Fimmti dagur ævintýra á Landsmóti

Fimmti dagur Landsmóts var rólegur en fullur af ævintýrum. Loks fengum við týpískt íslenskt sumarveður, skýjað, hlýtt og smá gola. Þátttakendur fóru í klifurturninn, hoppukastalana, gönguferðir og ýmislegt fleira. Áfram var unnið að samfélagsverkefnum og voru undirgöngin meðal annars máluð í öllum regnbogans litum. Útieldunin hefur einnig slegið í gegn en í dag var til dæmis heill fiskur eldaður í dagblaði yfir opnum eldi. Hæfileikakeppni mótsins sló í gegn og ómuðu fagnaðarlætin um allt. Þar voru meðal annars söngatriði, dansatriði, tónlistaratriði og rapp.

Í fjölskyldubúðum hefur einnig verið mikil og fjölbreytt dagskrá. Í dag var dagvaka, eða kvöldvaka haldin að degi til svo allra yngstu þátttakendur gætu verið með og mættu skátar frá skátafélagi Sólheima í heimsókn. Bátasmiðjan í fjölskyldubúðum hefur einnig slegið í gegn og líka búningarnir sem hægt er að fá lánaða.

Um kvöldið var svo æsispennandi flokkakeppni þar sem skátaflokkar kepptust um að hljóta titilinn "Flokkur mótsins" en til þess þurftu flokkarnir að takast á við ýmsar skátaþrautir. Einnig var Gilwell endurfundir (e. reunion) og þar var mikið spjallað, sungið og hlegið. Enn einn frábær ævintýradagur að líða undir lok!


Skátablaðið Pappírsheimur - 4. tölublað

 

Yfir Landsmót kemur út mótsblað og ber það heitið Pappírsheimur og eru ritstjórar þess Unnur Líf Kvaran og Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir. Hér má lesa 4. tölublað. 


Skátaandinn svífur yfir svæðið

Fjórði dagur mótsins byrjaði vel, sólin skín og öll komin út á stuttermabolnum, buslandi í vatninu og í leit að nýjum ævintýrum. Það er magnað að sjá hvað skátaandinn svífur yfir svæðið, öll hafa áhuga á að kynnast nýjum skátavinum allsstaðar að úr heiminum. Mörg eru að fræðast um skátastarf í öðrum löndum og kynnast annarri menningu. Að sögn þátttakenda eru aðal töfrarnir við Landsmót að kynnast öðrum skátum og skiptast á sögum og merkjum.

Einnig fagnaði Skátasafnið 10 ára afmæli, 15. júlí. Af því tilefni var haldin afmælishátíð í og við nýuppgert húsnæði safnsins. Haldnar voru ræður og lög sungin. Harpa Ósk Valgeirsdóttir, skátahöfðingi og Davíð Þrastarson, meðstjórnandi í stjórn BÍS, afhentu Skátasafninu styrk upp á þrjár og hálfa milljón, frá Bandalagi íslenskra skáta, til uppbyggingar safnsins og uppsetningu nýrrar sýningar. Atli B. Bachmann tók við styrknum fyrir hönd safnsins.

Guðmundur Pálsson
Harpa Ósk Valgeirsdóttir, Davíð Þrastarson og Atli B. Bachmann

Kvöldið einkenndist svo að skemmtun og gleði á kvöldvökum um allt svæðið. Dagurinn hefur svo sannarlega verið viðburðaríkur og ævintýralegur í frábæru veðri og vonandi býður dagurinn í dag upp á enn fleiri ævintýri og nýja vini.


Privacy Preference Center