Hvatakerfi

Hvatakerfi


Við notum hvatakerfið til að hjálpa skátum að fá hugmyndir að verkefnum, að setja sér markmið og sjá árangur af starfinu.

Til dæmis getur skátinn eða flokkurinn valið sér færnimerki til að vinna að í 3-4 fundi eða skipulagt ferð þar sem markmiðið er að vinna sér inn hæða og stikumerki. Þeir skátar sem eru að ljúka sínu aldursbili geta valið að vera könnuðir og unnið að könnuðamerkjum og forsetamerkinu.

Merkin má svo sauma á skátapeysur, skátaskyrtur eða festa á tréskjöld til að hafa heima hjá sér eða í skátaheimilinu.


Færnimerki

Merkin eru þematengd og þrepaskipt. Skátinn getur bæði unnið að þeim sjálfur, með aðstoð foreldra eða á skátafundum, í útilegum og á námskeiðum. Allir skátar geta unnið sér inn færnimerki.

Silfurlituðu færnimerkin eru hæfnipróf þar sem skátinn sýnir fram á þekkingu á öryggisatriðum, og fær þar með leyfi til að nota ákveðin verkfæri eins og til dæmis hnífa eða axir.

Könnuðamerki

Skátar sem eru að ljúka aldursbili fá tækifæri til að vera könnuðir. Sem könnuðir þurfa þau að vinna að sérstökum verkefnum á síðasta árinu sínu.

Forsetamerki

Rekkaskátar geta unnið að forsetamerkinu séu þau áhugasöm um það og tekur vegferðin að forsetamerkinu rúmlega tvö ár. Rekkaskátar sem byrja að vinna að forsetamerkinu fá úthlutað sértilgert vegabréf til að halda utan um vegferðina.

Hæða- og stikumerki

Hæða- og stikumerkin eru áskoranir sem skátar geta unnið að í sínu starfi. Merkjunum er ætlað að hvetja til aukinnar útivistar í skátastarfi. Í hverri ferð er einungis hægt að fá annað hvort eitt stikumerki eða eitt hæðamerki. Það má vinna merkin inn í hvaða röð sem er.


Dagskrárramminn

Dagskrárramminn


Hlutverk dagskrárrammans er að auðvelda skátaforingjum að plana dagskrárhringinn með skátunum sjálfum.
Æ.S.K.A. og PLANA-GERA-META eru tól til þess.

Dagskrárhringurinn

Dagskrárhringurinn er gott verkfæri til að halda utan um markmið og verkefnaval og hjálpar skátunum að skipuleggja starfið sitt

Öll verkefni sem skátaflokkurinn eða skátasveitin takast á við þurfa að vera ævintýraleg, skemmtileg, krefjandi og aðgengileg (ÆSKA) fyrir hvern þann skáta sem tekur þátt. Ef verkefnið uppfyllir ekki þessi skilyrði þá þarf að aðlaga verkefnið betur að hópnum áður en farið er af stað.

Hvert verkefni inniheldur stig undirbúnings (PLANA), framkvæmdar (GERA) og endurmats (META) og er það hlutverk skátaforingja að styðja skátana við þessi stig út frá þeirra forsendum.

Þetta ferli verkefnavals, frá því að flokkurinn sest saman til að skipuleggja næsta ævintýri, velur sér færnimerki til að takast á við þessa önnina eða setur sér langtímamarkmið, er einn dagskráhringur.

Hér má nálgast plakat af dagskrárrammanum.


PLANA - GERA - META

hjálpar við að þróa frábæra dagskrá, deila ábyrgð hópsins og búa til fullt af nýjum tækifærum.

Plana

  • Ákveðið hvað þið ætlið að gera
  • Ákveðið verkaskiptingu
  • Finnið út hvaða búnað þið þurfið
  • Finnið út hvaða færni þið þurfið
  • Gerið áætlanir
  • Fáið hjálp eftir þörfum

Gera

  • Tryggið að allir hafi hlutverk
  • Prófið nýja færni
  • Fylgið áætluninni með sveigjanleika
  • Hafið gaman
  • Vinnið saman sem ein heild

Meta

  • Takið ykkur smástund til að endurmeta verkefni
  • Hvað heyrðir þú, hvað sástu, hverju tókstu eftir og hvað fannst þér skemmtilegast við ævintýrið þitt?
  • Hvað fór ekki eftir áætlun?
  • Hvað myndir þú gera öðruvísi næst?
  • Talið um hvað ykkur tókst að gera
  • Þakkið öllum sem tóku þátt og hjálpuðu


ÆSKA

Hvernig gerum við skátastarf ævintýralegt, skemmtilegt, krefjandi og aðgengilegt?

Skátastarf er vegferð sem byggir á ungmennastarfi sem er sérsniðið að hverjum og einum. Hvert skref áfram er hannað til þess að bæta ofan á vitneskju, þekkingu og færni aldursbilsins fyrir neðan. Á þessari vegferð pössum við upp á að skátastarfið bjóði upp á verkefni sem eru ævintýraleg, skemmtileg, krefjandi og aðgengileg.

Þessi slagorð geta gert hvaða aðstæður sem er betri. Það er hægt að nýta þau til að prófa nýjar hugmyndir, dagskrá og verkefni. Allt innan skátastarfsins ætti að innihalda slagorðin fjögur, ekki aðeins verkefnin heldur einnig skátafundir, viðburðir og útilegur!

Öll verkefni eiga að vera:

Ævintýri er ögrandi og krefjandi reynsla sem ýtir einstaklingnum út fyrir þægindarammann sinn

Ævintýri getur verið:

  • Að fara á nýjan stað í fyrsta skipti
  • Að leiða verkefni
  • Að leysa vandamál
  • Að búa til eitthvað úr engu

Að skemmta sér er ekki eini tilgangur skátastarfs, markmiðið er að hafa gaman á meðan við stundum skátastarf

Tilgangur með skemmtun getur verið að:

  • Nota táknrænan ramma fyrir skátastarf
  • Að fá nýjar hugmyndir til að búa til einstakar og eftirminnilegar minningar
  • Að sjá til þess að allir séu með
  • Reyna eitthvað nýtt

Krefjandi reynsla reynir á og eykur færni hvers og eins sem stuðlar að þroska einstaklingsins

Krefjandi reynsla er sú sem:

  • Er viðeigandi fyrir aldur og færni
  • Hefur ekki verið gerð á sama hátt með sömu einstaklingum og áður
  • Hjálpar öllum að auka færni sína
  • Getur falið í sér mismunandi verkefni og ábyrgð fyrir hvern einstakling

Aðgengi gengur út á það að vera hluti af heild, eiga auðvelt með þátttöku og hafa aðgengi til að þjálfa færni sína

Hugleiddu hvort skátastarfið sé aðgengilegt öllum:

  • Sjáðu til þess að allir geti verið með
  • Skoðaðu hvernig er hægt að aðlaga verkefnin svo það sé aðgengilegt öllum
  • Mismunandi hlutverk í hópvinnu og verkefnum leyfir öllum að vera hluti af heild, en eftir þeirra getu


Markmiðaflokkarnir

Markmiðaflokkarnir


Hvernig getur skátahreyfingin eflt börn og ungmenni þannig að þau fái tækifæri til að þroska og þróa hæfileika sína og getu til að verða sjálfstæð og virk í samfélaginu?

Þegar við leyfum börnum og ungmennum að spreyta sig á fjölbreyttum verkefnum í skátastarfi, sjáum við þau vaxa á öllum sviðum. Til þess að tryggja að skátastarfið reyni á öll þroskasvið einstaklingsins notum við markmiðaflokkana fjóra þegar við veljum viðfangsefni skátanna.

Þegar við tölum um framfarir einstaklingsins innan skátahreyfingarinnar þýðir það að við viljum hjálpa börnum og ungmennum að þroskast innan þessara fjögurra sviða eða markmiðaflokka: leiðtogafærni, hemurinn, tilveran og skapandi hugur. Þessir fjórir flokkar taka saman á einfaldan hátt markmið skátahreyfingarinnar til þess að stuðla að þroska einstaklingsins innan þroskasviðanna fimm: vistmunaþroska, félagsþroska, tilfinningaþroska, andlegs þroska og líkamlegs þroska.



Leiðtogafærni

Leiðtogafærni

Frá upphafi fær skátinn tækifæri til að leiða hóp jafnaldra og hvatningu til að taka af skarið í samstarfi og lausnaleit. Til að byrja með fær skátinn ábyrgð á hluta verkefnum flokksins en smátt og smátt gefst tækifæri að spreyta sig á flóknari verkefnum. Stærri verkefni geta verið t.d. að vera sveitarforingi eða stjórna stórum viðburðum.

Hópurinn

Flokkastarf gefur færi á að æfa sig í samvinnu í litlum hópum og taka virkan þátt í starfinu á eigin forsendum. Hver og einn hefur sitt hlutverk innan flokksins og hópurinn velur sér verkefni í sameiningu.

Samskipti

Skátarnir fá tækifæri til að kynnast ólíkum einstaklingum, mynda ný vinatengsl og átta sig á eigin tilfinningum og annarra. Skátarnir læra að setja sín eigin mörk og eignast aukin skilning og virðingu á mörkum annarra.

Skapandi hugur

Lausnaleit

Skátarnir öðlast færni í að leysa flókin verkefni innan skátastarf sem utan. Viðfansefni og verkefni eru bæði huglæg og verkleg. Skátarnir fá öryggi í að prófa sig áfram og finna nýjar lausnir á alls kyns vandamálum.

Gagnrýnin hugsun

Í heimi ofgnóttar upplýsinga er mikilvægt að læra að meta uppruna og gildi upplýsinga. Skátarnir fá þjálfun í að skoða og rýna í upplýsingar og mynda sér sjálfstæða skoðun á viðfangsefninu.

Ímyndunarafl og listræn tjáning

Skátarnir fá rými til að þess að gleyma sér í töfrandi heimi ævintýranna og fá tækifæri til að láta ímyndunaraflið flæða. Hvort sem það er myndræn útfærsla, söngur, leikur, sögur, dans eða búa til skemmtilegt þema fyrir útilegu.

Heimurinn og umhverfið

Heimurinn

Skátahreyfingin er friðarhreyfing. Skátarnir öðlast skilning á heiminum, bæði nærumhverfi og fjarlægari stöðum, hvernig hægt sé að stuðla að jafnrétti í heiminum og öðlast skilning á að framlag allra skipti máli.

Náttúran

Í skátastarfi er útivist mikilvægur hluti af þroskaferli skátans. Samband skátans við náttúruna dýpkar tilfinningu fyrir margbreytileika hennar og krafti. Þyki okkur vænt um náttúruna göngum við betur um hana.

Samfélagið

Virk þátttaka í samfélaginu eykur lýðræðisvitund og gefur okkur tækifæri til að hafa áhrif á eigið líf, umhverfið og heiminn allan. Skátarnir brenna fyrir málefnum sem gera heiminn betri. Markmið skátanna er öflugt ungmennalýðræði þar sem ungmenni hafa áhrif á samfélag sitt og eru leiðtogar í umbótum í nærsamfélaginu.

Tilveran mín

Tilveran

Með því að velta fyrir sér hvað skiptir okkur máli eða hverng lífi við viljum lifa, kynnumst við sjálfum okkur betur og það hjálpar okkur til að taka afstöðu til grundvallarspurninga, hvort sem er innan eða utan skátahreyfingarinnar. Engar spurningar eru of stórar til að velta fyrir sér.

Eigin gildi

Okkar persónulegu gildi tengjast því hver við erum og fyrir hvað við stöndum. Hvað er mikilvægt fyrir mig og hvernig tengjast mín gildi, þeim gildum sem skátahreyfingin stendur fyrir.

Sjálfstraust, sjálfsábyrgð og sjálfsþekking

Skátarnir vita hvað þeir vilja, hvað þeir geta og hvað er þeim mikilvægt. Skátinn veit að hann er góður eins og hann er. Sjálfstraust og sjálfsþekking er forsenda þess að skátanum líði vel í starfi.

Áskoranir

Þau sem þora að ögra sjálfum sér, hafa alla möguleika til þess að standast áskoranirnar, læra meira um sig sjálf og þroskast á allan hátt. Áskoranirnar geta verið fjölbreyttar og reyna á skátana á marga vegu.

Líkaminn

Skátarnir læra um líkamann sinn, hvað hefur áhrif á hann að utan sem innan og hvernig viðeigandi áskoranir reyna á líkamann.


Skátalögin, skátaheitið og kjörorð skáta

Skátalögin, skátaheitið og kjörorð skáta ,,Ávallt viðbúin"


Saman mynda lögin, heitið og kjörorð siðaboðskap skátanna. Allt okkar starf snýst um að læra að lifa eftir gildunum sem felast í þeim.


Þegar þú gengur inn í skátanna ferð þú með skátaheitið og lofar að halda skátalögin. Þau eru leiðarvísir í lífinu, jafnt innan sem utan skátastarfs. Það er þó ekki þannig að lögin og heitið séu utanbókarlærdómur. Þau eru frekar eins konar hugarfar sem við temjum okkur hægt og rólega. Þau lýsa því hvernig skáti er og vill vera.

Skátalögin

  1. Skáti er hjálpsamur
  2. Skáti er glaðvær
  3. Skáti er traustur
  4. Skáti er náttúruvinur
  5. Skáti er tilitsamur
  6. Skáti er heiðarlegur
  7. Skáti er samvinnufús
  8. Skáti er nýtinn
  9. Skáti er réttsýnn
  10. Skáti er sjálfstæður

Skátaheitið

Ég lofa að gera það sem í mínu valdi stendur til þess:

að gera skyldu mína við guð/samvisku og ættjörðina/samfélag,

að hjálpa öðrum og halda skátalögin


Reynslunám

Reynslunám


Reynslunám hefur oft verið nefnt ,,að læra með því að gera" (e. learning by doing).


Í skátunum eiga verkefnin að vera áþreifanleg og byggja á reynslu barnanna þar sem þau leysa verkefnin sjálf. Reynslunám á að vera andstæðan við fyrirlestra og utanbókalestur.

Krakkarnir þurfa að velja og undirbúa verkefnin, framkvæma þau sjálf og endurmeta (PLANA-GERA-META).

Með þessu verður lærdómurinn dýpri og eftirminnilegri. Allir ættu að fá jöfn tækifæri til að taka þátt í verkefnum flokksins og sveitarinnar, sem eiga að vera ævintýraleg, skemmtileg, krefjandi og aðgengileg.


Táknræn umgjörð

Táknræn umgjörð


Táknræn umgjörð er það sem gerir skátastarf skemmtilegt og spennandi


Þema, tákn, sögur, hefðir og fyrirmyndir eru verkfæri sem skátar nota til að tengja saman stórar hugmyndir við ímyndurnarafl og þroska skátanna til að auðvelda reynslunám


Ímyndunarafl og þroski skátanna er nýttur til þess að skapa umhverfi sem auðveldar þeim að skilja og tileinka sér þekkingu, færni, gildi og viðhorf sem einkenna skátahreyfinguna.

Þegar athafnir eru færðar í skátasamhengi með táknrænum ramma er hefðum og sögum bætt við sem skapa hátíðlegan brag sem verður eftirminnilegur hjá skátunum.

Leikir hafa tilgang, þeir þróa færni, ímyndurnarafl, skilningarvit, einbeitingarhæfni, samvinnuhæfni og eru skemmtilegir á sama tíma. Þá er skátinn að þróa með sér réttlætiskennd, læra að fylgja og skilja reglur, þola mótlæti og ná árangri.

Skátahreyfingin nýtir táknræna umgjörð sem tól til þess að skapa samfellu og sameiginlega upplifun sem styrkir skátasjálfsmyndina og ýtir undir að skátarnir upplifi sig sem hluta af stærri heild heimssamtaka skáta og geti því sett sig í spor barna og ungmenna um allan heim.


Náttúran

Náttúran


Náttúran og umhverfið býður upp á mörg fjölbreytt tækifæri fyrir framfarir einstaklinga.


Þegar talað er um náttúru er talað um hið náttúrulega umhverfi, eins og skóga, fjöll, vötn og heiðar en ekki manngert umhverfi eins og skólalóðir, leikvelli og borgir.

Náttúrulega umhverfið býður skátum upp á framfarir í leiðtogahæfni og eflir skapandi huga. Þar getur skátnn fundið betri tengingu við heiminn, umhverfið og eigin tilveru. Mikilvægast af öllu er að náttúran sé svið ævintýrisins sem einkennir skátastarf.

Starfsemi tengd náttúrunni er fjölbreytt. Bæði getur verkefni fylgt einföldu þema eins og göngu eða útilegu, en samt verið tengdt umhverfishyggju, sjálfbærni og menntun. Skátastarf vinnur að því að tengja ungt fólk inn í samfélagið sitt og hvetur til þróunar á umhverfisvænum og sjálfbærum venjum og tengir þannig fólk betur við umhverfið sitt.


Samfélagsþátttaka

Samfélagsþátttaka


Hugtakið samfélag vísar til félagslegrar einingar þar sem meðlimir eiga eitthvað sameiginlegt.

Samfélag skáta nær yfir einingar innan skátastarfs eins og sveit, félag og svæði. Samfélag getur einnig átt við fjölskyldu, skóla og þjóð.


Áhrif skátastarfs í samfélaginu má flokka í þrjá mismunandi flokka. Þátttaka í samfélaginu, þjónusta í samfélaginu og áhrif í samfélaginu.

Samfélagsþátttaka

Samfélagsþátttaka er þátttaka skáta í umræðum og verkefnum í nærsamfélaginu. Að taka þátt í samfélaginu felur í sér virka leit að því hvað gerist í því og hvernig hægt er að veita stuðning bæði í nærumhverfi og á heimsvísu.

Samfélagsþjónusta

Samfélagsþjónusta felur í sér virka þátttöku og vinnu í verkefnum sem styðja við samfélagið og fólkinu sem tilheyrir því, að taka að sér skuldbindingar og ábyrgð á verkefnum, til að byggja sterkar tengingar og traust í samfélaginu.

Samfélagsáhrif

Samfélagsáhrif fela í sér að vinna að mikilvægum og jákvæðum breytingum innan samfélagsins. Skátarnir fá reynslu í að finna áskoranir, setja sér markmið og framfylgja þeim. Þannig geta skátarnir náð fram mikilvægum breytingum og stutt við sitt samfélag.


Framfarir einstaklingsins

Framfarir einstaklingsins


Persónulegar framfarir snúast um að hjálpa hverjum skáta að vera meðvitaður og virkur þátttakandi í eigin þroska, öðlast nýja þekkingu, færni og reynslu.

Grunnstef í persónulegum framförum í skátastarfi er að efla með skátum meðvitund um að með því að takast á við ólík og spennandi viðfangsefni ná þau að gera betur í dag en þau gerðu í gær.

Persónulegar framfarir eiga að vera stýrðar af skátunum sjálfum en þeir njóta stuðnings fullorðinna með það að markmiði að valdefla börn og ungt fólk.

Það gerir þeim kleift að ná framförum á sínum eigin hraða, byggja upp sjálfstraust og gera sér grein fyrir þeim árangri sem næst.

Þau fá hvatningu og stuðning til þess að setja sér viðeigandi markmið sem gefur þeim tækifæri á því að nýta sér valfresli sitt við val viðfangsefna. Viðfangsefni skátanna miða að því að skátarnir öðlist jákvæða lífsreynslu sem eflir kjark, samvinnuhæfni, sköpunarkraft og sjálfstraust.

Persónulegar framfarir eiga sér ekki aðeins stað innan skátastarfs heldur einnig fyrir utan þess.


Stuðningur fullorðinna

Stuðningur fullorðinna


Skátahreyfingin er leidd af ungmennum sem njóta stuðnings fullorðinna.

Mikilvægur þáttur af skátastarfi er stuðningur fullorðinna sem búa til vettvang fyrir ungmennin að láta ljós sitt skína.

Skátastarfið veitir tækifæri til lærdómssamstarfs ungs fólks og fullorðinna, sem einkennist af metnaði þeirra yngri og reynslu þeirra eldri. Markmiðið er að valdefla unga fólkið, hvetja þau til leiðtogastarfa, að þau fái að taka ákvarðanir og fái vettvang til að gera mistök og læra af þeim.

Leiðarljós fullorðinna í skátastarfi er að styrkja ungmenni í sínum leiðtogastörfum, með því að styðja, leiða og leiðbeina. Þeir þurfa að gefa unga fólkinu rými til að prófa sig áfram, en að vera til staðar til að grípa boltann og ábyrgðina þegar þess þarf.

Hlutverkaskipti fullorðinna


Hlutverkum eldri skáta má skipta í þrjá flokka:

Þau sem veita beinan stuðning og fræðslu miðað við þarfir ungmenna, t.d. skátaforingjar, leiðbeinendur á námskeiðum og fyrirlesarar.

Þau sem veita tæknilegan stuðning og sérfræðiþekkingi til að koma verkefnum skátanna í farveg, t.d. stjórnir skátafélaga, tæknistjórar á landsmóti eða umsjón með eldhúsi í félagsútilegu.

Þau sem styðja við hópinn, veita rými fyrir vöxt skátanna í hópnum og gera flokka- og sveitarstarfið aðlaðandi, t.d. sveitarforingjar, félagsforingjar og erindrekar BÍS.