Skátamót

Landsmót skáta

Landsmót skáta er vikulangt skátamót haldið á þriggja ára fresti, á Úlfljótsvatni og Hömrum til skiptis. Landsmót er fyrir öll skátafélög á landinu fyrir fálkaskáta og eldri. Á landsmót sækja einnig skátar og skátafélög allstaðar að úr heiminum, því mót sem þessi eru frábær tækifæri til að efla skátatengsl og vináttu.

Dagskrá landsmóts er ávallt fjölbreytt og skemmtileg, krefjandi og eftirminnileg. Á landsmóti muntu eignast nýja vini og læra nýja hluti.

Fjölskyldubúðir eru líka einn stór liður landsmóts en þar koma oft saman fjölskyldur skáta sem taka þátt í landsmóti og slá upp sinni eigin tjaldbúð. Í fjölskyldubúðum er líka ávallt skemmtileg og fjörug dagskrá sem hentar fjölskyldum með yngri börn.

Nánar um landsmót

Aldursbilamót

Aldursbilamót eru haldin á þriggja ára fresti að undanskildu Drekaskátamóti sem er haldið árlega.

Dagskrá og umgjörð taka mið af aldursbili skátanna á hverju móti fyrir sig.

Markmið aldursbilamóta er að skátarnir fái spennandi en jafnframt krefjandi tækifæri til að upplifa skátastarf og léttan inngang í því útilífi sem það býður upp á. Við viljum að mótin efli áhuga á skátastarfi og að það sé skemmtilegt að koma aftur á aldursbilamót.

Nánar um aldursbilamót

Skátasumarið

Skátasumarið er skátamót haldið af ÚSÚ á Úlfljótsvatni fyrir öll skátafélög á Íslandi og er ætlað dreka-, fálka-, drótt- og rekkaskátum.

Upphaflega var mótinu komið á þegar covid faraldurinn var enn í gangi og ekki hægt að halda jafn stór mót og t.d. landsmót. Nú hefur Skátasumarið fest sig í sessi og verður haldið á þriggja ára fresti.

Næsta mót verður haldið sumarið 2027


Ýmis félagamót

Vormót Hraunbúa

Árlega halda Hraunbúar Vormót um Hvítasunnuhelgi. Á heimasíðu Hraunbúa má nálgast nánari upplýsingar þegar líður að móti.