Við Gamla, skála Skátafélagsins Klakks hafa sl. haust farið fram miklar framkvæmdir, sem miða að endurbótum skálans og gera hann útilegufæran á ný. En vegna mikillar almennrar umferðar um svæðið og þess, að skálinn var alla tíð opinn fyrir gesti og gangandi var hann kominn í nokkra niðurníðslu og hafði því miður orðið fyrir barðinu á slæmri umgengni (jafnvel skemmdarverkum). En á haustdögum var ráðist í gagngerar endurbætur á skálanum, sem raunar standa enn yfir, og hefur Tumi Snær Sigurðsson haft umsjón með af þeim, ásamt vöskum rekkaskátum og öðrum skátum á öllum aldri.
Sl. sunnudag, 7. des. var þeim áfanga fagnað, að ný kamína er komin í gagnið og skálinn formlega orðinn útilegutækur. Boðið var upp á gönguferð með leiðsögn frá Hömrum upp að Gamla, þar sem boðið var upp á kakó, kex og mandarínur (í tilefni aðventunnar) og voru þar samankomnir á þriðja tug manns þegar mest var. Áttu viðstaddir þar notalega og ánægjulega stund, auk þess sem veður var með besta móti til gönguferða. Jóhann Malmquist félagsforingi hélt erindi en einnig sagði Ólafur Kjartansson frá Brunná lítillega frá framkvæmdunum við byggingu skálans á árunum 1979-81. Ólafur, jafnan kallaður Óli Kjartans, hafði einmitt veg og vanda af því að koma nýju kamínunni fyrir og málmsmíðum í kringum hana. Sagði Óli frá því, að á sínum tíma hefði allt efnið í skálann verið borið frá Kjarnaskógi eða Fálkafelli og kamínan líklega þyngst af því öllu. Nýja kamínan og annað efni til framkvæmda var hins vegar ferjað uppeftir með þyrlu nú haustdögum. Rétt er að óska hlutaðeigandi til hamingju með nýja kamínu og aðrar endurbætur á Gamla.






