Björk Norðdahl
Framboð: Skátaskólinn
Ferill þinn í skátastarfi?
Ég varð skáti 9 ára í Kópum og skátastarfið heillaði mig strax. Ég fór þessa hefðbundnu leið sem flokksforingi og sveitarforingi og fór á Gilwell þegar ég var tvítug en flosnaði því miður upp úr starfi eftir það. Ég kom síðan aftur þegar börnin mín hófu skátastarf, fyrst sem tengiliður við foreldra í Kópum, þar sem ég prófaði ýmsar leiðir til að tengja foreldra inn í skátastarfið. Ég kláraði Gilwell eftir afskaplega langt hlé og í framhaldi af því sat ég í fræðsluráði um tíma þar til ég varð formaður fræðsluráðs í stjórn BÍS árið 2017 og hef ég starfað í stjórn BÍS síðan og sinnt fræðslumálum og félagaþrennunni, svo eitthvað sé nefnt. Einnig er ég núna skólastjóri Gilwell-skólans.
Skemmtilegasta sem þú hefur fengist við í skátunum?
Frá unglingsárunum eru það ferðirnar okkar upp í Þrist sem eru eftirminnilegastar. Að orna sér við eldinn í ísköldum skálanum, skara í glæðurnar og ræða málin, það eru góðar minningar. Það sem helst stendur upp úr núna undanfarið eru Gilwell-námskeiðin sem við höfum haldið á Úlfljótsvatni, þar sem ég hef fengið tækifæri til að starfa með okkar frábæra unga fólki og fylgjast með þeim vaxa og þroskast.
Hví gefur þú kost á þér í skátaskólann?
Ég gef kost á mér í stjórn skátaskólans því mig langar að halda áfram þeirri vinnu sem við höfum unnið að undanfarið við endurskipulagningu foringjaþjálfunar og leiðtogaþjálfun allra skáta frá 12 ára aldri. Góð þjálfun og fræðsla er nauðsynleg svo við fáum gott skátastarf og að því vil ég vinna.