Einelti, áreitni og ofbeldi í hvers kyns mynd er ekki liðið innan íþrótta- og æskulýðsstarfs.
Samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsmála tók til starfa árið 2020.
Markmið með starfsemi Samskiptaráðgjafa er að stuðla að því að íþrótta- og æskulýðsstarf fari fram í öruggu umhverfi og að börn, unglingar og fullorðnir, óháð kynferði eða stöðu að öðru leyti, geti stundað íþróttir eða æskulýðsstarf og leitað sér aðstoðar eða leitað réttar síns vegna atvika og misgerða sem eiga sér stað án þess að þurfa að óttast afleiðingarnar.
Hver geta leitað til Samskiptaráðgjafa?
Starfssvið samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs nær til allrar skipulagðrar starfsemi íþrótta og æskulýðssamtaka sem starfa á grundvelli æskulýðslaga og aðila sem gera samning við Mennta- og barnamálaráðuneytið.
Það þýðir að öll þau sem sækja skipulagðar æfingar eða félagsstarf á landinu geta leitað til samskiptaráðgjafa varðandi einelti eða ofbeldi sem þau telja sig hafa orðið fyrir í sínu íþrótta- eða æskulýðsstarfi.
Viðbragðsáætlun
Samræmd viðbragðsáætlun fyrir allt íþrótta- og æskulýðsstarf á landinu er verkefni sem er leitt af samskiptaráðgjafa.
Viðbragðsáætlunin er unnin í samráði við Bandalag íslenskra skáta, Íþróttabandalag Reykjavíkur, Íþrótta- og ólympíusamband Íslands, KFUM og KFUK, Samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs, Slysavarnafélagið landsbjörg, Ungmennafélag Íslands og Æskulýðsvettvanginn.
Tilgangur samræmdrar áætlunar er að sporna við atvikum sem geta mögulega komið upp og leiðbeint starfsfólki, sjálfboðaliðum og fleirum til að bregðast eins og rétt við ef til þess kemur. Enda er best fyrir alla aðila máls, ef viðbrögð eru samræmd.