Niðurstöður frá aðalfundi Æskulýðsvettvangsins

Tvær ákvarðanir voru teknar á aðalfundi Æskulýðsvettvangsins þann 1. júní sem mikilvægt er að upplýsa forystu skátahreyfingarinnar um.

Fulltrúar Bandalags íslenskra skáta, KFUM/K, Landsbjargar og UMFÍ á aðalfundi Æskulýðsvettvangsins 2023

Breytingar á siðarreglum

Siðareglur Æskulýðsvettvangsins tóku breytingum í júní síðastliðnum en samkvæmt 2. grein laga BÍS eru siðareglur Æskulýðsvettvangsins þær siðareglur sem gilda fyrir allt starfsfólk og sjálfboðaliða Skátanna.

Mikilvægt er fyrir öll sem starfa með börnum og ungmennum að vera meðvituð um skyldur sínar og ábyrgð. Siðareglur þessar snúa annars vegar að samskiptum og hins vegar að rekstri og ábyrgð. Gerist aðili brotlegur við reglurnar er heimilt að vísa honum úr starfi, tímabundið eða að fullu.

Eins og forysta skátahreyfingarinnar kann að muna eftir voru siðareglurnar uppfærðar árið 2022 en þær breytingar byggðu á tillögu sem Skátarnir lögðu fram á aðalfundi Æskulýðsvettvangsins, og voru í framhaldi unnar áfram af ráðgjafahópi Æskulýðsvettvangsins og loks samþykktar í stjórn ÆV. Hægt er að sjá frétt um þær breytingar frá síðasta ári hér.

Eftir að þessar tillögur höfðu verið unnar í samvinnu allra samtakanna á Æskulýðsvettvanginum og samþykktar á öllum skipulagsstigum þess lagðist stjórn UMFÍ hins vegar gegn einni breytingunni og taldi þessar breytingar hafa verið gerðar án samþykkis samtakanna, þótt að fulltrúar UMFÍ hefðu setið aðalfundinn í húsakynnum UMFÍ, starfsmaður UMFÍ sitji í ráðgjafahópnum og framkvæmdastýra UMFÍ sitji í stjórn ÆV en eins og áður hefur verið sagt voru þessar tillögur unnar og samþykktar á öllum þessum stigum. Á aðalfundi 2023 lagði stjórn ÆV fram þá tillögu að fella síðustu setninguna út úr eftirfarandi ákvæði til að skapa sátt innan allra samtaka um siðareglurnar:

17. Forðast skal kynferðislegt daður, orðbragð eða samband við sjálfráða þátttakendur, samstarfsfólk eða aðra aðila sem ábyrgðaraðilar gegna valdastöðu gagnvart. Komi til gagnkvæms ástarsambands er það á ábyrgð þess sem gegnir valdastöðu að gera stjórnendum sínum kunnugt um það.

Fulltrúi skátanna á fundinum mældi gegn tillögunni og minnti á að auk alls samráðsins og að fulltrúar UMFÍ hefðu samþykkt tillöguna á öllum vettvöngum sem hún var borin upp þá væri þetta ákvæði heldur ekki úr lausu lofti gripið. Það byggði á tillögu sem innfluttur sérfræðingur Håvard Øvegård kynnti sem gagnlegt verkfæri til að bregðast við tælingu og kynferðislegu ofbeldi á grundvelli valdamisræmis á ráðstefnu sem UMFÍ og ÍSÍ stóðu að samhliða Reykjavíkurleikunum 2019 undir yfirskriftinni "Eru íþróttir leikvangur ofbeldis". Upptöku frá kynningu hans má horfa á hér en hann talar um sambærilegt ákvæði á 19. mínútu og 40. sekúndu í myndbandinu. Þá væri líka furðulegt að UMFÍ legðist gegn ákvæðinu þegar mörg aðildarfélög þeirra í Reykjavík tilheyra einnig Íþróttabandalagi Reykjavíkur sem lét ekki kyrrt við sitja að flytja Håvard Øvegård inn á ráðstefnu heldur fór að tillögum hans og inleiddi álíka ákvæði í í sérstakar siðareglur um kynferðislegt ofbeldi og áreitni sem má finna hér.

Håvard Øvegård kynnir hvernig samtök geti beitt umgjörð sem forvörnum og verkfærum gegn ofbeldi á ráðstefnu á vegum ÍSÍ og UMFÍ

Aðalfundur ÆV samþykkti engu að síður að fella út ákvæðið en 2 af 3 fulltrúum skátanna kusu gegn því en 1 fulltrúi landsbjargar og 1 fulltrúi KFUM/K sátu hjá við atkvæðagreiðslu. Ákvæðið er því nú svohljóðandi:

17. Forðast skal kynferðislegt daður, orðbragð eða samband við sjálfráða þátttakendur, samstarfsfólk eða aðra aðila sem ábyrgðaraðilar gegna valdastöðu gagnvart.

Staðfesting viðbragðsáætlunar samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs

Ný viðbragðsáætlun var gefin út í nóvember 2022 en grunnurinn að henni byggir á fyrri viðbragðsáætlun Æskulýðsvettvangsins en fulltrúar ráðgjafahópsins sátu í vinnuhóp um nýja viðbragðsáætlun auk samskiptaráðgjafa, starfsfólki Íþróttabandalags Reykjavíkur og Íþróttasambandi Íslands.

Þrátt fyrir vilayfirlýsingu í verki og þrátt fyrir að lógó samtaknna væru á viðbragðsáætluninni þótti skátunum mikilvægt að aðalfundur staðfesti formlega að öll félög Æskulýðsvettvangsins störfuðu eftir viðbragðsáætlun samskiptaráðgjafa. Var tillagan samþykkt samhljóða.

Siðareglur og viðbragðsáætlun áfram á sínum stað

Eftir sem áður eru siðareglur í gildandi útgáfu og viðbragðsáætlunin alltaf að finna á sérstöku vefsvæði um Æskulýðsvettvanginn.


Breytingar á siðareglum Æskulýðsvettvangsins

Siðareglur Æskulýðsvettvangsins tóku breytingum í júní síðastliðnum en samkvæmt 2. grein laga BÍS eru siðareglur Æskulýðsvettvangsins þær siðareglur sem gilda fyrir allt starfsfólk og sjálfboðaliða Skátanna.

Mikilvægt er fyrir öll sem starfa með börnum og ungmennum að vera meðvituð um skyldur sínar og ábyrgð. Siðareglur þessar snúa annars vegar að samskiptum og hins vegar að rekstri og ábyrgð. Gerist aðili brotlegur við reglurnar er heimilt að vísa honum úr starfi, tímabundið eða að fullu.

Breytingarnar byggja á breytingartillögu sem Skátarnir lögðu fram á aðalfundi Æskulýðsvettvangsins í apríl síðastliðnum og voru í framhaldi unnar af ráðgjafahópi Æskulýðsvettvangsins. Ráðgjafahópinn skipa aðilar frá öllum aðildarfélögunum; Skátarnir, Landsbjörg, KFUM og KFUK og UMFÍ.

Helstu breytingar voru eftirfarandi:

Breytingar sem snúa að samskiptum:

Þessum reglum var bætt við

  1. Starfsfólk, stjórnarfólk, sjálfboðaliðar eða aðrir sem gegna valdastöðum þurfa að vera meðvitaðir um ábyrgð sína og þann aðstöðumun sem staða þeirra skapar þeim.
  2. Hvers kyns kynferðislegt daður, orðbragð eða samneyti aðila í ábyrgðarstöðu gagnvart þátttakanda sem er yngri en 18 ára er með öllu óheimilt.
  3. Forðast skal kynferðislegt daður, orðbragð eða samband við sjálfráða þátttakendur, samstarfsfólk eða aðra aðila sem ábyrgðaraðilar gegna valdastöðu gagnvart. Komi til gagnkvæms ástarsambands er það á ábyrgð þess sem gegnir valdastöðu að gera stjórnendum sínum kunnugt um það.

Regla sem var áður númer 8, og fjallar um skyldu ábyrgðaraðila að fá leyfi fyrir öflun upplýsinga úr sakaskrá, var fjarlægð þar sem hún er í hluta reglanna sem fjalla um rekstur og ábyrgð og á frekar heima þar.

Reglu númer 14 var breytt og er nú:

Starfsfólk og sjálfboðaliðar skulu sýna ábyrgð í rafrænum samskiptum og netnotkun. Ekki skal vera í rafrænum samskiptum við þátttakendur undir 18 ára aldri án vitneskju forsjáraðila þeirra og aðeins í tengslum við þátttöku þeirra í starfi félagsins. Öll samskipti skulu fara fram í gegnum viðurkenndar samskiptaleiðir.

Markmiðið með þessari breytingu er að vekja athygli á því að samskiptaleiðir í félögum sem okkar þurfa að vera skýrar og eiga sér stað með þeim hætti að við getum svarað fyrir þær. Með því að taka fram að samskipti eigi sér stað í gegnum viðurkenndar samskiptaleiðir er einnig betur hægt að stíga inn í þegar samskipti eiga sér stað á samfélagsmiðlum sem við viðurkennum ekki sem samskiptavettvang starfi með börnum.

Breytingar sem snúa að rekstri og ábyrgð

Þessum reglum var bætt við:

  1. Öllu starfi skal sinna með hagsmuni félagsins að leiðarljósi og standa skal vörð um markmið og heiður þess. Stjórnarfólk, starfsfólk og sjálfboðaliðar skulu sýna félaginu, samstarfsfólki, samstarfsaðilum og þátttakendum virðingu, sanngirni og trúnað í samskiptum sínum.
  2. Aldrei skal stefna heilsu eða öryggi starfsfólks og sjálfboðaliða í hættu. Ávallt skal sýna fyllstu aðgát og varkárni í starfi og koma í veg fyrir að starfsfólki og sjálfboðaliðum séu falin verkefni eða þau lendi í aðstæðum sem þau ráða ekki við.
  3. Allt starf skal unnið á opinn, upplýstan, gagnsæjan og lýðræðislegan hátt. Ávallt skal veita faglegar og réttar upplýsingar.
  4. Stjórnarfólk, starfsfólk og sjálfboðaliðar skulu gæta þess að sitja ekki beggja vegna borðs í málum er varða hagsmuni félagsins. Forðast skal að skapa þær aðstæður sem geta dregið óhlutdrægni þeirra í starfi í efa. Það á meðal annars við þegar félagið tilnefnir einstaklinga til að taka þátt í eftirsóttum verkefnum eða þegar samið er við starfsfólk, verktaka eða aðra þjónustuaðila.

Uppfærðar siðareglur má finna hér og á prentvænuformi hér.

Nánari upplýsingar um Æskulýðsvettvanginn og starfsemi hans er hægt að finna hér.


Privacy Preference Center