Skátastarf fyrir börn flóttafólks og umsækjenda um vernd
Bandalag íslenskra skáta, Skátafélagið Landnemar og Rauði krossinn fengu nýlega styrk fyrir samstarfsverkefni úr Æskulýðssjóði.
Verkefnið er þróunarverkefni sem miðar að því að mæta þörfum barna flóttafólks og umsækjenda um vernd á Íslandi til að þau geti stundað uppbyggilegt æskulýðsstarf. Þátttaka í slíku starfi hefur mikið forvarnargildi og er góður vettvangur fyrir þau að aðlagast íslensku samfélagi, kynnast nýju fólki og eignast vini.
UM VERKEFNIÐ
Fyrsti hluti verkefnisins er að halda fjölskylduskátadag þar sem fjölskyldum stendur til boða að koma og upplifa skátastarf saman á eign skinni.
Fjölskylduskátadagurinn verður haldinn í Skátaheimili Landnema, Háuhlíð 9, klukkan 10-14.
Að honum loknum vonumst við til þess að hluti þátttakenda skili sér í hefðbundið skátastarf hjá Skátafélaginu Landnemum.
SJÁLFBOÐALIÐAR
Við óskum eftir sjálfboðaliðum til að taka þátt í verkefninu.
Hlutverk sjálfboðaliða er að mæta á fjölskylduskátadaginn, 15. febrúar, aðstoða við framkvæmd dagskrár og kynna skátastarf fyrir hópnum. Einnig er óskað eftir aðstoð sjálfboðaliða við að sjá um skátafundi á þeim fundum sem einstaklingar skrá sig í að deginum loknum.
Hægt er að bjóða fram aðstoð sína við annan hvorn hlutan eða báða.
ÞJÁLFUN OG STUÐNINGUR
Sjálfboðaliðum sem koma að verkefninu stendur til boða að sækja námskeiðið Sálfélagslegur stuðningur í verkefnum með flóttafólki sem Rauði Krossinn stendur fyrir.
Á námskeiðinu verður rætt um aðstæður, bakgrunn og algengar áskoranir flóttafólks.
Langar þig að leggja verkefninu lið? Fylltu út sjálfboðaliðaumsókn hér að neðan.