Foringjanámskeið fór fram helgina 12.-14. september í Lækjarbotnum. 25 foringjar tóku þátt í námskeiðinu og voru þau ýmist dreka-, fálka- eða dróttskátaforingjar. Þátttakendur á námskeiðinu störfuðu í fjórum flokkum sem hétu Dróttningar, Eldri drekar, Cola og Meistarar.

Á laugardagsmorgninum æfðu þátttakendurnir sig að gera starfsáætlanir fyrir veturinn og eftir hádegi var haldin símamasturskeppni þar sem flokkarnir kepptust um að byggja hæsta símamastrið úr spagettí og sykurpúðum, því von var á tímaflakkara sem ætlaði að lenda við Lækjarbotna og þá er mikilvægt að vera í góðu sambandi við fólk á jörðu niðri. Keppnin fór fram utandyra, enda næst þannig best samband við tímaflakkarann og því þurftu flokkarnir að beita ýmsum brögðum svo að vindurinn blési ekki turnunum út í buskann. Svo fór að Dróttningar báru sigur úr býtum í keppninni en ásamt því að reisa hæsta símaturninn höfðu þau líka skreytt turninn sinn með blómum. Flokkurinn Meistarar fékk sérstök verðlaun fyrir að reisa frístandandi símaturn, þó hann væri ekki hæstur. Í gegnum þennan leik voru foringjarnir að læra um PGM (plana-gera-meta). Þess má til gamans geta að Dróttningar sömdu sérlega flottan hrópsöng við lagið Jólin alls staðar.

Foringjarnir lærðu líka um hvatakerfið og gerðu leikþátt um skáta sem þurfti að hvetja áfram. Þá lærðu þátttakendur hvernig á að huga að öryggi í skátastarfi og að búa til áhættumat. Um kvöldið var haldin skemmtileg kvöldvaka þar sem allir flokkarnir voru með skemmtiatriði. Á sunnudeginum lærðu foringjarnir um skátaaðferðina og bjuggu til leiki til þess að kenna ungum skátum skátalögin og skátaheitið. Einn flokkurinn gerði leik þar sem átti að rappa skátaheitið. Leiðbeinendasveitin, sem skipulagði námskeiðið, hvetur lesendur Skátavefsins til að prófa að rappa skátaheitið. Meðal síðustu dagskrárliða á námskeiðinu var vinnusmiðja þar sem foringjarnir áttu að skrifa niður sínar uppáhaldsminningar úr skátastarfi og tengja þær við einn af þáttum skátaaðferðarinnar.

Á foringjanámskeiðinu spunnust margar góðar umræður og að baki er skemmtilegt námskeið. Leiðbeinendasveitin óskar öllum skátaforingjum góðs gengis á starfsárinu!

Privacy Preference Center