Útkall – Mótsstjórn Landsmóts skáta 2026

Landsmót skáta verður haldið dagana 20.-26. júlí að Hömrum og leitar stjórn BÍS að öflugum skátum sem eru áhugasöm að sitja í mótsstjórn!

Á landsmóti er öllum aldursbilum skáta boðið að koma sem þátttakendur með stuðningi þeirra sem eldri eru, þau búa saman í tjaldbúð og fást við spennandi áskoranir. Þá er skátum erlendis frá einnig boðið að koma sem þátttakendur og sem sjálfboðaliðar í ýmis hlutverk sem þarf að sinna á mótinu.

Landsmót skáta er stór menningarviðburður fyrir skáta og þaðan eru oft bestu minningar skáta úr starfinu vegna þess að á landsmóti vinnast persónulegir stórsigrar á hverjum degi!

Hlutverk mótsstjóra:

Mótsstjóri er formaður mótsstjórnar og ber ábyrgð gagnvart stjórn BÍS á að undirbúningur, framkvæmd og endurmat mótsins sé í samræmi við áætlanir. Stjórn BÍS og mótsstjóri skipa mótsstjórn úr innsendum umsóknum og skiptir verkum þeirra.

Mótsstjóri heldur utan um allar áætlanir og eftirfylgni með þeim. Mótsstjóri ákveður dagskrá mótsstjórnarfunda ásamt því að boða og stýra þeim, haldin skal fundargerð fyrir alla fundi mótsstjórnar. Mótsstjóri sér til þess að á milli funda hafi allir aðilar í mótsstjórn verkefni sem þau vinna að á milli funda og heldur öllum við efnið. Mótsstjóri vinnur fjárhagsáætlun í samstarfi við fjármálastjóra BÍS en hún er háð samþykki stjórnar. Mótsstjóri er tengiliður við stjórn BÍS og upplýsir hana um gang mála þegar þess er óskað. Mótsstjóri ábyrgist að allar fundargerðir og að öll vinna sem er skjöluð sé vistuð hjá Skátamiðstöðinni.

Hlutverk mótsstjórnar:

Landsmót skáta þarf trygga forystu 5-8 skáta mótsstjórnar sem skiptir með sér verksviðum. Þeirra á meðal eru dagskrá mótsins, skipulag tjaldbúðar, sjúkra-, öryggis- og tæknimál, starfsmannamál og upplýsingamiðlun.  Mótsstjórn nýtur stuðnings fjármálastjóra BÍS með allt sem viðkemur fjárhagi mótsins og Skátamiðstöðvarinnar þegar kemur að skráningarmálum og miðlun til skátafélaganna.

Mótsstjórn skipuleggur mótið og ábyrgist framkvæmd þess. Mótsstjórn aflar sjálfboðaliða til að standa að framkvæmd mótsins með þeim og skipar teymi í kringum afmörkuð verksvið og verkefni á mótinu, ákveður táknræna umgjörð, skipuleggur verslun og þjónustu á mótsvæðinu og auglýsir mótið á íslenskri grundu sem og erlendis.

Mótsstjórn fær aðgang að gögnum fyrri landsmóta ásamt handbók um undirbúning og framkvæmd landsmóts.

Tímarammi verkefnisins:

Mótsstjórn hefur störf í janúar 2025 og fundar minnst mánaðarlega fram að móti og oftar þegar nær dregur móti, að móti loknu stýrir mótsstjórn endurmati meðal fararstjóra og starfsfólks. Hún lýkur síðan störfum í september 2026 með því að skila skýrslu og endurmati til stjórnar BÍS um mótið.

Umsóknarfrestur er til og með 10. janúar

innan sem utan skátahreyfingarinnar