FORVARNARSTEFNA BÍS

Samþykkt á stjórnarfundi BÍS, 16. september 2015.

FORVARNARHLUTVERK

Fjölmargar íslenskar rannsóknir hafa sýnt að þátttaka unglinga í skipulögðu æskulýðsstarf dregur úr líkum á að börn og ungmenni leiðist út í frávikshegðun. Þau börn og ungmenni sem stunda skipulagt æskulýðsstarf undir handleiðslu fullorðinna skátaforingja eru síður líklegir til að sýna neikvætt atferli en aðrir jafnaldrar þeirra. Skátastarf, líkt og annað skipulagt tómstundastarf í umsjón ábyrgra aðila, er þannig af mörgum talið hafa víðtækt forvarnargildi ekki einungis gegn frávikshegðun, líkt og afbrotum, ofbeldi og vímuefnaneyslu, heldur tengist þátttaka í skátastarfi einnig betri námsárangri, betri líðan, meiri sjálfsvirðingu og jákvæðari sjálfsmynd.

Neysla áfengis, tóbaks eða fíkniefna á aldrei samleið með skátastarfi og vill Bandalags íslenskra skáta efla forvarnahlutverk sitt á eftirfarandi hátt:

A) Setja fram markvissa stefnu
  • Hvetja skátafélög til þess að festa í lög sín ákvæði þar sem tekin er einörð afstaða gegn neyslu á áfengi, tóbaki og fíkniefnum.
  • Móta sameiginlegar starfsreglur um hvernig tekið skuli á áfengis- og vímuefnanotkun ungs fólks á vettvangi skátahreyfingarinnar og hvernig unnið skuli að forvörnum.
  • Gera allt húsnæði sem skátastarf fer fram í þ.m.t. skátaheimili og skátaskála áfengis-, vímuefna- og reyklaus.
B) Stuðla að aukinni og almennari þátttöku barna og ungmenna í skátastarfi
  • Hvetja skátafélög til þess vinna markvisst að því að fjölga skátum, m.a. með því að auka fjölbreytni í starfi og tryggja þannig að öll börn og ungmenni fái tækifæri til að stunda starf samræmi við eigin þarfir, getu og áhuga.
  • Nýta mannvirki og aðstöðu skátahreyfingarinnar til að festa skátastarf í sessi sem raunhæfan valkost til skemmtunar fyrir börn og ungmenni, t.d. með því að halda opin hús í skátaheimilum, eða efna til annars konar starfs fyrir þessa aldurshópa þar sem áhersla er lögð á að koma til móts við þarfir þeirra fyrir afþreyingu og skemmtun.
C) Auka þekkingu á skaðsemi áfengis, tóbaks og vímuefna og forvörnum innan hreyfingarinnar
  • Gefa út eða á annan hátt tryggja aðgengi að fræðsluefni um skaðsemi áfengis, tóbaks og vímuefna og forvarnir fyrir skátaforingja og skáta og gera fræðslu um þessi málefni að föstum þætti í skátastarfi og í leiðtogþjálfun.
  • Fela skátaforingjum að fræða þá skáta sem þeir bera ábyrgð á um áhrif og skaðsemi áfengis, tóbaks og vímuefna á heilbrigði þeirra.
  • Hvetja sambandsaðila skátahreyfingarinnar til þess að fjalla um skaðsemi áfengis, tóbaks og vímuefna og forvarnir í málgögnum sínum og ritum.