. Þátttakendur munu einnig fá tækifæri til að vinna að dagskrárefni sem hægt er að nýta í eigin starfi.
VERÐ OG SKRÁNING
Verð fyrir Neista er 21.000 krónur og innifalið er matur, gisting, dagskrá og húllumhæ á Úlfljótsvatni.
Skráningu lýkur 6. janúar.
ATH! þátttakendur þurfa að koma sér sjálf á staðinn.
SKILMÁLAR
Með því að skrá skáta á Neista samþykkir þú eftirfarandi skilmála:
- Þátttakendur sem skrá sig á 0 krónur skuldbinda sig til að greiða fullt gjald ef í ljós kemur að félag hyggst ekki greiða fyrir þau.
- Staðfestingargjaldið, 10% af námskeiðsgjaldi og er það óafturkræft.
- Þátttakendur eru ekki sérstaklega slysatryggðir, ábyrgðartryggðir eða vátryggðir að öðru leyti af Bandalag íslenskra skáta (BÍS) í skátastarfi, bent er á að þessar tryggingar eru oft hluti af heimilis- og fjölskyldutryggingum og öðrum almannatryggingum forráðafólks.
- Meðferð persónugreinanlegra upplýsinga sem skráðar eru vegna þátttöku er í samræmi við samþykkta persónuverndarstefnu BÍS sem finna má hér (https://skatarnir.is/personuverndarstefna/).
- Bandalag íslenskra skáta áskilur sér rétt til að halda eftir hluta af gjaldi þátttakandi greiðir sem hér segir:
Ef hætt er við þátttöku 1 mánuði fyrir viðburð er staðfestingargjaldi haldið eftir.
Ef skátinn hættir við þátttöku 3 vikum fyrir viðburð, er 50% af gjaldi haldið eftir.
Ef skátinn hættir við þátttöku 14 dögum fyrir viðburð, er 75% af gjaldi haldið eftir.
Ef skátinn hættir við þátttöku þegar skemmra er til viðburðar en sem nemur 14 dögum verður endurgreiðsla engin.
- BÍS eða umsjónaraðili á þess vegum getur þurft að aflýsa viðburðum og mótum vegna gildra og óviðráðanlegra aðstæðna s.s. vegna náttúruhamfara, hryðjuverka, stríðs, heimsfaraldra o.fl. Við þessar aðstæður áskilur BÍS sér rétt til þess að endurgreiða ekki mótsgjaldið, þótt ávallt sé leitast eftir að hámarka endurgreiðslu til þátttakenda.
Auk ofangreindra skilmála gilda almennir skilmálar BÍS, sem má lesa hér.