Forsetamerki
Hvatamerki fyrir rekkaskáta
Forsetamerkið
Rekkaskátar geta unnið að forsetamerkinu séu þau áhugasöm um það og tekur vegferðin að forsetamerkinu rúmlega tvö ár. Rekkaskátar sem byrja að vinna að forsetamerkinu fá úthlutað sértilgert vegabréf til að halda utan um vegferðina. Til að hljóta forsetamerkið þarf rekkaskátinn að skipuleggja og framkvæma 24 verkefni sem falla undir einhvern af fjórum verkefnaflokkum forsetamerkisins. Í hverjum verkefnaflokki þarf að ljúka einu skylduverkefni og að minnsta kosti tveimur valverkefnum.
Verkefnaflokkarnir
Ferðalög og alþjóðastarf
Útilífsáskoranir
Samfélagsþátttaka
Lífið og tilveran
Skylduverkefni
Þátttaka í skátamóti, sem varir 5 daga eða lengur
Ferðast 45 km eða lengra, á eigin afli
Helgarnámskeið í leiðtogaþjálfun
Skyndihjálparnámskeið
Hver rekkaskáti þarf síðan að taka þátt í undirbúningi, framkvæmd og endurmati á tveimur stærri verkefnum sem taka 3 – 12 mánuði. Þetta getur verið viðburðahald, aðstoð með starf yngri skáta, stjórnarseta fyrir félagið eða eitthvað sem er gert utan skátastarfs. Þegar rekkaskátar hefja vegferð að forsetamerkinu lista þau upp væntingar sínar um hvaða kunnáttu og vöxt þau muni hljóta á vegferð sinni og að leiðarlokum líta þau aftur á afrek sín og ígrunda hvaða áhrif vegferðin hafði í raun á þau. Að vegferð lokinni fá rekkaskátar forsetamerkið afhent af forseta Íslands við hátíðlega athöfn að Bessastöðum og að athöfn lokinni býður forsetinn jafnan forsetamerkishöfum og gestum þeirra til kaffisamsætis þar sem þeim gefst færi á að kynnast forsetanum og starfsemi embættisins örlítið betur.