Reglugerð BÍS um einkenni íslenskra skáta
Samþykkt á stjórnarfundi BÍS, 14. febrúar 2023
1. grein - gildissvið
Reglugerð þessi gildir um öll einkenni íslenskra skáta, þ.m.t. tákn, merki, orðmerki, merkingar, skátaklúta og skátabúninga.
Eingöngu viðurkenndir aðilar af hálfu Bandalags íslenskra skáta (hér á eftir BÍS), að viðlagðri ábyrgð, hafa heimild til að nota orðmerkið “SKÁTI” og/eða orðmyndanir dregnar af orðmerkinu. Það sama á við um við-og/eða forskeyti á hverju sem er, s.s. í nafni á félagi eða samtökum, á vörum, á fatnaði og í auglýsingum. Það sama gildir um öll önnur einkenni skáta.
Óheimilt er að nota einkenni skáta eða einkenni sem eru svo áþekk þeim er skátar notar, að hætta er á að á verði villst eða á þann hátt að það kunni að varpa rýrð á skáta eða skátahreyfinguna.
2. grein - skilgreiningar
Með skátaklút er átt við þríhyrnda hyrnu sem bera skal um háls og taka saman að framanverðu með hnút.
Með skátabúningi er átt við þann ólíka fatnað sem stjórn BÍS hefur samþykkt í reglugerð þessari sem einkennisfatnað skáta til notkunar í skátastarfi.
Með skátafatnaði er átt við allan fatnað sem merktur er skátum með einhverjum hætti sé það með merki BÍS, merki skátafélags eða nokkru öðru merki skáta.
Með merki BÍS er átt við íslensku skátaliljuna og -smárann tengd saman með x saumi, ýmist með eða án orðmerkisins „SKÁTARNIR“.
Með alþjóðamerkjum er átt við einkennismerki WOSM alþjóðabandalags skáta og WAGGGS alþjóðabandalags kvenskáta.
3. grein - heimild til að bera einkenni
Öllum vígðum skátum er heimilt að bera einkenni íslenskra skáta. Einungis skátar sem hafa starfað með íslensku skátahreyfingunni er heimilt að einkenna sig með þeim.
4. grein - skátaklútar
Sérkenni íslenskra skáta er skátaklúturinn.
Klút skal bera um háls yfir kraga og taka saman með hnút að framanverðu. Leitast skal við að bera skátaklútinn ystan klæða á þann hátt að áberandi sé.
Heimilt er að bera klúta sem gerðir eru af sérstöku tilefni, s.s. mótsklúta, eina eða samhliða öðrum klútum.
Skáti ber klút í samræmi við eftirfarandi skilyrði:
- Fjölskyldu- og hrefnuskátar bera fjólubleikan klút með ljósbláum, grænum, rauðum og gulum röndum meðfram brún beggja skammhliða.
- Drekaskátar bera gulan klút,
- Fálkaskátar bera vínrauðan klút,
- Dróttskátar bera grænan klút,
- Rekkaskátar bera bláan klút,
- Róverskátar bera gráan klút,
- Eldri skátar bera fjólubláan klút.
- Gilwellskátar mega bera Gilwellklút með alþjóðlegu merki og öðrum einkennum Gilwell. Heimilt er að bera Gilwellhnút og -perlur með öðrum skátaklútum og án annarra einkenna.
- Hátíðarklútur íslenskra skáta er heiðblár með fánarönd meðfram brún beggja skammhliða og ofnu merki BÍS í hyrnunni. Hátíðarklúturinn er einkenni íslenskra skáta á alþjóðlegum viðburðum skátahreyfingarinnar. Heimilt er að nota hátíðarklút við öll tækifæri en hann skal ávallt borinn við hátíðarbúning og á ferðum íslenskra skáta erlendis.
5. grein - skátafatnaður
Skátaskyrta íslenskra skáta er ljósblá skyrta með tveimur brjóstvösum, með eða án axlaspæla, síðerma eða stutterma.
Skátapeysa íslenskra skáta er skátablá peysa með appelsínugulu BÍS merki á vinstra brjósti.
Skátabolur íslenskra skáta er skátablár bolur með appelsínugulu BÍS merki á vinstra brjósti
Skátaflík er hvers kyns fjölbreyttur fatnaður sem merktur er með merki BÍS, merki skátafélags eða nokkru öðru merki skáta.. Nær þetta til þess fatnaðar sem Skátabúðin lætur framleiða til viðbótar við skátaskyrtu, skátapeysu og skátabol íslenskra skáta. Til fatnaðar sem skátafélögin eða hópar innan félaga láta framleiða og merkja með sínum merkjum og/eða merki BÍS. Einnig til þess fatnaðar sem framleiddur er fyrir viðburði og/eða fararhópa skáta og bera skátatengd merki.
Við hönnun og framboð skátafatnaðar skal taka fullt tillit til þess að fatnaður henti öllum kynjum.
6. grein - skátabúningar
Einfaldasta form skátabúnings er skátaklútur. Skátar skulu bera skátaklút í öllu skátastarfi svo lengi sem aðstæður leyfa.
Fullur skátabúningur er skilgreindur sem skátaklútur ásamt hvers kyns skátafatnaði.
Með skátaklút og/eða skátafatnaði er heimilt að klæðast hverjum þeim fatnaði sem hæfa þykir hverju sinni. Leitast skal við að hafa klútinn yst og að hann sé sýnilegur.
Við skátastörf skulu skátar leitast við að nota skátabúning. Mælst er til þess að eftirfarandi einkenni séu notuð af skátum á ólíkum aldursbilum:
Fálkaskátar og yngri
- Skátaklútur
- Skátapeysa og/eða -bolur íslenskra skáta
- Skátaflíkur framleiddar af félagi og/eða skátunum sjálfum
Dróttskátar og eldri
- Sömu einkenni og fálkaskátar og yngri
- Skátaskyrta
- Skátaflíkur framleiddar af Skátabúðinni
Þau sem skipuleggja og stýra skátastarfi skulu meðvituð um að efnahagsstaða skáta er ólík og einkenni geta haft sömu möguleika að skapa sundrung og samstöðu ef tækifærin til að eignast þau eru ólík. Því er mælst til að félög móti hvaða einkenni séu notuð í þeirra starfi og leitist við að skapa fyrirkomulag þar sem öll eignast þau einkenni með jöfnum hraða t.d. í gegnum félagsgjöld.
Gæta skal að ungir skátar upplifi ekki þrýsting um að eiga öll einkenni sem standa til boða. Eftir því sem skátar eldast geta þau eignast fleiri einkenni eftir því sem iðkun þeirra krefst þess eða áhugi þeirra fyrir því eykst.
7. grein - hátíðarbúningur skáta
Hátíðarbúningur getur hentað við sérstök tækifæri, s.s. þann 22. febrúar, í heiðursverði, í fánaborg, jarðarförum, hátíðarfundum skáta, skátaþingum, öðrum sérstökum hátíðisdögum og hátíðarfundum.
Hátíðarbúningur skáta er skilgreindur sem skátapeysa íslenskra skáta og skátaklútur fyrir fálkaskáta og yngri en sem skátaskyrta og hátíðarklútur íslenskra skáta með snyrtilegum hnút eða gjörð fyrir dróttskáta og eldri.
Við hátíðarbúning er æskilegt að vera í einlitum dökkum buxum og/eða pilsi og í svörtum og/eða dökkum sokkum og dökkum skófatnaði sem hentar tilefninu, sé þess þörf er hægt að nota dökka hanska og dökkt belti.
Í viðeigandi tilfellum eru svartir sorgarborðar bornir um vinstri upphandlegg
8. grein - utanferðabúningur skáta
Í utanferðum í skátastarfi er gjarnan ætlast til að höfð séu með þau einkenni sem einkenna íslenska skáta í alþjóðlegum félagsskap. Þegar ætlast er til þess að hver þjóð sé í skátabúning síns lands við viss tilefni í ferðinni skal miða við fullan utanferðarbúning skáta.
Fullur utanferðabúningur skáta er skilgreindur sem skátaskyrta og hátíðarklútur íslenskra skáta fyrir dróttskáta og eldri en sem skátapeysa og hátíðarklútur íslenskra skáta fyrir fálkaskáta og yngri. Á skátaskyrtu eða skátapeysu skulu borin alþjóðamerki.
Vegna utanferða skáta eru stundum útbúin farareinkenni og eru þau einkenni sérstakur utanferðabúningur þeirrar ferðar.
Í utanferðum í skátastarfi skal ávallt hafa meðferðis hátíðarklút íslenskra skáta. Mælst er til þess að í utanferðum klæðist íslenskir skátar íslenskum skátafatnaði eins og kostur er án þess að það komi á nokkurn hátt niður velferð þeirra eða upplifun af ferðinni.
9. grein - notkun einkenna utan skátastarfs
Þegar skátar klæðast skátafatnaði og bera jafnvel skátaklút utan skátastarfs, eða einkenna sig með þeim hætti á öðrum vettvangi svo sem á samfélagsmiðlum, ber að hafa í huga að framkoma, hegðun og aðstæður samræmist gildum skátastarfs.
Þá eru eftirtalin dæmi með öllu óheimil:
- Að nota einkenni skáta við aðstæður sem teljast augljóslega vanvirðandi fyrir skátastarf eða skátahreyfinguna.
- Að nota einkenni skáta í hvers kyns auglýsingum án fengins leyfis stjórnar BÍS.
- Að nota einkenni skáta í pólitískum tilgangi.
- Að bera einkenni skáta og neyta áfengis eða vímuefna eða verandi undir áhrifum þeirra.
10. grein - frekari reglur um skátabúninga
Stjórn BÍS getur sett frekari fyrirmæli um notkun skátabúninga, svo sem hvar skuli bera merki á þeim, með öðrum reglugerðum. Allar helstu upplýsingar um notkun skátabúninga skulu teknar saman og birtar á vef BÍS.