Heimild til öflunar upplýsinga úr sakaskrá

Samkvæmt 10. gr. æskulýðslaga er óheimilt að ráða einstaklinga til starfa, með börnum, sem hlotið hafa dóma vegna brota gegn lögum um ávana og fíkniefni (nr. 65/1974) á síðastliðnum fimm árum eða gagnvart XXII. kafla (kynferðisbrot) almennra hegningarlaga (nr. 19/1940). Á þetta ákvæði bæði við um launað starfsfólk og sjálfboðaliða.

Til að geta unnið samkvæmt þessum lagagreinum hefur Bandalag íslenskra skáta heimild til að óska eftir upplýsingum úr Sakaskrá ríkisins um þá aðila sem sækjast eftir því að verða starfsfólk eða sjálfboðaliðar á okkar vegum, að veittu samþykki þeirra.

BÍS óskar einnig eftir því að fá upplýsingar um aðra dóma úr sakaskrá sjálfboðaliða og starfsfólks. Sakaskrá ríkisins hefur samþykkt að veita upplýsingar, með samþykki einstaklinga, hvort einstaklingur hafi hlotið dóm gegn XXIV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 (manndráp, líkamsmeiðingar og brot gegn frjálsræði manna) og barnaverndarlögum nr. 80/2002, á síðastliðnum fimm árum.

Skátafélögin óska sjálf eftir upplýstu samþykki síns starfsfólks og sjálfboðaliða og skila því inn til Skátamiðstöðvarinnar.

Á vefsíðu Samskiptaráðgjafa má nálgast leiðbeiningar fyrir útfyllingu eyðublaðsins.