Fálkaskátaforingjar köfuðu ofan í könnuðarmerkjabók
Hringborð fálkaskátaforingja fór fram í Skátamiðstöðinni þriðjudaginn 19. september en hringborðin eru vettvangur fyrir sjálfboðaliða um land allt í samskonar hlutverkum að kynnast innbyrðis, ræða sín á milli þær áskoranir sem þau mæta í sínu starfi og deila á milli sín lausnum og góðum aðferðum.
19 skátaforingjar fálkaskáta úr 10 skátafélögum, þar af 3 sem tóku virkan þátt úr 2 skátafélögum utan af landi, mættu að hringborðinu og fór fram skemmtileg umræða um hin ýmsu málefni. Mestum tíma var varið í umræður um nýju könnuðarmerkin sem ætluð eru elstu fálkaskátunum, hvaða kröfur liggja að baki merkinu og hvernig sé best að leiðbeina hópi fálkaskáta á sinni vegferð að því. Þá sköpuðust afar gagnlegar umræður um praktísk atriði á hlið skátaforingjanna. Þá var einnig rætt um nýju stiku- og hæðarmerkin sem ætlað eru að styðja við aukna útivist í skátastarfi meðal yngri aldursbilanna jafnt sem þeirra eldri. Þau eru svo ný af nálinni að skátaforingjar hafa enn ekki fengið tækifæri til að nýta þau en ljóst var að mikil ánægja var með að svona merki væru komin og öll hyggðust nýta þau á komandi ári.
Kvöldið var líka nýtt til kynninga en Skátaskólinn kynnti tilboð til félaga um að koma með Fálkakraft dagskránna á vettvang félaganna og svo voru öll minnt á fálkaskátadaginn í nóvember og hvött til að fjölmenna.
Í opnum umræðum var rætt um mikilvægi þess að fara í útilegur og ferðir með fálkaskáta en ánægjulegt var að heyra að þau mál voru í lagi hjá öllum sveitum við hringborðið sem sum eru á leið í fystu útilegu ársins um komandi helgi. Flokkakerfið fékk sinn sess og hve gagnlegt sú umgjörð væri til að reka gott fálkaskátastarf, margir foringjar eru í fyrsta sinn að afla sér reynslu í að stýra slíku starfi og önnur á fundinum sem nota það ekki virtust sannfærast um að láta á það reyna líka í sínum sveitum sem lausn við vissum áskorunum í starfinu. Rætt var um mikilvægi þess að setja sér starfsáætlun sem væri síðan miðlað áfram til forráðafólks svo að skátaforingjar, skátarnir og forráðafólk þeirra væru öll með sömu væntingar til starfsins. Í lokin fengu foringjunum lampa með anda sem veitti þeim eina ósk um stuðningsefni sem myndi gagnast þeim í starfi og komu allskonar spennandi hugmyndir fram sem spennandi verður að skoða betur.
Hringborðin virðast sannarlega hafa markað sér sess en þetta er annað árið sem þessum vettvangi er haldið úti og því ánægjulegt að þau reynist eins fjölmenn og lífleg og raun ber vitni.
Næst er það hringborð dróttskátaforingja sunnudaginn 24. september og verður spennandi að sjá hvað kemur úr því.