Dróttskátar í þúsund metrum
Ds. Fimmvörðuháls hófst með því að hátt í 30 dróttskátar ásamt foringjum lögðu af stað í ævintýri seinnipart föstudagsins 10. júní, full eftirvæntingar með stútfulla bakpoka. Hópur með sameiginlegt markmið: Ganga yfir Fimmvörðuháls á tveimur dögum í hópi skemmtilegra dróttskáta. Við í foringjahópnum settum markið ennþá hærra: að koma öllum alla leið heilum á húfi og brosandi.
Hópurinn lagði af stað um klukkan 16 frá Skógarfossi og tók fyrsti hjallinn á, en því var bjargað með því að stilla vel bæði bakpokann og höfuðið. Hópurinn hélt síðan áfram og var stefnan sett á Baldvinsskála og Fimmvörðuskála þar sem átti að gista eina nótt í 800 eða 1.000 metra hæð. Á leiðinni skoðuðum við þrjátíu og eitthvað fossa sem sannarlega glöddu augað.
Leiðin upp tók á alla bæði líkamlega og andlega en ýmsar leiðir voru nýttar meðal dróttskátanna til að koma sér upp. Einhverjir fóru í hláturjóga, sumir gengu alltaf fyrstir, aðrir sungu og svo tóku nokkrir að sér að vera í peppliðinu.
Þegar klukkan var orðin eitt eftir miðnætti sáum við loksins skálana og hresstust ansi margir við það, en mörgum fannst þetta engan endi ætla að taka, enda allir með þunga bakpoka á bakinu og hækkunin mikil. Tilfinningin að sjá jökultoppana og skálanna þar á milli, í bjartri sumarnótt, er eiginlega ólýsanleg.
Helmingurinn af hópnum renndi sér í átt að Baldvinsskála og hinn helmingurinn í átt að Fimmvörðuskála. Hópurinn í Baldvinsskála var kominn í hús um tvöleytið en Fimmvörðuskálahópurinn um klukkan þrjú. Skálaverðir tóku óvænt á móti hópunum en allir komust loksins í poka og sváfu til morguns.
Hópurinn úr Baldvinsskála lagði af stað fyrr morguninn eftir og hittust hóparnir uppi á hálsinum í þúsund metra hæð. Á laugardeginum var stefnan sett á Bása með viðkomu hjá Magna og Móða, nýjum tindum sem urðu til í eldgosi 2010 og eru því yngri en dróttskátarnir. Ferðin niður gekk hraðar að mörgu leyti. Fjölbreytt umhverfi og að sjá niður í Þórsmörkina hjálpaði öllum að muna eftir markmiðinu.
Brattafönn var hápunktur göngunnar fyrir marga. Mikil lækkun á mjög stuttum tíma. Skálaverðir höfðu útvegað nokkra plastpoka sem voru nýttir í að gera upplifunina ennþá skemmtilegri. Allir renndu sér niður brekkuna á sínum hraða með bros á vör og stundum snjó í andlitinu.
Síðan tók við Heljarkamburinn þar sem einnig var töluvert af snjó. Hópur nýliða í björgunarsveit var aðeins á undan okkur og gerði leiðina greiðari fyrir okkur meðfram hlíðinni þar sem við fikruðum okkur eftir keðjum og klifurlínum. Heppnin alveg með okkur.
Það voru síðan glaðir dróttskátar sem gengu yfir Kattahryggi og alveg niður í Bása. Allir höfðu lagt af stað saman og kláruðu saman. Í Básum voru frábærir foringjar búnir að tjalda flestum tjöldunum og gera klárt á grillið. Tók því á móti okkur kvöldmatur og standandi tjöld sem var kærkomið fyrir göngugarpana. Markmiðum ferðarinnar náð!
Eftir kvöldmat hurfu sumir inn í tjöld, spjölluðu og sáust ekki fyrr en morguninn eftir, á meðan aðrir sungu og töluðu fram eftir nóttu. Á sunnudeginum var öllu pakkað niður og haldið heim með rútunni með viðkomu í Merkurkeri. Þar óðum við upp ánna í gegnum stóran helli og gil og náði vatnið upp á læri og stundum lengra. Frábært ævintýri í stórkostlegri náttúru með góðum skátavinum og skemmtilegur endir á góðri dróttskátahelgi.
Ds. Fimmvörðuháls var svo sannarlega vel heppnuð dróttskátaferð þar sem þátttakendur og foringjar fengu að njóta sín og takast á við krefjandi verkefni. Við hlökkum til að hittast aftur í ágúst á landsmóti dróttskáta á Akureyri.
Ferðin var styrkt af Bandalagi íslenskra skáta í gegnum Styrktarsjóð skáta og má með sanni segja að þar hafi “dósum verið breytt í káta skáta”.
Texti: Sigurður Úlfarsson og Ragnheiður Silja