Kolbrún Ósk rær á ný mið

Kolbrún Ósk Pétursdóttir mun í byrjun janúar hætta sem starfsmaður Skátamiðstöðvarinnar og Skátamóta. Kolbrún hefur unnið ötult og glæsilegt starf sem viðburðastýra BÍS, mótsstjóri Landsmóts skáta 2024 á Úlfljótsvatni og stutt fararhópa og aðra viðburði á vegum BÍS.

Með þakklæti í hjarta kveðjum við Kolbrúnu Ósk og óskum henni velfarnaðar í nýjum ævintýrum í leik og starfi. Takk fyrir alla þá vinnu sem þú hefur veitt skátastarfi á Íslandi.


Opnunartími yfir hátíðarnar

Opnunartími verður takmarkaður yfir hátíðarnar en verður sem hér segir:

 

Skrifstofa BÍS & Skátabúðin
20. desemberOPIÐ
21.-26. desemberLOKAÐ
27. desemberOPIÐ
30. desemberOPIÐ
31. desemberLOKAÐ
1. janúarLOKAÐ
Sígræna jólatréð
20. desember09:00 - 18:00
21. desember 10:00 - 18:00
22. desember10:00 - 18:00
23. desember - 1. janúarLOKAÐ

 


Fundur fólksins - Tölum saman daginn fyrir kosningar!

Lýðræðishátíð unga fólksins fer fram í Hörpunni 29. nóvember  sem hluti af Fundi fólksins, ráðstefnu Almannaheilla.

Krökkum í 10. bekk í Reykjavík er boðið á Lýðræðishátíðina og verða þátttakendur um 150. Hátíðin byrjar kl. 10.00 í salnum Kaldalóni þar sem hópurinn fær örfyrirlestur um það að taka afstöðu og láta í sér heyra.
Eftir það verður unga fólkinu skipt í hópa og skiptum þeim niður á fleiri sali þar sem þau setjast á umræðuborð og ræða fjögur málefni. Í lokin munu þau svo kjósa um það hvað skiptir þau mestu máli.

Þau hafa óskað eftir sjálfboðaliðum til að vera umræðustjórar hjá hópunum og hvetjum við skáta, 18 ára og eldri, til að bjóða sig fram!
Þetta á að vera skemmtilegt og áhugavert verkefni fyrir sjálfboðaliða og tækifæri til að leiða hóp í málefnalegu samtali.

Hver sjálfboðaliði/umræðustjóri myndi taka að sér eitt umræðuefni og fara með fjóra hópa í gegnum það efni.

Þú getur skráð þig hér sem sjálfboðaliði. Þú getur sett inn það umræðuefni sem þú hefur mestan áhuga á, en ekki víst að við getum sinnt öllum óskum.

Að neðan eru umræðuefnin sem á að taka fyrir. Hlutverk umræðustjóra er að hvetja nemendur til að taka til máls og segja sína skoðun. Ekki verra ef umræðustjóri þekkir málefnið eða kynnir sér fyrirfram.

Umræðuefnin eru:

  • Símabann í skólum
    • Á að banna síma alfarið í skólum?
    • Ættu að vera reglur um símanotkun í skólunum?
    • Af hverju símabann? Er það raunhæft?
    • Hefur síminn áhrif á þig í skólanum?
    • Er hægt að finna aðrar leiðir svo símar trufli ekki í skólum? Eða hafi áhrif á samskipti nemenda?
  • Samræmd próf og inntaka í framhaldsskóla
    • Á að taka upp samræmd próf?
      • Af hverju? Af hverju ekki
    • Hvað finnst þér um inngönguskilyrði í framhaldsskóla í dag?
    • Veistu hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að komast inn í framhaldsskóla?
  • Á að færa kosningarétt til 16 ára?
    • Myndir þú vilja geta kosið á morgun?
    • Finnst þér að 16 ára ættu að geta kosið?
    • Fylgistu með kosningunum?
    • Veistu hvaða flokk þú myndir kjósa?
  • Samgöngumál - strætó, Borgarlína.
    • Tekur þú strætó?
    • Hvernig finnst þér strætó samgöngur?
    • Veistu hvað Borgarlínan er?
    • Myndirðu vilja fá Borgarlínu?

Þroski - samheldni - heiðarleiki

Glæsilegur hópur skáta fengu Gilwell einkennin sín afhent á hátíðlegri stund í Gilwell skálanum um helgina. Þeir sem fá Gilwell einkenni hafa lokið 10 daga leiðtogaþjálfun og gert lokaverkefni. Gilwell leiðtogaþjálfun er æðsta stig foringjaþjálfunar BÍS.  Fyrsti hluti ævintýrsins var í febrúar, í júní var tjaldbúð reist á Úlfljótsvatni í 5 daga þar sem fræðslu var blandað við tjaldbúðarupplifun. Þriðji og síðasti hlutinn var svo núna um helgina. Hápunktur helgarinnar var þegar skátarnir kynntu Gilwell verkefnið sitt fyrir hópnum en þau völdu sér verkefni á vordögum sem þau unnu svo að fram á haust. Óhætt er að segja að verkefnin hafi verið fjölbreytt, allt frá því að smíða sturtuhús við vatnasafaríið á Úlfljótsvatni í að gera handbók fyrir fararstjóra á Landsmót skáta og endurskoða hlutverk sjálfboðaliðaforingja.

Þó nokkrir gestafyrirlesarar hafa komið að námskeiðunum en á þessum síðasta hluta má nefna Jakob Frímann Þorsteinsson og Vöndu Sigurgeirsdóttur, Elínu Ester, Hrönn Pétursdóttir, Guðrúnu Ásu og Arnór Bjarka Svarfdal. Þau eru öll skátar og miklir leiðtogar á sínum sviðum í atvinnulífinu en leiðtogafræði og leiðtogaþjálfun var einmitt þema helgarinnar og unnið er með hæfni hvers og eins

Skátarnir fjórtán eru á aldrinum 20 – 52 ára og koma úr 9 skátafélögum. Skipt var í flokka í upphafi sem héldust í gegnum ferlið, flokkarnir unnu saman að stórum sem smáum verkefnum. Síðasta verkefni þeirra var að velja eitt orð sem lýsir upplifun af námskeiðinu – þessi orð urðu fyrir valinu:  Þroski – samheldni - heiðarleiki


Yfirlýsing stjórnar

Vegna umfjöllunar RÚV í liðinni viku um alheimsmót skáta 2023 og um meint fjármálamisferli og frændhygli hjá Bandalagi íslenskra skáta viljum við, undirrituð, koma eftirfarandi á framfæri.

Við sem sitjum og sátum í stjórn BÍS í aðdraganda ferðarinnar, á meðan á henni stóð og eftir hana stöndum þétt við hlið skátahöfðingja Íslands. Í ljósi umræðu síðustu daga þykir okkur rétt að benda á að þótt skátahöfðingi sé í forsvari fyrir stjórn BÍS eru allar ákvarðanir teknar af stjórninni í sameiningu. Þetta á einnig við um þær ákvarðanir sem teknar hafa verið í kringum alheimsmótið. 

Okkur er fyrirmunað að skilja hver tilgangur þessarar umfjöllunar er annar en að kasta rýrð á starfsemi skátahreyfingarinnar og þá sérstaklega á störf skátahöfðingja, þar sem bæði öllum hlutaðeigandi, þar á meðal fararstjórn, hefur verið boðið til samtals um málið og var það okkar upplifun að þau sem hefðu þegið það boð hefðu gengið sátt frá borði. Við ítrekum að við erum enn opin til samtals og viljum ekkert frekar en að leysa málin á farsælan hátt. Umfjöllun RÚV hefur verið mjög einhliða og byggð á rangfærslum sem fjölmiðlafólki ætti að hafa verið ljóst um. Það er okkar mat að umfjöllunin brjóti gegn  siðareglum blaðamanna. Í siðareglunum er meðal annars gerð sú lágmarkskrafa að upplýsingar séu settar fram á heiðarlegan hátt og greinarmunur gerður á skoðunum og staðreyndum. Það er ljóst að umfjöllunin uppfyllir ekki þessa lágmarkskröfu.

Varðandi starfsmannamál þá kemur stjórn BÍS eingöngu að ráðningu framkvæmdastjóra og hefur annars ekki beina aðkomu að mannaráðningum bandalagsins. Þær eru á ábyrgð framkvæmdastjóra. Það er þó alltaf svo að í litlu samfélagi eru óhjákvæmilega tengsl á milli aðila. Tekið skal fram að Harpa Ósk var hvorki skátahöfðingi né framkvæmdastjóri í afleysingum þegar báðar systur hennar og kærasti annarrar þeirra voru ráðin í störf á vegum BÍS. Það skal ítrekað að þau sem eru ráðin til starfa fyrir hreyfinguna eru ráðin af eigin verðleikum en ekki vegna skyldleika. Að gefa annað í skyn er ekki síður áfellisdómur á það góða fólk sem þar hefur unnið við afar fjölbreytt störf.

Við teljum brýnt að ávarpa þær ásakanir sem fram hafa komið um hæfi Hörpu Óskar til þess að sinna stöðu framkvæmdastjóra BÍS í afleysingum. Hefur í þessu samhengi verið vísað í starfsreglur stjórnar BÍS og gefið í skyn að ráðning hennar í afleysingar með skömmum fyrirvara brjóti gegn þeim. Í starfsreglum stjórnar BÍS segir orðrétt “Stjórnarmenn skulu ekki þiggja laun fyrir stjórnarsetu né vera fastráðnir starfsmenn BÍS eða dótturfyrirtækja.” Það er alveg á hreinu að Harpa Ósk hefur aldrei þegið laun fyrir stjórnarsetu og aldrei verið fastráðin á skrifstofu BÍS. Starfsfólk í afleysingum er enda ekki fastráðið.

Haustið 2022 kom upp sú staða að framkvæmdastjóri BÍS þurfti að hverfa frá störfum með mjög skömmum fyrirvara. Þetta var álagstími á skrifstofunni og því var mikilvægt að finna afleysingu fyrir hana strax til að hægt væri að sinna áfram brýnustu málefnum BÍS og dótturfélaga. Sú ráðstöfun var í fyrstu hugsuð til nokkurra vikna en þegar ljóst var að fyrrum framkvæmdastjóri myndi ekki snúa aftur til starfa var hún framlengd.  Skátahöfðingi hafði á þessum tíma svigrúm í sinni vinnu til þess að færa til verkefni og varð því úr að lögð var tillaga fyrir félagsforingjafund um að hún sinnti störfum framkvæmdastjóra tímabundið á meðan á ráðningarferli nýs framkvæmdastjóra stæði. Sú tillaga var samþykkt. Ráðningarferlið tók lengri tíma en áætlað var. Nýr framkvæmdastjóri kom formlega til starfa í maí 2023 en hóf í raun ekki störf að fullu fyrr en í ágúst, viku áður en farið var á alheimsmót. Harpa var því enn að sinna aðlögun hans að nýju starfi þegar mótið átti sér stað. Það er því ljóst að stjórn hafði umboð félagsforingjafundar fyrir afleysingunni og er afgreiðsla þessa máls því í samræmi við lög og reglugerðir BÍS þrátt fyrir að annað hafi verið gefið í skyn í umfjöllun RÚV um málið.

Við viljum árétta að allir þeir sjálfboðaliðar sem starfa í stjórn BÍS, þar á meðal skátahöfðingi, gera það af heilindum með það að markmiðiði að móta uppbyggilegt og skemmtilegt skátastarf í landinu.

Auður Sesselja Gylfadóttir, meðstjórnandi
Björk Norðdahl, fyrrum meðstjórnandi
Davíð Þrastarson, meðstjórnandi
Guðrún Stefánsdóttir, meðstjórnandi
Huldar Hlynsson, fyrrum meðstjórnandi
Sævar Skaftason, gjaldkeri
Unnur Líf Kvaran, meðstjórnandi
Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir, fyrrum meðstjórnandi
Þórhallur Helgason, aðstoðarskátahöfðingi


Sendum okkar dýpstu samúðarkveðjur

Bandalag íslenskra skáta vottar aðstandendum, félögum í björgunarsveitinni Kyndli í Mosfellsbæ og öllum vinum okkar í Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu innilega samúð vegna fráfalls félaga og formanns Kyndils.


Risaþrautir, eldkeppni og kvöldvaka á fálkaskátadegi

Fálkaskátadagurinn var haldinn laugardaginn 2. nóvember á 112 ára afmæli skátastarfs á Íslandi en í þetta sinn voru það Landnemar sem voru gestgjafar dagsins. 

 

Dagskráin hófst á póstaleik í Öskjuhlíðinni þar sem flokkarnir fóru í risamíkadó, risamyllu, leystu skátadulmál, fóru í blindandi skógargöngu, bjuggu til sjúkrabörur, reiknuðu út hæð, lengd og rúmmál undirganganna undir Bústaðaveg, gáðu til veðurs, kynntust vatnstankinum á Veðurstofuhæðinni, fluttu vatn og fleira. Í lok póstaleiksins söfnuðust allir flokkarnir saman fyrir framan Landnemaheimilið og kepptu í eldkeppni þar sem markmiðið var að brenna snæri sem strengt hafði verið yfir eldstæðin. Eftir æsispennandi póstaleik stóð flokkurinn Ostasnakk úr Garðbúum uppi sem sigurvegarar leiksins en flokkurinn fékk samtals á þriðja þúsund stig og hlaut að launum farandfánann Fálkakempur.

 

Eftir póstaleikinn var haldin kvöldvaka þar sem fálkaskátarnir tóku vel undir í söng og að henni lokinni var boðið upp á kakó og kex en rúsínan í pylsuendanum var draugahúsið sem dróttskátarnir í Landnemum höfðu sett upp í skátaheimilinu.

 

Um 100 fálkaskátar ásamt foringjum tóku þátt í Fálkaskátadeginum og veður var með besta móti. Landnemar þakka öllum þeim sem tóku þátt í deginum kærlega fyrir samveruna, og óska öllum skátum til hamingju með 112 ára afmæli skátastarfs á Íslandi!

 


Andrea Dagbjört ráðin í fullt starf sem Erindreki BÍS

Andrea hefur yfirgripsmikla þekkingu og reynslu af skátastarfi og hefur sinnt fjölmörgum verkefnum fyrir hreyfinguna og sitt félag. Hún er starfandi sveitarforingi dróttskátasveitar og hefur reynslu í stjórnarsetu skátafélaga og sem aðstoðarfélagsforingi. Andrea mun taka við starfi erindreka og vinna að stefnu BÍS við að styðja skátafélög landsins og viðburðum.

Við bjóðum Andreu hjartanlega velkomna til starfa.

 


Jólaskógurinn er opinn!

Kíkið í heimsókn, hlökkum til að sjá ykkur!


Vefverslun Skátabúðarinnar komin í loftið!

Skátabúðin hefur að undanförnu unnið að uppfærslu á vefverslun sinni til að gera síðuna notendavæna og aðgengilegri. Nú er hún loks komin í loftið! Fleiri vörur munu bætast við á komandi misserum. Skoðaðu vefverslunina hér!


Privacy Preference Center