Sjálfboðaliðar skátahreyfingarinnar velkomin í Skátamiðstöðina
Þann 5. desember næstkomandi er dagur sjálfboðaliðans og viljum við í Skátamiðstöðinni þakka okkar sjálfboðaliðum kærlega fyrir allt þeirra framlag til skátahreyfingarinnar og bjóða þeim að koma í Hraunbæ 123 og þyggja léttar veitingar kl. 15:00-17:00.
Sjálfboðaliðar eru ómetanlegt afl sem drífur skátahreyfinguna áfram. Sem dæmi má nefna: sinna foringjastörfum, sitja í stjórn skátafélags, vera í baklandi, byggja upp og viðhalda skátaheimilum eða skátaskálum, stýra dagskrá á viðburðum, ganga frá og þrífa eftir viðburði, taka að sér hlutverk í ráðum og nefndum, yfirfara fjölmargar eldri minjar og gamlan búnað, elda ljúffengan mat fyrir aðra sjálfboðaliða og þátttakendur, slá gras, mála byggingar, klippa tré og setja upp skilti til að undirbúa stórviðburð, vera fararstjórar og sveitarforingjar á erlendum skátamótum, bjóða fram sína sérþekkingu og kunnáttu á skátafundum eða á fræðsluviðburðum.
Sjálfboðaliðar leika líka lykilhlutverk í rekstri útilífsmiðstöðvarinnar okkar á Úlfljótsvatni. Þangað koma árlega hátt í 30 erlendir sjálfboðaliðar sem dvelja í 3-9 mánuði hver og leggja ómælda vinnu í dagskrá, matseld, þrif og viðhald. Þegar á þarf að halda er svo fjöldinn allur af íslenskum sjálfboðaliðum sem er tilbúinn að stökkva til og lyfta grettistaki.
Meðal sjálfboðaliðaverkefna sem hafa verið unnin í ár eru ótal handtök í undirbúningi fyrir landsmót, svo sem við að mála hús, slá gras, hreinsa blómabeð, hengja upp skilti, leggja vatnslagnir, setja upp sturtur, leggja göngustíga, halda við tækjum og búnaði og margt, margt fleira.
Án sjálfboðaliða væri Úlfljótsvatn ekki sá staður sem það er í dag, og þeir munu halda áfram að vera mikilvægasti drifkrafturinn bakvið áframhaldandi uppbyggingu staðarins.
Augljóst er að án sjálfboðaliðanna okkar væri varla hægt að bjóða upp á spennandi, skemmtilegt og öflugt skátastarf og erfitt er að ná almennilega yfir öll þau fjölbreyttu verkefni sem sjálfboðaliðar hafa tekið að sér í gegnum árin.