Skráningar skilmálar BÍS

Síðast uppfærðir á stjórnarfundi BÍS 13. september 2022

Með þessari skráningu, greiðslu á félagsgjaldi, eða kaupum á þessari þjónustu staðfestir þú að hafa meðvitund um og samþykki þitt fyrir eftirfarandi:

Landssamtök skáta á Íslandi heita Bandalag íslenskra skáta, skammstafað BÍS. Hvert það sem gerist skáti hefur félagsaðild að BÍS og þar að auki félagsaðild að sínum skátahóp eða skátafélagi. Fullorðnir einstaklingar geta haft félagsaðild að BÍS eða talist styrktarfélagar BÍS eða skátafélags án þess að hafa félagsaðild. Styrktarfélagar BÍS hafa ekki réttindi eða skyldur gagnvart BÍS. Öllum fullorðnum sem koma að starfi með ungmennum í skátastarfi ber að skila heimild til BÍS til öflunar upplýsinga úr sakaskrá ríkisins samkvæmt Æskulýðslögum nr. 70/2007.

Með að skrá þig eða barn í þinni forsjá í skátastarf utan sumartíma samþykkir þú eða barnið sem er skráð gerist skáti og hafi félagsaðild að BÍS og því skátafélagi sem þú eða barnið er skráð í. Þegar viðburðir eru sóttir hjá öðru félagi en því sem þú eða barnið hefur félagsaðild að stofnast ekki félagsaðild hjá því félagi sem heldur viðburðinn.

Barn sem sækir sumarnámskeið á vegum skátafélags eða BÍS hlýtur ekki við það félagsaðild að BÍS eða því skátafélagi sem það sækir námskeiðið hjá.

Félagsaðild að BÍS er skilyrði fyrir þátttöku í viðburðum á vegum BÍS og erlendum skátaviðburðum á vegum erlendra landssamtaka skáta og heimssamtakanna WOSM og WAGGGS. Félagsaðild að skátafélagi og BÍS er gild innan þess starfsárs sem til hennar er stofnað. Hvert starfsár nær frá 1. ágúst hvers árs til 31. júlí næsta árs. Félagsaðild þarf að endurnýja árlega.

Öll skátafélög á Íslandi heyra undir BÍS og starfa samkvæmt lögum þess (sem má finna á https://skatarnir.is/log) og samkvæmt grunngildum BÍS (sem má finna á https://skatarnir.is/grunngildi). Þá getur stjórn BÍS sett reglugerðir um vissa þætti í starfinu sem félögum ber að fara eftir í starfi sínu. Allt skátastarf heyrir undir æskulýðslög nr. 70/2007.

BÍS hefur sett sér forvarnarstefnu, vímuvarnarstefnu, jafnréttisstefnu og umhverfisstefnu sem öllum sem hafa aðild að BÍS ber að starfa samkvæmt í starfinu. Þessar stefnur má finna á https://skatarnir.is/reglugerdir-og-stefnur.

BÍS er aðili að Æskulýðsvettvanginum, skammstafað ÆV, og starfar eftir þeim siðareglum, stefnum og viðbragðsferlum sem Æskulýðsvettvangurinn setur sér að fylgja hverju sinni. Allt efni Æskulýðsvettvangsins má finna á https://aev.is.

Öll innan BÍS eiga rétt á að vera örugg í starfi fyrir hvers kyns ofbeldi og misrétti. Hafi einstaklingur orðið fyrir slíku skal það tilkynnt ábyrgðaraðila í starfinu, stjórn félags, stjórn landssamtakanna eða samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs eftir eðli þess sem hefur átt sér stað og hverjum þolandi treystir hverju sinni. Ábendingar um slíkt geta komið frá þolanda, forráðafólki þolanda eða frá þriðja aðila sem hefur vitneskju um óæskilega hegðun. Ábendingar er hægt að senda undir nafni eða komið nafnlaust til samskiptaráðgjafa á https://samskiptaradgjafi.is/tilkynningarform, í þeim tilfellum er mikilvægt að upplýsingar séu ítarlegar svo samskiptaráðgjafi geti fylgt máli eftir.

Stjórn skátafélags og stjórn BÍS getur vísað einstaklingi tímabundið eða til frambúðar úr starfi t.d. vegna agabrota eins og þau eru skilgreind í viðbragðsáætlun ÆV, brot á siðareglum ÆV, ef einstaklingur fer gegn grunngildum BÍS, ef einstaklingur fer gegn vímuvarnarstefnu BÍS og ef fullorðinn einstaklingur svíkur sæmdarheit, fer gegn reglugerð um skátaforingja eða einstaklingur hlýtur dóm vegna brota sem 3. mgr. 10 greinar æskulýðslaga tekur til. Þá geta stjórnir félaga og BÍS líka hafnað styrktaraðilum. Samanber 14. grein laga BÍS.

Einstaklingum getur verið vikið af viðburðum vegna agabrota t.d. vegna agabrota eins og þau eru skilgreind í viðbragðsáætlun ÆV, brot á siðareglum ÆV, ef einstaklingur fer gegn grunngildum BÍS, ef einstaklingur fer gegn vímuvarnarstefnu BÍS og ef fullorðinn einstaklingur svíkur sæmdarheit, fer gegn reglugerð um skátaforingja eða einstaklingur hefur ekki og/eða vill ekki veita BÍS heimild til öflunar úr sakaskrá ríkisins samkvæmt æskulýðslögum nr. 70/2007. Í slíku tilviki þarf forsjáraðili að koma sækja viðkomandi eða bera kostnað sem af heimferðinni hlýst.

Við greiðslu gjalda er stuðst við sjálfvirkt greiðslukerfi. Það er á ábyrgð greiðanda að greiða á tilsettum tíma og getur stofnast til innheimtukostnaðar sé svo ekki gert. BÍS og skátafélög geta ekki breytt þeim kostnaði og taka ekki þátt í að greiða hann. Í slíku tilfelli getur viðkomandi haft samband við skátafélagið eða BÍS og fengið aðstoð þeirra að semja við þann sem annast innheimtuna.

Athugið að skuldfærslutímabil geta verið breytileg eftir bönkum og kortategundum.

Skráningar í vetrarstarf, á viðburði, námskeið og annað starf á vegum skátafélaga og BÍS er bindandi. Til að afskrá/afpanta skal skriflegt erindi þess efnis sent skrifstofu viðkomandi einingar. Þá gilda endurgreiðsluskilmálar hverju sinni. Ef einstaklingur hættir við þátttöku án þess að tilkynna um það eða tilkynnir það of skömmu fyrir viðburð er gjaldi haldið eftir og innheimt sé það ógreitt. Eftir að tímabil hefst sem greitt hefur verið fyrir er ekki endurgreitt. Þegar greiðslur með frístundastyrk eru endurgreiddar er það alltaf innan kerfis og eftir reglum viðkomandi sveitarfélags og aldrei greitt beint út til einstaklinga.

Þurfi einstaklingur að hætta við þátttöku vegna slyss, meiðsla eða veikinda kann læknisvottorðs að vera krafist til að eiga rétt á endurgreiðslu. Þó geta sérstakir skilmálar tekið fyrir að það skapi rétt til endurgreiðslu t.d. í stærri ferðum utan landssteina.

Þátttakendur í öllu starfi á vegum skátafélags og/eða BÍS eru ekki sérstaklega slysatryggðir, ábyrgðartryggðir eða vátryggðir að öðru leyti af BÍS eða aðildarfélögum þess. Bent er á að þessar tryggingar eru oft hluti af heimilis- og fjölskyldutryggingum og öðrum almannatryggingum forráðafólks. Sama gildir um ferða- og forfallatryggingar.

Með því að skrá þig eða barn í þinni forsjá í starf hjá skátunum staðfestir þú meðvitund þína um að í starfinu gætu verið teknar myndir eða myndband af þér/barninu í starfi. Þú getur óskað eftir því að myndir eða myndbönd séu ekki tekin af þér eða þínu barni við stjórnendur þeirrar einingar sem starfað er hjá. Myndir og myndbönd eru alltaf tekin með vitneskju og samþykki viðkomandi og á tæki félagsins. Myndir og myndbönd kunna að vera birt til að sýna frá viðburðum á samfélagsmiðlum og vefsíðum skátafélaganna og/eða BÍS og á öðrum opinberum vettvangi.

Ábyrgðaraðilar myndvinnslunnar eru ýmist skátafélögin eða BÍS og fylgja gildandi lögum og reglum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Ávallt er starfað samkvæmt sameiginlegri persónuverndarstefnu BÍS.

Markpóstar kunna að vera sendir forráðafólki skráðra félaga á hverju starfsári í til að upplýsa um skátastarfið eða auglýsa viðburði í starfinu. Þá fá félagar póst um afsláttarkjör sín.

Um söfnun, vinnslu og miðlun annarra persónuupplýsinga má lesa í persónuverndarstefnu BÍS sem er sameiginleg stefna landssamtakanna og allra aðildarfélaga, sjá https://skatarnir.is/personuverndarstefna.

Skilmálar voru síðast uppfærðir á stjórnarfundi BÍS 13. september 2022