REGLUGERÐ BÍS UM LANDSMÓT SKÁTA

Samþykkt á stjórnarfundi BÍS, 9 maí 2023.

1. GREIN

Landsmót skáta skal haldið þriðja hvert ár.

Markmið slíkra móta er að bjóða upp á tjaldbúðalíf með fjölbreyttum viðfangsefnum fyrir alla félaga Bandalags íslenskra skáta fálkaskátum og eldri. Einnig verði drekaskátum og yngri gefinn kostur á að heimsækja mótið til lengri eða skemmri tíma. Þá sé einnig boðið upp á möguleika fyrir fjölskyldur skátanna, félaga í St. Georgsgildum og aðra eldri skáta að dvelja á mótinu og taka þátt í hluta þess sem boðið er upp á.

2. GREIN

Landsmót skal haldið að Úlfljótsvatni og að Hömrum á víxl, á oddatöluári á Úlfljótsvatni en á Hömrum á sléttu ári.

Stjórn BÍS skipar mótsstjórn með minnst átján mánaða fyrirvara. Í mótsstjórn skulu að minnsta kosti skipaðir: Mótsstjóri, aðstoðarmótsstjóri (eða tveir mótsstjórar), dagskrárstjóri og tjaldbúðastjóri. Fjármálastjóri BÍS skal starfa sem fjármálastjóri mótsins. Mótsstjórn skal ávallt skipuð skátum úr nokkrum skátafélögum, þar af að minnsta kosti einn af landsbyggðinni. Mótsstjórn eru ábyrg gagnvart stjórn BÍS.  

3. GREIN

Stjórn BÍS getur, ef hún kýs svo, lagt mótsstjórn til eftirfarandi, allt eða einstaka liði: Tíma landsmóts, mótsgjald, yfirskrift, og mótsmerki.

Ákvörðun um þessa liði ber að liggja fyrir a.m.k. 15 mánuðum fyrir mót. Mótsstjórn ber að vinna samkvæmt því.

Að auki skal mótsstjórn hafa aðgang að gögnum fyrri landsmóta, einkum dagskrá og kynningarefni.

4. GREIN

Viðfangsefni mótsstjórnar eru sem hér segir:

  • Að leita eftir og skipa fólk í undirnefndir eftir því sem þörf er á hverju sinni. Mótsstjórn skipi ætíð í tjaldbúðastjórn og dagskrárstjórn eins fljótt og auðið er.
  • Að vinna upp fjárhagsáætlun og leggja hana fyrir stjórn BÍS til ákvörðunar um mótsgjöld. Ef stjórn BÍS ákveður upphæð mótsgjalds skal fjárhagsáætlunin unnin innan þess ramma.
  • Að ákveða ramma mótsins, mótsmerki og nánari tímasetningu, hafi stjórn BÍS ekki lagt mótsstjórninni þetta til. Þá skal mótsstjórn ákveða heildardagskrá, skipulag tjaldbúða, tilhögun matarmála, öryggis- og heilsugæslu og annað sem varðar undirbúning mótsins, og fylgja eftir framkvæmd þessara þátta.

Ákvarðanir um framangreind atriði þurfa að liggja fyrir minnst 14 mánuðum fyrir mót og kynningu á þeim þarf að koma á framfæri bæði innanlands og erlendis með minnst 12 mánaða fyrirvara.

5. GREIN

Mótsstjórn ræður launaða starfsmenn eftir því sem þörf er á hverju sinni að höfðu samráði við framkvæmdastjóra BÍS og skal taka tillit til starfsmannahalds BÍS í heild sinni og samnýtingu þess.

Gjaldkeri BÍS leggur mótsstjórn hverju sinni línurnar í fjármálastjórn mótsins og tekur hann við það mið af fjármálastjórn og fjármálastefnu BÍS.

Skrifstofa BÍS ákvarðar og annast innkaup minjagripa fyrir mótið í samráði við mótsstjórn og skal stefnt að því að minjagripirnir séu tilbúnir til sölu a.m.k. þremur mánuðum fyrir mót.

6. GREIN

Við gerð fjárhagsáætlunar skal tekið mið af eftirtöldum atriðum:

  1. Kostnaðaráætlun skal gera á föstu verðlagi sem framreikna má í samræmi við verðlagsbreytingar eins og þurfa þykir.
  2. Leitað sé eftir beinum eða óbeinum styrktaraðilum fyrir mótið.
  3. Mótsgjald skal miðað við það að standi undir áætluðum kostnaði við mótið auk álags er samsvari hluta þeirrar sjálfboðavinnu er lögð er fram við mótið. Þetta álag skal ákveðið af stjórn BÍS hverju sinni.

Stjórn BÍS skal tryggja mótsstjórn fjármagn á undirbúningstíma.

7. GREIN

Landsmót skulu fara fram um miðjan júlí og skulu standa í minnst 5 daga og mest 8 daga.

8. GREIN

Landsmótssvæðið þarf að skipuleggja þannig að þar sé örugglega:

  1. Tjaldbúðarými fyrir rúmlega áætlaðan þátttakendafjölda. Þá skal gert ráð fyrir minnst 300 fermetrum fyrir hverja 20 manna tjaldbúð. Auk þess þarf að áætla minnst 600 fermetra rými fyrir sameiginlegt athafnasvæði fyrir hverja 200 tjaldbúðagesti.
  2. Svæði sem henta fjölbreyttum dagskrárliðum á eða í nágrenni við tjaldbúðasvæðið.
  3. Svæði sem eru greinilega afmörkuð til að auðvelda nauðsynlega gæslu og þjónustu á svæðinu.
  4. Fullnægjandi hreinlætis og þvottaaðstaða sem uppfyllir gildandi reglugerðir og staðla.
  5. Allt að 20% af áætluðum mótsgjöldum skal nýta í uppbyggingu á mótssvæðinu. Horfa skal til þess að styrkja innviði mótssvæðisins og dagskráraðstöðu.

Mótsstjórn skal leita samþykkis opinberra eftirlitsaðila eins og heilbrigðiseftirlits, eldvarnareftirlits, rafmagnseftirlits, náttúruverndarráðs, almannavarna, lögreglu, landeigenda og annarra þeirra aðila, sem slíkt samkomuhald kann að heyra undir, eftir því sem þörf er á hverju sinni.

9. GREIN

Dagskrá landsmóts þarf að vera fjölbreytt að viðfangsefnum og þannig samsett að hún veiti öllum mótsgestum viðfangsefni við hæfi, þegar þeir eru ekki bundnir við skyldustörf við tjaldbúð eða hvíld. Þess vegna þurfa að vera í dagskrá:

  1. Einstaklingsverkefni, sem reyna á hugmyndaflug, hæfni og reynslu þátttakenda.
  2. Flokkaverkefni, sem reyna á samvinnu og þjálfun flokkanna.
  3. Verkefni sem stuðla að fjölbreyttum kynnum mótsgesta frá mismunandi stöðum.
  4. Dagskrárliðir sem stuðla að samkennd mótsgesta.
  5. Samfélagsverkefni tengd heimsmarkmiðum sameinuðu þjóðanna.

Stefnt skal að því að meginhluti dagskrár (60 – 70%) sé hefðbundin Landsmótsdagskrá sem nýtir þekkingu og efni fyrri móta.

10. GREIN

Mótsstjórn skal skila stjórn BÍS skýrslu og fjárhagsuppgjöri innan fjögurra mánaða frá því að móti lýkur hverju sinni. Ráðstöfun eigna mótsins og hagnaðar/taps er alfarið í höndum stjórnar BÍS, en mótsstjórn er heimilt að koma með ábendingar þar um án skuldbindinga. Horfa skal til þess að sem mest af búnaði sem mótið fjárfestir í verði eftir á mótssvæði sem eign þess.