Færni til framtíðar er heitið á framtíðarsýn skátanna til ársins 2025. Þessi nýja stefna Bandalags íslenskra skáta var tekin fyrir á vinnufundi stjórnar í liðinni viku og verður hún send skátum til kynningar í sumar. Stefnan verður lögð fram á Skátaþingi sem haldið verður 18. – 19. september á Úlfljótsvatni.
Marta Magnúsdóttir, skátahöfðingi, er spennt að kynna stefnuna og önnur stór mál fyrir Skátaþingi haustsins og nefnir þar sérstaklega Skátaskólann og MOVIS sem er stuðningskerfi við sjálfboðaliða í skátastarfinu. Margir skátar ættu að þekkja til innihaldsins því stefnan hefur verið unnin á opnum fundum með skátum í vetur.
Harpa Ósk Valgeirsdóttir, formaður dagskrárráðs, segir mikilvægt að skátar kynni sér stefnuna. „Flestir eru sammála um hver séu stóru málin í skátahreyfingunni, en við þurfum öll að vera saman í að keyra þau áfram,“ segir hún. „Við þurfum öll að vera meðvituð um hvert við erum að fara og þessi stefna hjálpar okkur við að vita það og hjálpi okkur við að svara spurningunni hvað er skátastarf.“