Útkall eftir umsóknum á norrænt gilwell
BÍS stendur til boða að senda 3 þátttakendur á norrænt Gilwell leiðtogaþjálfunar námskeið sem haldið verður í Finnlandi. Þátttakendur verða frá öllum Norðurlöndunum en námskeiðið fer fram á ensku. Að námskeiði loknu þurfa þátttakendur að mæta á lokahelgi Gilwell þjálfunarinnar á Íslandi.
HVAR OG HVENÆR
Námskeiðinu í Finnlandi er skipt í nokkra hluta:
- 3 netnámskeið: sunnudaginn 1. febrúar, sunnudaginn 22. mars og sunnudaginn 26. apríl. Nánari tímasetningar koma síðar
- Útilega í Asikkala, suður Finnlandi, dagana 29. júní - 4. júlí 2026
- Lokahelgi þjálfunarinnar í suður Finnlandi 6.-9. janúar 2027. Nánari staðsetning kemur síðar.
MARKMIÐ
Markmið námskeiðsins er að bjóða upp á ævintýralegt námskeið ásamt því að styrkja leiðtogahæfni þátttakenda. Á námskeiðinu er mikil áhersla á gildi, bæði einstaklingsins og skátahreyfingarinnar, og þurfa þátttakendur að vera tilbúin að taka þátt í verkefnum sem krefjast ígrundunar á eigin gildum og viðhorfum.
Nánari upplýsingar um námskeiðið má finna hér.
KRÖFUR
Þátttakendur þurfa að vera 22 ára, hafa reynslu af foringjastörfum, eða öðrum leiðtogastörfum, innan skátahreyfingarinnar og stefna á að halda því áfram. Jafnframt er æskilegt að þátttakendur hafi lokið sveitarforingjanámskeiði.
KOSTNAÐUR
Þátttökugjaldið er 550 evrur ásamt því að þátttakendur þurfa að greiða eigin ferðakostnað (2 ferðir til Finnlands).
UMSÓKNIR
Umsóknir skulu berast í gegnum formið hér að neðan. Umsóknarfrestur er til og með 12. október.
Gróðursettu tæplega 500 tré
Ungmennaráð BÍS hélt viðburðinn Tré og tjútt í og við húsnæði Land og skógar í Mógilsá, Esjuhlíðum helgina 5.-7. september síðastliðinn í samstarfi við Skógrætarfélag Reykjavíkur og loftslagssjóð Reykjavíkur. Þátttakendur voru 36 á aldrinum 13 - 18 ára bæði skátar frá fjölmörgum skátafélögum og önnur þar sem viðburðurinn var opinn öllum, vonandi vakti þetta áhuga einhverra um skátastarf.
Skátarnir komu sér fyrir og könnuðu svæðið á föstudeginum, í kvöldmat voru ljúffengar kjúklingavefjur sem þátttakendur elduðu sjálf. Öll þurftu að vakna snemma á laugardeginum, borða morgunmat og útbúa nesti því ferðinni var heitið upp á Esju. Skógræktarfélag Reykjavíkur kenndi þátttakendum réttu handtökin ásamt því að veita þeim fræðslu um þær mismunandi trjátegundir sem þau voru að gróðursetja og hvar best væri að gróðursetja þær svo þær séu vænlegastar til langlífs svona hátt uppi í Esjunni. Þær trjátegundir sem voru gróðursettu voru 175 Gráelri, 140 Stafafurur, 105 Kjarrelri og 40 Víði eða um 460 plöntur í heildina sem þátttakendur gróðursettu á mettíma.
Eftir hádegismat gátu þau sem vildu tekið gönguna upp að Steini sem var um helmingurinn af hópnum en rest fór aftur niður í tjaldbúðina. Í síðdegishressingu voru kleinur og kanilsnúðar og svo var haldið af stað í stöðva dagskrá. Í stöðvunum var meðal annars uppkvistun við stíg í skóginum þar sem farið var yfir hvernig eigi að snyrta trén til þess að hleypa meiri birtu inn í skóginn og svo voru afgangs viðardrumbar endurnýttir og fræðsluefni í kringum það.
Högni reiddi fram dýrindis hamborgara fyrir þátttakendur og svo var haldið skógarball og þar var tjúttað og dansað. Kvöldvaka var haldin við varðeldalautina sem skátarnir gerðu fyrr um daginn og sum skelltu sér í saunu. Þetta var svo sannarlega eftirminnilegt kvöld. Á sunnudeginum var tiltekt og allt rusl týnt upp. Viðburðinum var slitið með pylsum á grilli og merkja afhendingu.
Markmið viðburðarins var að gróðursetja tré og veita athygli á loftslagsmálum, efla náttúrutengsl ungmenna, kynna skátastarf, og læra um allskonar skemmtilegt sem hægt er að nýta afurðir trjáa í. Einnig var áhersla lögð á að sýna þeim frábært útivistarsvæði í útjaðri bæjarins. Þátttökugjald á viðburðinn var ekkert þar sem verkefnið hlaut styrk úr Loftlagssjóði ungs fólks í Reykjavík (Youth Climate Action Fund) sem er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Bloomberg Philanthropies.
Ungmennaráð BÍS þakkar öllum þeim sem komu fyrir frábæra helgi og vonast er til að geta haldið fleiri viðburði í þessum dúr.

Daði gengur til liðs við Úlfljótsvatn
Daði Már Gunnarsson hefur verið ráðinn í starf tengiliðs erlendra hópa og dagskrárstarfsmanns við Útilífsmiðstöð skáta Úlfljótsvatni. Daði mun sjá um að taka við bókunum erlendra hópa, hafa umsjón með búnaðarleigu og ferðum fyrir og eftir Landsmót skáta 2026, auk þess að vera hluti af dagskrárteymi Úlfljótsvatns og aðstoða við skólabúðir, sumarbúðir og fleira.
Daði er ekki ókunnugur Úlfljótsvatni, en fyrir utan að hafa sótt þangað námskeið og viðburði var hann dagskrárstarfsmaður í hlutastarfi síðasta vetur, og lék þá lykilhlutverk í rekstri skólabúðanna.
Daði hefur numið leiklist, bifreiðasmíði og tungumál og hefur verið virkur í skátastarfi síðan 2007. Hann hefur meðal annars verið sveitarforingi, félagsforingi, starfsmaður SSR, meðlimur í Leiðbeinendasveitinni og sveitarforingi á Jamboree í Kóreu. Daði hefur verið mjög virkur í alþjóðastarfi og situr í dag í Alþjóðaráði.
„Ég er ánægður að hljóta þann heiður að fá að vinna á svo fínum stað, með svo góðu fólki og umvafinn náttúru sem leikur við augað,” segir Daði. “Á öðrum nótum er ég annars spenntur að fá að sinna dagskrá og vinna öll þau verkefni sem beinast að mér.”
Við bjóðum Daða hjartanlega velkominn til starfa og óskum honum velfarnaðar í starfi.
Röppuðu skátaheitið í Lækjarbotnum
Foringjanámskeið fór fram helgina 12.-14. september í Lækjarbotnum. 25 foringjar tóku þátt í námskeiðinu og voru þau ýmist dreka-, fálka- eða dróttskátaforingjar. Þátttakendur á námskeiðinu störfuðu í fjórum flokkum sem hétu Dróttningar, Eldri drekar, Cola og Meistarar.
Á laugardagsmorgninum æfðu þátttakendurnir sig að gera starfsáætlanir fyrir veturinn og eftir hádegi var haldin símamasturskeppni þar sem flokkarnir kepptust um að byggja hæsta símamastrið úr spagettí og sykurpúðum, því von var á tímaflakkara sem ætlaði að lenda við Lækjarbotna og þá er mikilvægt að vera í góðu sambandi við fólk á jörðu niðri. Keppnin fór fram utandyra, enda næst þannig best samband við tímaflakkarann og því þurftu flokkarnir að beita ýmsum brögðum svo að vindurinn blési ekki turnunum út í buskann. Svo fór að Dróttningar báru sigur úr býtum í keppninni en ásamt því að reisa hæsta símaturninn höfðu þau líka skreytt turninn sinn með blómum. Flokkurinn Meistarar fékk sérstök verðlaun fyrir að reisa frístandandi símaturn, þó hann væri ekki hæstur. Í gegnum þennan leik voru foringjarnir að læra um PGM (plana-gera-meta). Þess má til gamans geta að Dróttningar sömdu sérlega flottan hrópsöng við lagið Jólin alls staðar.
Foringjarnir lærðu líka um hvatakerfið og gerðu leikþátt um skáta sem þurfti að hvetja áfram. Þá lærðu þátttakendur hvernig á að huga að öryggi í skátastarfi og að búa til áhættumat. Um kvöldið var haldin skemmtileg kvöldvaka þar sem allir flokkarnir voru með skemmtiatriði. Á sunnudeginum lærðu foringjarnir um skátaaðferðina og bjuggu til leiki til þess að kenna ungum skátum skátalögin og skátaheitið. Einn flokkurinn gerði leik þar sem átti að rappa skátaheitið. Leiðbeinendasveitin, sem skipulagði námskeiðið, hvetur lesendur Skátavefsins til að prófa að rappa skátaheitið. Meðal síðustu dagskrárliða á námskeiðinu var vinnusmiðja þar sem foringjarnir áttu að skrifa niður sínar uppáhaldsminningar úr skátastarfi og tengja þær við einn af þáttum skátaaðferðarinnar.
Á foringjanámskeiðinu spunnust margar góðar umræður og að baki er skemmtilegt námskeið. Leiðbeinendasveitin óskar öllum skátaforingjum góðs gengis á starfsárinu!
Ertu skapandi skáti?
Ertu skapandi skáti, upprennandi kvöldvökustjóri, áhugaljósmyndari eða snillingur í textagerð?
Þá er kynningateymi Landsmóts rétta teymið fyrir þig!
Teymið sér um kynningar í félögum, búa til skemmtilegt efni á samfélagsmiðlum Landsmóts ásamt fleiri skemmtilegum verkefnum.
Kynningastjóri Landsmóts er Védís Helgadóttir og mun hún leiða teymið.
Áhugasöm geta sent póst á Védísi hér.




























