Á Íslandi og í íþrótta- og æskulýðsfélögum landsins er fjöldi barna og unglinga hinsegin og það er mikilvægt að þau finni fyrir öryggi og vellíðan á sínum vettvangi. Þekking og fræðsla í hinsegin málum er grundvöllur fyrir því að draga úr fordómum og mismunun. Það skiptir máli fyrir þennan hóp að efla þekkingu, auka skilning á stöðu hinsegin fólks og að fagna fjölbreytileikanum.
Á námskeiðinu verður meðal annars farið yfir:
- Kyn-hugtökin fjögur (kynhneigð, kynvitund, kyneinkenni, kyntjáning)
- Birtingarmyndir hómó- og transfóbíu
- Hvað þarf að hafa í huga til að skapa öruggt rými fyrir þátttakendur sem tilheyra regnboganum
- Dæmisögur og umræðuæfingar
- Inngilding og fjölbreytileiki
Kennari námskeiðsins er Sólveig Rós Másdóttir (hún) sem er foreldrafræðari og uppeldisráðgjafi með M.A. í stjórnmálafræði og viðbótardiplómu í hagnýtum jafnréttisfræðum. Hún hefur starfað í fjölda ára við fræðslu um hinsegin mál, bæði á vettvangi Samtakanna ’78 og sjálfstætt, og farið bæði með fræðslu til unglinga, fagaðila, fyrirtækja, foreldra og fleiri.
Námskeiðið verður í sal Skátanna í Hraunbæ 123, 110 Reykjavík. Námskeiðið er opið öllum og aðgangur er frír.