Dagskrá


Lýsingar á dagskrártorgum fyrir fararstjóra og aðrar nytsamlegar upplýsingar

 • Torgadagskráin fer fram fjóra daga milli 13-16:30.  
 • Ætlast er til þess að foringjar fylgi drekaskátum og fálkaskátum í alla torgadagskrá. Við hvetjum/biðjum foringja að fylgja dróttskátum í dagskrá og vera þeim til stuðnings, að lágmarki í upphafi til að tryggja að þau átti sig á dagskrár fyrirkomulagi og verði nægjanlega örugg til að fara sjálfstæð. Við treystum samt sem áður fararstjórum til að leggja mat á það hvort þau treysti sínum dróttskátaflokkum til að fara sjálf í göngur en foringjarnir þurfa samt sem áður að mæta í göngutorgið með dróttskátunum til að staðfesta leiðarvalið og tengilið flokksins.  
 • Hægt er að fá stimpla í mótsbókina fyrir þátttöku í dagskránni. Í upplýsingatjaldinu á miðsvæðinu er hægt að fá torgaperlur.  

Samfélagstorg 

Í samfélagstorginu fara flokkarnir um nærumhverfi Úlfljótsvatns og vinna ýmis samfélagsverkefni sem eiga það markmið að byggja upp Úlfljótsvatn og nærumhverfi. Tvö megin þemu eru yfir verkefnum samfélagstorgsins, annars vegar aðgengileg náttúra og hins vegar ævintýralegt undraland.  

Staðsetning: Allir skátaflokkar byrja á því að mæta í samfélagstorgstjaldið sem staðsett er efst á flötinni við fótboltavöllinn. Þar hitta þau hópinn sem verður með þeim og grípa með sér þann búnað sem þau gætu þurft.  

Búnaður: Gott er að hafa í huga að skátarnir verða allan tímann úti í nærumhverfi tjaldsvæðisins og því mikilvægt að vera klædd eftir veðri. T.d. með regnföt ef skyldi rigna, sólarvörn, derhúfu og vatnsbrúsa. Gott er að vera í þægilegum fötum sem auðvelt er að hreyfa sig í og mega verða skítug. Einnig er gott að hafa vinnuhanska/vettlinga.  

Göngutorg  

Torgið byrjar á því að flokkarnir mæta í göngutorgstjaldið sem staðsett er við Gillwell hliðið, þar verða göngukort og eyðublöð sem flokkarnir fylla út og skilja eftir. Við munum biðja um fjölda í flokknum, leiðarval, áætlaða heimkomu, staðfestingu frá foringja að öll séu vel undirbúin í þá göngu sem var valin, tengiliðaupplýsingar við flokkinn og félag.  

Búnaður: Mjög mikilvægt er að öll séu klædd eftir veðri, í góðum göngufötum, með utanyfir föt ef rignir, í góðum skóm, með derhúfu og sólarvörn, vatnsbrúsa og göngunasl, litla skyndihjálpartösku með helstu nauðsynjum fyrir göngur og annan mikilvægan búnað sem gott er að hafa í göngum.  

Gönguleiðunum er skipt í þrjá erfiðleika flokka, njóta ekki þjóta, áhugahækarar og göngugarpar. Að auki er hægt að skoða tilbúið kort með merktum leiðum. 

Að lokum er mikilvægt að koma við í göngutorgartjaldinu þegar skátarnir koma til baka, merkja sig inn og fá stimpil í mótsbókina.  

Gönguleiðir: 

 • Njóta ekki þjóta – Stuttar gönguleiðir (u.þ.b. 2-3 tímar) Tilvalið fyrir þau sem vilja nýta tækifærið til að spjalla um lífið og tilveruna, deila sögum, fara í fuglaskoðun, plöntuskoðun, náttúrubingó, núvitundargöngu og njóta náttúrunnar og félagsskapsins. Hugmyndir af göngum fyrir þennan flokk eru t.d.  
  • Fossá – Álfasel
   • Álfasel – Fossá 
  • Krossinn – Borgarvík
   • Borgarvík – Krossinn 
  • Vinaskógur – Ýrafossvirkjun – Ljósafoss 
   • Ljósafoss – Ýrafoss – Vinaskógur 
   • Fyrir áhugasöm er hægt að nýta tækifærið og prófa nýjasta og flottasta frisbígolfvöll Íslands, Ljósafossvöll 
   • Einnig er hægt að heimsækja Orkusýningu Landsvirkjunar sem staðsett er í Ljósafossvirkjun.
     
 • Áhugahækarar – Milli langar gönguleiðir (u.þ.b. 3-4 tímar). Gönguleiðir fyrir þau sem vilja komast enn frekar úr mannþrönginni í kringum tjaldsvæðið og kynnast landsvæðinu í kringum Úlfljótsvatn enn betur.  
  • Fossá – Grafningsrétt – Úlfljótsvatnsfjall – Krossinn x km.  
   • Krossinn – Úlfljótsvatnsfjall – Grafningsrétt – Fossá 
  • Fossá – Háafell – Grafningsrétt – Álfastígur x km.  
   • Álfastígur – Grafningsrétt – Háafell – Fossá 
  • Fossá – Bíldsfell – Ýrafoss – Ljósafoss x km 
   • Ljósafoss – Ýrafoss – Bíldsfell – Fossá 

 

 • Göngugarpar (dagsferðir) – Lengri gönguleiðir ca: (6+ tímar). Gönguleiðir fyrir þá hópa sem hafa reynslu af lengri göngum, eru með góða kunnáttu í rötun, eru vel undirbúin fyrir lengri göngur og hafa bæði úthald og þol. Þessar leiðir eru eingöngu fyrir drótt- og rekkaskáta með foringja. Þeir hópar sem velja þessar gönguleiðir þurfa að skrá sig í gönguna daginn fyrir, taka með sér nesti og leggja af stað um 10. Hafa þarf í huga að í sumum gönguleiðum þarf að ganga meðfram þjóðveginum hluta af leiðinni.     
  • Ljósafoss – Búrfell – Ljósafoss  
  • Borgarvík – Hellisvík – Steingrímsstöð 
   • Borgarvík – Steingrímsstöð – Hellisvík 
  • Borgarvík – Skinnhúfuhellir – Steingrímsstöð – Ljósafoss  
   • Ljósafoss – Steingrímsstöð – Skinnhúfuhellir – Borgarvík 
  • Fossá – Háafell – Úlfljótsvatnsselfjall – Úlfljótsvatnsfjall – Krossinn   
   • Krossinn – Úlfljótsvatnsfjall – Úlfljótsvatnsselfjall – Háafell – Fossá  

Sköpunartorg  

Sköpunartorgið er staðsett við hliðina á flötinni milli JB skálans og fjölskyldubúðastallanna. Þar geta skátarnir gengið um svæðið, skoðað og  fundið það sem vekur áhuga hjá þeim og prófað að skapa sjálf einhverjar nýjungar og nýta sér skemmtilegar leiðir til að endurvinna og endurnýta efniviðinn. Þeir skátar sem taka með sér skátahnífa mega með leyfi foringja taka þá mér sér í sköpunartorgið til þess að tálga. Þar verður svæði þar sem skátarnir geta tálgað það sem þeim dettur í hug en á staðnum verður ýmiss föndurbúnaður eins og t.d. garn, pappír, málning, brennipennar, límbyssur svo hægt sé að skapa ýmislegt eins og t.d. fígúrur, göngustafi, hljóðfæri, listaverk, strengjabrúður, skátahnút, kertastjaka/eldspýtustokkshaldara, óróa, vindmyllur, origami, vinabönd svo eitthvað sé nefnt.    

Í sköpunartorginu er einnig tækifæri til að búa til bát og flugdreka til að taka þátt í báta og flugdrekakeppninni á síðasta dagskrádegi í opna dagskrábilinu.  

Þeir skátar sem hafa áhuga geta skráð sig í leikrit dagsins innan sköpunartorgsins en í opna dagskrábilinu mun hópurinn flytja leikrit dagsins á sviðinu fyrir áhugasama áhorfendur. Hafið í huga að þau sem skrá sig í þennan hóp skuldbinda sig í þetta verkefni allt sköpunartorgið og hafa því ef til vill ekki tíma til að taka þátt í öðrum verkefnum.

Þrauta-og metatorg 

Þrauta- og metatorg er staðsett á flötinni við KSÚ. Hér er gott að hafa í huga að skátarnir geta blotnað og orðið drullug ef þau vilja leika sér í vatnasafaríinu. Einnig er hægt að fara í vatnsstríð, byggja fleka, keppa í sápubolta eða keppa í drulluhlaupinu. Þá er gott að hafa með sér þurr aukaföt, poka undir óhreinu fötin og handklæði. Ef kalt er í veðri er gott að taka með sér teppi fyrir þau sem vilja hlýja sér eftir kalt baðið í vatninu.  

Fyrir þau sem eru smeik við vatn þá verða hátíðarleiktæki og keppnisþrautir í boði eins og hringjakast, kubbur, skíðaplankahlaup, risa velti Pétur, reipitog, skátaskák, pokahlaup og limbó.   

Skipulag í torgadagskrá og skipting dróttskátahópa


Lýsingar á dagskrárliðum í opnu dagskrá fyrir fararstjóra

Opna dagskráin fer fram tvisvar á dag frá 10:00 – 11:30 og 17:00 – 18:30. Þennan tíma er einnig hægt að nýta í tjaldbúðavinnu.
Hægt er að nálgast skráningu og frekari upplýsingar um opnu dagskrána í dagskrártjaldinu sem staðsett er á fótboltavellinum. 

Dagskrárliðir sem krefjast skráningar: 

 • Liðaskráning í Fótboltamótið, blakmótið, mugga qudditch og drullubolta 
 • Flokkaskráning í Skátasafnið 
 • Einstaklingsskráning í Radíóskáta 
 • Einstaklingsskráning í Útieldun 
 • Einstaklingsskráning í Gilwellskála skoðunarferð 

Ekki þarf að skrá sig í Úlfljótsvatnsdagskrá, alþjóðatjaldið og aðra skyndiviðburði 

Hægt er að vinna sér inn dagskráperlu með því að safna stimplum í mótsbókina fyrir þátttöku í opnu dagskránni. Hægt er að fá perlurnar í upplýsingatjaldinu á miðsvæðinu.  

Alþjóðatjaldið

Í alþjóðatjaldinu sem staðsett er á miðsvæðinu. Þar geta skátarnir komið í heimsókn í báðum opnu dagskrárbilunum og þurfa þau ekki foringja með sér í tjaldið. Við hvetjum samt sem áður foringja til þess að koma með þeim eða að kíkja sjálf í heimsókn og kynna sér bæði alþjóðaráð og tækifærin sem bjóðast í alþjóðlegu skátastarfi.  

Í alþjóðatjaldinu verður hægt að taka þátt í t.d. heimskinda spurningaleik, alþjóðabingó og merkjaskiptistöð svo eitthvað sé nefnt. Í alþjóðatjaldinu verður hægt að finna upplýsingar um nánari tímasetningar fyrir einstaka skyndiviðburði og kynningar.  

Ef einhverjir skátar vilja grípa tækifærið og auglýsa alþjóðleg tækifæri og viðburði eða fræðast um þau frá öðrum skátum þá verður sérstakur gluggi með opnum hljóðnema í alþjóðatjaldinu.  

Skátasafnið

Skátasafnið býður skátaflokka velkomna til að læra gömul og góð hagnýt verkefni til að nota í skátastarfi. Það má velja um nokkra pósta og fara á milli þeirra: Flöggun íslenska fánans, skátaleikir, búningar, fyrr/nú, varðeldaskikkjur, hnútar, morse, Landsbjörg, o.fl. Öll fá hnútabönd og morsespjöld. Skráningin er daginn fyrir. Fjöldi í flokk eru 5-8 skátar.   

Á hverjum degi kl. 13-15 er auka dagskrá sem krefst engrar skráningar, bara að koma upp í Skátasafnið.  
Sunnudagur: Íslenski fáninn, flöggun 
Þriðjudagur: Hnútar, öll fá hnútabönd 
Miðvikudag: Morse, öll fá morsespjöld 
Fimmtudag: Líflína 
Daglega: Kynning fyrir fararstjóra kl. 18-18:15  

Skátasafnið heldur upp á 10 ára afmæli sitt, mánudaginn 15. Júlí. Safnið er opið skátum allan daginn kl. 10-20. Sérstök móttaka fyrir gesti safnsins er kl. 13:30-15. 

Hreystimót

Haldin verða fjögur hreystimót og tvær keppnir yfir mótið. Skátarnir þurfa að skrá sig sem lið í dagskrártjaldinu sem staðsett er á fótboltavellinum en skráning lokar á hvert mót kl. 18:30 daginn fyrir mótið.  

Dreka- og fálkaskátamótin verða í fyrra dagskrábilinu kl. 10 og drótt- og rekkaskátamótin verða í seinna dagskrábilinu kl. 17.  

Ekki þarf að skrá sig sérstaklega í flugdreka og bátakeppnina og hægt verður að búa til flugdreka og báta í sköpunartorginu.  

Fótboltavöllurinn og blakvöllurinn eru opin öllum þegar ekki er mót og hægt er að fá lánaða bolta í dagskrártjaldinu. 

Dagskrá hreystimótanna er:  

 • 13. júlí: Fótboltamót  
 • 14. júlí: Mugga Quidditch  
 • 15. júlí: Blakmót  
 • 16. júlí: Drullubolti  
 • 17. júlí: Báta- og Flugdrekakeppni.  

Úlfljótsvatnsdagskrá

Í opnu dagskránni verður hin hefðbundna Úlfljótsvatns dagskrá í boði og krefst ekki skráningar. Ekki er þörf á því að foringjar fylgi skátunum í dagskránna.  

Bátar í Úlfljótsvatni
Í báðum opnu dagskrárbilunum verða kajakar og kanóar í boði ef veður leyfir. Þau sem ætla á bát gætu blotnað og því gott að vera klædd í regnbuxur eða föt sem mega blotna. Einnig er gott að vera með stígvél eða í vaðskóm. 

Fyrir þá skáta sem vilja vaða þá minnum við á að í kringum vötn leynast alltaf ákveðnar hættur og er Úlfljótsvatn engin undantekning. Úlfljótsvatn er eitt kaldasta vatn á Íslandi og auk þess er harður undirstraumur vegna virkjananna. Því biðjum við fararstjóranna að brýna fyrir skátunum að fara varlega þegar leikið er í kringum vatnið og ætlumst til þess að foringjar fylgi yngstu skátunum, drekum og fálkum, ef þau ætla að vaða í vatninu.    

Bæði á morgnanna og á kvöldin verður ísbjörn þar sem sjálfboðaliðar verða við vatnið og er öllum skátum og foringjum boðið að koma og stinga sér til sunds þá.  

Klifurturninn 

Opið verður í klifurturninn í báðum dagkrárbilum þar sem hægt verður að klifra og síga. Ekki er þörf á skráningu né að foringjar fylgi skátunum í þennan dagskrárlið.  

Bogfimi og axarkast 

Staðsett á útisvæðinu stuttu eftir undirgöngin á leiðinni í KSÚ, verður bogfimin og axarkastið. Við treystum því að fararstjórar leggi mat á það hvort nauðsynlegt sé að fylgja skátunum í þennan dagskrárlið þar sem hann krefst þess að skátarnir fylgi fyrirmælum, boðum og bönnum.

Radíóskátar

Radíóskátar verða í Norðursal og þar geta skátarnir kynnst nýrri tækni og reynt komast í samband við skáta frá öðrum löndum. Opið verður í Radíóskáta í báðum dagskrárbilum en hægt er skrá sig í dagskrártjaldinu 

Fjölmiðlasetrið

Í fjölmiðlasetrinu sem staðsett verður í þjónustumiðstöðinni verður starfandi landsmótsblað og útvarp. Þar verður sérdagskrá sem við hvetjum skátana að kynna sér og fylgjast með. Þar verður einnig í boði fyrir skátana að koma í heimsókn og prófa að stjórna útvarpsþætti og ef einhverjir skátahópar vilja nýta tækifærið og auglýsa spennandi viðburði þá hvetjum við þá til að kíkja í fjölmiðlasetrið til að auglýsa.  

Einnig hvetjum við þau sem hafa áhuga á ljósmyndum og greinaskrifum að kíkja við og kynna sér ljósmyndakeppni mótsins.  

Hægt er að fá nánari upplýsingar um fjölmiðlasetrið bæði í upplýsingatjaldinu og í fjölmiðlasetrinu.  

Gilwell skálinn

Á morgnanna kl. 10 verða fararstjórafundir í Gilwell skálanum fyrir íslensku fararstjórana. Í seinna opnu dagskrábilinu verður í boði fyrir áhugasama skáta að koma í heimsókn og skoða skálann og kynna sér sögu hans og skátastarfs á Úlfljótsvatni.  

Á heimsóknardaginn, 18. júlí, verður kynning fyrir fjölskyldur og gesti um hvað er skátastarf.  

Gilwell skátar ætla einnig að hittast yfir Landsmót og halda saman kvöldvöku. Hægt er að heimsækja upplýsingatjaldið fyrir frekari upplýsingar um tímasetningu og staðsetningu.   

Kyrrðarlautin

Fyrir þau sem vilja komast í friðsamlegt umhverfi til að slappa af í ró og næði þá verður slökunartjald og afslöppunarsvæði við kyrrðarlautina. Þar verður sér dagskrá ásamt því að hægt er að bóka tjaldið fyrir trúarathafnir sé óskað eftir því. Bókanir á kyrrðarlautinni fer fram í upplýsingatjaldinu.  

Skyndidagskrá

Lumar þú eða einhver í þínum skátaflokki á dagskrá sem þið viljið bjóða öðrum að taka þátt í með ykkur? Vilt þú/þið halda gott danspartý, halda borðspilakvöld, vera með jógastund, setja upp skiptimarkað fyrir merki eða henda í eitt kareoke kvöld. Kíktu þá í upplýsingatjaldið og láttu okkur vita og við aðstoðum ykkur við að gera hugmyndina að veruleika. 

Róverskátatjaldið 

Við KSÚ verður Róverskátatjaldið þar sem Róverskátum og eldri er boðið að koma fjarri tjaldsvæðinu á kvöldin að spjalla og njóta saman. Þar verður kósý andrúmsloft með tónlist og spilum sem hægt er að grípa í. Sum kvöld verður skipulögð dagskrá en ef það eru sérstakar óskir eða boð um ákveðna dagskrá í róvertjaldinu þá er hægt að láta vita af því í upplýsingatjaldinu.  

Á réttum nótum

Mikilvægt er að stilla sína strengi rétt, kjarna sig og koma sér í gírinn fyrir allt það sem dagarnir á Landsmóti geta gefið okkur. Því er gott að bæði byrja dagana og ljúka þeim á réttum nótum.  

Morgunteitið er fyrir þau sem vilja vakna snemma og byrja daginn rétt. Hægt verður að stinga sér til sunds, taka léttar morgunæfingar, hugleiða og dansa sig inn í daginn við bryggjuna og í kyrrðarlautinni.  

Hægt er að koma að bryggjunni og í kyrrðarlautina fyrir þau sem vilja bjóða sólina og vatnið góða nótt. Þar verður hægt að stinga sér til sunds aftur, ígrunda daginn og núllstilla sig fyrir svefninn.