
Handbók skólastjóra Útilífsskóla skáta
Kæri útilífsskólastjóri, gleðilegt sumar!
Þú hefur nú fengið ráðningu sem skólastjóri yfir einum af Útilífsskóla skátanna, sem eru ævintýraleg sumarnámskeið fyrir börn. Þetta er ábyrgðarstaða og á alveg örugglega eftir að taka aðeins á taugarnar, en verður samt sennilega eitt skemmtilegasta sumarstarf sem þú munt nokkurn tímann starfa við. Það er ekki oft sem okkur skátum gefst færi að fá borgað fyrir störf okkar. Nýttu þetta tækifæri til að auka hæfni þína sem skáti og leiðtogi!
Samhliða því að veita ungum krökkum sína fyrstu alvöru upplifun af skátastarfi munt þú vafalaust læra heilmikið. Þú munt efla þig í að eiga í samskiptum við börn og ungmenni og hjálpa þeim að öðlast hugrekki, starfa í hóp og þroskast í íslenska sumrinu. Þú munt mögulega hafa undirmenn í fyrsta skipti og taka þín fyrstu skref í mannauðsstjórnun og það er spennandi verkefni. Það er nefnilega ákveðinn galdur að ná að vera bæði vinur og yfirmaður í senn og ganga úr skugga um að starfsfólkið þitt vinni störf sín af ábyrgð en skemmti sér líka vel í leiðinni. Svo muntu kynnast þinni heimabyggð (eða hverju því hverfi sem þín starfsstöð þjónustar) upp á nýtt og sjá hana með augum tækifæra til útivistar og leikja. Þá áttu eftir að efla hugmyndaauðgi þína, læra að bregðast við hratt og örugglega, ef eitthvað kemur upp á, læra að eiga í samskiptum við foreldra og miðla upplýsingum. Þetta verður því ákveðið þroskaferli fyrir þig, sem mun svo fylgja þér út í lífið sem frábær reynsla og öflug ferilskrá fyrir framtíðina.
Þessari handbók er ætlað að vera uppspretta upplýsinga fyrir þig, sem þú getur lesið í heild sinni til að setja þig inn í starfið í upphafi og svo flett upp í þegar þú lendir í vafa.
Gangi þér vel í sumar!
Markmið Útilífsskólans
Útilífsskóli skáta er í kjarnann tilboð skátafélaganna í Reykjavík til almennings um að bjóða upp á sumarnámskeið sem gera börnum kleift að prófa skátastarf án mikillar skuldbindingar, efla færni þeirra í útivist og samskiptum og bjóða þeim upp á markvissa dagskrá í sumarfríinu. Jafnframt nýtast námskeiðin sem kynning og fjáröflun fyrir skátafélögin og eru mikilvægur þáttur í að efla færni þess mannauðs sem starfar í skátafélaginu.
Markmið Útilífsskóla skáta er að:
- bjóða börnum og ungmennum upp á námskeið þar sem þau kynnast undirstöðuatriðum útivistar, hópeflis og vináttu.
- kynna börn og ungmenni fyrir skátastarfi og viðfangsefni þess.
- stuðla að því að börn og ungmenni verði sjálfstæðir, virkir og ábyrgir einstaklingar.
Þessum markmiðum hyggst Útilífsskólinn m.a. ná með því að:
- stuðla að hópastarfi, sem kennir tillitssemi, eykur samskiptafærni og eflir ábyrgð.
- standa fyrir útilífi sem eflir líkamsþrek og vekur áhuga þátttakenda á náttúrunni, eflir skilning þeirra og áhuga á að vernda hana.
- bjóða upp á dagskrá með margvíslegum viðfangsefnum, þar sem þátttakandinn lærir ýmis nytsöm störf, þeim sjálfum og öðrum til heilla.
- virkja börn í hópeflisleikjum þar sem þátttaka er valkvæð eftir áhugasviði og þroska þátttakanda.
Hvað er skátastarf?
Starfsfólk Útilífsskóla skáta eru ekki endilega skátar og er því þekking starfsfólks á hlutverki og gilda skátastarfs ólík. Útilífsskólar skáta starfa eftir grunngildum Bandalags íslenskra skáta, sem byggjast á samfélagslegum gildum sem tengjast hlutverki skátahreyfingarinnar, siðferðislegum gildum sem finna má í skátaheiti og skátalögum og svo aðferðafræðilegum gildum sem fólgin eru í skátaaðferðinni.
Hér verður stiklað á stóru í grunngildum Bandalags íslenskra skáta, en nánari útfærslu á grunngildum skátahreyfingarinnar er að finna hér
Samfélagsleg grunngildi skátahreyfingarinnar
Skátahreyfingin er alþjóðleg uppeldis- og friðarhreyfing. Markmið hennar er að leggja sem mest af mörkum við uppeldi ungs fólks til þess að skapa betri heim þar sem fólk öðlast lífsfyllingu sem sjálfstæðir, virkir og ábyrgir einstaklingar í samfélaginu. Þetta er gert með því að:
- Virkja ungt fólk á þroskaskeiði þeirra með óformlegu uppeldis- og menntakerfi.
- Beita sérstökum aðferðum sem gera hvern einstakling virkasta áhrifavaldinn í eigin þroskaferli.
- Hjálpa ungu fólki að byggja upp eigið gildakerfi sem grundvallast á siðferðilegum lífsgildum, félagslegu réttlæti og persónulegri staðfestu í anda skátalaga og skátaheits.
Siðferðileg grunngildi skátahreyfingarinnar
Siðferðileg gildi skátahreyfingarinnar er að finna í skátaheitinu og skátalögunum. Fyrirmynd þeirra er í samþykktum alþjóðahreyfinga skáta. Orðalag er þó mismunandi eftir löndum, menningarheimum og tungumálum.
skátaheitið
Skátaheitið er loforð sem skátinn gefur sjálfum sér, eins konar persónuleg áskorun um að gera sitt besta. Þegar skátinn vinnur skátaheitið er skátinn að taka fyrsta meðvitaða skrefið á sjálfsnámsbrautinni til að verða sjálfstæður, virkur og ábyrgur samfélagsþegn. Íslenska skátaheitið hljóðar svo (velja má á milli annars vegar guð/samviska og ættjörðina/samfélag):
Ég lofa að gera það sem í mínu valdi stendur til þess að gera skyldu mína við guð/samvisku og ættjörðina/samfélag, að hjálpa öðrum og að halda skátalögin.
skátalögin
Siðferðileg gildi skátahreyfingarinnar eru sett fram á skipulegan hátt í skátalögunum. Skátalögin eru þó miklu meira en bara skipulagskerfi hugmynda. Þau eru í raun hegðunarmynstur sem ungt fólk getur valið að fylgja og nota til að móta stefnu sína í lífinu. Til þess að vera sjálfum sér samkvæmur þarf hver einstaklingur að hugsa og haga sér í samræmi við eigin gildi. Íslensku skátalögin eru svohljóðandi:
- Skáti er hjálpsamur
- Skáti er glaðvær
- Skáti er traustur
- Skáti er náttúruvinur
- Skáti er tillitssamur
- Skáti er heiðarlegur
- Skáti er samvinnufús
- Skáti er nýtinn
- Skáti er réttsýnn
- Skáti er sjálfstæður
aðferðafræðileg grunngildi skátahreyfingarinnar
Skátastarf byggir á hugmyndinni um sjálfsnám sem er stigvaxandi í takt við aldur og þroska.
Lykilþættir Skátaaðferðarinnar:
- Skátalögin, skátaheitið og kjörorð skáta
- Flokkakerfið
- Táknræn umgjörð
- Útilíf og umhverfisvernd
- Leikir og reynslunám
- Hjálpsemi og samfélagsþátttaka
- Framfarir einstaklingsins
- Stuðningur fullorðinna
Skátaorðabókin
Til að hafa samfellu í starfinu notum við ákveðinn skátaorðaforða og hér er örlítil orðabók fyrir þau sem eru ný í skátastarfi:
- Skátafélag: Skátafélag er ákveðin eining í skátastarfi sem yfirleitt er hópur skáta á ákveðnu svæði; svo sem borgarhluta eða bæjarfélagi. Hver starfsstöð í Útilífsskóla skáta er á vegum eins skátafélags.
- Útilífsskóli / ÚS: sumarnámskeið skáta
- Flokkur: Hópur þátttakenda sem starfar saman alla vikuna.
- Skátaflokkur: Sjá flokkur.
- Foringi: Foringi er orðið sem skátar nota yfir leiðbeinendur í skátastarfi. Skólastjórinn, leiðbeinendur og vinnuskólaliðar eru því öll foringjar.
- Skátaklútur: Klúturinn er einkenni skáta. Þetta er þríhyrnulaga efnisbútur sem rúllað er upp og bundinn saman eða festur saman með skátahnút. Klútarnir eru oft notaðir til að þekkja í sundur flokkana og eru lykilatriði í því að hafa yfirsýn yfir þátttakendur á svæðum þar sem þátttakendur blandast við almenning. Á útilífsnámskeiðum eru klútarnir oft bara úr ódýru, skærlitu lérefti.
- Skátahnútur: Skátahnúturinn er einhvers konar efnisleg leið til að halda saman skátaklútnum. Svona eins og servíettuhringur. Oft föndra þátttakendur hnút fyrsta daginn sem getur verið nafnspjald líka
Skátafélög
Flest skátafélög á höfuðborgarsvæðinu bjóða upp á námskeið á sumrin og oft er samstarf þeirra á milli.
Hér getur þú fundið frekari upplýsingar um skátafélögin
undirbúningur
Góður undirbúningur er mikilvægur til að tryggja yfirsýn yfir verkefni og að tími gefist til að vinna þau öll.
Tímalína
Oft brennur við að skátafélögin hefja undirbúning fyrir útilífsskólann of seint. Hér er tímalínan sem við leggjum til að skátafélögin fylgi.

Kynningarmál
Útilífsskólinn í heild sinni er eitt okkar besta kynningartæki fyrir skátastarf, enda halda mörg börn áfram um veturinn. Jafnframt lítum við á það sem jákvætt framlag til samfélagsins að bjóða upp á þessi ódýru og fjölbreyttu námskeið sem hvetja til útiveru og auka félagsfærni. Til þess að námskeiðin nái til sem flestra barna þarf að kynna þau vel. Hér eru nokkur atriði sem vert er að hafa í huga.
Auglýsingar á netinu
Frístundavefurinn
Frístundavefurinn er með yfirlit yfir allt framboð frístundamöguleika og mjög mikilvægt að vera búin að uppfæra upplýsingar um námskeiðin fyrir sumardaginn fyrsta.
Útilífsskólar á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur geta einnig auglýst sín námskeið á Frístundavefnum vegna þess hve mikið vefurinn er notaður af íbúum nærliggjandi sveitarfélaga.
Sumarvefir annarra sveitarfélaga
Önnur sveitarfélög eru líka með sinn eigin frístundavef til að auglýsa sumarnámskeið og mælum við með því að þau vefsvæði séu notuð utan Reykjavíkur.
Sumarvefur Garðabæjar (Garðabær og Álftanes)
Sumarvefur Kópavogs (Kópavogur)
Sumarvefur Mosfellsbæjar (Mosfellsbær)
Sumarvefur Hafnarfjarðar (Hafnarfjörður)
Alltaf er hægt að hringja í bæjarskrifstofu síns sveitarfélags og fá þar ráðgjöf um hvernig sé best að auglýsa sumarnámskeið skátafélagsins gagnvart íbúum þess.
útilífsskóli.is
Útilífsskóli.is er auglýsingavefur SSR.
Reykjavíkurfélögin geta birt þar upplýsingar án greiðslu, en félög utan Reykjavíkur greiða fyrir þátttöku sína.
Til þess að uppfæra upplýsingarnar þarf að senda upplýsingar á starfsfólk SSR, ssr@ssr.is.
Vefur skátafélags
Hafið upplýsingar um námskeiðin aðgengilegar á vef skátafélagsins, ef hann er fyrir hendi. Þar er einnig gott að hafa aðrar upplýsingar aðgengilegar, eins og útbúnaðarlista, dæmi um dagskrá námskeiða, höfuðstöðvar námskeiðs og fleira.
Samfélagsmiðlar
Setjið upplýsingar um námskeiðin á samfélagsmiðla félagsins. Einnig er sniðugt að setja inn auglýsingar í hverfagrúppur.
önnur markaðssetning
Tölvupóstur
Sendið pósta á þátttakendur síðasta árs (sem enn eru á aldursbili sumarsins), auk skáta úr vetrarstarfinu.
Frétt í hverfisblað
Sendið greinar í hverfis-/bæjarblaðið ásamt myndum. Þau koma út í hverjum mánuði og hægt að fá uppgefið hvenær fresturinn er.
Hér er yfirlit yfir hverfisblöð Reykjavíkur:
- Skrautás ehf – S: 698-2844
- Árbúar – abl@skrautas.is
- Vogabúar – gv@skrautas.is
- Með oddi og egg – benaegis@simnet.is – S: 897 8694
- Landnemar
- Garðbúar
- Skjöldungar
- Borgarblöð – borgarblod@simnet.is – S: 511 1188 og 895 8298.
- Hafernir
- Segull
- Ægisbúar
Athugið að Segull og Hafernir eru í sama hverfisblaði og Skjöldungar og Garðbúar líka í sama blaði. Endilega talið ykkur saman áður en þið sendið.
Auglýsingar á prenti
Sum félög prenta plaköt eða bæklinga og dreifa á helstu samkomustaði innan hverfis.
kynningar í skólum
Sum félög fara og kynna námskeiðin í grunnskólum hverfisins.
nýtið hverfisviðburði
Það er mjög sterkur leikur að auglýsa sumarnámskeiðin á hverfisviðburðum, svo sem í tengslum við Barnamenningarhátíð og Sumardaginn fyrsta. Oft má líka sækja um styrki í tengslum við þessa viðburði sem nýta má í að bjóða upp á dagskrá sem auglýsir sumarnámskeiðin.
Útilífsskólinn sem kynning fyrir vetrarstarfið
Eitt meginhlutverk Útilífsskólans er að gefa börnum tækifæri á að prófa skátastarf í afmarkaðan tíma, svo þau geti áttað sig á því hvort skátastarf henti þeim. Það er því mikilvægt að nota Útilífsskólann sjálfan sem kynningartól fyrir skátastarf.
Hér eru nokkrar ábendingar:
- Sendið kynningarefni fyrir haustið á þau sem tóku þátt í útilífsnámskeiðum.
- Sniðugt er að bjóða upp á grillveislu í lok sumars fyrir alla þátttakendur sumarsins. Það tækifæri er hægt að nýta til að hvetja til skráningar.
- Notið tækifæri til að taka góðar myndir af skátastarfi í sumarlegu umhverfi. Munið þó að gæta að persónuvernd og fá leyfi til myndbirtingar.
Myndbirtingar
Raddblær skátanna endurspeglast í notkun á ljósmyndum og hér eru nokkur atriði til að hafa í huga þegar sendar eru myndir undir nafni þátttakenda:
- Föngum eðlileg augnablik og verum minna í uppstillingum, sýnum þátttakendur í alvöru aðstæðum. Forðumst tilgerð.
- Höfum myndirnar orkumiklar og sýnum þannig gleðina og spennuna í skátastarfinu.
- Sýnum fjölbreytni og gerum öllum aldurshópum jafnhátt undir höfði. Höfum kynjasjónarmið í huga og reynum að endurspegla fjölbreytileika mannlífsins.
Persónuvernd
Fyrst og fremst þarf alltaf að vera til staðar heimild til að vinna með persónugreinanleg gögn. Hér má sjá nánari upplýsingar um það hvenær má vinna með persónuupplýsingar. Þar sem myndir í starfi Útilífsskóla skáta teljast ekki til nauðsynlegra gagna þarf að afla samþykkis fyrir því að nýta gögnin.
Samþykki þarf að vera ótvírætt og það er ábyrgðaraðili (í þessu tilviki Útilífsskólinn) sem þarf að geta sýnt fram á að einstaklingar hafi samþykkt vinnslu á persónuupplýsingum.
Um myndbirtingar gilda eftirfarandi persónuverndarreglur „Almennt má segja að hægt sé að skipta birtingu myndefnis í tvo flokka. Annars vegar birtingu þjóðlífs- og hversdagsmynda, með almenna skírskotun, t.d. af opinberum hátíðarhöldum eða af hópi áhorfenda á íþróttaleik, og hins vegar birtingu mynda þar sem einstaklingurinn er aðalmyndefnið. Í fyrra tilvikinu er litið svo á að ekki þurfi endilega samþykki viðkomandi einstaklinga fyrir myndbirtingunni en það sé alla jafna skilyrði í síðara tilvikinu, þegar þeir eru aðalefni myndarinnar.“
Hér eru nokkrir punktar til að hafa í huga þegar teknar eru ljósmyndir eða myndbönd:
- Reynum að forðast að taka myndir af einstaklingum, náum frekar myndir af hópnum. Ef við erum með einstaklingsmyndir eða mynd þar sem nokkrir einstaklingar eru í forgrunni þá biðjum við um leyfi.
- Börn ætti aldrei að sýna á niðrandi eða óviðeigandi hátt, t.d. þannig að þau séu nakin, klæðalítil eða í erfiðum aðstæðum. Því tökum við ekki myndir af börnum í sundlaugum eða öðrum baðstöðum, s.s. Nauthólsvík.
- Ef við tökum hópmyndir eða svipmyndir af viðburðum þá þarf ekki að biðja um leyfi.
Ef þú ert í vafa er gott að skoða vef Persónuverndar eða senda þeim fyrirspurn.
samfélagsmiðlar
Myndbirtingar á samfélagsmiðlum eru vandmeðfarnar og eru nokkrir þættir sem er vert að hafa í huga þegar að þeim kemur. Í skilmálum samfélagsmiða, s.s. facebook, instagram, twitter, snapchat, Google o.s.frv, sem notendur miðilsins samþykkja, kemur fram að miðlarnir safna þeim upplýsingum sem miðlað er í gegnum síðuna.
Til dæmis þegar persónuupplýsingum er miðlað til foreldra í gegnum Facebook-hóp er þeim því samtímis miðlað til Facebook. Þá liggur fyrir að Facebook deilir persónuupplýsingum með fyrirtækjum sem tengjast Facebook, sem og öðrum aðilum (þ.e. þriðju aðilum), við nánar tilgreindar aðstæður. Þau sem nota slíka samfélagsmiðla hafa því ekki fulla stjórn á því efni sem þar er sett inn.
Áður en þú setur ljósmynd eða aðrar upplýsingar um barnið þitt (eða annarra) á samfélagsmiðla er gott að hafa eftirfarandi í huga:
- Fáðu alltaf samþykki barnsins fyrir birtingu ljósmyndar eða annarra upplýsinga um það á samfélagsmiðlum.
- Staldraðu við áður en þú setur inn efnið og veltu fyrir þér hvort þetta eigi yfirleitt erindi við aðra.
- Myndir af nöktum eða fáklæddum börnum eiga ekki heima á Netinu, hvort sem myndin er tekin heima í baði eða á sólarströnd.
- Ekki birta ljósmynd af barni sem líður illa, sýnir erfiða hegðun, er veikt eða er að öðru leyti í viðkvæmum aðstæðum.
- Forðastu að birta upplýsingar og ljósmyndir af börnum í umræðuhópum á samfélagsmiðlum. Óskaðu frekar eftir spjalli við aðila í sömu sporum beint, t.d. í síma eða í einkaskilaboðum, frekar en í opnu spjalli.
- Ekki ganga út frá því að börn séu hlynnt því að þú segir frá atvikum í lífi þeirra á samfélagsmiðlum. Spurðu barnið hvort þú megir segja frá t.d. sigrum á íþróttamótum eða góðum námsárangri, áður en þú gerir það.
- Fullvissaðu þig um að friðhelgisstillingar þínar á samfélagsmiðlum séu þannig að ljósmyndir og aðrar upplýsingar um börnin þín séu ekki aðgengilegar öllum.
- Áður en þú birtir ljósmyndir, kannaðu hvort þú þurfir að aftengja GPS hnit, þannig að ekki sé hægt að sjá hvar myndin er tekin.
- Í öllum tilvikum, hugsaðu um það sem barninu er fyrir bestu, leitaðu eftir sjónarmiðum þess áður en þú birtir eitthvað um það á samfélagsmiðlum, og hugsaðu um hvaða áhrif það gæti haft á barnið til skemmri eða lengri tíma.
Skráningar
ATH Samkvæmt gagnasöfnun Skátamiðstöðvarinnar geta allt að 50% heildarfjölda skráninga yfir allt sumarið dottið inn á fyrstu vikunni eftir að skráning er opnuð. Yfirleitt eru 60 – 80% af heildarfjölda skráninga sumarsins komnar þegar fyrsta námskeið hefst.
Skráningar skulu opnaðar fyrir sumardaginn fyrsta og áður en námskeiðin eru auglýst nokkurs staðar til að tryggja að þau sem eru áhugasöm geti skráð sig.
Þegar skráning er stofnuð er mikilvægt að á hverju námskeiði komi fram grunnupplýsingar ásamt helstu skilmálum, t.d. hvaða skilyrði eru um afbókanir og endurgreiðslu.
Sportabler er skráningarkerfi skátanna og er ætlast til þess að skráning fari fram þar. Skátamiðstöðin býður upp á aðstoð við uppsetningu á skráningarkerfi í Sportabler en býður ekki upp á aðstoð fyrir önnur skráningarkerfi.
Námskeiðafjöldi
Stjórn skátafélagsins gerir áætlun um fjölda námskeiðsvikna fyrir sumarið út frá viðburðardagatali BÍS og tímafjölda styrktra starfsmanna.
Helstu atriði sem hafa þarf í huga:
- Algengt er að námskeiðsvikurnar séu 5-8 talsins. Leiðbeinendur hafa yfirleitt vinnurétt í 8 vikur (ath. getur verið mismunandi milli sveitarfélaga) og af því þarf að greiða þeim fyrir þjálfun.
- Mörg félög fá starfsfólki úthlutað í 8 vikur eða skemur. Algengt er að gera hlé á starfseminni í seinni hluta júlí, bæði til þess að starfsfólk fái gott frí og því að þátttakendur eru oft í fjölskyldufríi þá. Skráning er hins vegar oft góð í upphafi ágúst.
- Athugaðu að gjarnan hefst skólastarf grunnskóla seinna en framhaldsskólanna. Getur það þýtt að það er vika í ágúst þar sem erfitt getur reynst að finna starfsfólk þótt skráning náist á námskeiðið.
- Athugaðu að almennir frídagar geta haft áhrif á dagsetningar og lengd námskeiðs. Á sumrin eru það aðallega 17. júní og frídagur verslunarmanna. Lengd námskeiðs hefur einnig áhrif á námskeiðsgjöld.
- Taka þarf tillit til skátamóta ef hluti leiðbeinenda eru skátar. Þetta geta til dæmis verið Landsmót skáta, Heimsmót skáta eða aldursbilamót og hægt er að sjá dagsetningar þessara móta á starfsáætlun BÍS.
þátttakendafjöldi
Þegar þátttakendafjöldi er ákveðinn þarf að hafa í huga þann mannauð sem félagið býr yfir, hversu marga aðstaðan rúmar og hvaða hópastærð er þægileg upp á vettvangsferðir og dagskrá.
- Hámarksfjöldi: Reglur eru mismunandi eftir sveitarfélögum, en góð þumalputtaregla er að fara ekki yfir 10 þátttakendur per hvern fullorðinn starfsmann. Oft fá félög 3 starfsmenn yfir 18 ára aldri og því væri heildarfjöldi barna á námskeiði 30 börn.
- Lágmarksfjöldi: Gott er að ákveða lágmarksfjölda skráninga á hvert námskeið í upphafi sumars. Komi sú staða upp að lágmarksfjölda skráninga hefur ekki verið náð 3 vikum fyrir upphaf námskeiðs skal skoða skráningu á námskeið og athuga hvort lágmarksfjölda er náð. Ef svo er ekki er gott að senda póst á þátttakendur sem hafa verið á biðlista á önnur námskeið sem og að auglýsa vel á samfélagsmiðlum og hverfishópum. Ef skráning er enn undir lágmarksfjölda 5 dögum áður en skráningarfrestur rennur út skal aflýsa námskeiðinu, senda póst á skráða þátttakendur, upplýsa þau um stöðuna og bjóða þeim að færa sig yfir á annað námskeið eða benda á önnur Útilífsskóla námskeið hjá nágranna félögum. Bera skal í huga að það svarar ekki kostnaði að halda námskeið með of fáum þátttakendum og upplifun þeirra getur litast af því að vera með fáum börnum á námskeiði.
- Biðlistar: Það er mjög sterkur leikur að bjóða upp á biðlista. Biðlistar tryggja að námskeiðin séu fullsetin þó einhver detti út með stuttum fyrirvara. Munið að senda á þau sem eru skráð á biðlista upplýsingar um það hvort þau komist á námskeiðið eða ekki viku fyrir námskeiðið
fjármál
fjárhagsáætlun
Í upphafi sumars skal fulltrúi skátafélags (félagsforingi, gjaldkeri, starfsmaður eða stjórnarmeðlimur) kynna skólastjóra fjárhagsáætlun fyrir sumarið eða vinna slíka áætlun í samstarfi við skólastjóra. Fjárhagsáætlun skal innihalda viðmið fyrir dagskrárkostnað, hæfilegra umbun fyrir leiðbeinendur (t.d. grillveislu í lok sumars eða aðra lágstemmda umbun), aukagreiðslur til skólastjóra og/eða annarra leiðbeinenda ef slíkar eru, kostnað við ferðalög og viðhald á búnaði. Skólastjóra ber að vinna innan þess fjárhagsramma og láta vita ef stórfeld frávik verða frá áætlun.
greiðslumöguleikar
Yfir sumarið má búast við því að einhvern kostnað þurfi að greiða vegna útilífsskólans. Mælst er gegn því að starfsmenn séu að leggja út fyrir kostnaði með sínum persónulegu fjármunum. Best er að skólastjóri fái strax prófkúru og innkaupakort eða þá að skátafélagið útvegi rafrænt gjafakort frá banka með fastri upphæð. Seinni leiðin er fljótlegri og getur verið betri leið til að fylgja settri fjárhagsáætlun því ekki er hægt að eyða umfram þá heimild sem er sett á kortið, en getur reynst óheppileg ef upp koma skyndileg og óvænt stórútgjöld.
akstur
Akstur getur fylgt starfsemi einhverra útilífsskóla. Mikilvægt er að hafa skýrt samkomulag við sitt skátafélag um þau mál áður en ekið er fyrir félagið. Þar ætti að koma fram hvernig er greitt fyrir akstur og hvað teljist eðlilegur akstur yfir sumarið.
skipurit og hlutverk
yfirstjórn Útilífsskóla skáta
Yfirstjórn Útilífsskóla skáta (ÚS) er í höndum Skátasambands Reykjavíkur (SSR) og er starfsemi skólanna í Reykjavík á ábyrgð þess. SSR nýtur árlegra styrkja frá Reykjavíkurborg og starfar eftir þeim reglum og skilyrðum sem íþrótta- og tómstundasvið Reykjavíkurborgar (ÍTR) setur um starfsemina.
Yfirstjórn Útilífsskóla skáta í öðrum skátafélögum er í höndum stjórnar viðkomandi skátafélags. Æskilegt er að einn aðili úr stjórn sé skilgreindur tengiliður skólastjóra við stjórn. Sum skátafélög í öðrum sveitarfélögum fá laun styrkt meðan önnur þurfa að greiða þau með þátttökugjöldum útilífsskólans. Útilífsskólar starfa ávallt eftir þeim reglum og skilyrðum sem það svið bæjarfélagsins sem fer með æskulýðsstarf setur og æskilegt er að skátafélögin rækti gott samstarf við viðkomandi aðila.
hlutverk BÍS
- Sjá um þjálfun starfsfólks í samstarfi við skátafélögin og SSR.
- Aðstoða við markaðssetningu starfsins.
- Veita skólastjórum ráðgjöf og aðstoð í viðbrögðum við óvæntum atburðum.
Reykjavík
Hlutverk SSR er að:
- Skipuleggja starfsemina og starfssvæði eftir því sem stuðningur ÍTR nær til.
- Sjá um samskipti við Reykjavíkurborg vegna:
- Samninga við starfsmenn 18 ára og eldri við Reykjavíkurborg.
- Skýrslugjafar.
- Aðstoða við að útvega sameiginlegan búnað, sem samkomulag er um að nauðsynlegur sé til starfseminnar.
- Aðstoða við markaðssetningu starfsins m.a. með skráningu allra starfstöðva í sumarbækling ÍTR og gerð kynningarefnis til dreifingar á starfssvæði einstakra starfsstöðva.
Hlutverk skátafélaga sem starfsrækja Útilífsskóla skáta er að:
- Leggja til húsnæði til starfseminnar skv. samkomulagi við SSR.
- Tryggja að húsnæði það sem hýsir Útilífsskólann standist öryggiskröfur heilbrigðiseftirlits og eldvarnaeftirlits.
- Bera vinnuveitendaábyrgð vegna starfsemi hvers útilífsskóla.
- Útvega starfsfólk sem fullnægir skilyrðum ÚS.
- Gera ráðningarsamninga við leiðbeinendur og greiða þeim laun eftir umsömdum töxtum.
- Markaðssetja útilífsskólann í hverfinu og nýta útilífsskólann til að kynna skátastarf fyrir þátttakendum.
önnur sveitarfélög
Hlutverk skátafélaga sem starfsrækja Útilífsskóla skáta er að:
- Skipuleggja starfsemina og starfssvæði eftir því sem stuðningur ÍTR nær til.
- Sjá um samskipti við Reykjavíkurborg vegna:
- Samninga við starfsmenn 18 ára og eldri við Reykjavíkurborg.
- Skýrslugjafar.
- Aðstoða við að útvega sameiginlegan búnað, sem samkomulag er um að nauðsynlegur sé til starfseminnar.
- Aðstoða við markaðssetningu starfsins m.a. með skráningu allra starfstöðva í sumarbækling ÍTR og gerð kynningarefnis til dreifingar á starfssvæði einstakra starfsstöðva.
- Leggja til húsnæði til starfseminnar skv. samkomulagi við SSR.
- Tryggja að húsnæði það sem hýsir Útilífsskólann standist öryggiskröfur heilbrigðiseftirlits og eldvarnaeftirlits.
- Bera vinnuveitendaábyrgð vegna starfsemi hvers útilífsskóla.
- Útvega starfsfólk sem fullnægir skilyrðum ÚS.
- Gera ráðningarsamninga við leiðbeinendur og greiða þeim laun eftir umsömdum töxtum.
- Markaðssetja útilífsskólann í hverfinu og nýta útilífsskólann til að kynna skátastarf fyrir þátttakendum.
Starfsfólk Útilífsskóla skáta
Skátafélögin sjá um að ráða starfsfólk í Útilífsskóla skáta, í samstarfi við sitt bæjarfélag og skátafélög í Reykjavík gera það í samráði við SSR og Vinnuskóla Reykjavíkur. Starfsfólki ÚS er skipt í þrjá hópa sem hafa hver sinn starfstitil og hefur hver hópur ákveðnar kröfur um hæfni og skyldur. Allt starfsfólk, 18 ára og eldri, skal skila inn heimild til öflunar upplýsinga úr sakaskrá.
Þessir þrír hópar eru:
– Skólastjórar – eldri en 20 ára
– Leiðbeinendur – 17 – 25 ára
– Vinnuskólaliðar – 9. – 10. bekk
skólastjóri
Skólastjóri ákveðinnar starfsstöðvar Útilífsskóla skáta sér um verkstjórn, dagskrárgerð, samskipti við foreldra og fleira. Skólastjórinn þarf að vera orðinn 20 ára og hafa þekkingu og reynslu til starfsins.
Sum sveitarfélög setja efri aldursmörk á leiðbeinendur, t.d. Í Reykjavík eru aldursmörk 25 ára til að fá ráðningu í gegnum sumarstörf borgarinnar. Skólastjóri ber ábyrgð á starfseminni en getur útdeilt verkefnum á starfsfólk sitt eftir þörfum.
Hlutverk skólastjóra Útilífsskóla skáta er að:
- Sjá um dagskrárgerð og undirbúning sumarstarfsins í samráði við skátafélag (og SSR).
- Kynna starfsemina í grunnskólum hverfisins og dreifingu kynningarefnis.
- Sjá um að skráningu og samskipti við foreldra og forráðamenn þátttakenda.
- Stýra starfsemi og bera ábyrgð á starfi viðkomandi starfsstöðvar.
- Hafa með höndum verkstjórn á viðkomandi starfsstöð.
- Sjá til þess að farið sé eftir réttu verklagi varðandi öryggismál, samskipti og fleira.
- Gera skýrslu í lok sumars og skila til stjórnar (og eftir tilvikum SSR)
Leiðbeinendur
Leiðbeinendur eru á aldrinum 18 – 25 ára en stundum býður Reykjavík upp á 17 ára einstaklinga að auki. Leiðbeinendur taka þátt í mótun dagskrár og bera meiri ábyrgð en vinnuskólaliðar.
Aðalverkefni leiðbeinenda eru:
- Eiga í uppbyggilegum samskiptum við þátttakendur, hvetja þau áfram og hafa eftirlit með öryggi þeirra.
- Þátttaka í dagskrárgerð.
- Þátttaka í útivist og ævintýralegri dagskrá í anda skátastarfs.
- Aðstoða við að leiðbeina vinnuskólaliðum.
- Ganga í þau störf sem skólastjóri felur þeim.
- Athugið að 17 ára leiðbeinendur bera eðli málsins samkvæmt ekki jafn mikla lagalega ábyrgð og þau sem náð hafa sjálfræðisaldri.
- Skólastjórar, í samstarfi við félagsforingja, geta ákveðið að gefa einum eða fleiri leiðbeinanda titilinn aðstoðarskólastjóri, og gengur viðkomandi þá í hlutverk skólastjóra í fjarveru hans. Hvort titlinum fylgi einhvers konar umbun er samningsatriði við skátafélag.
Vinnuskólaliðar
Vinnuskólaliðar voru að ljúka 8., 9. eða 10. bekk og eru ráðnir af Vinnuskóla Reykjavíkur. Á hverju ári ákveður vinnuskólinn hvaða fjölda má ráða í hverjum útilífsskóla, reglurnar eru breytilegar og því þurfa skólastjórar fá fjöldan á hverju ári frá starfsfólki SSR. Upplýsingar um kjaramál, réttindi og skyldur vinnuskólaliða er að finna á vef Vinnuskóla Reykjavíkur.
Vinnuskólaliðar hafa mismikil vinnuréttindi yfir sumarið en starfstöðvar fá úthlutað ákveðnum fjölda starfsmanna, óháð aldri. Það er því best að ráða vinnuskólaliða í eldri kanntinum, því vinnuskólaliðar í 8. bekk hafa mjög lítil réttindi til vinnu (takmarkaðan tímafjölda, bæði yfir daginn og yfir sumarið). Þannig nýtist takmarkaður fjölda starfsmanna best og einnig getur reynst mjög snúið að hafa starfsfólk í vinnu sem aðeins má vinna hálfan daginn, á námskeiðum þar sem hópurinn ferðast um borg og bý.
Í öðrum sveitarfélögum en Reykjavík teljast þau sem voru að ljúka fyrsta ári í menntaskóla stundum líka sem vinnuskólaliðar. Upplýsingar um vinnureglur eru að finna á heimasíðu viðkomandi bæjarfélags og jafnvel þarf skólastjóri að mæta á námskeið fyrir hópstjóra vinnuskólans.
Hlutverk vinnuskólaliða er að:
- Ganga í þau störf sem skólastjóri felur þeim.
- Eiga í uppbyggilegum samskiptum við þátttakendur, hvetja þau áfram og hafa eftirlit með öryggi þeirra.
- Hafa umsjón með tilteknum flokki barna (ef flokkakerfi er notað).
- Stýra einföldum dagskrárliðum, svo sem leikjum og verkefnum.
- Skólastjórar skulu þekkja reglur síns sveitarfélags um starfstímabil, vinnutíma, hvíld og annað sem viðkemur starfi vinnuskólaliða.
Vinnuskólaliðar vinna samkvæmt reglugerð um vinnu barna og unglinga og annars má finna ýmis fróðleik um vinnu barna og unglinga á vef vinnueftirlitsins.
starfsmannastefna Útilífsskólans
Útilífsskóli skáta starfar eftir starfsmannastefnu sem gerir ákveðnar væntingar til alls starfsfólks.
Væntingar til starfsfólks Útilífsskóla skáta
- Að starfsmaður líti á barn sem sterkan einstakling, sem hefur mikið fram að færa.
- Að starfsmaður hafi gaman af að starfa með börnum og finni lífsgleðina með þeim.
- Að starfsmaður mæti börnum á jafningjagrundvelli og leggi sig fram um að kynnast börnunum.
- Að starfsmaður sé aðgengilegur í fasi og viðmóti.
- Að starfsmaður búi yfir samskiptahæfni, samstarfsfærni og sveigjanleika í starfi.
- Að starfsmaður sé tilbúinn að taka leiðbeiningum og líti á það sem eðlilegan þátt í sinni starfsþjálfun.
- Að starfsmaður kynni sig fyrir foreldrum.
- Að starfsmaður sé stundvís.
leiðarljós starfsmannahópsins
Starfsfólk Útilífsskólanna er skátaflokkur sem starfar náið saman í eitt sumar. Eftirfarandi leiðarljós einkenna andann í starfsmannahópnum:
- Starfsfólkið sýnir hverju öðru traust og gagnkvæma virðingu.
- Starfsfólkið nálgast viðfangsefnin með gagnrýnni hugsun, en kemur ábendingum á framfæri með uppbyggilegum hætti.
- Starfsfólkið er óhrætt við að spyrja að því sem það veit ekki.
- Starfsmannahópurinn nýtir ólíka hæfileika teymisins og leyfir öllum að njóta sín.
- Starfsfólkið er duglegt að hrósa hverju öðru og vekja athygli á því sem vel er gert.
Framkoma og atgervi
Það er mikilvægt að hafa í huga að starfsvettvangur starfsfólks Útilífsskóla skáta felst ekki einungis í að bjóða upp á ævintýralega dagskrá um alla borg, heldur einnig í samskiptum við börn, sem eru móttækileg fyrir alls kyns áhrifum. Því er afar mikilvægt að allt starfsfólk útilífsskólanna sýni vandvirkni í framkomu og máli. Það segir sig sjálft að Útilífsskóli skáta er reyklaus vinnustaður.
Það er staðreynd að margt að því sem fer fram á námskeiðum útilífsskólanna fá foreldrarnir að heyra. Í flestum tilvikum er það um hvernig dagurinn var, hvað var gert og hversu skemmtilegt er á námskeiðum hjá skátunum. En ef það er eitthvað sem stuðar börnin s.s. orðaval og framkoma starfsfólks útilífsskóla þá segja þau frá því. Ekkert er eins vandræðalegt og þurfa að afsaka blótsyrði og óvandaða framkomu starfsfólks.
Starfsfólk Útilífsskóla skáta er andlit námskeiðanna hvar sem þau koma og skulu því hafa þessi atriði í huga:
- Starfsmenn eiga að vera hreinir og vel til fara. Það er ótækt ef starfsmenn útilífsskólanna ganga um í lörfum eða skítugum fötum. Það er eðlilegt að föt verði skítug í vinnunni en í byrjun dags þá mætir starfsfólk vel til fara og snyrtilegt.
- Starfsmenn eiga ekki að nota blótsyrði eða á nokkurn hátt tala niður til barna.
- Starfsmenn gæta þess að ræða ekki viðfangsefni sem eru ekki við hæfi barna í viðurvist þeirra.
- Starfsmenn eiga að sýna glaðværð í viðmóti. Ef það eru vandamál, þá er tekist á við þau í lok vinnudags.
mannauðsmál
Skólastjórinn ber ábyrgð á því að stýra starfsfólki sínu og sinna mannauðsmálum. Hér eru atriði sem þarf að hafa í huga
Vinnutímar
Skólastjóri
Stjórn skátafélags og skólastjóri þurfa að ná samkomulagi um vinnutíma í upphafi sumars þar sem fram kemur hvers er ætlast til af skólastjóra. Þá þarf að vera skýrt hvort ætlast er til þess að skólastjóri vinni allt sumarið eða vinni aðeins þær vikur sem námskeið er haldið.
Nauðsynlegt er að gera ráð fyrir undirbúningstíma í upphafi sumars sem og frágangstímabili í lok sumars. Hluti af undirbúningstíma skólastjóra er ætlaður fyrir starfstengd námskeið á vegum BÍS sem haldin eru í byrjun júní áður en námskeið Útilífsskólans hefjast. Því er gott að láta ráðningarsamninga hefjast 1. júní, þannig er komið í veg fyrir að skólastjóri sé samningsbundinn í annarri vinnu þegar gert er ráð fyrir að hann sæki námskeiðin á vegum BÍS.
Leiðbeinendur
Leiðbeinendur, 18 ára og eldri (miðað við fæðingarár) fá 8 vikur greiddar af Reykjavíkurborg og 17 ára fá 6 vikur. Þessi tímafjöldi getur breyst vegna aðstæðna í samfélaginu eða stærð árganga og skal alltaf staðfesta við starfsfólk SSR.
Vinnuréttur getur verið mjög breytilegur á milli sveitarfélaga og innan sama sveitarfélags ár frá ári. Því þurfa skólastjórar annarra útilífsskóla að leita þessara upplýsinga frá sinni bæjarskrifstofu.
Mikilvægt er að skólastjórar séu meðvituð um starfstímabilið sem leiðbeinendur 17 ára og eldri mega vinna innan.
Vinnuskólaliðar
Þegar vaktaplan vinnuskólaliða er mótað skal tekið mið af því yfir hvaða tímabil viðkomandi má vinna, hversu margar klukkustundir þau mega vinna yfir sumarið og hversu margar klukkustundir þau mega vinna í einu.
Í sumum sveitarfélögum eru sérstök fyrirfram skilgreind starfstímabil sem taka getur þurft tillit til.
Tillit skal tekið til þess við mótun vaktaplans að vinnuskólaliðar eru börn í sumarfríi og geta því ekki unnið hvaða viku sem er vegna annarra áætlana með fjölskyldu og vinum.
Vinnuskólaliðar í 9. og 10. bekk fá 105 klst. af vinnu greidda af Reykjavíkurborg, sem eru 15 vinnudagar (3 vikur) samtals. Vinnuskyldan er 7 tímar á dag. Þessar reglur eru þó breytilegar og skal alltaf staðfesta við starfsfólk SSR eða með því að athuga gildandi reglur á vefsíðu vinnuskólans í Reykjavík.
Vinnuvikur
Það er hlutverk skólastjórans að skipta starfsfólki niður á vinnuvikur fyrir sumarið.
Vinnuskólaliðar geta óskað eftir því að vera í leyfi ákveðnar vikur og ef það gengur upp, taka skólastjórar tillit til þess, en jafnframt þarf að taka tillit til þess að vinnuskólaliði velur starfstímabil í upphafi ráðningar (að frumkvæði Reykjavíkurborgar) og á þá rétt á að starfa á því tímabili.
Leiðbeinendur 18 ára og eldri geta óskað eftir því að vera í leyfi ákveðnar vikur og ef það gengur upp taka skólastjórar tillit til þess. Skólastjórar vilja gæta sanngirni, en þurfa þó að hafa í huga að þetta er sumarstarf; starfsfólk ræður sig í vinnu yfir sumarið og það er ekki alltaf hægt að taka tillit til óska allra.
Hér eru nokkur atriði til að hafa í huga:
- Fáið upplýsingar frá ykkar starfsfólki um það hvenær þau óska eftir leyfi áður en starfsemi hefst.
- Í tilfelli vinnuskólaliða getur það reynst skilvirkara að hafa einnig samband við forráðafólk þar sem þau hafa mögulega betri yfirsýn yfir sumarleyfi, útlandaferðir, ættarmót og slíkt.
- Þegar fyrsta uppkast af vaktaplani sumarsins er klárt skal það sent út til starfsmanna og forráðamanna þeirra. Gefst þeim þá tækifæri á því að óska eftir breytingum.
- Eftir að námskeið hefjast er ekki hægt að tryggja að óskir um breytingar á starfstímum verði uppfylltar.
- Takið tillit til viðburða á vegum skátanna. Einhver úr liði starfsfólksins gætu verið að fara á Landsmót, aldursbilamót, heimsmót eða annað.
- Athugið að þjálfun starfsfólks er launuð og því þarf að draga þann tíma sem hún tekur frá vinnurétti leiðbeinenda og vinnuskólaliða, nema Skátafélagið tilgreini aðra leið til að greiða tímafjöldan.
- Gott er að prenta út vinnuvikur starfsmanna og hafa sýnilegar í höfuðstöðvum hvers Útilífsskóla
Vaktaplan
Eitt af verkefnum skólastjóra er að útbúa vaktaplan fyrir upphaf hverrar viku. Það getur verið ólíkt eftir starfsstöðvum hvaða vaktir þarf að manna en sameiginlegt með þeim öllum eru opnunar- og lokunarvaktir sem og þrifavaktir. Hér að neðan er rennt yfir að hverju þarf að huga og verkefni á þeim vöktum.
opnun og lokun
Við opnun og lokun á skátaheimilinu skal starfsfólk hafa verkefni sín á hreinu. Leiðbeinendur og skólastjóri skipta oft á milli sín að mæta fyrr til að taka á móti þátttakendum, og vera lengur til að ganga úr skugga um að allir þátttakendur hafi verið sóttir. Nauðsynlegt er að starfsmaður á opnunar- og lokunarvakt sé 18 ára og megi því taka ábyrgð á hóp einstaklinga. Hins vegar er ekki síður mikilvægt að það séu fleiri ein einn starfsmaður í húsi. Þar sem oft eru starfsmenn sem hafa náð 18 ára aldri af skornum skammti í Útilífsskólanum er hægt að hafa einn 18 ára starfsmann og annan undir 18 á opnunar- eða lokunarvakt.
Hér eru dæmi um verkefni þeirra sem eru á opnunarvakt annars vegar og lokunarvakt hins vegar.
Opnunarvakt
- Tekur þjófavörn af húsinu og opnar útidyr
- Kveikir ljósin í anddyri og á gangi
- Lítur snögglega yfir rýmin og athugar hvort þau séu ekki snyrtileg
- Setur klæðnað á lausagangi á óskilamunaborð
- Nær í tóman mætingarlista inn í foringjaherbergi og merkir við þátttakendur eftir mætingu hverju sinni
- Tekur því eins rólega og hán getur og hvetur krakkana til að lesa eða teikna sér til yndisauka
Lokunarvakt
- Situr í anddyri með mætingarlista og merkir við brottfarir
- Gengur alltaf úr skugga um að allar útidyrahurðir séu læstar og lokaðar
- Gengur alltaf úr skugga um að allir gluggar séu lokaðir
- Gengur alltaf úr skugga um að skrifstofa sé lokuð og læst
- Setur á þjófavörn
- Læsir húsinu á eftir sér
Lokunarvakt á föstudegi
- Tekur saman alla óskilamuni eftir að börnin eru farin og setur í svartan ruslapoka og færir inn á skrifstofu
- Ef þú ert óviss hvort um sé að ræða eign starfsmanna setur þú það á fyrirfram ákveðinn stað sem aðeins starfsfólk hefur aðgengi að.
þrif
Þrifaleiðbeiningar skulu hanga á vegg í hverju rými. Starfsfólk skal meðvitað um á hvaða herbergjum það ber ábyrgð og vinna sín þrifaverkefni í lok dags, á hverjum degi.
ráðningar og réttindi
persónuafsláttur
Persónuafsláttur er hluti af tekjuskattskerfi einstaklinga. Með persónuafslætti er átt við sérstakan afslátt af tekjuskatti vegna launa einstaklinga. Upphæðin er föst krónutala og myndar svonefnd skattleysismörk. Sé persónuafsláttur ekki fullnýttur safnast hann upp og nýtist í síðari skattgreiðslur en fellur svo niður um hver áramót. Allir sem náð hafa 16 ára aldri á tekjuárinu og eru heimilisfastir á landinu eiga rétt á persónuafslætti. Skattgreiðendur þurfa að fara á skattur.is til að ráðstafa persónuafslætti sínum. Skólastjórar skulu minna leiðbeinendur og vinnuskólaliða yfir 16 á að gera það.
lífeyrissjóður
Mánuði eftir að 16 ára aldri er náð greiða nemendur í lífeyrissjóð. Brú er sá sjóður sem greitt er í hjá sumarstarfsfólki Reykjavíkurborgar.
ráðningarsamningur
Ráðningarsamningur er persónubundinn samningur milli starfsmanns og vinnuveitanda um að starfsmaðurinn sé ráðinn til starfa og hvaða kjör hann hlýtur.
Vinnuveitandinn sér um að útbúa ráðningarsamninginn og þurfa báðir aðilar að skrifa undir. SSR býður upp á sniðmát fyrir ráðningarsamning leiðbeinenda. Jafnframt þarf sumarstarfsfólk í Reykjavík að skrifa undir samninga við Reykjavíkurborg samkvæmt leiðbeiningum hverju sinni. Ráðningartímabil 18+ við Reykjavíkurborg eru 8 vikur og vinna umfram það er í höndum félags. Innan annarra sveitarfélaga eru ráðningarsamningar samkvæmt kröfum frá sveitarfélaginu hverju sinni ef starfsmannastyrkir fást frá sveitarfélagi.
Hjá Reykjavík og öðrum sveitarfélögum þarf skátafélag og skólastjóri ekki að gera ráðningarsamninga við vinnuskólaliða. Það ferli er allt á vegum sveitarfélags og gert við forráðafólk viðkomandi.
launaseðill
Launaseðlar berast í heimabanka 1. hvers mánaðar. Seðlana er að finna undir „rafræn skjöl.“ . Á honum standa persónuupplýsingar um launþega og laungreiðanda, mánaðarlaun fyrir skatt, staðgreiðsla (tekjuskattur og útsvar), persónuafsláttur, gjöld í stéttarfélag, lífeyrissjóði, séreignalífeyrissparnað (ef það á við) og aðra sjóði og orlof. Loks eru gefin útborguð laun, sú upphæð sem lögð er inn á bankareikninginn um hver mánaðamót, þ.e. launin eftir fyrrnefndan frádrátt.
stéttarfélag
Stéttarfélag eða verkalýðsfélag eru félagasamtök launþega úr tilteknum starfsstéttum stofnuð í þeim tilgangi að halda fram sameiginlegum hagsmunum sem tengjast starfi þeirra gagnvart atvinnurekendum og stjórnvöldum. Allir launþegar borga í stéttarfélag og atvinnurekendur borga á móti þeim ásamt því að borga í ýmsa sjóði stéttarfélagsins sem launþegar geta sótt um styrki í. Starfsmenn eru í raun að greiða fyrir að fá að vinna eftir kjarasamningi félagsins sem kveður á um lágmarkskjör.
veikindaréttur
vinnuskólaliðar
Vinnuskólaliðar safna sér oftast ekki veikindarétti. Veikindadagar eru því ekki greiddir og ekki er hægt að vinna þá upp síðar, skv. skilmálum Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga. Umboðsmaður barna lítur reyndar ekki svo á að vinnuskólaliðar eigi engan veikindarétt. Veikindi og leyfi skulu tilkynnt til skólastjóra af foreldri vinnuskólaliðans símleiðis.
leiðbeinendur
Leiðbeinendur eiga rétt á launum í veikindum í 2 daga fyrir hvern unnin mánuð. Veikindi umfram það hjá leiðbeinendum Reykjavíkur þarf að senda til Atvinnumáladeildar, atvinnumal.hitthusid@reykjavik.is, fyrir miðjan mánuð.
Í öðrum sveitarfélögum skal leita ráðgjafar hjá viðkomandi sveitarfélagi.
tímaskýrslur
Skólastjórar skulu fylla út tímaskýrslur vegna vinnuskólaliða, leiðbeinenda og skólastjóra og bera ábyrgð á því að þær séu réttar.
vinnuskólaliðar
Í upphafi sumars fá skólastjórnendur í Reykjavík afhent sniðmát hjá SSR sem skal sent á tengilið hjá Vinnuskóla Reykjavíkurborgar reglulega.
Í öðrum sveitarfélögum getur gilt annað verklag og skal skólastjóri kanna það hjá sínu sveitarfélagi hvernig staðið er að tímaskýrslum fyrir vinnuskólaliða.
leiðbeinendur
Í upphafi sumar skilar skólastjóri inn vinnuáætlun til Reykjavíkurborgar (Hins hússins) fyrir leiðbeinendur eldri en 17 ára og greitt er eftir þeirri áætlun. Ef breytingar verða á áætlun, til dæmis vegna aðlögunar vaktaplana eftir aðsókn, eða ef starfsmaður forfallast mikið frá vinnu (hvort heldur sem er vegna eðlilegra eða óeðlilegra ástæðna) skal láta Hitt húsið vita.
athugið
Það er nauðsynlegt að skólastjórar séu með það á hreinu strax í byrjun sumars hvernig skilum á tímaskýrslum vegna vinnuskóla, leiðbeinenda og skólastjóra sé háttað. Þegar þetta er ekki gert rétt getur það orðið til þess að fólk fái ekki greitt laun fyrir vinnu sína sem er ekki í lagi.
Starfsfólk skal vinna sína vinnuskyldu. Sé hún ekki uppfyllt skal láta launagreiðendur vita svo hægt sé að bregðast við.
samskipti
Hversu viðbúinn sem skáti er, með pottþétta dagskrá og frumlegar hugmyndir, þá eru það alltaf samskipti sem skipta aðalmálinu í öllum verkefnum. Samskipti eru oft erfiðustu ásteitingarsteinarnir og jafnframt er það samskipti sem skapa tengsl og minningar sem eru ógleymanlegar í lok sumars. Það er því mikilvægt að vanda vel til samskipta við foreldra, börn, samstarfsfólk og samstarfsaðila að öllu tagi. Fjallað er um samskipti samstarfsfólks í kaflanum á undan, en hér verður farið yfir samskipti við aðra hópa.
samskipti við foreldra
Foreldrar eru misjöfn en öll eiga þau það sameiginlegt, að þau eru að láta sína verðmætustu eign í umsjón okkar. Kröfur og væntingar foreldra til Útilífsskóla skáta eru misjafnar, en í langflestum tilvikum eru þetta sanngjarnar kröfur um gæði námskeiða, öryggi og umsjón með börnum.
Þið munið líklega fá gagnrýni frá einhverjum foreldrum, sanngjarna eða ósanngjarna og í einhverjum tilfellum þurfa að eiga við foreldra sem gera óhóflegar kröfur sem erfitt er að standa undir. Í þessum tilfellum gildir að hlusta vel á foreldra og svara yfirvegað. Allt starfsfólk útilífsskólans á í einhverjum samskiptum við foreldra, en aðalábyrgðin lendir þó á herðum skólastjórans og best er að allt starfsfólk vísi foreldrum á viðkomandi með öll samskipti við foreldra sem þau treysta sér ekki í.
Hér á eftir eru nokkur atriði sem þú skalt hafa í huga til að eiga sem farsælust samskipti við foreldra.
vertu fyrirbyggjandi
Reyndu að sýna framsýni í upplýsingagjöf, því þannig getur þú komið í veg fyrir óánægju og stýrt væntingum. Reyndu að ímynda þér hvað þú myndir vilja vita sem foreldri og komdu því á framfæri með skýrum hætti. Hafðu upplýsingar aðgengilegar á miðlum félagsins og sendu skýra og góða pósta með áreiðanlegum og skipulögðum upplýsingum. Foreldrum berast endalausar upplýsingar svo reyndu að veita nauðsynlegar upplýsingar án þess að drekkja þeim í upplýsingum sem bæta litlu við. Gott er að hafa upplýsingarnar aðgengilegar, til dæmis með því að nota millifyrirsagnir, lista og myndir til að skýra út.
hafðu grunnupplýsingar aðgengilegar
Þessar grunnupplýsingar eiga að vera á hreinu og aðgengilegar foreldrum:
- Dagsetningar námskeiða og klukkan hvað dagskrá hefst og lýkur.
- Dagskrá námskeiðis (með fyrirvara um veður og utanaðkomandi aðstæður).
- Tímasetningar í dagskrá (hvar verða börnin hvenær, upphaf og lok dagskrár o.s.frv.).
- Símanúmer (t.d. skráningarsími, sími Útilífsskólans, í skátaheimilinu)
- Reglur og vinnulag í sundi, í strætó, við umferðaræðar o.fl.
- Útilega, staðsetning, brottför og heimkoma, útbúnaður.
- Nafn ábyrgðaraðila Útilífsskólans.
- Gjaldskrá með afsláttum.
kvartanir
Skólastjórar Útilífsskólanna sjá undantekningarlaust um kvartanir og gangrýni foreldra á námskeiðið og svara fyrir Útilífsskólann. Ef foreldri kvartar í vinnuskólaliða eða aðstoðarskólastjóra skulu leiðbeinendur vísa þeim á skólastjóra, jafnvel þegar gagnrýnin snýst um vinnuskólaliðann sjálfan.
Taka skal á móti kvörtunum með yfirvegun og taka kvörtun til skoðunar áður en svarað er fyrir hana. Oftar en ekki eru þessar ábendingar þarfar um hvað megi bæta í starfsemi hverrar starfsstöðvar og því skal gæta þess að fara ekki í sjálfvirka vörn gegn þeim sem kvartar.
samskipti við börn
Líkt og við fullorðið fólk eru samskipti við börn fjölbreytt. Í flestum tilvikum einkennast samskipti við börn af skemmtilegum umræðuefnum, áhugaverðum spurningum og tækifærum til þess að sjá heiminn með öðrum augum. Hins vegar mátt þú gera ráð fyrir því að í sumar komi upp aðstæður þar sem samskiptin eru krefjandi, annað hvort vegna hegðunar barnsins eða dagsformi hjá þér sjálfu. Það eru nokkrir hlutir sem er gott að hafa í huga þegar slíkt kemur fyrir:
- Fyrst og fremst er gott að muna að hegðun er alltaf birtingarmynd af líðan og þörfum einstaklings að hverju sinni. Börn hafa minni stjórn á hegðun sinni og við þurfum að geta tekið tillit til þess.
- Reynum frekar að bregðast við þörf barnanna heldur en viðmóti þeirra, t.d. ef einhver er skapvondur af hungri er betra að styðja viðkomandi í að fá sér að borða en að einblína á að þau stöðvi skapvonskuna.
- Munum að sum hegðun er hluti af stærra hegðunarmynstri sem við breytum ekki á vikulöngu námskeiði. Leitum skjótra lausna og látum ekki fá á okkur að slæm hegðun endurtaki sig. Hér er að sjálfsögðu ekki um að ræða einelti, áreiti og ofbeldi sem þarf alltaf að bregðast við.
- Verum viðbúin því að börn séu stundum í mótþróa gegn okkur persónulega, stundum getur hjálpað að annar starfsmaður biðji barnið um að gera það sem þarf að gera. Tökum því ekki persónulega heldur einbeitum okkur að því að barnið fékkst til að gera það sem við vildum.
jákvæðni
Í öllum samskiptum er jákvætt viðhorf mikilvægt en það getur einfaldað samskipti við börn til muna að vera jákvæð.
- Við tölum uppörvandi og JÁKVÆTT til barnanna.
- Beinum athyglinni á það jákvæða.
- Hunsum neikvæða hegðun og HRÓSUM oft og mikið fyrir JÁKVÆÐA HEGÐUN.
fyrirmæli
- Við gefum skýr fyrirmæli. Segjum barninu nákvæmlega hvað á að gera. Dæmi: “Hengdu úlpuna á snagann.”
- Notum “ég-boð”. Dæmi: “Ég vil að þú takir saman dótið þitt.”
- Notum “ef-þá boð”. Dæmi: “Ef þú tekur saman dótið þitt þá getum við lagt af stað.” Alltaf að nota eitthvað jákvætt á eftir “þá”.
- Vert að hafa í huga að við lofum engu sem við getum ekki staðið við.
- Notum orðin að “æfa sig”.
- Dæmi: “Við æfum okkur í reglunum. Við æfum okkur í að gera fallega röð, o.s.frv.
- Við fylgjum eftir því sem við segjum alveg til enda.
- Dæmi: Ef barn á að hengja upp úlpuna og gerir það ekki þá verðum við að láta barnið fara eftir fyrirmælunum. Við getum líka notað “handstýringu”.
- Bendum fremur á hvað gerist skemmtilegt eftir að fyrirmælum er fylgt fremur en á það hvað gerist leiðinlegt ef þau eru hunsuð.
- Dæmi: “Þegar þú ert búin að ná í úlpuna þína getum við lagt af stað að klifra” fremur en “Nú ert þú að skemma fyrir öllum, við getum ekki lagt af stað að í Öskjuhlíðina fyrr en þú sækir úlpuna þína”
ef hegðun er hamlandi
- Reynum að skilja af hverju viðkomandi er að sýna þessa hegðun.
- Kvíði
- Skynjun
- Skemmtun
- Getum við breytt umhverfi, skipulagi eða minnkað kvíða?
- Setja hegðuninni mörk, bjóða upp á aðra afþreyingu eða kenna nýja hegðun.
- Því lengur sem hegðun á sér stað því fastar festist hún í sessi.
5 ráð til að fá börn til að fylgja fyrirmælum
- Gefa einföld fyrirmæli (ekki margþætt)
- Gefa stutt, skýr og hnitmiðuð fyrirmæli
- Ekki gefa fyrirmæli þegar barnið er í leik
- Nefna nafn barnsins áður en fyrirmælin eru gefin, bíða aðeins og halda fyrst áfram þegar barnið hefur svarað þér, horfir á þig og er hætt því sem það var að gera
- Hrósaðu barninu þegar það fylgir fyrirmælum þínum. Ef barnið hlýðir ekki er mikilvægt að veita því sem minnsta athygli, en sjá til þess að fyrirmælum sé fylgt eftir
móttaka þátttakenda
Það hvernig við tökum á móti þátttakendum og foreldrum þeirra setur tóninn fyrir restina af námskeiðinu. Vandið ykkur við að taka vel á móti börnunum, svo þeim finnist þau örugg og jafnframt til þess að foreldrunum líði vel með að skilja börnin eftir í ykkar umsjá. Hér eru nokkrir punktar sem vert er að hafa í huga:
- Stjórnendur skulu sýnilegir við komu. Hafið nafnspjöld og kynnið ykkur með nafni fyrir börnum og foreldrum.
- Verið glaðleg og takið á móti börnunum af hlýju. Sum gætu verið kvíðin fyrir því að fara á nýjan stað.
- Heilsið börnunum fyrst. Þau eru aðalatriðið. Síðan heilsið þið foreldrum.
- Merkið við þátttakendur á mætingarlista til þess að hafa yfirsýn yfir það hversu mörg börn séu á staðnum. Ef einhver börn eiga eftir að greiða, skal klára innheimtu á fyrsta degi.
- Farið yfir fyrstu skrefin með þátttakandanum; hvert hán eigi að fara næst og hvað sé í boði að bralla þar til eiginleg dagskrá hefst.
- Starfsfólk fyrir innan skal líka vera í kynningarham. Þau sem taka á móti börnunum í gæslu eða bið um morgunin eiga líka að kynna sig, taka glaðlega á móti börnunum og vera meðvituð um það að börnin vita ekki endilega til hvers er ætlast af þeim.
- Lesið í líkamstjáningu barnanna og bregðist við því ef þau virðast vera hrædd, kvíðin, stressuð eða annað.
- Móttaka barnanna á morgnana er tækifæri til þess að minna foreldrana á ákveðin atriði, svo sem að barnið eigi að mæta með sundföt eða hjól daginn eftir. Munið að það er aldrei hægt að minna foreldra of oft á slíka hluti.
fjölbreytileiki og inngilding
Börn eru alls konar og algjört lykilatriði að mæta þeim á þeirra forsendum. Í skátunum viljum við geta tekið á móti öllum börnum og gerum okkar besta til þess að mæta þeim þar sem þau eru, en ýmsir þættir geta haft áhrif á þátttöku barna í útilífsskóla skáta; félagslegir og fjárhagslegir þættir, fötlun, bakgrunnur og jaðarsetning. Það á að vera keppikefli skáta að vera meðvituð um hugtakið inngildingu og hvað hún raunverulega felur í sér í starfi. Í skátunum á að vera tækifæri fyrir alla til að blómstra.
Skólastjórar fá alls kyns upplýsingar um börn og ber að fara varlega með þessar upplýsingar. Það er ekki alltaf viðeigandi að deila þessum upplýsingum með öðru starfsfólki og þá sérstaklega vinnuskólaliðum sem eru sjálf börn. Skólastjóri skal eingöngu deila upplýsingum um barn með starfsmanni ef hann metur að það sé nauðsynlegt velferð barnsins.
hvað er inngilding?
Inngilding felur í sér að allir þátttakendur fái sömu tækifæri til að njóta sín og að virkni þeirra og þátttaka sé fullgild og metin til jafns við aðra. Inngilding vinnur gegn útilokun jaðarsettra hópa, en þátttakendur gætu verið jaðarsettir á grundvelli t.d. kynþáttar, þjóðernis, kyns, trúarbragða, kynhneigðar, kynvitundar, fötlunar, frávika í þroska, stéttar og félagslegar stöðu.
ólíkar þarfir barna
Styrkur skátastarfs þegar kemur að börnum með ólíkar þarfir felst meðal annars í eftirfarandi þáttum:
- Skátar hugsa út fyrir boxið, gefast ekki upp og finna leiðir til ða láta hlutina ganga upp.
- Skátar bera virðingu fyrir mannlegum margbreytileika.
- Skátar eru lausnamiðaðir og þjálfar í að leita óhefðbundinna leiða.
- Innan skátastarfs er rými fyrir alla þar sem styrkleikar hvers og eins koma að gagni – ekkert okkar er gott í öllu, en öll erum við góð í einhverju.
frávik í þroska
Börn með frávik í þroska munu vafalaust taka þátt í sumarnámskeiðum skátanna. Við skráningu í Útilífsskólan býðst forráðafólki að setja inn upplýsingar um sitt barn, s.s. upplýsingar um frávik í þroska eða hegðun. Oft yfirsést þessi möguleiki en gjarnan komast þessar upplýsingar þó til skila til starfsfólks, annað hvort munnlega við mætingu eða eftir að atvik hefur komið upp. Vert er að hafa í huga að hvort sem við höfum upplýsingar um frávik í þroska eða ekki ber okkur að mæta einstaklingnum og hans þörfum.
Einhverfa, þroskahömlun og ADHD stafa af röskun í taugaþroska. Þessi frávik eru skilgreind út frá hegðun og eru sérstakar greiningaraðferðir notaðar til þess að meta barnið.
Hér er hægt að nálgast frekari upplýsingar um einhverfu
Hér er hægt að nálgast frekari upplýsingar um ADHD
Hér er hægt að nálgast frekari upplýsingar um þroskahömlun
móttaka barna með ólíkar þarfir
samstarf við foreldra
Foreldrar eru sérfræðingar í börnunum sínum, því er mikilvægt að heyra í foreldri og fá upplýsingar um leiðir og nálganir. Hér eru nokkur atriði:
- Undirbúa vel komuna og leita upplýsinga um barnið, sérstaklega varðandi góð ráð sem virka.
- Gott samstarf við foreldra er alltaf hagur barnsins.
- Ekki ákveða fyrirfram hvernig barnið er – gefa sér tíma til að kynnast því.
- Best er ef einn starfsmaður er tengiliður barnið og tekur við upplýsingum og ráðum varðandi það.
- Leggja sig fram við að vera vingjarnlegur og gefa sér tíma í samstarfið, það skiptir enn meira máli en vanalega.
- Ræða við foreldra um viðbrögð og nálgun.
- Búa til verkferil með foreldrum.
- Leita leiða og lausna í samráði við barnið og foreldra.
sjónrænt skipulag
Margir með þroskafrávik eiga best með tileinka sér efni sjónrænt. Sjónrænar vísbendingar eru ýmis sjónræn skilaboð sem hjálpa flestum að átta sig betur á umhverfi sínu, s.s.
- Minnismiðar
- Dagbækur
- Tímavaki
- Stundaskrár
- Umbunakerfi
Sjónrænt skipulag:
- Gerir hugtök, verkefni og aðstæður skýrari
- Hjálpar einstaklingi að vita til hvers er ætlast
- Miðlar atriðum sem erfitt er að skilja annars
- Aðstoðar einstakling til að takast á við breytingar
- Eykur sjálfstæði
- Minnkar mistök og hegðunarerfiðleika
- Dregur úr kvíða
Jákvæð vinnubrögð starfsfólks
Fyrirmæli
- Tala skýrt, einfalt mál
- Gefa ein fyrirmæli í einu
- Gefa tíma til að hugsa
- Muna að þegar viðkomandi veit hvað á að gera og hvernig, dregur það oft úr erfiðri hegðun
- Hafa fyrirmæli sýnileg – t.d. skátalögin uppi á vegg.
Dagskrá
- Hafa skýran ramma – fara yfir skipulag dagsins, helst skriflega þannig að börnin geti skoðað það ef þeir verða óöruggir.
- Ef krakkarnir eiga erfitt með að velja sér dagsskrá er gott að gefa þeim val um tvennt.
- Kynna breytingar fyrirfram ef hægt er
- Mörgum hentar vel að vera meira í útiverkefnum og flest verkefni má gera utandyra.
- Ef hópurinn eða einstaka krakkar eru með mikla hreyfiþörf er gott að miða við að brjóta regluleg upp dagskrána með hreyfileikjum.
Aðstæður
- Skoða hvað í aðstæðum getur ýtt undir krefjandi hegðun og vanlíðan
- Aðlaga aðstæður eða búta verkefni niður
- Hægt er að búa til leyniorð með barninu þannig að það geti látið vita að því líði ekki vel án þess að hópurinn viti.
- Í mikilli birtu: Gott að kippa með auka sólgleraugum eða derhúfu.
- Háværir staðir: Taka með heyrnahlífar ef barnið er viðkvæmt fyrir hávaða.
Virkni og hegðun
- Hlutverk: gott að fela krökkunum hæfilega ábyrgð sem þeir ráða við. Allir eru góðir í einhverju. Hægt að finna öllum hlutverk innan hópsins.
- Hrósa krökkunum þegar þeir hegða sér vel og styrkja alla góða hegðun.
- Að bíða: Ef barnið á erfitt með að bíða prufaðu að gefa því tímaramma, t.d. Þegar stóri vísirinn er kominn beint upp/eftir tvö lög/nota niðurteljara
- Að vera með eitthvað í „pokahorninu“ t.d rubix- eða fikt kubb
dagskrá
Eins og nafnið bendir til miðar Útilífsskóli skáta að því að bjóða upp á dagskrá sem byggir á útivist. Jafnframt þarf dagskrá námskeiðanna að endurspegja gildi og stefnur skátahreyfingarinnar.
Mikilvægt er að stjórnendur og allt starfsfólk sýni fordæmi í dagskránni, komi klædd eftir veðri og sé tilbúið að hvetja þátttakendur áfram í dagskrá
dagskrá námskeiðs
Eins og nafnið bendir til miðar Útilífsskóli skáta að því að bjóða upp á dagskrá sem byggir á útivist. Jafnframt þarf dagskrá námskeiðanna að endurspegja gildi og stefnur skátahreyfingarinnar.
Mikilvægt er að stjórnendur og allt starfsfólk sýni fordæmi í dagskránni, komi klædd eftir veðri og sé tilbúið að hvetja þátttakendur áfram í dagskrá