Sumardagurinn fyrsti 2022

Sumardagurinn fyrsti 2022 er haldinn hátíðlegur fimmtudaginn 21. apríl á höfuðborgarsvæðinu og víðar um landið hafa skátar skipulagt og standa að glæsilegum og stórskemmtilegum hátíðarhöldum fyrir börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra.
Í Reykjavík
Skátafélagið Árbúar í Árbæ
Staðsetning: Árbæjarsafn og við Skátaheimilið Hraunbæ 123
Tímasetning: 12:00-15:00
Skátafélagið Árbúar leiðir skrúðgöngu ásamt lúðrasveit Verkalýðsins, gengið verður frá Árbæjarsafni að Árbúaheimilinu en þar tekur við póstaleikur þar sem verða verðlaun í boði, útieldun, hoppukastalar, klifurveggur og fleira. Veitingasala verður á staðnum sem fjáröflun fyrir félagið. Fá frekari upplýsingar á facebook viðburðarsíðu.
Skátafélögin Garðbúar í Fossvogi, Landnemar í Hlíðunum og Skjöldungar í Laugardal
Staðsetning: Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn
Tímasetning: 14:00-17:00
Skátafélögin þrjú ætla að sameina krafta sína og standa fyrir miklu sumarfjöri í fjölskyldu og húsdýragarðinum. Dagskráin verður í gangi á milli 14:00 og 17:00 og verður 50% afsláttur á aðgangsverði í garðinn á meðan. Auk alls þess sem er að skoða og gera í garðinum öllu jafna verður klifurturn, hoppukastali, hindrunarbraut, poppað yfir opnum eldi og skátaleikir. Á staðnum verður sölutjald þar sem ýmis góðgæti verður til sölu sem fjáröflun fyrir unga skáta sem stefna á Alheimsmót skáta í Suður-Kóreu 2023. Fá frekari upplýsingar á facebook viðburðarsíðu.
Skátafélagið Vogarbúar í Grafarvogi
Staðsetning: Skátaheimili Vogabúa, Logafold 106
Tímasetning: 13:00-16:00
Skátafélagið Vogabúar munu standa fyrir skemmtidagskrá fyrir alla fjölskylduna við skátaheimilið sitt. Í boði verða leiktæki, hoppukastalar og ýmis skemmtun með skátaívafi. En síðan mæta líka töframaðurinn Daníel Sirkus og trúbadorinn Jón Sigurðsson og halda uppi stuðinu. Á staðnum verða seldar vöfflur, kakó, kaffi og svalar sem fjáröflun fyrir skátafélögin. Fá frekari upplýsingar á facebook viðburðarsíðu.
Skátafélagið Ægisbúar í Vesturbænum
Staðsetning: Skátaheimili Ægisbúa, Neshaga 3
Tímasetning: 12:00-15:00
Skátafélagið Ægisbúar blæs til carnivals á sumardeginum fyrsta við skátaheimili sitt. Á staðnum verða hoppukastalar auk annarar skemmtunar. Á staðnum verða sölutjöld með góðgæti og ýmis matarkyns sem fjáröflun fyrir félagið. Fá frekari upplýsingar á facebook viðburðarsíðu.
Í Hafnarfirði
Skátafélagið Hraunbúar
Staðsetning: Víðistaðakirkju og Thorsplani
Tímasetning: 13:00-16:00
Skátafélagið Hraunbúar tekur þátt í hátíðarhöldunum tengt Björtum dögum og sumardeginum fyrsta í Hafnarfirði. Dagskrá stendur til boða allan daginn víða um bæinn en nánari upplýsingar um heildardagskrána má finna á upplýsingasíðu Hafnarfjarðarbæjar. Skátafélagið mun koma að messu í Víðistaðakirkju en að henni lokinni mun skátafélagið Hraunbúar og Lúðrasveit Tónlistarskóla Hafnarfjarðar standa fyrir skrúðgöngu frá kirkjunni að Thorsplani. Að skrúðgöngu lokinni verður ævintýraleg fjölskyldudagskrá á Thorsplani í umsjón skátafélagsins Hraunbúa, í boði verða hoppukastalar og skemmtidagskrá á sviði. Frekari upplýsingar á facebook viðburðarsíðu.
Í Garðabæ
Skátafélagið Vífill
Staðsetning: Vídalínskirkju og Miðgarði
Tímasetning: 13:00-16:00
Skátafélagið Vífill mun að vana halda uppi hátíðarhöldunum vegna sumardagsins fyrsta í Garðabæ. Skátafélagið mun koma að messu í Vídalínskirkju en að henni lokinni verður skrúðganga frá kirkjunni að íþróttamiðstöðinni Miðgarði þar sem skemmtidagskrá verður í boði fyrir gesti og gangandi. Frekari upplýsingar má finna á upplýsingasíðu Garðabæjar.
Í Mosfellsbæ
Skátafélagið Mosverjar
Staðsetning: Miðbæjartorgi og Varmá
Tímasetning: 13:00-16:00
Skátafélagið Mosverjar mun leiða skrúðgöngu frá Miðbæjartorgi að Varmá þar sem skólahljómsveit Mosfellsbæjar tekur á móti skrúðgöngunni með sumartónum. Að skrúðgöngu lokinni hefst dagskrá á Varmá með hoppuköstulum, leiktækjum, vöfflum, pylsugrilli, svampakasti og almennu skátafjöri. Frekari upplýsingar má finna á upplýsingasíðu Mosfellsbæjar.
Í Reykjanesbæ
Skátafélagið Heiðabúar
Staðsetning: Keflavíkurkirkju og skátaheimili Heiðabúa, Hringbraut 101
Tímasetning: 12:30-17:30
Skátafélagið Heiðabúar mun leiða skrúðgöngu frá skátaheimilinu að Keflavíkurkirkju þar sem skátafélagið kemur að messu en að henni lokinni tekur við fjölskyldudagskrá og ratleikur frá Skátaheimilinu. Á staðnum verður hægt að kaupa aðgang að kaffiveitingum sem er fjáröflun fyrir skáta sem halda á alheimsmót í Suður-Kóreu 2023.
Á Selfossi
Skátafélagið Fossbúar
Staðsetning: Skátaheimilinu Glaðheimum, Tryggvagötu 36
Tímasetning: 14:00-16:00
Nóg verður um að vera á Selfossi þar sem skátafélagið Fossbúar taka þátt í hátíðinni Vor í Árborg en skátafélagið verður með fjölskylduskemmtun þar sem boðið verður upp á andlitsmálningu, hoppukastala og svampakast. Á staðnum verður líka veitingasala sem er fjáröflun fyrir félagið. Frekari upplýsingar má finna á upplýsingasíðu Árborgar.
Á Akureyri
Skátafélagið Klakkur
Staðsetning: Skátaheimili Klakks, Þórunnarstræti, Akureyrarkirkju og tjaldsvæðinu á Hömrum
Tímasetning: 10:40-15:00
Skátafélagið Klakkur mun vera með skrúðgöngu frá skátaheimilinu að Akureyrarkirkju þar sem skátafélagið kemur að messu en að henni lokinni er öllum boðið að koma í fjölskyldudagskrá og súpu að tjaldsvæðinu á Hömrum. Frekari upplýsingar á viðburðarsíðu á facebook.
Á Akranesi
Skátafélag Akraness
Staðsetning: Tónlistarskólanum, Akraneskirkju og Vinaminni
Tímasetning: 10:30-14:30
Skátafélagið Akraness sér um skrúðgöngu frá tónlistarskólanum að Akraneskirkju þar sem skátafélagið kemur að messu, að henni lokinni verður boðið upp á grillaðar pylsur og hoppukastala við Vinaminni.
Skátamiðstöðin verður lokuð yfir páskana

Skátamiðstöðin er komin í páskafrí. Lokað verður hjá okkur yfir páskana frá fimmtudeginum 14. apríl. Við opnum aftur 19. apríl. Erindi meiga berast á póstfangið okkar skatarnir@skatarnir.is sem svarað verður 19. apríl.
Gleðilega páska !
Skátar setja sér jafnréttisstefnu

Á Skátaþingi sem haldið á Bifröst um liðna helgi samþykktu skátar sér jafnréttisstefnu. Þórhildur Elínardóttir Magnúsardóttir sem leitt hefur vinnuna með góðum hópi skáta kynnti stefnuna, sem var samþykkt samhljóða.
Með stefnunni er verið að skýra hlutverk og leiðir til að tryggja raunverulega inngildingu og aðgengi allra hópa að skátastarfi óháð kynþætti, þjóðerni, kynvitund, kynhneigð, kyntjáningu, trú, stjórnmálaskoðun, aldri, stétt eða stöðu að öðru leyti.
Hlutverk Bandalags íslenskra skáta er að tryggja að allir skátar njóti jafnréttis í skátastarfi og er því settar þær skyldur á herðar að koma í veg fyrir mismunun, ójafnrétti og óréttláta meðferð.
Markmið stefnunnar eru:
- Að öll sem sinni sjálfboðaliða- eða forystustörfum fyrir skátana búi yfir greinargóðri þekkingu og vitund um mannréttindi, jafnrétti, inngildingu og fjölbreytileika samfélagsins.
- Að ráðstafanir verði teknar til að kynna skátastarf fyrir, og taka sérstaklega á móti í skátastarfi, þeim hópum samfélagsins sem eiga erfiðara með að stunda tómstundir eða æskulýðsstarf, t.a.m. vegna fjárhags, tungumáls, fötlunar, þjóðernis, kynferðis eða stöðu að öðru leyti.
- Að hvar sem það er hægt skal skátastarf aðlagað að ólíkum þörfum þeirra sem stunda það, svo lengi sem það stríðir ekki gegn Grunngildum skátahreyfingarinnar, markmiðum hennar eða skátaaðferðinni.
- Að öll lög, stefnur og reglugerðir BÍS endurspegli þessa skuldbindingu samtakanna að stuðla að frekari inngildingu og fjölbreytileika í skátahreyfingunni.
- Að miðla þessari stefnu út á við til félaga BÍS og víðar.
- Að endurmeta og endurbæta þessa stefnu eftir því sem við á svo að BÍS geti haldið áfram að þróast í átt að frekari inngildingu og fjölbreytileika í skátahreyfingunni.
Skoða stefnuna í heild.

Harpa Ósk er nýr skátahöfðingi

Harpa Ósk Valgeirsdóttir hefur tekið við sem skátahöfðingi og var henni vel fagnað á fjölsóttu Skátaþingi sem haldið er á Bifröst nú um helgina.
„ Ég vil gera skátastarfið aðgengilegt öllum,”
segir Harpa og þar vísar hún m.a. til verkefna um að gera börnum af erlendum uppruna auðveldara að sækja skátastarf, sem og til fjölgunar skátafélaga á landsbyggðinni. Hún segir að með skýrari dagskrárgrunni sem var kynntur á skátaþingi sé einnig skref stigið til að gera starfið aðgengilegra.
Stærsta breytingin sem var kynnt er nýtt aldursbil í dagskránni, sk. Hrefnuskátar fyrir börn 5 – 7 ára og þar taka skátarnir þátt með foreldrum sínum, samhliða fjölskylduskátastarfi. Harpa Ósk hefur góða reynslu af fjölskylduskátastarfi en hún tekur þátt í slíku með dóttur sinni.

Bjóðum eldri skáta velkomna til verkefna
Harpa Ósk hefur verið virk í skátastarfi frá unga aldri, en hún segir að það sé ekki forsenda fyrir þátttöku fullorðinna í skátastarfi. Margir hafi komið inn í skátastarfið í gegnum starf barna sinna og haldið áfram. Harpa hvetur eldri skáta sem tóku sér hlé frá skátastarfi til að hafa samband við sitt skátafélag því það séu mörg áhugaverð verkefni sem þarfnast eldhuga.
„Við bjóðum allra eldri skáta velkomna til verkefna,” segir Harpa Ósk. Verkefnin eru næg og fjölbreytt hvort heldur hjá Bandalagi íslenskra skáta eða hjá skátafélögunum. „Áherslur okkar eru að auka gæði skátastarfsins, gefa fleiri börnum kost á þátttöku, efla fræðslu skátaforingjanna og bjóða fleiri velkomna til verkefna. Með þessum áherslum vonumst við til að skátahreyfingin jákvæð áhrif á sitt samfélag og stuðli að bættum heimi,” segir Harpa.
Skátastarfið í forgrunni á skátaþingi
Skátaþing verður haldið á Bifröst um helgina, 1. - 3. apríl, og þar verður í forgrunni að vinna með uppfærðan dagskrárramma skátasstarfsins. Rúmlega hundrað skátar í leiðtogahlutverkum munu mæta og leggja línur fyrir starfið á næstunni.
Sjálfkjörið er í öll embætti á þinginu. Marta Magnúsdóttir, sem verið hefur skátahöfðingi í 5 ár, gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu. Hún var yngsti skátahöfðingi sögunnar þegar hún tók við og í hennar tíð hefur verið mikil áhersla á þátttöku ungmenna í stjórnum og ráðum skátahreyfingarinnar.
Harpa Ósk Valgeirsdóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur, sem einnig hefur setið í stjórn sl. 5 ár og nú síðast sem aðstoðarskátahöfðingi býður sig fram í embættið og er hún sjálfkjörin. Harpa hefur leitt dagskrárráð skáta og beitt sér fyrir leiðtogaþjálfun. „Það hefur verið einstaklega gleðilegt að finna stuðning og hvatningu úr skátasamfélaginu,” segir Harpa. „Ég finn mikinn kraft meðal skáta eftir þá ládeyðu sem Covid hafði í för með sér,” segir hún og er bjartsýn um framhaldið. „Við viljum að skátahreyfingin sé aðgengileg öllum börnum og við bjóðum eldri skáta velkomna til verkefna.”
Uppfærður dagskrárrammi
Á skátaþinginu verður mikil áhersla á samhæfingu og samtal um dagskrárramma skátastarfsins, bæði heildarrammann sem og einstaka aldursbil. Skátarnir leggja áherslur á heildstæða og ævintýralega dagskrá. Í stefnu skátanna sem samþykkt var á síðasta skátaþingi er lögð áhersla á stuðningsefni fyrir skátaforingja, skátaaðferðina, dagskrárhringinn, flokkakerfið og hvatakerfið. Allt eru þetta þættir sem auðvelda skátafélögunum að innleiða ævintýralegt og metnaðarfullt skátastarf.
Harpa Ósk og Marta eru sammála um að mikilvægt sé fyrir skátahreyfinguna að eiga þetta samtal og eru ánægðar með hve margir starfandi skátaforingjar ætla að sækja skátaþingið, auk stjórna skátafélaganna í landinu.
Aukin áhersla á útilíf
Á þessu skátaþing[ i verður kjörið í fyrsta sinn í nýtt útilífsráð í samræmi við lagabreytingar frá síðasta skátaþingi. Hlutverk ráðsins verður að hvetja til viðburða sem fela í sér útilíf og styðja útivistartengt viðburðarhald.
Róleg endurnýjun og öflugri fagráð
Af sjö skátum í stjórn Bandalags íslenskra skáta (BÍS) halda fimm áfram og tveir bætast í hópinn. Stjórnin er sjálfkjörin eins og áður segir.
Lög BÍS gera ráð fyrir lágmarksfjölda í fagráð en þar sem fleiri framboð bárust og til að tryggja að ekki sitji eingöngu fulltrúar eins kyns í ráðum hefur stjórn BÍS boðað tillögu um að fleiri munu sitja í fagráðum en lágmarksfjöldi segir til um. Þannig verði öflugri fagráð og aukinn stuðningur við skátafélögin.





