Markmiðaflokkarnir
Hvernig getur skátahreyfingin eflt börn og ungmenni þannig að þau fái tækifæri til að þroska og þróa hæfileika sína og getu til að verða sjálfstæð og virk í samfélaginu?
Þegar við leyfum börnum og ungmennum að spreyta sig á fjölbreyttum verkefnum í skátastarfi, sjáum við þau vaxa á öllum sviðum. Til þess að tryggja að skátastarfið reyni á öll þroskasvið einstaklingsins notum við markmiðaflokkana fjóra þegar við veljum viðfangsefni skátanna.
Þegar við tölum um framfarir einstaklingsins innan skátahreyfingarinnar þýðir það að við viljum hjálpa börnum og ungmennum að þroskast innan þessara fjögurra sviða eða markmiðaflokka: leiðtogafærni, hemurinn, tilveran og skapandi hugur. Þessir fjórir flokkar taka saman á einfaldan hátt markmið skátahreyfingarinnar til þess að stuðla að þroska einstaklingsins innan þroskasviðanna fimm: vistmunaþroska, félagsþroska, tilfinningaþroska, andlegs þroska og líkamlegs þroska.
Leiðtogafærni
Leiðtogafærni
Frá upphafi fær skátinn tækifæri til að leiða hóp jafnaldra og hvatningu til að taka af skarið í samstarfi og lausnaleit. Til að byrja með fær skátinn ábyrgð á hluta verkefnum flokksins en smátt og smátt gefst tækifæri að spreyta sig á flóknari verkefnum. Stærri verkefni geta verið t.d. að vera sveitarforingi eða stjórna stórum viðburðum.
Hópurinn
Flokkastarf gefur færi á að æfa sig í samvinnu í litlum hópum og taka virkan þátt í starfinu á eigin forsendum. Hver og einn hefur sitt hlutverk innan flokksins og hópurinn velur sér verkefni í sameiningu.
Samskipti
Skátarnir fá tækifæri til að kynnast ólíkum einstaklingum, mynda ný vinatengsl og átta sig á eigin tilfinningum og annarra. Skátarnir læra að setja sín eigin mörk og eignast aukin skilning og virðingu á mörkum annarra.
Skapandi hugur
Lausnaleit
Skátarnir öðlast færni í að leysa flókin verkefni innan skátastarf sem utan. Viðfansefni og verkefni eru bæði huglæg og verkleg. Skátarnir fá öryggi í að prófa sig áfram og finna nýjar lausnir á alls kyns vandamálum.
Gagnrýnin hugsun
Í heimi ofgnóttar upplýsinga er mikilvægt að læra að meta uppruna og gildi upplýsinga. Skátarnir fá þjálfun í að skoða og rýna í upplýsingar og mynda sér sjálfstæða skoðun á viðfangsefninu.
Ímyndunarafl og listræn tjáning
Skátarnir fá rými til að þess að gleyma sér í töfrandi heimi ævintýranna og fá tækifæri til að láta ímyndunaraflið flæða. Hvort sem það er myndræn útfærsla, söngur, leikur, sögur, dans eða búa til skemmtilegt þema fyrir útilegu.
Heimurinn og umhverfið
Heimurinn
Skátahreyfingin er friðarhreyfing. Skátarnir öðlast skilning á heiminum, bæði nærumhverfi og fjarlægari stöðum, hvernig hægt sé að stuðla að jafnrétti í heiminum og öðlast skilning á að framlag allra skipti máli.
Náttúran
Í skátastarfi er útivist mikilvægur hluti af þroskaferli skátans. Samband skátans við náttúruna dýpkar tilfinningu fyrir margbreytileika hennar og krafti. Þyki okkur vænt um náttúruna göngum við betur um hana.
Samfélagið
Virk þátttaka í samfélaginu eykur lýðræðisvitund og gefur okkur tækifæri til að hafa áhrif á eigið líf, umhverfið og heiminn allan. Skátarnir brenna fyrir málefnum sem gera heiminn betri. Markmið skátanna er öflugt ungmennalýðræði þar sem ungmenni hafa áhrif á samfélag sitt og eru leiðtogar í umbótum í nærsamfélaginu.
Tilveran mín
Tilveran
Með því að velta fyrir sér hvað skiptir okkur máli eða hverng lífi við viljum lifa, kynnumst við sjálfum okkur betur og það hjálpar okkur til að taka afstöðu til grundvallarspurninga, hvort sem er innan eða utan skátahreyfingarinnar. Engar spurningar eru of stórar til að velta fyrir sér.
Eigin gildi
Okkar persónulegu gildi tengjast því hver við erum og fyrir hvað við stöndum. Hvað er mikilvægt fyrir mig og hvernig tengjast mín gildi, þeim gildum sem skátahreyfingin stendur fyrir.
Sjálfstraust, sjálfsábyrgð og sjálfsþekking
Skátarnir vita hvað þeir vilja, hvað þeir geta og hvað er þeim mikilvægt. Skátinn veit að hann er góður eins og hann er. Sjálfstraust og sjálfsþekking er forsenda þess að skátanum líði vel í starfi.
Áskoranir
Þau sem þora að ögra sjálfum sér, hafa alla möguleika til þess að standast áskoranirnar, læra meira um sig sjálf og þroskast á allan hátt. Áskoranirnar geta verið fjölbreyttar og reyna á skátana á marga vegu.
Líkaminn
Skátarnir læra um líkamann sinn, hvað hefur áhrif á hann að utan sem innan og hvernig viðeigandi áskoranir reyna á líkamann.