Skátablaðið Pappírsheimur - 3. tölublað

Yfir Landsmót kemur út mótsblað og ber það heitið Pappírsheimur og eru ritstjórar þess Unnur Líf Kvaran og Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir. Hér má lesa 3. tölublað.
Froðupartý sló í gegn

Þriðji dagur Landsmóts fór vel af stað, enn eru einhver tjöld og búnaður í þurrkun en gleðin leynir sér þó ekki. Öll eru boðin og búin til að hjálpa nágrönnum sínum og skemmta sér vel á meðan.
Í dag var boðið upp á stórskemmtilegan skyndiviðburð, froðupartý í risastórum hoppukastala og var gleðin allsráðandi. Ungmennaráð átti frumkvæði af viðburðinum en þau eru á aldrinum 15 - 19 ára.


Í opnu dagskrárbilunum hafa drótt- og rekkaskátar tækifæri á að koma og stjórna útvarpsþætti í FM Landsmót skáta 106.1 sem einnig er hægt að hlusta á hér, og hefur það slegið í gegn og koma sum oftar en einu sinni. Dæmi um þætti sem þau hafa verið í loftinu eru spurningaþættir, spjallþættir og viðtalsþættir. Sum koma til að stjórna tónlistinni í hálftíma.


Vonandi verðum við hér aftur eftir 50 ár með enn stærra mót

Fyrir 50 árum síðan, árið 1974, var Landsmót skáta í fyrsta skipti haldið á Úlfljótsvatni dagana 14. - 21. júlí, en áður höfðu þau verið haldin víðsvegar um landið. Mótsstjóri var Bergur Jónsson, verkfræðingur. Þema mótsins var "Landnámið" og var öll dagskrá byggð á því þema. Hvert skátafélag valdi sér landnámsmann og voru tjaldbúðirnar skírðar eftir fornum höfuðbólum í heimahéraði hvers félags. Um 1700 íslenskir skátar ásamt 200 erlendum skátum tóku þátt í mótinu en einnig voru um 100 skátar frá Danmörku og Frakklandi sem komu í tvo daga.

Dagskráin var fjölbreytt og skemmtileg. Sem dæmi um dagskrá má nefna samfélagsverkefni þar sem skátarnir fegruðu nærumhverfi sitt, einnig var markaðstorg þar sem hægt var að skiptast á merkjum, klútum, bókum og fleiru. Sett var upp tívolí með skemmtilegri afþreyingu en þar var hægt að prófa bogfimi og stultur. Heimsóknardagur var svo þann 20. júlí en þá var öllum sem vildu boðið í heimsókn á mótið.

Gamla kirkjuklukkan úr Landakotskirkju var flutt á Úlfljótsvatn fyrir mótið og komið fyrir á stórri járngrind og er hún hér enn í dag á glænýrri grind.
Það er gleðilegt að halda Landsmót hér á Úlfljótsvatni aftur 50 árum seinna með svipuðum fjölda skáta. Vonandi verðum við hér aftur eftir 50 ár með enn stærra mót.


Hressir skátar í sjónvarpsviðtali

Hressir skátar úr skátafélaginu Skjöldungum voru í viðtali í kvöldfréttum RÚV þann 12. júlí þegar setningarathöfn var nýlega lokið. Endilega kíkið á viðtalið sem hefst á mínútu 18:50 í hlekknum hér.
Skátablaðið Pappírsheimur - 2. tölublað

Yfir Landsmót kemur út mótsblað og ber það heitið Pappírsheimur og eru ritstjórar þess Unnur Líf Kvaran og Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir. Hér má lesa 2. tölublað.
Lausnamiðun og hjálpsemi á fyrsta degi mótsins

Það rigndi vel á okkur á fyrsta degi Landsmóts. Skátarnir létu það þó ekki á sig fá og komu upp tjaldbúðum, elduðu mat og skemmtu sér vel. Þegar líða fór á kvöldið bætti þó heldur í rigninguna, stórir pollar mynduðust á tjaldflötunum og sum tjöld fóru á flot. Þar sem skátar eru einkar lausnamiðaðir og hjálpsamir voru því öll stærri tjöld nýtt til þurrkunar á minni tjöldum og öðrum búnaði. Brugðið var á það ráð að moka litla skurði sem stýrðu vatninu frá tjaldflötunum.

Annar dagur mótsins hófst svo í dag með fjölbreyttri dagskrá t.d. var opin dagskrá þar sem hægt var að fara í klifurturninn, taka þátt í fótboltamóti, heimsækja Gilwell skálann, Skátasafnið og margt margt fleira.

Eftir hádegismat fóru skátarnir í torgadagskrá sem verður í boði fjóra daga á mótinu og allir skátar fara á öll torgin. Torgin eru fjögur. Á göngutorg er hægt að velja um ýmsar gönguleiðir í kringum Úlfljótsvatn og nágrenni. Á samfélagstorgi er hægt að vinna verkefni sem miða að því að fegra og betrumbæta umhverfi Úlfljótvatns. Á sköpunartorgi er ýmis efniviður og þar fær ímyndunaraflið að njóta sín. Og á þrauta-og metatorgi var hægt að fara í vatnasafarí, byggja fleka, keppa í sápubolta og margt fleira.

Um kvöldið var svo skátaáskorunin en það eru 100 þrautir um allt svæðið sem hvert skátafélag þurfti að leysa í sameiningu. Sem dæmi um þrautir og verkefni sem þufti að leysa var að raða sér í afmælisröð án þess að tala saman, fylla vatnsbrúsa með rigningarvatni og bera kennsl á 10 fána á svæðinu. Skátaáskorunin einkenndist af gleði, fjöri, rigningu og samvinnu.
Landsmót er formlega sett!
Landsmót skáta var formlega sett í gærkvöld en skátafélögin og flokkarnir gengu í fylkingum að sviðinu þar sem setningarathöfn fór fram.
Setningarathöfnin var skemmtileg og lífleg þrátt fyrir mikla rigningu, sungnir voru hreyfisöngvar, mótsstýra, Kolbrún Ósk Pétursdóttir, ávarpaði þátttakendur og að lokum var mótslagið "Úr alls konar áttum" sungið.


Hlustaðu á Fm Landsmót skáta

Á Landsmóti skáta verður starfrækt útvarp. Hægt er að hlusta á útvarpið hér eða stilla á 106.1
Dagskráin verður fjölbreytt en sem dæmi verða viðtöl við allskonar skáta, tónlist, viðtöl við skáta í dagskrá og svo er ungum skátum boðið að stjórna sínum eigin útvarpsþætti.
Útvarpsstjórar eru Helena Sif Gunnarsdóttir, Ísak Árni Eiríksson Hjartar og Óli Björn Sigurðsson.
Það er því tilvalið fyrir öll að hlusta, hvort sem þau eru á Landsmóti eða ekki.
Skátablaðið Pappírsheimur - 1. tölublað

Yfir Landsmót kemur út mótsblað og ber það heitið Pappírsheimur og eru ritstjórar þess Unnur Líf Kvaran og Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir. Hér má lesa 1. tölublað.
Skátar streyma að

Landsmót skáta er að hefjast og skátar allstaðar að úr heiminum hafa streymt á svæðið frá því á mánudag. Öll íslensku skátafélögin og fleiri erlendir skátar setja upp tjaldbúðir sínar á svæðinu í dag. Eftirvæntingin leynir sér ekki á mótsvæðinu á Úlfljótsvatni, enda hafa liðið átta ár frá síðasta Landsmóti skáta.

Mikil gleði ríkir á svæðinu þrátt fyrir hressilega rigningu og fagna skátarnir því að geta prófað allan búnaðinn sinn á mótinu. Samkvæmt veðurspá styttir upp skömmu eftir helgi.

Á mótið koma um 2000 skátar, t.d. frá Kanada, Hong Kong, Tavían, Evrópu og Bandaríkjunum.
„Það er erfitt að útskýra fyrir þeim sem hafa ekki mætt á Landsmót hvað það er, því þetta er meira en bara útilega. Skátaandinn sem svífur yfir svæðið og samheldnin sem er til staðar í skátasamfélaginu okkar er einstök og býr til þessa fallegu stemmningu sem einkennir Landsmót“.
- Kolbrún Ósk Pétursdóttir, mótsstýra Landsmóts skáta
Mótið verður sett í kvöld kl 20:00 með glæsilegri setningarathöfn.

Það er spennandi og skemmtileg vika framundan þar sem við hittum skáta allsstaðar að úr heiminum og byggjum upp stórt alþjóðlegt skátasamfélag. Fimmtudaginn 18. júlí bjóðum við öllum áhugasömum að koma í heimsókn. Hægt verður að rölta um allt svæðið og kynnast ólíkum menningarheimum skáta frá mismunandi löndum. Deginum lýkur með hátíðarkvöldvöku. Við hvetjum öll til þess að taka daginn frá og gleðjast með okkur á Úlfljótsvatni.

Hægt verður að fylgjast með Landsmótinu á heimasíðu og samfélagsmiðlum skátanna, Facebook og Instagram. Gefið verður út daglegt fréttablað frá Landsmóti og að auki hægt að fylgjast með því í útvarpi á rásinni 106.1 eða á spilarinn.is







