JAFNRÉTTISSTEFNA BÍS

Samþykkt á Skátaþingi 2. apríl 2022

Gildissvið

Þessi stefna skal ná til alls skátastarfs á á Íslandi.

Telji félagar að aðrir félagar eða starfsfólk Bandalags íslenskra skáta hafi gerst brotleg við jafnréttisstefnu þessa má vísa því til stjórnar Bandalagsins. Telji félagar að stjórn Bandalags íslenskra skáta hafi gerst brotleg við jafnréttisstefnuna má vísa því til Skátaþings.

SÝN:

Stefna þessi miðar að því að skýra hlutverk og leiðir Bandalags íslenskra skáta til að tryggja raunverulega inngildingu og aðgengi allra hópa að skátastarfi og að öll sem vilji fái tækifæri til þess að njóta skátastarfs, óháð kynþætti, þjóðerni, kynvitund, kynhneigð, kyntjáningu, trú, stjórnmálaskoðun, aldri, stétt eða stöðu að öðru leyti.

Hlutverk Bandalags íslenskra skáta er að tryggja að allir skátar njóti jafnréttis í skátastarfi þar sem inngilding og fjölbreytileiki eru í hávegum höfð.

Bandalag íslenskra skáta mun gera allar mögulegar ráðstafanir til að tækla allar gerðir mismununar, ójafnréttis og óréttlátrar meðferðar, gegn eða á milli félaga í hreyfingunni.

MARKMIÐ:

  1. Að öll sem sinni sjálfboðaliða- eða forystustörfum fyrir skátana búi yfir greinargóðri þekkingu og vitund um mannréttindi, jafnrétti, inngildingu og fjölbreytileika samfélagsins.
  2. Að ráðstafanir verði teknar til að kynna skátastarf fyrir og taka sérstaklega á móti í skátastarfi þeim hópum samfélagsins sem eiga erfiðara með að stunda tómstundir eða æskulýðsstarf, t.a.m. vegna fjárhags, tungumáls, fötlunar, þjóðernis, kynferðis eða stöðu að öðru leyti.
  3. Að hvar sem það er hægt skal skátastarf aðlagað að ólíkum þörfum þeirra sem stunda það, svo lengi sem það stríðir ekki gegn Grunngildum skátahreyfingarinnar, markmiðum hennar eða skátaaðferðinni.
  4. Að öll lög, stefnur og reglugerðir BÍS endurspegli þessa skuldbindingu samtakanna að stuðla að frekari inngildingu og fjölbreytileika í skátahreyfingunni.
  5. Að miðla þessari stefnu út á við til félaga BÍS og víðar.
  6. Að endurmeta og endurbæta þessa stefnu eftir því sem við á svo að BÍS geti haldið áfram að þróast í átt að frekari inngildingu og fjölbreytileika í skátahreyfingunni.

SKREF Í ÁTT AÐ MARKMIÐUM:

  1. Að öll sem sinni sjálfboðaliða- eða forystustörfum fyrir skátana búi yfir greinargóðri þekkingu og vitund um mannréttindi, jafnrétti, inngildingu og fjölbreytileika samfélagsins.
      1. Að þekking og vitund skáta um jafnréttismál og mannréttindi verði aukin með fræðslu til skáta og skátaforingja
      2. Að búa til dagskrár- og fræðsluefni um jafnrétti, mannréttindi og fjölbreytileika sem miðlað er til skáta og skátaforingja.
      3. Að tryggja að fjölbreytileikafræðsla og önnur fræðsla um jafnrétti og mannréttindi sé í boði hvenær sem þess er völ, t.d. á sjálfboðaliðanámskeiðum, foringjanámskeiðum og annars staðar.
  2. Að ráðstafanir verði teknar til að kynna skátastarf fyrir og taka sérstaklega á móti í skátastarfi þeim hópum samfélagsins sem eiga erfiðara með að stunda tómstundir eða æskulýðsstarf, t.a.m. vegna fjárhags, tungumáls, fötlunar, þjóðernis, kynferðis eða stöðu að öðru leyti.
      1. Að bjóða skátaforingjum og öðrum sjálfboðaliðum upp á nauðsynlega þjálfun og fræðslu svo þau geti tekið á móti einstaklingum með ólíkar þarfir, reynslu og bakgrunn og gert þeim kleift að njóta sín í skátastarfi.
      2. Að skapa verkfæri og ferla sem tryggja að bág fjárhagsstaða hindri ekki aðgengi einstaklinga að skátastarfi.
      3. Að skapa tækifæri í skátastarfi svo skátar, þá sérstaklega skátar á þátttökualdri, fái að upplifa og læra um inngildingu, fjölbreytileika og mannréttindi í skátastarfi, bæði hvað varðar þau sjálf sem og aðra hópa í samfélaginu.
  3. Að hvar sem það er hægt skal skátastarf aðlagað að ólíkum þörfum þeirra sem stunda það, svo lengi sem það stríðir ekki gegn Grunngildum skátahreyfingarinnar, markmiðum hennar eða skátaaðferðinni.
      1. Að dagskrár- og fræðsluefni og annað útgefið efni BÍS verði (þ.m.t. birt efni á samfélagsmiðlum) birt á fleiri en einu tungumáli.
      2. Að viðburðir BÍS verði, án undantekninga, túlkaðir sé þess þörf eða beðið sé um það, án kostnaðar fyrir þau sem þurfa á túlkun að halda.
      3. Að viðburðir BÍS verði, alltaf þegar völ er á, haldnir í aðgengilegu húsnæði með tilliti til góðrar hljóðvistar fyrir fólk með heyrnarskerðingu eða heyrnartruflanir og aðgengis fyrir þau sem nota hjólastól eða eru hreyfihömluð.
  4. Að öll lög, stefnur og reglugerðir BÍS endurspegli þessa skuldbindingu samtakanna að stuðla að frekari inngildingu og fjölbreytileika í skátahreyfingunni.
      1. Að lög, stefnur og reglugerðir BÍS verði yfirfarnar og nauðsynlegar breytingar gerða til að þessi plögg stuðli að inngildingu og endurspegli raunverulega þann fjölbreytileika sem fyrirfinnst í skátahreyfingunni sem og samfélaginu öllu.
      2. Að lög, stefnur og reglugerðir BÍS hindri ekki aðgengi þeirra sem raunverulega vilja stunda skátastarf, gefið að þau séu tilbúin að fylgja markmiðum hreyfingarinnar, Grunngildum og skátaaðferðinni.
  5. Að miðla þessari stefnu út á við til félaga BÍS og víðar.
      1. Að kynna þessa stefnu félögum við tækifæri og hvetja félaga til þess að stefna einnig að því að ná markmiðum þessarar stefnu.
      2. Að þessi stefna og skrefin sem tekin eru með henni verði kynnt á samfélagsmiðlum BÍS.
      3. Að vera fyrirmynd fyrir önnur samtök í jafnréttismálum og inngildingu sem og fræðslu um fjölbreytileika og mannréttindi.
  6. Að endurmeta og endurbæta þessa stefnu eftir því sem við á svo að BÍS geti haldið áfram að þróast í átt að frekari inngildingu og fjölbreytileika í skátahreyfingunni.
      1. Að þróa stefnuna eftir því sem nýjar upplýsingar koma í ljós.
      2. Að fylgjast með hvernig gengur að innleiða þessi skref í skátafélögunum.
      3. Að endurmeta reglulega hvort það vanti eitthvað í stefnuna eða hvort einhverju sé ofaukið.