Reglugerð BÍS um hæfi sjálfboðaliða

REGLUGERÐ BÍS
UM HÆFI SJÁLFBOÐALIÐA

Samþykkt á stjórnarfundi BÍS, 9. maí 2023

1. GREIN

Með sjálfboðaliða er í reglugerð þessari átt við lögráða einstaklinga sem hafa tekið að sér verkefni fyrir skátafélag, skátasamband eða Bandalag íslenskra skáta (BÍS), önnur en þau að stýra skátasveit barna.

2. GREIN

Þau má skipa sjálfboðaliða sem sækjast eftir því og fullnægja þessum skilyrðum:

  1. Hafa viðeigandi þjálfun, menntun, þekkingu eða reynslu til að gegna starfi sínu að mati skipunaraðila.
  2. Hafa unnið skriflegt heiti að viðlögðum heiðri sínum að rækja af trúmennsku og samviskusemi öll þau störf sem þeim kunna að verða falin eða þau taka að sér sem skátaforingjar og að þau muni aldrei gerast brotleg gegn börnum.
  3. Hafa ekki hlotið refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eða vegna brota gegn lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, á síðastliðnum fimm árum, eins og Æskulýðslög nr. 70/2007 segja til um.
  4. Hafa undirritað eyðublað sem veitir Bandalagi íslenskra skáta heimild til öflunar upplýsinga úr Sakaskrá ríkisins eins og Æskulýðslög nr. 70/2007 segja til um.

3. GREIN

Framkvæmdaaðili verkefnis skal leitast við að gera skriflegt samkomulag við sjálfboðaliða í samræmi við drög BÍS um Sjálfboðaliðasamkomulag.

4. GREIN

Ef sjálfboðaliði uppfyllir ekki öll skilyrði 2. gr. eftir að hafa hlotið skipun eða brýtur gegn sæmdarheiti sínu, skal viðkomandi láta af störfum að eigin frumkvæði ella er stjórn skátafélags, stjórn skátasambands og/eða stjórn BÍS skylt að víkja viðkomandi frá störfum.


Reglugerð BÍS um merki BÍS

Reglugerð BÍS um merki BÍS

Samþykkt á stjórnarfundi BÍS, 14. febrúar 2023

1. grein - gildissvið

Reglugerð þessi gildir um merki og orðmerki Bandalags íslenskra skáta (hér á eftir BÍS).

Eingöngu viðurkenndir aðilar af hálfu BÍS að viðlagðri ábyrgð, hafa heimild til að nota orðmerkið “SKÁTI” og/eða orðmyndanir dregnar af orðmerkinu. Það sama á við um við-og/eða forskeyti á hverju sem er, s.s. í nafni á félagi eða samtökum, á vörum, á fatnaði og í auglýsingum. Það sama gildir um öll önnur einkenni skáta.

2. grein - skilgreining á merki BÍS

Með merki BÍS er átt við íslensku skátaliljuna og -smárann tengd saman með x saumi, ýmist með eða án orðmerkisins „SKÁTARNIR“.

3. grein - notkun merkis BÍS

4. grein - heimild til að nota merki BÍS

Aðildarfélögum BÍS er heimilt að nota merkið í starfi sínu án sérstakrar heimildar sé þess gætt að sú notkun er í samræmi við 3. gr. þessarar reglugerðar.

Notkun annarra á merkinu skal háð skriflegri heimild stjórnar BÍS.

Leiki vafi um heimild til notkunar merkisins skal leita skriflegs álits stjórnar BÍS.

Sé einhver óvissa um að merkið sé notað á réttan máta skal leita ráðgjafar hjá Skátamiðstöð.


Reglugerð BÍS um einkenni íslenskra skáta

Reglugerð BÍS um einkenni íslenskra skáta

Samþykkt á stjórnarfundi BÍS, 14. febrúar 2023

1. grein - gildissvið

Reglugerð þessi gildir um öll einkenni íslenskra skáta, þ.m.t. tákn, merki, orðmerki, merkingar, skátaklúta og skátabúninga.

Eingöngu viðurkenndir aðilar af hálfu Bandalags íslenskra skáta (hér á eftir BÍS), að viðlagðri ábyrgð, hafa heimild til að nota orðmerkið “SKÁTI” og/eða orðmyndanir dregnar af orðmerkinu. Það sama á við um við-og/eða forskeyti á hverju sem er, s.s. í nafni á félagi eða samtökum, á vörum, á fatnaði og í auglýsingum. Það sama gildir um öll önnur einkenni skáta.

Óheimilt er að nota einkenni skáta eða einkenni sem eru svo áþekk þeim er skátar notar, að hætta er á að á verði villst eða á þann hátt að það kunni að varpa rýrð á skáta eða skátahreyfinguna.

2. grein - skilgreiningar

Með skátaklút er átt við þríhyrnda hyrnu sem bera skal um háls og taka saman að framanverðu með hnút.

Með skátabúningi er átt við þann ólíka fatnað sem stjórn BÍS hefur samþykkt í reglugerð þessari sem einkennisfatnað skáta til notkunar í skátastarfi.

Með skátafatnaði er átt við allan fatnað sem merktur er skátum með einhverjum hætti sé það með merki BÍS, merki skátafélags eða nokkru öðru merki skáta.

Með merki BÍS er átt við íslensku skátaliljuna og -smárann tengd saman með x saumi, ýmist með eða án orðmerkisins „SKÁTARNIR“.

Með alþjóðamerkjum er átt við einkennismerki WOSM alþjóðabandalags skáta og WAGGGS alþjóðabandalags kvenskáta.

3. grein - heimild til að bera einkenni

Öllum vígðum skátum er heimilt að bera einkenni íslenskra skáta. Einungis skátar sem hafa starfað með íslensku skátahreyfingunni er heimilt að einkenna sig með þeim.

4. grein - skátaklútar

Sérkenni íslenskra skáta er skátaklúturinn.

Klút skal bera um háls yfir kraga og taka saman með hnút að framanverðu. Leitast skal við að bera skátaklútinn ystan klæða á þann hátt að áberandi sé.

Heimilt er að bera klúta sem gerðir eru af sérstöku tilefni, s.s. mótsklúta, eina eða samhliða öðrum klútum.

Skáti ber klút í samræmi við eftirfarandi skilyrði:

  • Fjölskyldu- og hrefnuskátar bera fjólubleikan klút með ljósbláum, grænum, rauðum og gulum röndum meðfram brún beggja skammhliða.
  • Drekaskátar bera gulan klút,
  • Fálkaskátar bera vínrauðan klút,
  • Dróttskátar bera grænan klút,
  • Rekkaskátar bera bláan klút,
  • Róverskátar bera gráan klút,
  • Eldri skátar bera fjólubláan klút.
  • Gilwellskátar mega bera Gilwellklút með alþjóðlegu merki og öðrum einkennum Gilwell. Heimilt er að bera Gilwellhnút og -perlur með öðrum skátaklútum og án annarra einkenna.
  • Hátíðarklútur íslenskra skáta er heiðblár með fánarönd meðfram brún beggja skammhliða og ofnu merki BÍS í hyrnunni. Hátíðarklúturinn er einkenni íslenskra skáta á alþjóðlegum viðburðum skátahreyfingarinnar. Heimilt er að nota hátíðarklút við öll tækifæri en hann skal ávallt borinn við hátíðarbúning og á ferðum íslenskra skáta erlendis.

5. grein - skátafatnaður

Skátaskyrta íslenskra skáta er ljósblá skyrta með tveimur brjóstvösum, með eða án axlaspæla, síðerma eða stutterma.

Skátapeysa íslenskra skáta er skátablá peysa með appelsínugulu BÍS merki á vinstra brjósti.

Skátabolur íslenskra skáta er skátablár bolur með appelsínugulu BÍS merki á vinstra brjósti

Skátaflík er hvers kyns fjölbreyttur fatnaður sem merktur er með merki BÍS, merki skátafélags eða nokkru öðru merki skáta.. Nær þetta til þess fatnaðar sem Skátabúðin lætur framleiða til viðbótar við skátaskyrtu, skátapeysu og skátabol íslenskra skáta. Til fatnaðar sem skátafélögin eða hópar innan félaga láta framleiða og merkja með sínum merkjum og/eða merki BÍS. Einnig til þess fatnaðar sem framleiddur er fyrir viðburði og/eða fararhópa skáta og bera skátatengd merki.

Við hönnun og framboð skátafatnaðar skal taka fullt tillit til þess að fatnaður henti öllum kynjum.

6. grein - skátabúningar

Einfaldasta form skátabúnings er skátaklútur. Skátar skulu bera skátaklút í öllu skátastarfi svo lengi sem aðstæður leyfa.

Fullur skátabúningur er skilgreindur sem skátaklútur ásamt hvers kyns skátafatnaði.

Með skátaklút og/eða skátafatnaði er heimilt að klæðast hverjum þeim fatnaði sem hæfa þykir hverju sinni. Leitast skal við að hafa klútinn yst og að hann sé sýnilegur.

Við skátastörf skulu skátar leitast við að nota skátabúning. Mælst er til þess að eftirfarandi einkenni séu notuð af skátum á ólíkum aldursbilum:

Fálkaskátar og yngri

  • Skátaklútur
  • Skátapeysa og/eða -bolur íslenskra skáta
  • Skátaflíkur framleiddar af félagi og/eða skátunum sjálfum

Dróttskátar og eldri

  • Sömu einkenni og fálkaskátar og yngri
  • Skátaskyrta
  • Skátaflíkur framleiddar af Skátabúðinni

Þau sem skipuleggja og stýra skátastarfi skulu meðvituð um að efnahagsstaða skáta er ólík og einkenni geta haft sömu möguleika að skapa sundrung og samstöðu ef tækifærin til að eignast þau eru ólík. Því er mælst til að félög móti hvaða einkenni séu notuð í þeirra starfi og leitist við að skapa fyrirkomulag þar sem öll eignast þau einkenni með jöfnum hraða t.d. í gegnum félagsgjöld.

Gæta skal að ungir skátar upplifi ekki þrýsting um að eiga öll einkenni sem standa til boða. Eftir því sem skátar eldast geta þau eignast fleiri einkenni eftir því sem iðkun þeirra krefst þess eða áhugi þeirra fyrir því eykst.

7. grein - hátíðarbúningur skáta

Hátíðarbúningur getur hentað við sérstök tækifæri, s.s. þann 22. febrúar, í heiðursverði, í fánaborg, jarðarförum, hátíðarfundum skáta, skátaþingum, öðrum sérstökum hátíðisdögum og hátíðarfundum.

Hátíðarbúningur skáta er skilgreindur sem skátapeysa íslenskra skáta og skátaklútur fyrir fálkaskáta og yngri en sem skátaskyrta og hátíðarklútur íslenskra skáta með snyrtilegum hnút eða gjörð fyrir dróttskáta og eldri.

Við hátíðarbúning er æskilegt að vera í einlitum dökkum buxum og/eða pilsi og í svörtum og/eða dökkum sokkum og dökkum skófatnaði sem hentar tilefninu, sé þess þörf er hægt að nota dökka hanska og dökkt belti.

Í viðeigandi tilfellum eru svartir sorgarborðar bornir um vinstri upphandlegg

8. grein - utanferðabúningur skáta

Í utanferðum í skátastarfi er gjarnan ætlast til að höfð séu með þau einkenni sem einkenna íslenska skáta í alþjóðlegum félagsskap. Þegar ætlast er til þess að hver þjóð sé í skátabúning síns lands við viss tilefni í ferðinni skal miða við fullan utanferðarbúning skáta.

Fullur utanferðabúningur skáta er skilgreindur sem skátaskyrta og hátíðarklútur íslenskra skáta fyrir dróttskáta og eldri en sem skátapeysa og hátíðarklútur íslenskra skáta fyrir fálkaskáta og yngri. Á skátaskyrtu eða skátapeysu skulu borin alþjóðamerki.

Vegna utanferða skáta eru stundum útbúin farareinkenni og eru þau einkenni sérstakur utanferðabúningur þeirrar ferðar.

Í utanferðum í skátastarfi skal ávallt hafa meðferðis hátíðarklút íslenskra skáta. Mælst er til þess að í utanferðum klæðist íslenskir skátar íslenskum skátafatnaði eins og kostur er án þess að það komi á nokkurn hátt niður velferð þeirra eða upplifun af ferðinni.

9. grein - notkun einkenna utan skátastarfs

Þegar skátar klæðast skátafatnaði og bera jafnvel skátaklút utan skátastarfs, eða einkenna sig með þeim hætti á öðrum vettvangi svo sem á samfélagsmiðlum, ber að hafa í huga að framkoma, hegðun og aðstæður samræmist gildum skátastarfs.

Þá eru eftirtalin dæmi með öllu óheimil:

  • Að nota einkenni skáta við aðstæður sem teljast augljóslega vanvirðandi fyrir skátastarf eða skátahreyfinguna.
  • Að nota einkenni skáta í hvers kyns auglýsingum án fengins leyfis stjórnar BÍS.
  • Að nota einkenni skáta í pólitískum tilgangi.
  • Að bera einkenni skáta og neyta áfengis eða vímuefna eða verandi undir áhrifum þeirra.

10. grein - frekari reglur um skátabúninga

Stjórn BÍS getur sett frekari fyrirmæli um notkun skátabúninga, svo sem hvar skuli bera merki á þeim, með öðrum reglugerðum. Allar helstu upplýsingar um notkun skátabúninga skulu teknar saman og birtar á vef BÍS.


Jafnréttisstefna BÍS

JAFNRÉTTISSTEFNA BÍS

Samþykkt á Skátaþingi 2. apríl 2022

Gildissvið

Þessi stefna skal ná til alls skátastarfs á á Íslandi.

Telji félagar að aðrir félagar eða starfsfólk Bandalags íslenskra skáta hafi gerst brotleg við jafnréttisstefnu þessa má vísa því til stjórnar Bandalagsins. Telji félagar að stjórn Bandalags íslenskra skáta hafi gerst brotleg við jafnréttisstefnuna má vísa því til Skátaþings.

SÝN:

Stefna þessi miðar að því að skýra hlutverk og leiðir Bandalags íslenskra skáta til að tryggja raunverulega inngildingu og aðgengi allra hópa að skátastarfi og að öll sem vilji fái tækifæri til þess að njóta skátastarfs, óháð kynþætti, þjóðerni, kynvitund, kynhneigð, kyntjáningu, trú, stjórnmálaskoðun, aldri, stétt eða stöðu að öðru leyti.

Hlutverk Bandalags íslenskra skáta er að tryggja að allir skátar njóti jafnréttis í skátastarfi þar sem inngilding og fjölbreytileiki eru í hávegum höfð.

Bandalag íslenskra skáta mun gera allar mögulegar ráðstafanir til að tækla allar gerðir mismununar, ójafnréttis og óréttlátrar meðferðar, gegn eða á milli félaga í hreyfingunni.

MARKMIÐ:

  1. Að öll sem sinni sjálfboðaliða- eða forystustörfum fyrir skátana búi yfir greinargóðri þekkingu og vitund um mannréttindi, jafnrétti, inngildingu og fjölbreytileika samfélagsins.
  2. Að ráðstafanir verði teknar til að kynna skátastarf fyrir og taka sérstaklega á móti í skátastarfi þeim hópum samfélagsins sem eiga erfiðara með að stunda tómstundir eða æskulýðsstarf, t.a.m. vegna fjárhags, tungumáls, fötlunar, þjóðernis, kynferðis eða stöðu að öðru leyti.
  3. Að hvar sem það er hægt skal skátastarf aðlagað að ólíkum þörfum þeirra sem stunda það, svo lengi sem það stríðir ekki gegn Grunngildum skátahreyfingarinnar, markmiðum hennar eða skátaaðferðinni.
  4. Að öll lög, stefnur og reglugerðir BÍS endurspegli þessa skuldbindingu samtakanna að stuðla að frekari inngildingu og fjölbreytileika í skátahreyfingunni.
  5. Að miðla þessari stefnu út á við til félaga BÍS og víðar.
  6. Að endurmeta og endurbæta þessa stefnu eftir því sem við á svo að BÍS geti haldið áfram að þróast í átt að frekari inngildingu og fjölbreytileika í skátahreyfingunni.

SKREF Í ÁTT AÐ MARKMIÐUM:

  1. Að öll sem sinni sjálfboðaliða- eða forystustörfum fyrir skátana búi yfir greinargóðri þekkingu og vitund um mannréttindi, jafnrétti, inngildingu og fjölbreytileika samfélagsins.
      1. Að þekking og vitund skáta um jafnréttismál og mannréttindi verði aukin með fræðslu til skáta og skátaforingja
      2. Að búa til dagskrár- og fræðsluefni um jafnrétti, mannréttindi og fjölbreytileika sem miðlað er til skáta og skátaforingja.
      3. Að tryggja að fjölbreytileikafræðsla og önnur fræðsla um jafnrétti og mannréttindi sé í boði hvenær sem þess er völ, t.d. á sjálfboðaliðanámskeiðum, foringjanámskeiðum og annars staðar.
  2. Að ráðstafanir verði teknar til að kynna skátastarf fyrir og taka sérstaklega á móti í skátastarfi þeim hópum samfélagsins sem eiga erfiðara með að stunda tómstundir eða æskulýðsstarf, t.a.m. vegna fjárhags, tungumáls, fötlunar, þjóðernis, kynferðis eða stöðu að öðru leyti.
      1. Að bjóða skátaforingjum og öðrum sjálfboðaliðum upp á nauðsynlega þjálfun og fræðslu svo þau geti tekið á móti einstaklingum með ólíkar þarfir, reynslu og bakgrunn og gert þeim kleift að njóta sín í skátastarfi.
      2. Að skapa verkfæri og ferla sem tryggja að bág fjárhagsstaða hindri ekki aðgengi einstaklinga að skátastarfi.
      3. Að skapa tækifæri í skátastarfi svo skátar, þá sérstaklega skátar á þátttökualdri, fái að upplifa og læra um inngildingu, fjölbreytileika og mannréttindi í skátastarfi, bæði hvað varðar þau sjálf sem og aðra hópa í samfélaginu.
  3. Að hvar sem það er hægt skal skátastarf aðlagað að ólíkum þörfum þeirra sem stunda það, svo lengi sem það stríðir ekki gegn Grunngildum skátahreyfingarinnar, markmiðum hennar eða skátaaðferðinni.
      1. Að dagskrár- og fræðsluefni og annað útgefið efni BÍS verði (þ.m.t. birt efni á samfélagsmiðlum) birt á fleiri en einu tungumáli.
      2. Að viðburðir BÍS verði, án undantekninga, túlkaðir sé þess þörf eða beðið sé um það, án kostnaðar fyrir þau sem þurfa á túlkun að halda.
      3. Að viðburðir BÍS verði, alltaf þegar völ er á, haldnir í aðgengilegu húsnæði með tilliti til góðrar hljóðvistar fyrir fólk með heyrnarskerðingu eða heyrnartruflanir og aðgengis fyrir þau sem nota hjólastól eða eru hreyfihömluð.
  4. Að öll lög, stefnur og reglugerðir BÍS endurspegli þessa skuldbindingu samtakanna að stuðla að frekari inngildingu og fjölbreytileika í skátahreyfingunni.
      1. Að lög, stefnur og reglugerðir BÍS verði yfirfarnar og nauðsynlegar breytingar gerða til að þessi plögg stuðli að inngildingu og endurspegli raunverulega þann fjölbreytileika sem fyrirfinnst í skátahreyfingunni sem og samfélaginu öllu.
      2. Að lög, stefnur og reglugerðir BÍS hindri ekki aðgengi þeirra sem raunverulega vilja stunda skátastarf, gefið að þau séu tilbúin að fylgja markmiðum hreyfingarinnar, Grunngildum og skátaaðferðinni.
  5. Að miðla þessari stefnu út á við til félaga BÍS og víðar.
      1. Að kynna þessa stefnu félögum við tækifæri og hvetja félaga til þess að stefna einnig að því að ná markmiðum þessarar stefnu.
      2. Að þessi stefna og skrefin sem tekin eru með henni verði kynnt á samfélagsmiðlum BÍS.
      3. Að vera fyrirmynd fyrir önnur samtök í jafnréttismálum og inngildingu sem og fræðslu um fjölbreytileika og mannréttindi.
  6. Að endurmeta og endurbæta þessa stefnu eftir því sem við á svo að BÍS geti haldið áfram að þróast í átt að frekari inngildingu og fjölbreytileika í skátahreyfingunni.
      1. Að þróa stefnuna eftir því sem nýjar upplýsingar koma í ljós.
      2. Að fylgjast með hvernig gengur að innleiða þessi skref í skátafélögunum.
      3. Að endurmeta reglulega hvort það vanti eitthvað í stefnuna eða hvort einhverju sé ofaukið.


Reglugerð BÍS um styrktarsjóð skáta

Reglugerð BÍS um
styrktarsjóð skáta

Samþykkt á Skátaþingi, 7 apríl 2018.

Tilgangur

Um er að ræða söfnunarsjóð BÍS þar sem sjóðnum eru tryggðar fastar tekjur og höfuðstóllinn ávaxtaður, en allt að 80% hlutfall árlegrar ávöxtunar notaðir til styrkveitinga innan skátahreyfingarinnar á Íslandi eins og reglugerðin segir til um. Jafnframt er heimilt að ganga á höfuðstól sjóðsins ef stjórnin metur styrkumsóknir þess eðlis að það réttlæti það, en aldrei þó meira en árlegt framlag styrktarpinna skáta í sjóðinn.

Hvað er styrkt

Styrkhæf verkefni skulu flokkast undir einn eða fleiri eftirtalinna flokka:

  1. Útgáfu innan skátahreyfingarinnar
  2. Nýjungar í starfi skátafélaganna sem miði að fjölgun skáta á Íslandi
  3. Styrkur til aðstöðusköpunar skátastarfs
  4. Fræðslumála innan skátahreyfingarinnar
  5. Styrkir til skátafélaga til að auðvelda börnum og fullorðnum með ólíkan bakgrunn að taka þátt í skátastarfi

Styrkveiting

Hægt er að sækja um styrki allt árið, en styrkir að upphæð 100.000 kr. eða hærri eru aðeins veittir einu sinni á ári, á Skátaþingi. Engin einn aðili getur fengið meira en 50% af úthlutun hvers árs.

Umsókn og umsækjendur

Umsóknir um styrk skulu berast sjóðsstjórn á sérstöku umsóknarblaði sem fæst í Skátamiðstöðinni/ á vef BÍS. Umsækjendur eru fyrst og fremst skátafélögin og viðurkenndar starfseiningar innan BÍS.

Sjóðstjórn

Í sjóðsstjórn sitja: Skátahöfðingi, aðstoðarskátahöfðingi og gjaldkeri BÍS.

Endurskoðendur sjóðsins eru endurskoðendur BÍS.

Tekjur sjóðsins

Árlega skal renna í sjóðinn ein milljón króna af söluhagnaði styrktarpinna skáta, afrakstur sölu minningarkorta, áheita og sérstaka gjafa sem og sérstök framlög BÍS er stjórn ákveður hverju sinni.

Ávöxtun sjóðsins

Framkvæmdastjóri BÍS annast fjárreiður og ávöxtun sjóðsins og skal leitast við að velja áhættulitlar ávöxtunarleiðir í samráði við stjórn sjóðsins.

Breyting á stofnskrá sjóðsins

Sjóðurinn var stofnaður á aðalfundi BÍS í mars 1998 og er aðeins hægt að breyta reglugerð hans á aðalfundi BÍS.


Stefna BÍS

Fyrirmynd til framtíðar

Framtíðarsýn skátanna til 2025

Stefna Bandalags íslenskra skáta 2020 - 2025

Leiðarljós

Leiðarljós skátanna er að bjóða öllum skátum, ungum sem öldnum, ævintýralegan vettvang, fjölbreytt tæki og persónulegu áskoranir til að tileinka sér samfélagsvitund og færni til framtíðar.

Framtíðarsýn

Árið 2025 hafa skátarnir endurskoðað og endurbætt starfsemi sína svo um munar, framsýni og fagmennska einkennir störf skátanna. Skátastarfið er nútímalegt og ímyndin er jákvæð. Starfandi skátafélögum hefur fjölgað um 5 og sjálfboðaliðum í skátastarfi hefur fjölgað jafnt og þétt. Fleiri börn og ungmenni stunda skátastarf þar sem þau læra færni til framtíðar og láta sig samfélagið varða. Í starfinu njóta þau leiðsagnar fullorðinna sjálfboðaliða sem eru glaðir og ánægðir með sitt hlutverk og verkefni og gefst færi á að sækja sér vandaða þjálfun í Skátaskólanum.

Stefnu-
áherslur

Fólk

Skátarnir bjóða sjálfboðaliðum og starfsfólki upp á heilbrigt og uppbyggilegt starfsumhverfi.

Færni

Með vandaðri dagskrá og þjálfun veita skátarnir þátttakendum tækifæri til að efla færni sína til framtíðar með rödd ungs fólks að leiðarljósi

Framsýni

Skátarnir starfa í takt við tímann og oftar en ekki einu skrefi á undan.

Heimsmarkmiðin okkar

Skátahreyfingin er í einstakri aðstöðu til að valdefla börn og ungmenni til að verða hreyfiafl jákvæðra breytinga í heiminum.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eiga því að vera skátum hugleikin. Skátastarf snýst í grunninn um að láta sig samfélagið varða og heimsmarkmiðin eru þar af leiðandi órjúfanlegur þáttur í þeirri vegferð.

Heimsmarkmiðin eru 17 talsins og er hvert og eitt þeirra staðsett í þessari stefnu þar sem það á helst við, þó mörg þeirra eigi við á fleiri stöðum. Til dæmis á markmið nr. 4 „Menntun fyrir alla“ alltaf við þegar skátastarf er annars vegar. Heimsmarkmiðin eru markmið okkar allra. Hvað ætlar þú að gera?

Heimsmarkmiðin eru markmið okkar allra. Hvað ætlar þú að gera?

Fólk

Skátarnir bjóða sjálfboðaliðum og starfsfólki upp á heilbrigt og uppbygilegt starfsumhverfi

Styrkleikar

  • Gleði
  • Skátaandinn
  • Náungakærleikur
  • Samhugur
  • Frumkvæði
  • Aðild að Æskulýðsvettvangnum
  • Verkferlar til staðar
  • Félagaþrennan

Veikleikar

  • Of lítil verkdreifing
  • Lítill stuðningur
  • Fáar aðgönguleiðir fyrir utanaðkomandi
  • Tímaskortur
  • Aðrar skyldur sjálfboðaliða
  • Aðgengi á viðburði erlendis

Tækifæri

  • Foreldraþátttaka
  • Bættir ferlar
  • Aukin miðlun
  • Betra upplýsingaflæði og bætt samskipti
  • Skýrari ferlar við uppgöngu milli aldursbila
  • Samfélagsbreytingar
  • Alþjóðlegt tengslanet og samstarf

Ógnanir

  • Samskipti
  • Hraði samfélagsins
  • Styttri skólaganga takmarkar tíma sem varið er í tómstundir
  • Samkeppni um tíma
  • Skortur á mannauði
  • Skortur á endurnýjun
  • Samfélagsbreytingar

Fjölgun og nýliðun

Markmið skátanna er að styrkja foringjahóp og bakland hreyfingarinnar með því að virkja óvirka skáta, fjölga nýliðum og minnka brottfall. BÍS leggur áherslu á að styðja félög til vaxtar á þeirra forsendum.

Mælikvarðar:

  • Hvert félag setur sér markmið og mælikvarða um eftirfarandi atriði og að þeim verði náð árið 2025 og fær til þess viðeigandi stuðning frá BÍS:
    • fjölgun foringja
    • fjölgun virkra sjálfboðaliða í félaginu
    • fjölgun skáta
    • minnkun brottfalls
  • BÍS setur sér markmið um að fjölga starfandi skátafélögum um 5 á árunum 2020-2025.
  • Í lok árs 2025 verði búið að útfæra leiðir til þess að:
    • fjölga foringjum
    • fjölga virkum sjálfboðaliðum í félaginu
    • fjölga skátum
    • minnka brottfall milli aldursbila
  • Að fyrir lok árs 2025 sé 80% sveitarforingja sammála því að staðalímyndir almennings hái ekki fjölgun skáta.

Sáttir sjálfboðaliðar

Markmið skátanna er að veita fólki tækifæri á að taka þátt í uppbyggilegu sjálfboðastarfi þar sem það nýtur sín í starfi, getur miðlað af reynslu sinni og fær tækifæri til að vaxa og dafna.

Mælikvarðar:

  • Að fyrir lok árs 2025 hafi sjálfboðaliðastefna BÍS verið innleidd á lands- og félagsstigi. Með innleiðingu er átt við að hún hafi verið samin, kynnt og tekin upp í öllu starfi BÍS og hjá 60% skátafélaga.
  • Að fyrir lok árs 2025 séu til áætlanir um móttöku nýrra sjálfboðaliða og 60% félaga nýti sér þær áætlanir á virkan máta.
  • Að fyrir lok árs 2025 séu verklýsingar og samningar til fyrir öll hlutverk og verkefni í starfi BÍS og gagnabanki aðgengilegur með helstu verklýsingum og samningum í starfi skátafélaga, auk leiðbeininga um félagaþrennuna.
  • Að fyrir lok árs 2025 sendi Skátamiðstöðin ánægjukönnun á alla sjálfboðaliða skátahreyfingarinnar tvisvar á ári og niðurstöðum hennar verði fylgt eftir.

Samskipti og ábyrgt verklag

Markmið BÍS er að vera þekkt fyrir faglegt verklag, viðbragðsflýti og ábyrgð. Samskipti séu skilvirk og þjóni forgangsatriðum skátahreyfingarinnar.

Mælikvarðar:

  • Að fyrir lok árs 2025 séu allir meðlimir hreyfingarinnar 15 ára og eldri meðvitaðir um siðareglur og viðbragðsáætlanir BÍS.
  • Að fyrir lok árs 2025 sýni þjónustukönnun fram á að þorri skátafélaga sé mjög ánægður með þjónustu og þjónustuframboð Skátamiðstöðvarinnar.
  • Að fyrir lok árs 2025 hafi verkefnastjórnunarlegar aðferðir verið innleiddar í skátastarf á öllum sviðum, þannig að undirbúningur viðburða og verkefna sé fullnægjandi og verkefni endurmetin á markvissan hátt.
  • Að fyrir lok árs 2025 sé BÍS í hópi 20% bestu bandalaga í GSAT úttektum á skátahreyfingunni í heiminum, og með 80% niðurstöðu. Rekstrarkröfum WOSM sé fullnægt á öllum sviðum.

Færni

Með vandaðri dagskrá og þjálfun veita skátarnir þátttakendum tækifæri til að efla færni sína til framtíðar með rödd ungs fólks að leiðarljósi

Styrkleikar

  • Aðferða- og hugmyndafræði skátastarfs er skýr
  • Ungmenni virk í stjórnum og verkefnahópum
  • Gott samstarf við alþjóðahreyfingar skáta
  • Nýir sprotar eins og ný færnimerki, fjölskylduskátun og félagaþrennan
  • Jákvæðir og öflugir foringjar í flestum félögum
  • Samstarf skátafélaga er að aukast
  • Góð aðstaða og fjölbreyttir viðburðir, innanlands sem utan
  • Skátarnir hafa sérstöðu meðal æskulýðs- og félagsstarfs

Veikleikar

  • Skortur á aðgengilegu stuðningsefni fyrir foringja
  • Óskilvirk miðlun efnis
  • Sumir þættir starfsgrunnsins eru vannýttir, s.s. samfélagsþátttaka, sveitarráð, náttúran og foringjaflokkar
  • Skortur á eftirfylgni
  • Of fáar sjálfboðnar hendur um of mörg verk

Tækifæri

  • Skátastarf hefur jákvæð áhrif á andlega heilsu og seiglu ungmenna, aukin Ungmennaþátttaka og þátttökulýðræði
  • Vaxtartækifæri í breiðari aldri starfandi virkra skáta
  • Nýta betur nútímalega miðla og nýjustu tækni
  • Útilíf aðgreinir skátastarf frá öðru æskulýðsstarfi og nær börnum frá skjánum
  • Sterkara starf með auknu ungmennalýðræði
  • Aukin þjálfun og þátttaka fullorðinna
  • Aukið framboð viðburða á alþjóðlegum vettvangi

Ógnanir

  • Hraðari samfélagsbreytingar
  • Ofverndun barna
  • Þátttökukostnaður fyrir börn og ungmenni
  • Samkeppni um frítíma barna
  • Erfitt að mæla árangur skátastarfs miðað við t.d. íþróttir

Ævintýraleg, heildstæð dagskrá

Markmið skátahreyfingarinnar er að gera ungt fólk sjálfstætt, ábyrgt og virkt í samfélaginu. Skátarnir bjóða upp á metnaðarfullt og aðgengilegt dagskrárefni fyrir skáta sem byggt er á heildstæðum starfsgrunni með aukinni áherslu á útiveru og verndun náttúru.

Mælikvarðar:

  • Að 80% skátasveita nýti helstu þætti starfsgrunnsins: Stuðningsefni foringja, skátaaðferðina, dagskrárhringinn, flokkakerfið og hvatakerfið.
  • Að fyrir lok árs 2025 sé komið í notkun markmið, merki, hvatakerfi, og táknræn umgjörð fyrir hvert og eitt aldursbil.
  • Að fyrir lok árs 2025 sé búið að útfæra byrjunarpakka fyrir hvert aldursbil sem auðveldar skátafélögunum að innleiða ævintýralegt og metnaðarfullt skátastarf.
  • Að fyrir lok árs 2025 verði búið að útfæra markmið, merki, hvatakerfi, og táknræn umgjörð fyrir aldursbilið 5-7 ára.
  • Að fyrir lok árs 2025 verði búið að útfæra markmið, merki, hvatakerfi, og táknræn umgjörð fyrir fjölskylduskáta.
  • Að fyrir lok árs 2025 sé skýrt hvernig flutningi milli aldursbila er háttað.

Skátaskólinn, framúrskarandi leiðtogaþjálfun

Markmið skátahreyfingarinnar er að þjálfa leiðtoga til framtíðar. Skátarnir bjóða upp á námskeið í leiðtogaþjálfun fyrir alla skáta, 10 ára og eldri, sem eru eftirsótt, heildstæð, nútímaleg og aðgengileg. Skátaskólinn hefur yfirumsjón með allri þjálfun og fylgir heildstæðri námskrá.

Mælikvarðar:

  • Að fyrir lok árs 2025 fái sveitarforingjar nægan stuðning til að tileinka sér stuðningsefni á fjölbreyttu formi og yfir 80% þeirra segist þekkja vel til efnisins í foringjakönnun BÍS.
  • Að fyrir lok árs 2025 hafi skátar, sjálfboðaliðar og nýliðar í öllum landshlutum og á öllum aldursbilum aðgengi að a.m.k. 40 klst. fræðslu á ári (þar af 20 klst. á rafrænum vettvangi).
  • Að gæði hvers námskeiðs séu mæld í endurmatskönnun og nái að meðaltali 7/10.
  • Að 70% allra skáta taki þátt í einhvers konar þjálfun á ári hverju
  • Að fyrir lok ársins 2025 verði reglubundin þjálfun í boði fyrir alla sveitarforingja ásamt aðgengilegu stuðningsefni sem auðveldar þeim að bjóða upp á gott skátastarf fyrir sig og sína sveit.

Eftirsóttir viðburðir

Til þess að efla skátastarf á Íslandi bjóða skátarnir upp á eftirsótta viðburði fyrir öll aldursbil, sem endurspegla gildi skátahreyfingarinnar, heildstæðan dagskrárgrunn og skátaaðferðina.

Mælikvarðar:

  • Árið 2025 taki allir starfandi skátar þátt í a.m.k. einum skipulögðum viðburði á vegum skátahreyfingarinnar, t.d. BÍS, skátafélags, WOSM, WAGGGS eða annarra áhugasamra hópa.
  • Fyrir lok árs 2025 verði til heildstæð áætlun um viðburðahald BÍS.
  • Fyrir lok árs 2025 verði komið fast vinnulag um að allir viðburðir séu endurmetnir og endurmatið nýtt í þróun viðburða hreyfingarinnar.
  • Fyrir lok árs 2025 verði til leiðarvísir um hvernig megi lágmarka kolefnisspor viðburða.

Raddir ungs fólks

Markmið skátahreyfingarinnar er að ungt fólk (25 ára og yngri) sé valdeflt og hafi virka rödd á öllum stigum ákvarðanatöku. Þátttökulýðræði sé eflt og markvisst boðað á öllum aldursbilum.

Mælikvarðar:

  • Að fyrir lok árs 2025 sé skátastarf á öllum aldursbilum og allri stjórnsýslu í 6.-8. þrepi Þátttökustiga Harts samkvæmt sjálfsmati sem ungt fólk á aðild að.
  • Að fyrir lok árs 2025 noti allar skátasveitir lýðræðislegar aðferðir, t.d. lýðræðisleiki, til þess að móta dagskrá.
  • Að fyrir lok árs 2025 séu ungmenni innan allra ákvarðanatökueininga.
  • Að fyrir lok árs 2025 séu ungmenni handhafar í það minnsta 25% atkvæða á Skátaþingi.
  • Að fyrir lok árs 2025 sé BÍS með viðeigandi ferla sem sjá til þess að allt ungt fólk fái viðeigandi þjálfun og stuðning til að tryggja að þau geti sannarlega tekið þátt í ákvarðanatöku innan hreyfingarinnar.

Framsýni

Skátarnir starfa í takt við tímann og oftar en ekki einu skrefi á undan

Styrkleikar

  • Ævintýrablær
  • Vinátta sem endist
  • Mjög þekkt auðkenni
  • Sterk alþjóðahreyfing
  • Samfélagsáhrif

Veikleikar

  • Íhaldssemi
  • Fortíðarþrá
  • Hræðsla við breytingar
  • Stöðnuð ímynd

Tækifæri

  • Innleiðing heimsmarkmiða
  • Aukinn skilningur á að reynsla af skátastarfi sé metin á vinnumarkaði
  • Betra skátastarf gerir miðlun auðveldari
  • Rafræn miðlun
  • Þróun nútímalegrar ímyndar
  • Aukin samfélagsábyrgð og náttúruvernd

Ógnanir

  • Röng ímynd og staðalímyndir
  • Miðlun nær ekki til markhópa
  • Misskilningur
  • Slæm umfjöllun
  • Loftslagsbreytingar

Samfélagsleg ábyrgð

Markmið skátanna er að leggja sitt af mörkum til að stuðla að framförum í samfélaginu og að vera til fyrirmyndar þegar kemur að samfélagsþátttöku og umhverfisvernd.

Mælikvarðar:

  • Að fyrir lok árs 2025 séu heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna innleidd í allt skátastarf.
  • Að fyrir lok árs 2025 hafi virk umhverfisstefna sem er framsækin og í takt við kröfur samfélagsins verið innleidd í allt skátastarf.
  • Að fyrir lok árs 2025 hafi virk jafnréttisstefna verið innleidd í allt skátastarf.
  • Að fyrir lok árs 2025 séu samfélagsverkefni sjálfsagður hluti af starfi flokka, sveita, félaga og BÍS.

Nútímalegt skátastarf

Markmið skátanna er að halda í við þær hröðu breytingar sem verða í samfélaginu á hverju ári og þróa starfið svo að það sé bæði í takt við tímann og gildi skátanna.

Mælikvarðar:

  • Að fyrir lok árs 2025 sé áhersla lögð á inngildingu í skátastarfi og gengið úr skugga um að öll börn á Íslandi hafi tök á að kynnast skátastarfi.
  • Að fyrir lok árs 2025 sé búið að innleiða fræðslu um hvernig skal taka á móti börnum með ólíkar þarfir og bakgrunn.
  • Að fyrir lok árs 2025 hafi efni um skátastarf verið gefið út á tungumálum helstu innflytjendahópa á Íslandi.
  • Að fyrir lok árs 2025 sé útivist enn ríkari partur af skátastarfi og að fræðsla, dagskrárefni og viðburðir taki mið af því.
  • Að fyrir lok árs 2025 sé til fræðsla og dagskrárefni um hvernig má nýta tæknina á ábyrgan hátt í skátastarfi án þess að það bitni á öðrum gildum starfsins.
  • Að fyrir lok árs 2025 sé búið að innleiða fræðslu um geðheilsu bæði barna og fullorðinna sem hluta af leiðtogaþjálfun.

Aukin umfjöllun

Markmið skátanna er að umfjöllun í opinberum miðlum endurspegli raunverulegt skátastarf og að almenningur þekki vel til skátanna, gilda skátastarfs og starfsemi BÍS og dótturfélaga.

Mælikvarðar:

  • Að fyrir lok árs 2025 birtist hið minnsta 12 sinnum á ári jákvæðar fréttir af skátum eða skátar sem viðmælendur í miðlum með landsdekkun.
  • Að fyrir lok árs 2025 sé boðið upp á þjálfun í opinberri framkomu og miðlun efnis á hverju ári.
  • Að fyrir lok árs 2025 sé skátum reglulega boðið upp á þjálfun í vinnslu nútímalegs kynningarefnis.
  • Að fyrir lok árs 2025 sé búið að útfæra metnaðarfullar leiðir til kynna skátastarf fyrir foreldrum skáta sem skátafélög geta nýtt sér.
  • Að fyrir lok árs 2025 séu 80% skátafélaga með virka kynningaráætlun og telji sig fá nægan stuðning frá BÍS við kynningarmál.
  • Að fyrir lok árs 2025 hafi verið framkvæmt metnaðarfullt verkefni um að nútímavæða ímynd skátastarfs.
  • Að fyrir lok árs 2025 nái samfélagsmiðlar skáta til helmingi fleiri með virkum hætti en í ársbyrjun 2020.
  • Að fyrir árslok 2025 standist allir vefir skáta aðgengisviðmið og séu reglulega uppfærðir, búið sé að tryggja svigrúm þeirra sem bera ábyrgð á vefjum til að sinna þessum verkefnum.

Leiðirnar að markmiðunum

Hvernig stefnan verður að veruleika byggir að stóru leyti á starfi skátafélaganna og því mikilvægt að leiðtoga skátastarfsins á hverjum stað ákveði sínar áherslur í samræmi við stefnuna.

Hvað getur hvert skátafélag gert með sínum félögum?

Frumkvæði hvers félags er mikilvægt en einnig verður lögð áhersla á að miðla reynslu og fræðslu milli skátafélaga.


Forvarnarstefna BÍS

FORVARNARSTEFNA BÍS

Samþykkt á stjórnarfundi BÍS, 16. september 2015.

FORVARNARHLUTVERK

Fjölmargar íslenskar rannsóknir hafa sýnt að þátttaka unglinga í skipulögðu æskulýðsstarf dregur úr líkum á að börn og ungmenni leiðist út í frávikshegðun. Þau börn og ungmenni sem stunda skipulagt æskulýðsstarf undir handleiðslu fullorðinna skátaforingja eru síður líklegir til að sýna neikvætt atferli en aðrir jafnaldrar þeirra. Skátastarf, líkt og annað skipulagt tómstundastarf í umsjón ábyrgra aðila, er þannig af mörgum talið hafa víðtækt forvarnargildi ekki einungis gegn frávikshegðun, líkt og afbrotum, ofbeldi og vímuefnaneyslu, heldur tengist þátttaka í skátastarfi einnig betri námsárangri, betri líðan, meiri sjálfsvirðingu og jákvæðari sjálfsmynd.

Neysla áfengis, tóbaks eða fíkniefna á aldrei samleið með skátastarfi og vill Bandalags íslenskra skáta efla forvarnahlutverk sitt á eftirfarandi hátt:

A) Setja fram markvissa stefnu
  • Hvetja skátafélög til þess að festa í lög sín ákvæði þar sem tekin er einörð afstaða gegn neyslu á áfengi, tóbaki og fíkniefnum.
  • Móta sameiginlegar starfsreglur um hvernig tekið skuli á áfengis- og vímuefnanotkun ungs fólks á vettvangi skátahreyfingarinnar og hvernig unnið skuli að forvörnum.
  • Gera allt húsnæði sem skátastarf fer fram í þ.m.t. skátaheimili og skátaskála áfengis-, vímuefna- og reyklaus.
B) Stuðla að aukinni og almennari þátttöku barna og ungmenna í skátastarfi
  • Hvetja skátafélög til þess vinna markvisst að því að fjölga skátum, m.a. með því að auka fjölbreytni í starfi og tryggja þannig að öll börn og ungmenni fái tækifæri til að stunda starf samræmi við eigin þarfir, getu og áhuga.
  • Nýta mannvirki og aðstöðu skátahreyfingarinnar til að festa skátastarf í sessi sem raunhæfan valkost til skemmtunar fyrir börn og ungmenni, t.d. með því að halda opin hús í skátaheimilum, eða efna til annars konar starfs fyrir þessa aldurshópa þar sem áhersla er lögð á að koma til móts við þarfir þeirra fyrir afþreyingu og skemmtun.
C) Auka þekkingu á skaðsemi áfengis, tóbaks og vímuefna og forvörnum innan hreyfingarinnar
  • Gefa út eða á annan hátt tryggja aðgengi að fræðsluefni um skaðsemi áfengis, tóbaks og vímuefna og forvarnir fyrir skátaforingja og skáta og gera fræðslu um þessi málefni að föstum þætti í skátastarfi og í leiðtogþjálfun.
  • Fela skátaforingjum að fræða þá skáta sem þeir bera ábyrgð á um áhrif og skaðsemi áfengis, tóbaks og vímuefna á heilbrigði þeirra.
  • Hvetja sambandsaðila skátahreyfingarinnar til þess að fjalla um skaðsemi áfengis, tóbaks og vímuefna og forvarnir í málgögnum sínum og ritum.


Vímuvarnarstefna BÍS

VÍMUVARNARSTEFNA BÍS

Samþykkt á stjórnarfundi BÍS, 16. september 2015.

1. FORVARNARGILDI SKÁTASTARFS

Skátahreyfingin gegnir mikilvægu hlutverki í vímuvörnum. Rannsóknir á högum barna og ungmenna sýna að þeim ungmennum sem eru virk í skátastarfi, reiðir betur af og neyta síður áfengis og vímuefna en þau sem ekki taka þátt. Bandalag íslenskra skáta vill efla enn frekar vímuvarnagildi skátastarfs með því að taka skýra afstöðu gegn neyslu áfengis og vímuefna í tengslum við starf skáta. Í þessari stefnuyfirlýsingu er talað um áfengis og vímuefnaneyslu og er þá átt við neyslu tóbaks, áfengis og allra ólöglegra vímuefna.

2. NEYSLA ÁFENGIS OG VÍMUEFNA

Bandalag íslenskra skáta er andvígt allri neyslu áfengis- og vímuefna skáta og annarra er koma starfi með börnum á vegum skátahreyfingarinnar. Bandalag íslenskra skáta veitir ekki áfengi á neinum viðburðum á vegum skátahreyfingarinnar og öll neysla áfengis og vímuefna er bönnuð í skátastarfi og í skátaheimilum, skátaskálum, í útilegum og öðrum ferðum á vegum skáta sem og á skátamótum.

Í undantekningartilvikum er neysla áfengis þó heimil á viðburðum á vegum Bandalag íslenskra skáta s.s. við hátíðarkvöldverði enda séu slíkir viðburðir einungis ætlaðir einstaklingum 20 ára eldri, ekki í húsakynnum skáta og ekki hluti af reglubundnu og hefðbundnu skátastarfi.

Þá er í undantekningartilfellum heimilt að hafa áfengi um hönd í húsakynnum og á svæðum skátahreyfingarinnar enda sé um að ræða viðburð á vegum annarra en skáta og tryggt að ekkert skátastarf sé í húsakynnunum eða svæðinu á sama tíma. Gengið skal úr skugga um að ekki sé hætta á að skátar verði varir við áfengisneysluna.

Jafnframt er skátum sem sækja viðburði erlendis sem ætlaðir eru fullorðnum skátum heimil hófleg áfengisneysla enda séu allir þátttakendur ferðarinnar 20 ára eða eldri.

Ölvun í skátabúningi er með öllu óheimil.

3. VIÐBRÖGÐ VIÐ NEYSLU SKÁTA

Bandalag íslenskra skáta munu bregðast sérstaklega við allri neyslu áfengis og vímuefna, skáta í starfi sem eru undir 18 ára aldri. Foreldrar verða undantekningarlaust upplýstir um slíka neyslu.

Varðandi viðbrögð við áfengis og vímuefnaneyslu þeirra sem eru sjálfráða, mun Bandalag íslenskra skáta bregðast við slíkri neyslu, sé hún brot á reglum skáta ( sbr. lið 2 ) og við neyslu sem hefur áhrif á frammistöðu og ímynd skátahreyfingarinnar.

Viðbrögð Bandalags íslenskra skáta við brotum á reglum þessum verða í formi tilmæla og ábendinga. Skili slík viðbrögð ekki árangri getur komið til tímabundinnar brottvísunar úr skátastarfi.

Viðbrögð Bandalags íslenskra skáta munu samt sem áður ávallt mótast af vilja til að aðstoða skátann við að laga sig að reglunum og að hann haldi áfram að starfa innan skátahreyfingarinnar.

4. HLUTVERK SKÁTAFORINGJA

Skátaforingjar skulu starfa eftir vímuvarnastefnu Bandalags íslenskra skáta, þar með talið að bregðast við áfengis og vímuefnaneyslu á viðeigandi hátt.

Bandalags íslenskra skáta munu sjá skátaforingjum fyrir fræðsluefni um áhrif áfengis og vímuefnaneyslu á ástundun og frammistöðu í skátastarfi sem og á einkalíf skátans.

Skátaforingjar skulu framfylgja stefnu Bandalags íslenskra skáta varðandi samstarf við foreldra og aðra aðila sem sinna málefnum barna og unglinga.

5. SAMSTARF VIÐ FORELDRA

Bandalags íslenskra skáta munu upplýsa foreldra um stefnu Bandalags íslenskra skáta í áfengis og vímuvörnum.

Bandalags íslenskra skáta munu standa að góðu samstarfi við foreldra skáta með fræðslu um neikvæð áhrif áfengis og vímuefna.

Bandalags íslenskra skáta munu starfa náið með fagfólki í áfengis og vímuvörnum og hafa samráð við foreldra, þurfi að taka á neysluvandamáli skáta undir sjálfræðisaldri.

6. SAMSTARF VIÐ AÐRA AÐILA SEM SINNA MÁLEFNUM BARNA OG UNGLINGA

Bandalags íslenskra skáta munu hafa náið samstarf við þá aðila sem sinna tómstundastarfi barna og unglinga.

Bandalags íslenskra skáta muna hafa náið samstarf við fagaðila sem sinna börnum og unglingum, fá frá þeim fræðsluefni og hafa samráð um einstaklinga í áhættuhópi.


Grunngildi BÍS

GRUNNGILDI BÍS

Samþykkt á Skátaþingi 06/04/2019

INNGANGUR

Grunngildi Bandalags íslenskra skáta eru af þrennum toga:

1. Samfélagsleg gildi sem tengjast hlutverki skátahreyfingarinnar:

      1. Skátahreyfingin er alþjóðleg uppeldis- og friðarhreyfing sem stuðlar að menntun ungs fólks með sjálfsnámi.
      2. Skátahreyfingin er opin öllum og óháð stjórnmálasamtökum.

2. Siðferðileg gildi sem finna má í:

      1. Skátaheiti.
      2. Skátalögum.
      3. Kjörorði skáta.

3. Aðferðafræðileg gildi sem fólgin eru í Skátaaðferðinni og byggja á:

      1. Stigvaxandi sjálfsnámi.
      2. Kerfi innbyrðis tengdra lykilþátta.
      3. Kjörorði skáta.

Grunngildi Bandalags íslenskra skáta mynda sameiginlega grundvöll skátastarfs og skilgreina þannig sérstöðu þess. Lög Bandalags íslenskra skáta byggja ávallt á grunngildum samtakanna. Grunngildin eru byggð á Constitution og By-laws beggja heimsbandalaga skáta – WAGGGS og WOSM. Þau eru sá grunnur sem Bandalag íslenskra skáta og öll skátafélög á Íslandi starfa eftir.

BÍS er aðili að alþjóðabandalagi skáta, WOSM, og alþjóðabandalagi kvenskáta, WAGGGS og starfar samkvæmt lögum þeirra og grunngildum.

SAMFÉLAGSLEG GRUNNGLIDI SKÁTAHREYFINGARINNAR

Markmið skátahreyfingarinnar

Skátahreyfingin er alþjóðleg uppeldis- og friðarhreyfing. Markmið hennar er að leggja sem mest af mörkum við uppeldi ungs fólks  til þess að skapa betri heim þar sem fólk öðlast lífsfyllingu sem sjálfstæðir, virkir og ábyrgir einstaklingar í samfélaginu. Þetta er gert með því að:

      • Virkja ungt fólk á þroskaskeiði þeirra með óformlegu uppeldis- og menntakerfi.
      • Beita sérstökum aðferðum sem gera hvern einstakling virkasta áhrifavaldinn í eigin þroskaferli.
      • Hjálpa ungu fólki að byggja upp eigið gildakerfi sem grundað er á siðferðilegum lífsgildum, félagslegu réttlæti og persónulegri staðfestu í anda skátalaga og skátaheits.

Skátahreyfingin er æskulýðshreyfing með stuðningi og þátttöku fullorðinna. Gefa þarf skátum á öllum aldursstigum tækifæri til taka þátt í ákvarðanatöku sem hefur áhrif á skátastarfið. Með aldrinum eykst ábyrgð þeirra á ákvarðanatöku og framkvæmd verkefna.

Skátahreyfingin er opin öllum

Skátahreyfingin er opin fyrir alla sem fylgja markmiðum hennar, Grunngildum og Skátaaðferðinni, án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungumáls, trúar, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis, kynhneigðar eða annarra ástæðna. Lokaákvörðunin um að taka þátt eða ekki er í höndum hvers og eins. Skátahreyfingin er ekki hreyfing fyrir útvalda. Hins vegar er ljóst að skátahreyfingin getur aðeins tekið á móti einstaklingum með miklar sérþarfir þegar aðstæður og mannafli eru fullnægjandi til að mæta þörfum þeirra.

Skátahreyfingin er óháð stjórnmálasamtökum

Skátahreyfingin er frjáls og óbundin stjórnmálaflokkum. Það er þó ekkert sem hamlar henni að taka afstöðu í tilteknum málefnum að því tilskildu að afstaðan sé í samræmi við Grunngildin.

Þegar einstaklingar koma fram í nafni skátahreyfingarinnar mega þeir ekki tengja sig stjórnmálaflokkum. Ekkert kemur í veg fyrir að félagar í skátahreyfingunni starfi á sama tíma með stjórnmálaflokki, ef það er gert í eigin nafni en ekki skátahreyfingarinnar.

SIÐFERÐISLEG GRUNNGILDI SKÁTAHREYFINGARINNAR

Siðferðileg gildi skátahreyfingarinnar er að finna í skátaheitinu og skátalögunum. Fyrirmynd þeirra er í samþykktum alþjóðahreyfinga skáta. Orðalag er þó mismunandi eftir löndum, menningarheimum og tungumálum.

Skátaheitið

Skátaheitið er loforð sem skátinn gefur sjálfum sér, eins konar persónuleg áskorun um að gera sitt besta. Þegar skátinn vinnur skátaheitið er hann að taka fyrsta meðvitaða skrefið á sjálfsnámsbrautinni til að verða sjálfstæður, virkur og ábyrgur samfélagsþegn. Íslenska skátaheitið hljóðar svo (velja má á milli annars vegar guð/samviska og ættjörðina/samfélag):

Ég lofa að gera það sem í mínu valdi stendur
til þess að gera skyldu mína við guð/samvisku og ættjörðina/samfélag,
að hjálpa öðrum og
að halda skátalögin.

Siðferðileg gildi í skátaheitinu eru oft flokkuð á eftirfarandi hátt:

      • „Skyldan við guð/samvisku“ – tengsl einstaklingsins við leitina að lífsgildum sem eru ofar honum sjálfum.
      • „Skyldan við aðra“ – tengsl einstaklingsins við samfélagið og ábyrgð hans innan þess.
      • „Skyldan við sjálfan sig“ – ábyrgð einstaklingsins á að þroska hæfileika sína eins og mögulegt er.
Skátalögin

Siðferðileg gildi skátahreyfingarinnar eru sett fram á skipulegan hátt í skátalögunum. Skátalögin eru þó miklu meira en bara skipulagskerfi hugmynda. Þau eru í raun hegðunarmynstur sem ungt fólk getur valið að fylgja og nota til að móta stefnu sína í lífinu. Til þess að vera sjálfum sér samkvæmur þarf hver einstaklingur að hugsa og haga sér í samræmi við eigin gildi.

Íslensku skátalögin eru svohljóðandi:

      • Skáti er hjálpsamur
      • Skáti er glaðvær
      • Skáti er traustur
      • Skáti er náttúruvinur
      • Skáti er tillitssamur
      • Skáti er heiðarlegur
      • Skáti er samvinnufús
      • Skáti er nýtinn
      • Skáti er réttsýnn
      • Skáti er sjálfstæður
Kjörorð skáta

Kjörorð skáta er: Ávallt viðbúinn.

Kjörorð skáta felur það í sér að skátinn sé alltaf andlega og líkamlega tilbúinn að gera skyldu sína.

AÐFERÐAFRÆÐILEG GRUNNGILDI SKÁTAHREYFINGARINNAR

Skátastarf byggir á hugmyndinni um sjálfsnám sem er stigvaxandi í takt við aldur og þroska.

Í skátastarfi fá börn og ungmenni tækifæri til að vinna að sínum markmiðum með því að takast á við skemmtileg verkefni og lifa sig inn í ævintýri. Aðalatriðið er að skátarnir sjálfir taki virkan þátt í að velja, undirbúa, framkvæma og ígrunda verkefnin í samræmi við aldur og þroska – að sjálfsögðu með leiðsögn og stuðningi hinna fullorðnu.

Að auki byggist Skátaaðferðin á átta lykilþáttum sem tengjast innbyrðis.

Lykilþættir Skátaaðferðarinnar:
      • Skátalögin, skátaheitið og kjörorð skáta
      • Flokkakerfið
      • Táknræn umgjörð
      • Útilíf og umhverfisvernd
      • Leikir og reynslunám
      • Hjálpsemi og samfélagsþátttaka
      • Framfarir einstaklingsins
      • Stuðningur fullorðinna

Hver einstakur lykilþáttur hefur sjálfstætt uppeldis- og menntunargildi og hver þáttur fyrir sig eykur áhrif hinna. Allir lykilþættirnir þurfa að vinna saman til þess að kerfið virki.

NIÐURLAG

Grunngildi Bandalags íslenskra skáta voru samþykkt á Skátaþingi 2019. Grunngildum Bandalags íslenskra skáta er einungis hægt að breyta með samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða tveggja Skátaþinga í röð.