Vel sótt foringjanámskeið í Búðardal
Helgina 1.-3. september stóð Leiðbeinendasveitin fyrir foringjanámskeiði í Búðardal en námskeiðið sóttu á fjórða tug sveitar- og aðstoðarsveitarforingja úr ýmsum skátafélögum.
Þema námskeiðsins var “Sjáðu tindinn” og alla helgina voru þátttakendur á leiðinni á tindinn; að sjálfu foringjahlutverkinu. Af nógu var að taka og í gegnum lausnaleitaræfingar, fyrirlestra, umræðuhópa og leiki lærðu foringjarnir um hlutverk skátaforingja, ólíka leiðtogastíla, skátaaðferðina, flokkakerfið, dagskrárrammann, markmiðaflokkana, PGM, ÆSKA, hvatakerfið og vígslugrunninn. Þá lærðu foringjarnir um hegðun barna, öryggi í skátastarfi, Æskulýðsvettvanginn og viðbragðsáætlun íþrótta- og æskulýðsstarfs. Þátttakendur störfuðu í flokkum á námskeiðinu og á hverjum degi námskeiðsins var haldinn sveitarráðsfundur þar sem flokks- og aðstoðarflokksforingjar hittust og komu á framfæri skilaboðum frá sínum flokkum.
Þá má ekki gleymast að söng- og leiklistarhæfileikar þátttakenda fengu heldur betur að njóta sín á námskeiðinu, því á laugardagskvöldinu var haldin kröftug kvöldvaka með framúrskarandi skemmtiatriðum frá öllum flokkum, svo að eftir var tekið!
Afar fjölbreyttur hópur foringja sótti námskeiðið; þau voru ýmist að stíga sín fyrstu skref sem skátaforingjar eða búin að starfa í lengri tíma, enda er mikilvægt og gott fyrir foringja að sækja sér þjálfun og fræðslu reglulega, sérstaklega núna þegar ýmis ný tól hafa bæst í verkfærakistu foringa: könnuðamerkin, hæða- og stikumerkin og markmiðaflokkarnir, svo fátt eitt sé nefnt.
Á námskeiðinu öllu spunnust sérlega góðar umræður um allt það er viðkemur foringjastarfinu og foringjarnir skiptust á reynslusögum og hugmyndum og veittu hver öðrum innblástur. Eftir göngu helgarinnar á tindinn héldu skátaforingjarnir heim á leið með gott veganesti í farteskinu, tilbúnir fyrir foringjastörf starfsársins!