Flokkakerfið
Skátaflokkurinn er grunneiningin í skátastarfinu. Í skátaflokknum læra skátar að vinna saman, vináttubönd myndast og hópurinn þróast saman.
Í skátastarfi er lögð áhersla á að treysta skátunum og efla sjálfstraust þeirra með sjálfsnámi.
Traustið er innsiglað með því að nota flokkakerfið og veita flokknum svigrúm til að þróast á eigin spýtur og eflast í starfi sínu. Flokkakerfið er góð leið til að skipuleggja skátastarf því auðveldara er að stýra starfi í smærri hópum og virkja flokksforingjana sem leiðtoga. Hægt er að taka flokkastarf enn lengra með því að nýta sér flokksþing þar sem meðlimir flokksins taka ákvarðanir saman, og sveitarræað þar sem flokksforingjar og sveitaforingjar ákveða dagskrá sveitarinnar.
Best er að leyfa skátunum að skipta sér sjálf upp í flokka, en ákjósanleg stærð hvers flokks er 5-8 skátar. Þá er flokkurinn nógu stór til að geta tekist á við krefjandi verkefni en ekki það stór að sundrung myndist. Skátaflokkar þróa með sér venjur, skipta með sér verkum á sinn hátt, og finna sér eitthvað sem einkennir þá. Það eykur samheldni ef skátaflokkurinn er með einkenni: t.d. nafn, fána, skjöld, merki, hróp o.s.fv.
Verkaskipting í flokkakerfi
Í verkefnavinnu flokksins skipta skátarnir með sér verkum tímabundið.
Flokksforingiog aðstoðarflokksforingi eru alltaf kosnir og eru fulltrúar flokksins í sveitarráðinu. Flokksforinginn er drifkrafturinn í starfi flokksins, stýrir áætlunargerð og skipulagningu verkefna. Þótt hann sé kosinn af skátunum og gegni mikilvægu forystuhlutverki er hann alltaf einn af hópnum.
Aðstoðarflokksforinginn og hinir skátarnir geta líka tekið að sér forystuna í ákveðnum verkefnum.
Önnur algeng embætti í skátaflokknum geta verið gjaldkeri, ritari, ljósmyndari, leikstjóri, kynningarstjóri, matreiðslumeistari, sáttasemjari, varðeldastjóri, vefstjóri eða annað sem skátunum dettur í hug. Það er um að gera að hvetja þá til að finna ný embætti eftir þörfum og sleppa öðrum sem ekki henta.